1.1.2014 | 16:28
Stenst söguskoðun Forseta?
Ólafur Ragnar hélt athygli minni í ávarpi sínu, það er góður kostur ræðumanna. Eins og endranær vekur ræðan fleiri spurningar en hún svarar.
Ég velti til dæmis fyrir mér hvort söguskoðun Forseta fái staðist. Forseti segir svo í ávarpi sínu:
Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði.
Var þetta svo?
Margir eru sögufróðari en ég og gætu hjálpað til að rifja upp. Var það ekki svo að hér logaði allt í illvígum deilum í upphafi 20. aldar, um heimastjórnarmálið svokallaða? Heimastjórnarmenn á móti Valtýingum. Ég held að almenn samstaða á þessum árum hafi alls ekki verið fyrir hendi, og æsingur, flokkadrættir og skotgrafaorðræða ekkert ósvipuð og 110 árum síðar.
Hvað með stjórnarskránna 1874? Um tilurð hennar má lesa í greinargóðri samantekt Eiríks Tómassonar og fleiri frá 2005. Þar má lesa:
Á Alþingi árin 1867, 1869 og 1871 hafði stjórnin lagt fram stjórnarskrárfrumvörp sem í mörgum atriðum líktust stjórnarskránni sem konungur síðan gaf 1874. Ýmislegt í athugasemdum og tillögum Alþingis virðist hafa haft áhrif á útfærslu stjórnarskrárinnar í endanlegri gerð. Hins vegar náðist ekki samkomulag á milli Alþingis og stjórnarinnar um stjórnarskrána sjálfa og var hún því á endanum gefin einhliða af konungi, af frjálsu fullveldi hans, eins og það var orðað. Íslendingar voru ósáttir við þá aðferð sem viðhöfð var við að setja landinu stjórnarskrá. ...
Ekki heldur hér var um að ræða samstöðu.
Ég er ekki að segja að samstaða geti ekki verið til góðs. En algjör samstaða er engin forsenda framfara og erfið og flókin mál verða sjaldan leyst með einhverri kröfu um "samstöðu" heldur hafa slík mál oftar en ekki gagn af vandlegri og gagnrýnni yfirlegu og umfjöllun.
Fleira vakti athygli í ávarpi forseta, svo sem tal hans um norðurslóðir, sem ég einfaldlega skil ekki. Það er efni í annan pistil.
Úr "Ingólfi", 1906
Ólafur hvetur til samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Facebook
Athugasemdir
....Framúr skarandi ávarp Forseta Island þar sem hann kom að öllum þeim málum sem nú skipta máli Islandi til góðs ...ekki sist Norðurslóðir og Samstaða !! Finnst alltaf svo skemmtilega fyndið þegar menn ætla að þeir þekki sögu lands og þjóðar allra tima betur en Ólafur Ragnar Grimsson .
rhansen, 1.1.2014 kl. 16:48
...og HRUNIÐ búið, en samt gjaldeyrishöft ofl! Gengur ekki upp og því miður er margt sem er gagnrýnivert við þetta "áferðarfallega" ávarp, sem einnig var ávarp núverandi utanríkisráðherra landsins :)
Ég bara nenni ekki að telja, það upp er orðinn þreyttur á ÓRG!
Gunnar Hólmsteinn (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.