Tveir meistarar - gæsahúð fyrir kórunnendur!

Ég má til með að auglýsa á þessum vettvangi tónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu, en pistlahöfundur syngur sjálfur í þeim kór. Á tónleikunum verða flutt glæsileg verk eftir tvo stærstu meistara tónlistarsögunnar, Sálumessa Mozarts og messa í g-moll eftir Johann Sebastian Bach.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 22. mars og miðvikudaginn 25. mars, kl. 20 báða daga, í Langholtskirkju.

Sálumessuna þekkja margir, en að þessu sinni verður flutt önnur útgáfa en sú sem oftast og raunar nær alltaf er flutt, sem er sú útgáfa sem nemandi Mozarts, Franz Xavier Süssmayr, lauk eftir að tónskáldið andaðist. Í 200 ár hafa tónlistarfræðingar og unnendur deilt um ágæti viðbóta Süssmayr, en auðvitað er ósanngjarnt að bera Süssmayr eða nokkurn annan mann saman við sjálfan Mozart.  Fáein tónskáld hafa, sérstaklega á síðustu áratugum, endurgert fullvinnslu Sálumessunnar, þ.e. tekið verkið eins og Mozart sjálfur skildi við það  og fyllt upp í eyðurnar. Sú útgáfa sem Fílharmónía nú flytur var kláruð árið 1982 af Duncan Druce, breskum fiðluleikara og tónskáldi, og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Fáir almennir tónlistarunnendur gera sér grein fyrir hversu stór hluti verksins var ófrágenginn þegar Mozart kvaddi. Sérstaklega átti eftir að ganga frá mikið af hljóðfæraröddunum, en Druce hafði tilfinnanlega fundið fyrir því að raddsetning Süssmayr var víða varfærnisleg og einföld. Þá fundust löngu eftir tíma Mozarts og Süssmayr vísbendingar og fyrstu hendingar af Amen fúgu sem ekki er að finna í Süssmayr útgáfunni, en Druce kláraði og bætti í sína útgáfu, og þannig má segja að hún sé fullgerðari en Süssmayr.

Okkur vitanlega er þetta í fyrsta skipti sem þessi útgáfa Sálumessunnar heyrist hér á landi. Kórinn telur nú 85 manns en á tónleikunum leikur auk þess 28 manna hljómsveit og einvalalið söngvara syngur einsöngshlutverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Til hamingju með góðann og skemmtilegan kór.

Ég hef átt þess kost að syngja með kórnum í einu verki Messías  undir stjórn Bernharðs. Ég kom bara til að syngja í þessu eina verkefni. Við vorum 8 eða 9 sem sungum tenórinn á þessum tónleikum.

Ég sé að tenórunum hefur fjölgað eitthvað.

kveðja

Kristbjörn Árnason, 16.3.2009 kl. 00:06

2 Smámynd: Einar Karl

Takk fyrir kveðjuna, Kristbjörn.

Ég tók einmitt frí það misserið en sat sem áheyrandi úti í sal, þetta voru svakalega flottir tónleikar!

Einar Karl, 16.3.2009 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband