1.2.2014 | 11:03
Ísland styður Pútín og Rússa
Mörg lönd kjósa að senda Rússum skilaboð með því að senda ekki æðstu þjóðhöfðingja á Vetrarólympíuleikana í Sochi sem haldnir eru í þessum mánuði. Þetta er vegna þess hvernig þróun í ýmsum mannréttindamálum virðist beinlínis fara afturábak í Rússlandi um þessar mundir.
Ísland tekur skref í hina áttina og sendir Rússum og ekki síst Forsetanum skýr skilaboð um stuðning.
Mér sýnist á gúggli og leit á ágætri heimasíðu Forsetaembættisins að núverandi Forseti Íslands hafi aldrei áður sótt vetrarólympíuleika, ekki 1998, 2002, 2006 eða 2010.
En núna árið 2014 ætlar Forsetinn að heiðra gestgjafana í Sochi með nærveru sinni og forsetafrúarinnar. Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands munu einnig sækja leikana fyrir Íslands hönd.
Þetta mun vonandi hafa jákvæð áhrif á samband okkar við Rússland, en Forseti Íslands hefur oft lýst því í ræðu og riti að Rússland og Kína séu mikilvægar vinaþjóðir Íslands, nú og í framtíðinni. Forsetinn hefur mótandi áhrif á utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar og er fulltrúi okkar víða á erlendri grund.
Herra Pútín - Ísland styður þig, við erum bandamenn Rússlands!
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Íþróttir, Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Sterkustu skilaboðin gætu aldrei komið frá stjórnmálamönnum, sem allur almenningur heimsins hefur misst allt álit á, og hafði aldrei mikið, heldur frá hetjum þeirra íþróttamönnunum sjálfum. Þeir einir geta vakið almenning upp frá blundi. Þeir einir hafa líka einhverju að tapa, með yfirlýsingum og reglubrotum og eru því í stöðu til að geta sent sterk skilaboð. Það langar ekki einu sinni stjórnmálamenn í drepleiðinleg kokteilboð austur um haf. Þetta fólk er komið yfir tvítugt, hefur þegar ferðast, er ekki algerlega vangefið og hefur ótalmargt betra við tímann að gera, og því standa allir eiginhagsmunir þeirra til þess að neita boðinu. Enginn stjórnmálamaður fer svonalagað án flökurleika, og þeir telja sig (ranglega) vera að færa einhverja göfuga diplómatíska fórn á altari friðarins með því. Íþróttamennirnir vega mikið þyngra í huga almennings. Íþróttamennirnir þurfa ekki endilega að hætta við að mæta. Það gæti verið mun betra að mæta og senda skilaboð. Eða vinna og neita að taka við verðlaununum eins og Marlon Brando gerði og þeir sem hafa haft vit á að afþakka stærri verðlaun.
Ragnar. (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 13:21
Eða m.ö.o, það er almenningur sem þarf að vakna. Ef allir heimsins stjórnmálamenn mæta ekki geispa allir bara yfir því, nema lítill minnihluti. Ef David Beckham eða einhver slíkur myndi styðja einhvern málstað, þá myndu milljónir stuðningsmanna bætast við. Ef einn gullverðlaunahafi neitar að taka við verðlaununum og notar krýningarstundina til að senda skilaboð til stjórnvalda, þá verður sá hinn sami samstundis hetja í augum alls almennings og eignast fjölda fylgismanna.
Ragnar (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 13:23
Sæll Einar Karl.
Ég var að lesa áhugaverða færslu hjá þér frá 3.1.2014 um Bairam Haahr Níl Zahin.
Ég finn hvergi upplýsingar um þennan mann á netinu, nema í þessari færslu þinni. Er nafnið hans rétt stafsett? Geturðu vísað mér á slóð um þennan mann?
M.b.kv. Sigurður
Sigurður Rósant, 4.2.2014 kl. 11:58
Með því að skella myndinni af meintum Bairam Haahr Níl Zahin inn á leitarvef Google, komst ég að þeirri niðurstöðu að myndin er af Anjem Choudary f. 1967 í UK.
Var einhver að gera þig að ginningarfífli, Karl? Eða varst þú að fíflast með lesendur á bloggi þínu?
M.b.kv. Sigurður
Sigurður Rósant, 4.2.2014 kl. 12:33
Sæll Sigurður.
Nafnið Bairam Haahr Níl Zahin er heimatilbúin íslömsk umritun á nafninu Brynjar Níelsson. Ég stalst til að nota mynd af öðrum manni, vona að hann fyrirgefi mér.
Þau orð sem ég legg Bairam í munn eru svona að mestu orðrétt ræða Brynjars frá Nýársdag í messu í Seltjarnarneskirkju, nema 'kristni' er skipt út fyrir 'íslam'.
Neðst í pistlinum var krækja á erindi Brynjars, sem er HÉR.
Einar Karl, 5.2.2014 kl. 07:45
Sæll Einar Karl.
Þú ert nú meiri grallarinn. Ég trúði þessu í fyrstu, en sem efasemdarmanni leyfði ég mér að grennslast fyrir um þennan mann og 'djókið' kom í ljós.
Pistillinn gæti svo sem verið töluvert í þá átt sem tyrkneskir áhrifamenn mæla. En Anjem Choudary kemur ekki til með að uppgötva þessa misnotkun þína, enda í öðru að snúast sýnist mér.
M.b.kv.
Sigurður Rósant, 5.2.2014 kl. 17:45
:-)
Einar Karl, 6.2.2014 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.