22.9.2013 | 16:00
Flugvöllur - nr. 2: Hvað með Bessastaðanes??
Ítarleg og vönduð skýrsla var gefin úr af Samgönguráðuneyti og Reykjavíkurborg í apríl 2007 um mögulega framtíð Reykjavíkurflugvallar. Að baki hennar liggur mikil vinna og margir sem komu að gerða hennar. Ég hvet þá sem vilja ræða þetta mál að lesa skýrsluna gaumgæfilega. Það er oft svo í samfélagsumræðunni, að menn tala og tala og mynda sér mjög eindregnar skoðanir, en hafa ekki fyrir því að kynna sér ítarlegar upplýsingar um málið.
Í skýrslunni er reynt að skoða efnahagsleg áhrif ýmissa möguleika, en þeir helstu eru: óbreyttur flugvöllur í Vatnsmýri, minni flugvöllur í Vatnsmýri, flugvöllur á Lönguskerjum, flugvöllur á Hólmsheiði, eða að innanlandsflug flytjist frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur.
Við vinnslu skýrslunnar var ekki búið að ljúka ítarlegri úttekt á veðurfari á Hólmsheiði, en það er þó gert ráð fyrir því að nýting flugvallar á heiðinni yrði lakari en í Vatnsmýri. Mér sjálfum hefur sýnst að flugvölllur á Hólmsheiði sé í rauninni ekki alvöru valkostur, og varla heldur á Lönguskerjum.
Það eru einnig nefndur til sögunnar ýmsir aðrir valkostir, sem hafa komist í umræðuna á einhverjum tímapunkti, m.a. flugvöllur á Bessastaðanesi. Það kemur raunar fram að flugvallarstæði á Bessastaðanesi fær góða einkunn.
Í forsendum skýrsluhöfunda kemur fram að Löngusker og Hólmsheiði eru taldir einu staðirnir í nágrenni Reykjavíkur sem hafa nægt rými fyrir "alhliða flugvöll", en Bessastaðanes er aðeins talið rýma "lágmarksflugvöll fyrir innanlandsflug" (Sjá skýrslu, bls. 43-44).
Mér kemur það spánskt fyrir sjónir að lesa að aðeins sé pláss fyrir "lágmarksflugvöll" á Bessastaðnesi, en "alhliða flugvöll" á Lönguskerjum, úti í sjó! Ef hægt er að gera uppfyllingar undir flugvöll á Lönguskerjum (sem myndi reyndar kosta mjög mikið, tugi milljarða, og hafa mikil umhverfisáhrif) er þá ekki líka hægt að gera minni uppfyllingar við Bessastaðanes, til að koma slíkum flugvelli fyrir þar?
Ég er líka nokkuð viss að ýmsar forsendur frá árunum 2006-2007 hafa breyst. Þegar skýrsluhöfundar teikna upp "alhliða flugvöll" er gert ráð fyrir umtalsverðri aðstöðu fyrir einkaflug, flugkennslu, og "viðsiptaflugi". Allt hefur þetta minnkað verulega (m.a. vegna breytts efahags og miklu hærri eldsneytisverðs) og, það sem meiru máli skiptir, mikið af þessu má að skaðlausu vera í Keflavík! Viðskiptaflug á væntanlega við einkaþotur, sem eru mun sjaldséðari nú en á árunum 2006-2007.
Er raunhæfur möguleiki að byggja innanlandsflugvöll á Bessastaðanesi, sem myndi fullægja þörfum innanlandsflugs næstu 100 ár og skapa ásættanlega málamiðlun - gefa Reykjavík möguleika á að stækka og auka verulega byggð nálægt miðbænum, en allir landsmenn hefðu hag af því - og viðhalda góðum flugsamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgar svæðis?
Hér er ein útfærsla (héðan), einföld teikning þar sem flugbrautum núverandi Reykjavíkurflugvölls er komið fyrir á Bessastaðanesi. Flugbrautirnar þurfa hins vegar ekki að vera þrjár og og þurfa ekki ða hafa þessa afstöðu hver til annarrar, þannig má hæglega koma tveimur flugbrautum betur fyrir, en myndin sýnir.
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkar: Ferðalög, Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Facebook
Athugasemdir
Þessi hugmynd lítur vel út á korti, þar myndi aðflugið færast frá miðborginni, þetta væri miklu betri kostur en hólmsheiði. Ef þessi kostur yrði upp á borðinu þá yrði óhjákvæmilegt að tryggja það að byggð færðist ekki að honum og bolaði í síðan í burtu.
Það má geta þess að fyrir allmörgum árum áður en Álftanesið byggðist þá vildu nokkrir af helstu flugmönnum þess tima flytja flugvöllinn á Álftanes en það er önnur saga.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 18:27
Jú, Álftnesingar voru mikið á móti því og pössuðu að dreifa byggðinni eins og þeir gátu til að flugvöllur kæmist ekki fyrir. Menn sjá það sem keyra um þéttbýlið á Álftanesi.
Einar Karl, 22.9.2013 kl. 19:14
það er einn punktur í einkunnargjöfinni og það er hvers vegna flugvöllur á Bessastaðanesi geti ekki verið varaflugvöllur fyrir innanlandsflug.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 19:47
Sæll, um að gera að dreifa þessu korti sem ég gerði á sínum tíma.
Ég var einhverju sinni staddur uppí Perlu á Öskjuhlíð þegar ég fór að spá í þetta stóra landssvæði sem blasti við og virtist álíka stórt og svæðið sem nú er notað undir Reykjavíkurflugvöll. Sjálfsagt er þarna eitthvað fuglalíf og náttúra sem þyrfti að fórna. Fáir munu þó sakna mávabyggðarinnar sem þarna mun vera. Ef þetta svæði heyrði undir Reykjavík væri örugglega verið að spá í þetta svæði fyrir alvöru en ekki Hólmsheiði enda ólíkt hentugra fyrir flugvöll - í raun alveg tilvalið fyrir flugvöll.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.9.2013 kl. 20:57
þetta er mjög athyglisverð tillaga því að það er ekki verið ofan í húsþökum í aðflugi að neinni brautinni.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 21:47
Einn helsti veikleiki hugmyndarinnar blasir reyndar líka við þegar rýnt er í ágæta mynd Emils Hannesar: tilfærslan á flugvellinum er ekki nema ca 2 km í loftlínu.
Þá vaknar spurningin hvort, í stað þess að flytja flugvöllinn á Bessastaðanes og byggja í Vatnsmýri, mætti ekki alveg eins hafa flugvöllinn á sínum stað og byggja á Bessastaðanesi.
Einar Karl, 23.9.2013 kl. 09:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.