Það er að mínu mati gott mál að Alþingi hlustaði vel á röksemdir Ragnars Hall og fleiri lögfræðinga og að fyrirvarar fjárlaganefndar taka á þeim atriðum.
Sumir líta svo að Ragnar Hall sé að krefjast einhvers konar "ofurforgangs" íslenska tryggingasjóðsins, sbr. blogg Marðar Árnasonar fyrir skemmstu, þar sem segir:
Ragnars-Halls-ákvæðin kynnu hinsvegar að standa í Bretum og Hollendingum, vegna þess að þar er farið útfyrir samningsrammann, sýnist leikmanni að minnsta kosti, og verulegt fé undir. Þetta kynni að setja samningana í uppnám, og þarna reynir sannarlega á yfirlýstan góðan vilja viðsemjenda okkar og á þær óskir bandamanna að loka Icesave-dæminu. Þingið tekur verulega áhættu með þessu ákvæði. Á hinn bóginn virðast Bretar og Hollendingar ekki eiga mikið á hættu, því ofurforgangurinn sem um ræðir er hvergi í lögum, íslenskum eða evrópskum, heldur aðeins til í praxís sumra þrotabústjóra hér gagnvart aðallega einum aðila, Ábyrgðarsjóði launa.
Ég tel einsýnt að Mörður hefur ekki lesið röksemdir Ragnars, eða þá ekki skilið þær. (Hrokafull fyrirsögn mín er fyrst og fremst skot á hann og aðra sem mynda sér skoðun á þessu án þess að reyna að skilja það, biðst afsökunar ef ég móðga aðra máladeildarstúdenta :-)
Ragnar var alls ekki að krefjast þess að íslenski tryggingasjóðurinn fengi einhvern ofurforgang, heldur var Ragnar að benda á að með tryggingum Breta og Hollendinga umfram lágmarkstrygginguna uppá 20.000 Evrur fellur meira á íslenska ríkið en því ber að greiða.
Ragnar skýrði þetta ágætlega með dæmum, en helstu grein hans má finna hér og ég hef skrifað um þetta áður. Ég skal reyna að skýra þetta aftur, svo jafnvel Mörður Árnason skilji:
Segjum nú að breskur sparifjáreigandi hafi átt 50.000 evrur á IceSave reikningi. EF íslenski tryggingasjóðurinn hefði haft nægt fé til að greiða þeim manni strax að minnsta kosti 20.000 evrur þyrfti íslenska ríkið ekkert að hugsa frekar um málið.
Nú var svo ekki, segjum til einföldunar að í sjóðnum hafi verið 0 evrur til handa manninum. Þurfti því sjóðurinn að fá lán hjá ríkinu til að standa við lágmarksskuldbindingu (sem ríkið aftur fékk lánað hjá breska ríkinu). Sem sagt, sjóðurinn fær lánaðar 20.000 evrur frá íslenska ríkissjóðnum og fellur sú upphæð á íslenska ríkið, sem á samsvarandi kröfu í þrotabú Landsbankans.
Breska ríkið ákvað hins vegar einhliða að veita manninum umframtryggingu, upp að 50.000 Evrum. Breska ríkið lætur því manninum í té 30.000 evrur ofan á þær 20.000 sem hann fyrst fær. Reikningseigandinn er því búinn að fá alla sína peninga tilbaka.
Segjum nú að helmingur - 50% - náist úr þrotabúi bankans upp í kröfur. Þannig eiga kröfuhafar almennt rétt á að fá helming upp í sínar kröfur. Hver innistæðueigandi ætti því að fá helming af sinni innistæðu tilbaka en að lágmarki 20.000 evrur samkvæmt evróputilskipuninni. Hvernig á að skipta þeim 25.000 evrum sem koma uppí þessa innistæðu?
Íslenska ríkið á 20.000 EUR kröfu, hið breska 30.000 EUR kröfu. (Ef ekki hefði komið til umframábyrgð breska ríkisins væri sú krafa innstæðueigandans, heildarkröfur eru þær sömu.)
Ef hægt hefði verið að fá þessa peninga strax út úr þrotabúinu hefði maðurinn sjálfur fengið þá, og íslenska ríkið væri stikkfrí, því hann hefði fengið meira en 20.000 evrur. Breska ríkið hefði svo greitt honum 25.000 evrur til að hann fengi samtals 50.000 evrur greiddar. með öðrum orðum: 0 evru kostnaður á íslenska innstæðusjóðinn/ríkið en 25.000 evru kostnaður á breska ríkið.
En samkvæmt IceSave samningnum eru allar kröfur jafnréttháar, svo upphæðinni verður skipt á milli kröfuhafa í hlutföllunum 2:3; íslenska ríkið fær tilbaka 2/5 af 25.000 EUR upphæðinni eða 10.000, breska ríkið fær 3/5 eða 15.000.
Það sem Ragnar bendir á að með því að gera kröfur íslenska innstæðusjóðsins og breska ríkisins jafn-réttháar þá saxast á þá upphæð sem ella kæmi tilbaka til íslenska ríkisins vegna þess að breska ríkið gaf umframábyrgðina. Sem sagt, íslenska ríkið (við íslenskir skattgreiðendur) þarf að greiða meira vegna einhliða ákvörðunar breska ríkisins um hækka lágmarksendurgreiðslu til innstæðueigenda umfram lágmarkið sem Evróputilskipunin kveður á um.
Er það sanngjarnt og eðlilegt?
Ef breska umframtryggingin kæmi ekki til ætti innstæðueigandinn sjálfur 30.000 kröfu í þrotabúið. Ef sú krafa er jafnrétthá kröfu íslenska tryggingasjóðsins fær innstæðueigandinn 15.000 evrur tilbaka til viðbótar við upphaflega 20.000 greiðslu. Þá væri hann samtals búinn að fá 35.000 evrur í sinn vasa, 10.000 evrum meira en ef hægt hefði verið að gera upp þrotabúið strax.
Á lágmarksgreiðsla úr tryggingasjóðnum að vera greiðsla uppí þann hluta sem innstæðueigandi fær úr þrotabúi bankans eða á greiðslan að koma sem viðbót? Um það snýst sú óvissa sem Ragnar bendir á.
Þetta er það mikilvægt mál að úr því hlýtur að þurfa að fá skorið.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Pepsi-deildin, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Já, sko, eg held að það skilji allir hvað Ragnars Hall-ákvæðin ganga útá.
Hinsvegar eru sumir dálítið efins um að þau geti staðist jafnvel gagnvart íslenskum lögum. Td. er þetta klárlega brot á Evrópureglum (enda hvergi svo vitað sé slíkur ofurforgangur tryggingasjóði til handa í lögum annara evrópuríkja. Og reyndar á hinn veginn td. í UK og Danmörku. Þ.e. að tryggingasjóðurinn er settur aftar en aðrir innstæðukröfuhafar - og er það lógískt)
Það verður að setja alla innstæðukröfuhafa, eða handhafa þeirra krafna, í sama flokk. Annað held ég endi með ósköpum. Þetta hefur td. Indriði Þorláks farið afar skýrlega og sannfærandi yfir og skýrt út..
En það er ekki það að, að sjálfsögðu yrðu allir glaðir ef Hall-ákvæðið héldi. Að sjálfsögðu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.8.2009 kl. 18:01
Sæll Ómar. Af hverju kallarðu þessa leið "ofurforgang"? Við erum ekki einu sinni að tala um að íslenski innlánstryggingasjóðurinn hafi forgang umfram aðra kröfuhafa. heldur lítum við þannig á að hver innstæða sé ein krafa, en ekki að til sé þrír "handhafar" eins og sama innstæðueiganda, íslenski tryggingasjóðurinn, breski sjóðurinn og eigandinn svo sjálfur, hafi hann ekki fengið innstæðu sína bætta að fullu.
Málið er ósköp einfalt og vonandi skilja þetta sem flestir. Eins og ég segi í niðurlagi færslu minnar, annað hvort er greiðsla úr tryggingasjóði greiðsla uppí hlutfallslega greiðslu út úr þrotabúi (eða heildargreiðsla, sé innstæðan lægri en lágmarkið) - Þetta er módelið sem Ragnar Hall setur upp, EÐA að fyrst komi greiðslan úr sjóðnum og svo eigi innstæðueigandinn sjálfstæða kröfu hliðstæða við kröfu sjóðsins í þrotabúið, og þannig verði greiðslan úr tryggingasjóðnum viðbót við hlutfallslega endurgreiðslu úr þrotabúinu.
Báðar þessar leiðir eru skýrar og þannig séð einfaldar og af og frá að mínu mati að fyrri leiðin "endi með ósköpum".
Einar Karl, 18.8.2009 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.