"Sjálffæðandi maskínur"

Þetta hugtak, "sjálffæðandi maskína" kemur fyrir í kvikmyndinni Draumalandið, er notað um virkjunariðnaðinn, sem svo má kalla. Hlutverk virkjunariðnaðarins er ekki bara að búa til næga orku fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf heldur er eiginlegt hlutverk maskínunnar einmitt eins og nafnið gefur til kynna - að virkja. Maskínan heldur þannig ótrauð áfram að virkja meira og meira, annars stöðvast hún. Maskínan fæðir sjálfa sig því ekki vill hún svelta.

skrímsli

Stór hópur manna og kvenna hafa hlotið til þess góða menntun að finna og kanna nýja virkjunarkosti, hanna virkjanir og byggja virkjanir. Þetta eru skemmtileg, krefjandi og vel launuð störf. Skiljanlega vill þetta fólk halda störfum sínum, það viljum við öll.

Þess vegna segir ekki Landsvirkjun eftir Kárahnjúka, "Jæja, er þetta orðið gott?" og Orkuveitan segir ekki heldur, eftir opnun Hellisheiðarvirkjunar "Já nú skulum við aðeins kynna okkur betur undirstöðufræði um háhitasvæði og virkjanir þeirra", heldur er hafist handa og teiknuð drög að 3-4 háhitavirkjunum til viðbótar. "ÁFRAM  - EKKERT STOPP, eins og einn flokkurinn orðaði það um árið.

En svona maskínur eru víðar. Nærtækasta dæmið er íslenski útrásar-bankaiðnaðurinn. Þetta myndskeið úr fréttaþætti RÚV 'Í brennidepli' er frá 2004 og lýsir hinum tápmiklu og duglegu útrásarmönnum sem þá höfðu þegar haslað sér völl í bestu og dýrustu hverfum Lundúna og flugu heim til eyjunnar á einkaþotum, sem átti eftir að fjölga.

Hvar stæðum við nú, ef menn hefðu hægt á ferðinni 2004? Staldrað við og hugsað:

"Ættum við kannski að einbeita okkur að þeim fyrirtækjum sem við erum nú búnir að kaupa, sjá til að þau skili raunverulegum arði og greiða niður þær miklu skuldir sem á okkur hvíla vegna kaupanna?"

Já hver veit. En þetta gerðist auðvitað ekki. Maskínan var alltof gráðug og hélt áfram, vildi meira og meira. Fleiri hundruð ungra og duglegra bankamanna, lögfræðinga og viðskiptajöfra átti allt sitt undir að haldið yrði áfram og keypt meira og meira. Það var beinlínis grundvöllurinn að þeim fáránlega arði sem bankarnir skiluðu ár eftir ár. Og hver vildi vera án þess?

Þriðju maskínuna mætti nefna, en það er verktaka-byggingamaskínan, sem óx hratt og dafnaði hér á síðustu árum. Þegar fasteignaverð rauk upp var orðið mjög arðbært að byggja. Byggingafyrirtæki stækkuðu og stækkuðu, þau þrýstu á að fá nýjar lóðir, ný hverfi og breytt skipulag - meira byggingarmagn, hærri hús, fleiri íbúðir. Maskínan mátti ekki svelta. Fáir spurðu, "Er þetta ekki nóg í bili?" "Þurfum við öll þessi hús?"

Stjórnmálamenn og skipulagsyfivöld voru þannig í mjög krefjandi hlutverki, að gæta þess að okkar nærsamfélag og skipulag byggðar væri eins og við teljum best, en ekki bara sem arðvænlegast fyrir byggingariðnaðinn.

Hið skuggalega var að sveitarfélögin voru í afar óeðlilegu samlífi með byggingamaskínunni, því sveitarfélögin höluðu inn milljarða á milljarða ofan á lóðasölu, og sveitarfélög fá aldrei nóg af peningum. (Íbúar sveitarfálaganna græddu hins vegar alls ekki á hinu háa lóðaverði, það bara hækkaði húsnæðisverð enn meira, sem íbúarnir þurftu á endanum að borga.) 

Ef maskínurnar vaxa og stækka eftirlitslaust verða þær hálfgerð skrímsli. Það er meðal annars hlutverk stjórnmálamanna að gæta að heildarhagsmunum samfélagsins alls og halda maskínunum í skefjum.

Þess vegna viljum við ekki að stjórnmálamenn séu á spenanum hjá maskínunum. Hvernig getum við treyst því að þeir láti ekki undan frekum kröfum þeirra? Að þeir beiti eðlilegu aðhaldi og hugsi um heildarhagsmuni þegar þeir skarast á við hagsmuni maskínanna sem stutt hafa stjórnmálamennina? Getum við treyst stjórnmálamönnum til að taka ákvarðanir sem gætu skaðað hagsmuni maskínanna?

Útrásar-bankamaskínan styrkti Sjálfstæðisflokkinn mjög hraustlega, eins og altalað er. 

Byggingarfyrirtækið Eykt var stærsti styrktaraðili Framsóknarflokksins 2006, með fimm milljóna styrk. Verkefnalisti Eyktar sýnir að fyrirtækið var mjög umsvifamikið og hefur unnið fjölda stórra framkvæmda fyrir hið opinbera. Eykt er með á sínum snærum eitt af fjölmörgum hálf- eða óbyggðum draugagötuhverfum stór-Reykjavíkursvæðisins, í hlíðum Helgafells í Mosfellsbæ. En slík hverfi eru æði mörg um allt höfuðborgarsvæðið og raunar víðar, sem sýnir að þessi maskína óx eftirlitslaust.


mbl.is Framsókn opnar bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband