Á ekki meirihlutinn að fá að ráða?

Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa á Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum “norm” á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.

Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.

Fáeinar fjölskyldur hafa mótmælt þessu, það eru helst “kommafjölskyldurnar” í litlu dönsku 180 fm timbureinbýlishúsunum. Komið hefur verið til móts við þessar vandræðafjölskyldur með því leyfa börnum þeirra að fara á skólabókasafnið og horfa á sænskar heimildamyndir meðan hin börnin sitja og nema í samfélagsfræðitímunum.

Í áttunda bekk fara flestir nemendur á tveggja daga ræðu- og leiknámskeið flokksins úti á landi og fá frí frá kennslu á meðan. Flokkskennarinn spyr öll börnin, “Ætlar þú að koma með á ræðunámskeið?” ”Af hverju ekki?” spyr hann þau sem svara neitandi. “Trúir þú ekki á stefnu Sjálfstæðisflokksins??” Þau sem ekki fara með í ferðalagið mæta í skólann og dunda sér eitthvað, til að fara ekki fram úr hinum krökkunum.

Ný fjölskylda í hverfinu hefur verð með hávær mótmæli og kvartað til skólayfirvalda. Hún vill úthýsa flokknum alfarið úr skólastofunum. Þetta finnst flestum Arfbæingum ansi langt gengið, ekki síst íhaldssama ritstjóranum Ólafi Arnlufsen, sem spyr "Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra?" Löng hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi og ótækt að umbylta góðum gildum útaf einhverju ofstækisfullu umburðarlyndi. Þrátt fyrir allt sé meirihlutinn sáttur við að hafa þetta svona áfram.

Á meirihlutinn að beygja sig fyrir háværum minnihluta?

 

Loftmynd af Arnarnesi í Arfabæ.


Eru Vestfirðingar málhaltir?

Horfði á frétt í vikunni í Kastljósi af reiðu suður-Vestfirðingunum sem gengu af fundi með innanríkisráðherra, af því hann vill ekki leggja veg eins og þeir vilja. Í fréttinni var svo talað við tvo bæjarstjóra héraðsins sem lýstu því hversu skelfilegt þetta yrði fyrir héraðið, íbúar sumra byggðakjarnanna þyrftu nú að fara yfir 8 heiðar á leið sinni suðu til höfuðborgarinnar. (Þeim myndi fækka niður í sex ef íbúarnir fengju draumaveginn sinn.) Fram kom líka að framkvæmdir og skipulag hafi tafist vegna málaferla við landeigendur, svo tafir eru alls ekki eingöngu stjórnvöldum að kenna. Samt er nú látið eins og ráðherrann ætli eins síns liðs að flæma alla íbúa af svæðinu með handónýtum vegi.

Margt var ekki sagt í fréttinni. Ekki var minnst á hversu hátt þessir umræddu "hálendisvegir" liggja yfir sjávarmáli. (Þeir fara víst upp í 160 metra hæð, svolítið láglent hálendi það.) Ekki var talað um hvernig fyrirhugað vegstæði nýs vegar yfir hálsana væri í samanburði við gamla veginn sem nú er, hvort komist verði hjá bröttum brekkum og kröppum beygjum, ekkert var minnst á vegalengdir, þ.e. hvort einhverju munar í nýjum vegi yfir hálsana tvo eða strandvegi, ekki var minnst á snjóalög á svæðinu og hvort gamli vegurinn sem nú er sé oft ófær á veturna. Sem sagt, engar upplýsingar sem gætu hjálpað manni að taka afstöðu í málinu!

Hvað varð um það að menn færi rök fyrir máli sínu? Tíni til upplýsingar, staðreyndir og röksemdir. En grenji ekki bara og berjist fyrir sínu með frekjunni einni saman. Eru Vestfirðingar nokkuð málhaltir? Eða voru þeir bara TÁKNMYND Íslendinga í dag, sem kunna ekki að hlusta og tala saman og komast að skynsamlegri og málefnalegri niðurstöðu. 

 Horft út Djúpafjörð, af Hjallahálsi.


Hraði snigilsins

Samkvæmt tillögunum, sem forsetinn er að undirbúa, mun hátekjufólk greiða að minnsta kosti saman [sic] skatthlutfall og það fólk, sem er með meðaltekjur.

 

Það er naumast að byltingarandinn hefur gagntekið háttvirtan Forsetann og fylgismenn hans! Alltént skref í rétta átt að nú skuli hátekjufólk með yfir 10 milljónir íslenskar á mánuði greiða að minnsta kosti sama skatthlutfall og meðatekjufólk.

Auðvitað eru Repúblikanar á móti því, í þeirra hugum á ríka fólkið að fá greiða áfram lægra skatthlutfall en meðaltekjufólkið!

Fyrr frýs í helvíti en að ríkt fólk í Bandaríkjunum verði látið greiða hærri skatta en meðaltekjufólkið. 


mbl.is Obama undirbýr hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um sóknargjöld

Gott mál að innanríkisráðherra sé að skoða þetta sjálfsagða sanngirnismál. Fólki er frjálst að trúa - eða trúa ekki. Það getur ekki talist eðlilegt í nútímasamfélagi að ríkið styrki í stórum stíl tiltekna trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri, jafnvel þó svo í nafni þeirrar trúar sé rekin ýmiskonar falleg og gagnleg samfélagsþjónust

 Í svari ráðherra við fyrirspurn varaþingmannsins segir m.a.

stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda en veraldleg lífsskoðunarfélög, sem vilja veita sömu þjónustu til sinna félagsmanna, fái engan stuðning.

Blessuð sóknargjöldin já. Þau eru jú ekki innheimt sem slík, heldur hluti tekjuskatts og hafa verið síðan staðgreiðslukerfi var komið á. Það er ekki innheimt sérstakt sóknargjald, trúfélög fá einfaldlega greidd sóknargjöld úr ríkissjóði í hlutfalli við sóknarbörn, án tillits til þess hvort þau sóknarbörn greiði tekjuskatt eða ekki.Nú má vera að þegar tekjuskattsprósentan var ákvörðuð við innleiðingu staðgreiðslukerfisins hafi tiltekinn hluti hennar verið hugsaður sem sóknargjöldin, en það breytir því ekki að sóknargjöldin eru einfaldlega greidd úr rikissjóði. Með sama hætti mætti segja að greidd séu skólagjöld í grunnskóla, þau séu einfaldlega innheimt sem hluti tekjuskatts.

Ef ríkið vill áfram veita trúfélögum þessa þjónustu, að "innheimta" sóknargjöld í gegnum skattkerfið má það svo sem gera það, en í guðanna bænum, ekki innheimta líka sóknargjöld af þeim sem ekki eru í neinni sókn og standa utan allra trúfélaga.

Meira um þetta hér: Ég styð Krossinn


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsti Forseti

Forseti lýðveldisins er um þessar mundir feykivinsæll. En það kemur að því að hann vilji sinna öðrum verkefnum, við getum ekki ætlast til að hann eyði ævihaustinu öllu í fórnfúst og erilsamt starf þjóðarleiðtoga. Heimildir mínar herma að háttsettir menn hjá Sameinuðu Þjóðunum horfi hýrum augum til hans sem fyrsta framkvæmdastjóra HIGPA, fyrirhugaðrar Jöklavarðveislustofnunar SÞ í Himalayafjöllum.

Hvort sem af því verður eða ekki verðum við fyrrr eða síðar að horfast í augu við að  enginn leiðtogi ríkir til eilífðar og að við munum þurfa að finna verðugan arftaka.Við þurfum annan gáfaðan og framsýnan leiðtoga, stórhuga, djarfan, sem getur talið í okkur kjark. Fámenn þjóð eins og við megum ekki láta þjóðarhagsmuni villa okkur sýn. Dæmum ekki menn eftir þjóðerni! Það á að gilda sami réttur og sömu lög, að mínum dómi, af hálfu Íslands gagnvart allri heimsbyggðinni.

Við þurfum sterkan og einbeittan leiðtoga, sem getur og þorir að standa í hárinu gagnvart óvinveittum þjóðum Evrópu þegar Bandaríkin eru hvergi sjáanleg.Í þessu samhengi er mikilvægt að koma því  á framfæri að engin ástæða sé til að óttast kínverska athafnamenn. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komist á framfæri svo menn fari ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi,“ 

Huang Nubo fyrir Forseta!

  

Huang Nubo að lýsa aðdáun sinni á Íslandi


mbl.is Ólafur Ragnar skipti um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkum farþegum ...?!

Fyrirtækið segir í tilkynningu, að horfur í rekstri Strætó fyrir seinni helming ársins séu ekki eins jákvæðar. Það stafi af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hafi fjölgun strætisvagnafarþega haft í för með sér aukinn kostnað og muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó.

Ja hérna. Er rétt eftir haft?! Megum við eiga von á næstu auglýsingaherferð svohljóðandi:

Ferðumst ekki með strætó!

Shocking


mbl.is Hagnaður hjá Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVAÐ var að umsögn ASÍ ?

Eitt af stóru málunum á komandi þingi verður væntanlega umræða um kvótakerfið. Málið snertir stóra hagsmuni og vissulega eru margir fyrirfram skeptískir á málflutning útgerðarmanna og þeirra miðla. Að sjálfsögðu vilja þeir ekki missa spón úr aski sínum.

En er öll gagnrýni á tillögur ríkisstjórnarinnar eins og þær líta út nú runnin undan rifjum "hins liðsins"? Er þetta slagur, fólkið í landinu á móti útgerðarmafíunni?ASÍ sendi í vikunni frá sér umsögn um kvótafrumvarpið. Sambandið leggst gegn samþykt frumvarpsins í núverandi mynd, þó tekið sé undir mörg helstu meginmarkmið málsins. Ágætt er að lesa umsögnina í heild sinni, ef menn vilja á annað borð ræða hana.

Í fréttinni kemur fram að á flokksráðsfundi VG hafi komið fram "mikil óánægja með umsagnir Landsbankans og nokkurra hagsmunaaðila" um frumvarpið, "og var óánægjan með umsögn Alþýðusambandsins mest".HVAÐ voru VG-liðar svona óánægðir með?  Voru flokksmenn óánægðir með niðurstöðu umsagnarinnar? Að ASÍ væru að styðja hitt liðið? Gáfu þau sér tíma til að ræða málefnanlega efnisatriði umsagnarinnar?

Ég kíkti sjálfur fyrir nokkru á frumvarpstextann sjálfann. Hann er rosalega tyrfinn og mjög erfitt að skilja frumvarpið.Mér finnst það vekja athygli að ekki ein einasta jákvæð umsögn hefur borist um frumvarpið. Eru þingmenn VG óánægðir með það?

Ég vona að VG-liðar gefi sér tíma og útskýri í fjölmiðlum af hverju þau voru svona "óánægð" með umsögn ASÍ. Ég vona að þau, og aðrir þingmenn, skilji frumvarpið, en styðji það ekki bara, af því það er lagt fram af þeirra liði.En ég óttast að umræða á Alþingi og í fjölmiðlum verði ekki svo upplýsandi, og að málið fari í hefðbundið íslenskt þjark, þar sem menn skipist í fylkingar sem svo ráðast hvor á aðra með gífuryrðum. Ég treysti því miður ekki Alþingi til að fjalla af viti um flókin mál.


mbl.is Ætla að tryggja þjóðareign auðlinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttnæmt!

að næðstæðsti leiðtogi Bandaríkja Norður-Ameríku þurfi að taka fram í heimsókn til þeirra helsta lánaþrottins að þeir munu greiða upp lán sín!
mbl.is Biden: Bandaríkin lenda aldrei í greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki?

Sat og fletti Viðskiptablaðinu. Leiðarahöfundur blaðsins telur að birting álagningarskrár sé með öllu óréttlætanleg og að henni skuli hætta strax. "Þetta ógeðfellda skipulag grefur líka undan sátt í samfélaginu", segir ritstjórinn. Nokkrum línum neðar segir hann þó að það sé sjálfsagt að birta upplýsingar um tekjur og eignir athafnamanna. En blaðið telur óþarft að birta þessar tölur fyrir "venjulegt fólk". Hver skuli flokka fólk í áhugavert "athafnafólk" og "venjulegt" fólk er ekki sagt.

Hvenær urðu tekjur og skattar svona mikið feimnismál?  Ég held að í gamla daga hafi þetta alls ekki verið svona. Enda má auðveldlega áætla a.m.k. gróflega tekjur hefðbundinna launastétta, t.d. bænda útfrá fjölda skepna sem þeir halda, sjómanna út frá aflatölum o.s.fr. 

Það má minna ritstjóra Viðskiptablaðsins á að venjulegt fólk hefur litlu að leyna þegar kemur að tekjum og sköttum. Venjulegt fólk (sem fæst les Viðskiptablaðið) fær laun samkvæmt kjarasamningum og þeim getur hver sem er flett upp á netinu. Hugtakið "launaleynd" (sem þekktist varla fyrr en fyrir ca. 25 árum) gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum aðgengilegir.

Ég skal fúslega gangast við því að ég hef flett aðeins í víðfrægu Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Mér finnst forvitnilegt að fylgjast með launaþróun vel launaðra og áhugavert að sjá t.d. hvað fyrirtæki sem ýmist urðu nýverið gjaldþrota, eru í umsjá banka, eða í einhverju undarlegu eignarhaldslimbói hafa efni á að greiða rausnarleg laun - olíufélög, fjölmiðlar, tryggingafélög, fjármálafyrirtæki, verslanakeðjur, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig gaman að sjá hvað hin ýmsu ohf. gera vel við yfirmenn.

Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir tveimur árum, endurbirti fyrir ári og rétt að gera enn aftur.

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: “Hættum að snuðra í einkamálum annarra“.

Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó “ekki nema” 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að “þetta komi okkur ekkert við“.Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborgósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekki hundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja? 

 


Ögmundur er nú pínu popúlisti

... því ég tel víst að Ögmundur skilji alveg hvað stjórnlagaráð er að fara.

Ögmundur bendir á að samkvæmt tillögum ráðsins megi ekki greiða atkvæði um málefni sem tengjast skattamálefnum eða þjóðréttarskuldbindingum. „Hvers vegna ekki?Var rangt að greiða atkvæði um Icesave?“

- það var að mörgu leytirangt. Í huga mjög margra snerist Icesave þjóðaratkvæðagreiðslan um það hvort Íslendingar ættu "að borga" eða alls ekki.

En í raun og veru snerist hún um hvort leysa skyldi málið með þeim samningi sem lá fyrir eða láta gagnaðila í þessari deilu um það að knýja á um aðra úrlausn - og hafa málið óleyst í nokkur ár. Við Íslendingar ákveðum ekki EINHLIÐA hvernig túlka skuli EES-samninginn og Evróputilskipanir sem í gildi eru hér á landi.

Það er auðveldara fyrir okkur að umgangast aðrar þjóðir ef þær geta almennttreyst því að okkar kjörnu fulltrúar hafi umboð til að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar og leysa úr allrahanda úrlausnarefnum sem tengjast þegar gerðum samningum.

Annað dæmi:

Ef Íslendingar og Norðmenn standa í harðvítugri deilu um makrílkvóta vegna þess að menn greinir á um hvernig túlka beri samninga þjóðanna á milli, er varla gæfulegt að Íslendingar greiði um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig túlka eigi samninginn á milli ríkjanna og hversu stóran kvóta Íslandi skuli fá úr sameiginlegum stofni.

Skilur Ögmundur það?


mbl.is Þjóðin hefði ekki fengið að kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband