Engin 110 ára regla um Icesave skjöl

Frekar er nú klaufaleg tilraun Framsóknarflokksins til að tala um eitthvað annað en aflandsfélög og hagsmunaárekstur forsætisráðherra. Það gildir engin sérstök 110 ára regla um þau trúnaðarskjöl sem þingmenn hafa haft aðgang að og varða endurreisn bankanna. 

Svokölluð 110 ára regla var í upplýsingalögum, nánar tiltekið grein sem varðaði lög um Þjóðskjalasafn, en þau lög voru afnumin 2014 og í þeirra stað komu lög um  opinber skjalasöfn nr. 77/2014, samþykkt af núverandi meirihluta, m.a. Vigdísi Hauksdóttur.

Þar stendur í 29. gr.:

„Þegar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.“

Þarna hefur verið bætt inn klausu um „almannahagsmuni“. Hún er skýrð svo í skýringum með frumvarpi:

„Skjal sem varðar almannahagsmuni og getur talist vert að synja um aðgang að getur t.d. verið teikningar af húsum sem varða öryggi ríkisins (fangelsi, öryggisgeymslur o.s.frv.).“

Sem sagt, það er EKKERT sem gefur tilefni til að ætla að þessi skjöl sem Framsóknarlfokkurinn reynir nú að þyrla upp miklu moldviðri útaf verði leynileg í 110 ár. Og raunar virðast allir sammála um að aflétta leynd af sem flestum af þessum skjölum, svo fremi ekki sé verið að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs.


mbl.is „Bara yfirgengileg þvæla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru fasistar? Svar til Jóns Magnússonar

Eftirfarandi komment birti ég á bloggsíðu Jóns Magnússonar, sem í nýjum pistli lýsir miklum áhyggjum af því að Donald Trump aflýsti kosningafundi sínum í Chicago, og kallaði andstæðinga Trump sem mættu og mótmæltu á boðuðum fundi hans "frjálslynda fasista". Ég skelli kommentinu inn hér líka, enda líða oft margir dagar þar til Jón M. samþykkir birtingu kommenta við bloggpistla sína.

= = = 

Sæll Jón.

Ertu nú að fara rétt með þegar þú segir "Í nótt kom hópur fólks í veg fyrir að Donald Trump gæti tjáð sig."

Þær fréttir sem ég hef lesið eru á þá lund að hópur andstæðinga Trump mættu á boðaðan kosningafund hans til að tjá andstöðu sína við hann. Það voru svo Trump og stuðningsmenn hans sem ákváðu svo að fella niður fundinn. Vissulega kom til slagsmála, ekki síst eftir að ljóst var að Trump myndi ekki láta sjá sig, en það var á báða bóga.

Voru andstæðingarnir að hefta tjáningarfrelsi Trump? Hann hefur nú tjáð sig mikið og víða bæði fyrir og eftir þennan fund svo það þarf nú tæplega að hafa áhyggjur af því að verið sé að þagga niður í Trump. Enda ENGINN forsetaframbjóðandi sem fengið hefur jafnmikla athygli fjölmiðla, bæði vestanhafs og hér á landi!

Það sem eflaust vakti fyrir andstæðingum Trump var að trufla boðaða Hallelúja-samkomu Trump.

Og veistu, ég skil það vel. Ef ég væri Chicago-búi af mexíkóskum uppruna, þá hefði ég alveg örugglega mætt niðrí bæ til að nýta MINN rétt til að tjá mig og til að trufla herferð Trump. Trump hefur jú, eins og þú eflaust veist kallað mexíkóska innflytjendur þjófa og nauðgara og vill senda þá alla "tilbaka" og byggja mikinn múr milli landanna. ÉG hefði talið það skyldu mína að leyfa ekki Trump að koma og óhindrað dreifa sínum skítaboðskap, gagnvart börnum mínum og barnabörnum.

Finnst þér nauðgara-málflutningur Trump boðlegur?

Ég skil vel Bandaríkjamenn af mexíkóskum uppruna séu óttaslegnir yfir velgengni Trump og finnst ekkert skrýtið og í sjálfu sér mjög skiljanlegt og eðlilegt að fólk tjái andstöðu sína við Trump og leyfi honum ekki óhindrað að koma ríðandi á hvítum hesti og halda fjölmenna fundi þar sem hann heldur áfram að kynda undir fordóma og hatur.

En þetta fólk kýst þú að kalla fasista. Það finnst mér sérstakt orðaval og segir sitt hvað um þína afstöðu til Trump og þeirra sem hann talar niður til.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband