Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Sóknargjöld eru ríkisstyrkur

Ef trú­fé­lagið Zú­ist­ar á Íslandi greiðir rík­is­styrk sinn út til fé­lags­manna sinna þurfa þeir að greiða tekju­skatt af fénu, að sögn rík­is­skatt­stjóra.

 

Sem sagt, ríkiskattstjóri staðfestir að sóknargjöld eru RÍKISSTYRKUR, ekki "félagsgjöld" sem ríkið innheimtir fyrir skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Réttara væri að kalla sóknargjöld sóknarstyrk.

 


mbl.is Greiða tekjuskatt af sóknargjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið að fóðra hrægamma

Þeim mun meira sem ég hugsa um þessa stóru millifærslu þeim mun glórulausari finnst mér hún. Það á í alvöru að skuldsetja ríkissjóð aukalega um 70-100 milljarða til að gefa sumu fólki peninga, sem þarf ekki á þeim að halda, einhvern auka 10 þúsund kall á mánuði. (Meira ef þú ert ríkur og býrð í stóru húsi, minna ef þú ert blankur, ekkert ef þú ert virkilega skítblankur.)


Ef lánin hafa hækkað "of mikið", hafa þá ekki kröfur lánadrottnana hækkað nákvæmlega jafn mikið "of mikið"? (Þið munið, debet og kredit, skuld eins er krafa annars). En nei nei, lánadrottnar borga ekki krónu í þessari aðgerð. Bankar, fjármálastofnanir, "hrægammar" eru ekki að borga þetta, heldur skattgreiðendur, aðallega næsta kynslóð. Í raun má segja að við séum að styrkja "hrægamma", ríkissjóður tekur sig til og greiðir þeim (bönkum) hluta af kröfum þeirra í húsnæðisskuldum. Í staðinn fyrir að skjóta hrægamma er verið að fóðra þá.


Þannig virkar þetta, eins og í Matador. Bankinn vinnur alltaf.

 

vulture_young 

 


Kostar 10 þúsund að hlusta á svikarann

Sigurður Kárason, sem nýverið var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir alvarleg fjársvik mun halda fyrirlestur um sannfæringartækni í Háskólabíó. Það er fyrirtækið Ysland, í eigu Jóns Gunnars Geirdals, sem heldur viðburðinn í Háskólabíói. Miðasala hefst á morgun, en miðarnir munu kosta milli 6.900 og 9.900 að sögn Jóns Gunnars. Þetta er gjafverð miðað við annan viðburð sem við erum að skipuleggja, fyrirlestur svikarans Jordan Belfort, en sá var líka miklu umsvifameiri svikari.
 
Í tilkynningu frá Yslandi kemur fram að Sigurður hafi byggt upp „eina öflugustu og ábatasömustu svikamyllu í sögu Íslands“. Söguna um hrun hans þekkja þó flestir, en hann var eins og áður sagði dæmdur til fangelsisvistar fyrir að hafa af fólki með svikum og prettum á annað hundrað milljónir dollara.
 
Nú miðlar Sigurður Kárason aðferðum sínum og þekkingu til að gera öðrum kleift að öðlast velgengni í starfi jafnt sem einkalífi.
 
sk 
 
Íslenskur svikahrappur
 
 
belfort 
 
Útlenskur svikahrappur
 

Gagnslaus samanburður

Þessari mynd hef ég séð marga dreifa á Facebook, en hún á sýna hversu mikið dýrari verðtryggð húsnæðislán eru á Íslandi, heldur en óverðtryggð lán í Noregi. Svipaðar tölur hafa áður sést.

tolur 

(smellið á mynd til að stækka) 

Það eru ýmsir gallar við myndina og í mínum huga óljóst hvort hún í raun og veru segir eitthvað af viti. Væntanlega á myndin að segja okkur að Íslendingur greiði margfalt meira af sínu húsnæðisláni en Norðmaður, 466 milljónir króna, á meðan Norðmaðurinn greiði einungis 51 milljón íslenskar krónur af jafnháu láni. Sá samanburður stenst ekki.

Í fyrsta lagi: Í Noregi eru ekki veitt lán í íslenskum krónum. Svo það er einfaldlega rangt að Norðmaður sem tekur lán með þeim kjörum sem notuð eru til útreiknings í myndinni myndi greiða, t.d. eftir 5 ár 140.000 íslenskar krónur. Hann myndi greiða tilbaka upphæð í norskum krónum.

Hversu há er sú upphæð í íslenskum krónum? Við vitum það ekki, því við vitum ekki hvaða gengi verður eftir fimm ár. En ef við reiknum með að verðbólga á Íslandi sé 8%* eins og gert er í útreikningum myndarinnar (og að verðbólga í Noregi sé um 2%), þá myndi íslenska krónan veikjast gagnvart þeirri norsku um ca. 27% á næstu fimm árum. Þá væri Norðmaðurinn að greiða eftir fimm ár upphæð sem samsvarar ekki 140.000 ISK eftir fimm ár, heldur upphæð sem væri nær 180.000 ISK. Eftir 10 ár myndi Norðmaðurinn greiða upphæð í norskum krónum sem myndi samsvara ca. 250.000 íslenskum krónum, en ekki 138.000 kr eins og myndin segir, og svo koll af kolli. 

Með sama hætti má reikna út að eftir 40 ár væri Norðmaðurinn að greiða a.m.k. 12-falt hærri upphæðir í íslenskum krónum heldur en fram kemur á myndinni miðað við framreiknað íslenskt gengi, samkvæmt forsendum myndarinnar sjálfrar.  

Vissulega greiðir Norðmaðurinn lægri upphæðir, en það er fyrst og fremst vegna þess að hann greiður lægri raunvexti af sínu láni. 

*(Rétt að taka fram líka að það er rangt eins og sagt er á myndinni að meðalverðbólga á Íslandi sl. 10 ár hafi verið 8%, rétt tala er nær 6%.) 

Ég vil taka fram að ég er alls enginn talsmaður verðtryggðra lán og mæli ekki með þeim við nokkurn mann.

Einn helsti galli við vertryggð lán er að þau eru mjög flókin. Svona samanburður eins og sést á myndinni skýrir hins vegar ekki neitt og er í raun bara villandi. 


Vextir - fræðsla fyrir Framsókn 2

Vextir (áður fyrr renta) er það gjald sem greitt er fyrir lán á fjármagni, m.ö.o. leiga sem greidd er fyrir fjármagn

(héðan)

Orðið vextir er fleirtala af vöxtur, það að eitthvað vex, stækkar.

Verðbætur eru ein tegund vaxta.  Þegar verðbólga er 4.2% eins og núna, og verðtryggt lán t.d. frá ÍLS ber  4.2% vexti ofan á verðbætur, þá eru heildarvextir 8.4%. Þetta er sú tala sem þarf að hafa í huga ef bera á saman við óverðtryggð lán, sem bera bara nafnvexti, enga "verðbóta"-vexti.

Þessi tala, 8.4% vextir, er mjög há. Auðvitað þarf að taka tillit til verðbólgu, en raunvextirnir, vextirnir að frádreginni verðbólgu (þ.e. uppgefnu "nafn"-vextirnir á verðtryggða láninu) uppá 4.2% eru líka mjög háir, tvö- til þrefalt hærri en raunvextir í löndum í kringum okkur um þessar mundir.

Minn viðskiptabanki býður í dag óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum uppá 6.75% eða 7.40% þeir eru fastir til næstu þriggja ára.

Eins og staðan er akkúrat í dag eru því óverðtryggðu lánin umtalsvert ódýrari, eða sem nemur annað hvort 1%, eða 1.65%. Á 20 milljón króna láni jafngildir sá mismunur 200.000 kr. eða 330.000 kr., á einu ári.

Nefnd forsætisráðherra um "afnám" verðtryggingar ræðir í skýrslu sinni að breyta mætti vaxtabótum, til að búa til frekari "hvata" fyrir fólk til að taka óvertryggð lán, á þá leið að greiða bara vaxtabætur fyrir þá vexti sem kallast nafnvextir, en ekki á þá vexti sem kallast verðbætur.

Sá sem tekur óvertryggt lán og greiðir 6.75% vexti myndi þannig eiga rétt á hærri vaxtabótum en sá sem tekur verðtryggt lán með 8.4% heildarvöxtum. 

Mikið rosalega er það eitthvað Framsóknarleg hugmynd. 

mortgages-for-dummies

Svona rit þyrfti að vera til á íslensku, fyrir Framsóknarmenn sem og aðra. 

 


Forsætisráðherra fer með rangt mál

Forsætisráðherra segir að þeir sem hafa löng verðtryggð húsnæðislán fái þess kost að breyta þeim í óverðtryggð án þess að greiðslubyrði aukist til mikilla muna.

 Þetta kom fram í fréttum RÚV í vikunni. Ráðherrann sagði að það kæmi fram í skýrslu sérfræðinefndarinnar um afnám verðtryggingar hvernig þetta gæti gerst.

Þetta er ekki rétt hjá Sigmundi Davíð. Ég er búinn að lesa skýrsluna og spyrja fleiri. Það kemur ekki fram í skýrslunni hvernig eigi að vera hægt að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð þannig að greiðslubyrði aukist ekki "til muna".

Af hverju segir Forsætisráðherra þetta?   

Enda er erfitt að sjá hvernig þetta væri hægt. Helsti kostur verðtryggðra lána (því lánin hafa ekki bara ókosti) er sá að með þeim er greiðslubyrði þessara frekar dýru hávaxta lána lágmörkuð. 

Að ætla að taka kosti þessara lána en skilja ókostina eftir er pínu eins og að vilja halda kökunni og éta hana líka. Stundum verðum við að velja og hafna á milli ólíkra valkosta. Velja hvort við viljum eiga bíl eða vera bíllaus, eiga börn eða vera barnlaus, búa í borg eða sveit. Allir hafa svona valkostir kosti og galla. Við getum sjaldnast valið bara kostina og afneitað ókostum.   

Forsætisráðherra verður að koma með fæturna niður á jörðina. Það þýðir ekki að byggja pólitík og málflutning á draumórum og óraunhæfum væntingum, jafnvel þó svo Framsóknarflokkurinn hafi verið kosinn til valda út á einmitt slíka pólitík.

simmi 

Forsætisráðherra hættir til að spinna sig frá raunveruleikanum 

 

 


Um vexti - fræðsla fyrir Framsókn 1

Eru 40 ára verðtryggð lán óhagstæðari en 25 ára verðtryggð lán?

Nei, ef lánin bera sömu vexti er annað ekki óhagstæðara en hitt.

Búum til einfalt dæmi. Ef þú færð 1 milljón að láni í eitt ár með einn gjalddaga, á 5% vöxtum, greiðir þú eina milljón og fimmtíu þúsund tilbaka ári seinna.  Heildarkostnaður lánsins er 50.000 kr.

Ef þú færð eina milljón að láni í 10 ár, með tíu jöfnum afborgunum þar sem allir vextir borgast jafnóðum, 5% af höfuðstól hverju sinni, eru vaxtagreiðslur í heildina 275.000 kr.

Er síðara lánið óhagstæðara en hið fyrra?

Nei. Lánin eru nákvæmlega jafn hagstæð. Í síðara tilvikinu ert þú að fá MEIRA að láni. Þú færð eina milljón lánaða í eitt ár, en að því ári liðnu færðu 900.000 kr. lánaðar í annað ár, svo færðu 800.000 kr. lánaðar þriðja árið og svo koll af kolli.

Þú borgar sama verð, en þú ert ekki að fá sömu vöru, þú ert að fá meira lánað, þú færð hverja krónu lánaða að meðaltali í fimm sinnum lengri tíma. Fyrir hverja lánaða krónu er greitt jafn mikið í vexti, á hverju ári.

Með sama hætti er 40 ára lán húsnæðislán, hvort sem það er verðtryggt eða ekki, ekki óhagstæðara en 25 ára lán á sömu vaxtakjörum. Þetta ættu meira að segja Framsóknarmenn að skilja. 

 


Óttuðust neytendur írskt smjör?

Nei.

Neytendur óttuðust alls ekki írska smjörið. Umræðan var ekki um það. Mér vitanlega er Guðni Ágústsson, sérlegur lobbýisti íslenskra mjólkurframleiðenda (MS og tengdra félaga) eini maðurinn sem hefur haldið því fram að írska smjörið væri öðruvísi og verra en íslenskt smjör.

Írskt smjör þykir einstök gæðavara og er selt m.a. til Bandaríkjanna, enda bíta írskar kýr gras á eyjunni grænu, á meðan kynsystur þeirra vestanhafs fá kornfóður. Í sumum amerískum uppskriftum er sérstaklega tekið fram að nota skal "Irish Butter"!(Sjá m.a. umræðu hér.)   

Íslenskum neytendum, og ekki síður fjölmiðlum, fannst forvitnilegt að MS ætlaði sér að lauma útlensku smjöri í sinn rjóma, þegar íslensk landbúnaðarpólitík hefur alla tíð gengið út á að ekki megi flytja inn mjólkurvörur svo sem smjör og mjólk, nema í algjörum undantekningum.

Það er sérstakt að það sé stundum í lagi að flytja inn útlenskt gæðasmjör, en að það sé í höndum MS að ákvarða það. 

KerryGold_Irish_Butter 



Ómakið tekið af Brynjari Níelssyni

'Markaðsmisnotkun' er það þegar menn "plata" markaðinn með röngum og villandi upplýsingum.

'Umboðssvik' er það kallað þegar menn gera eitthvað án umboðs, svo sem að lána út mjög háar upphæðir úr fyrirtæki, án þess að hafa til þess bærar heimildir.

Vona að lesendur þreyttust ekki á að lesa þetta. Það er ekkert voða flókið að útskýra hugtökin í grófum dráttum, þó svo Brynjar Níelsson hafi ekki viljað ómaka sig til þess, í harðorðum pistli um 'Al Thani' dóminn. Kannski var Brynjar svona mikið að flýta sér, alla vega hafði hann varla tíma til að lesa, hvað þá gaumgæfa dóminn, sem er mjög langur og ítarlegur og var birtur á netinu rétt áður en Brynjar birti pistil sinn. (Dómurinn var kveðinn upp kl. 15 og birtur á netinu nokkru síðar, en Brynjar birtir pistil sinn kl. 16:30.)

Dómurinn var kveðinn upp af fjölskipuðum héraðsdómi. Þar er rökstutt að hinir dæmdu hafi gerst sekir um þetta tvennt ofangreint, annars vegar gefið rangar og mjög villandi upplýsingar sem höfðu áhrif á markað, og hins vegar lánað mjög háar fjárhæðir út úr bankanum án þess að hafa til þess heimildir, til vafasamra viðskipta sem einn hinna dæmdu var beinn aðili að.

Það er mjög sérstakt að þingmaður á löggjafarþingi gagnrýni nýfallinn dóm svo harkalega sem Brynjar gerir. Ekki er hægt að túlka orð hans öðruvísi en svo að dómararnir kunni ekki skil á lögunum sem dæmt var eftir, og að ekki sé lengur óhætt að starfa í banka.

Það sem ekki síður vekur athygli við gagnrýni Brynjars er ekki hversu hrokafull hún er, hann skrifar yfirleitt ekki öðruvísi, heldur að hann rökstyður ekki með einu orði þessa harkalegu gagnrýni sína á Héraðsdóm Reykjavíkur.

Mér finnst að löglærður Alþingismaður sem ræðst með þessum hætti á dómstóla verði að skýra mál sitt. 

 


Mandarínuréttlæti

Hún er ansi kostuleg umræðan sem kemur upp á hverju ári, umræðan um að krakkar fá misflottar gjafir frá jólasveininum í skóinn. Sögur fara á kreik að sumir krakkar fá Playstation leik meðan aðrir fá mandarínu, og enn einn fær iPad.

Ef við ætlum ekki að sitja stífar reglur um að jólasveininn gefi alltaf nákvæmlega það sama þá munu krakkar fá ólíkar gjafir í skóinn. Einn fær mandarínu meðan önnur fær Playmókall. Eigum við að skamma fólk fyrir að gefa dót í skóinn? Eða setja samræmdar reglur, mandarína 12. desember, límmiða 13. desember. Pez-kall 14. desember o.s.fr.

Foreldrar sem segja barni sínu að jólasveinn komi með dót í skóinn hljóta að geta útskýrt af hverju hann gefi ekki öllum nákvæmlega það sama (sem væri auðvitað ósköp eðlilegt, ef einn og sami maðurinn kæmi með allar gjafirnar á hverri nóttu!) Segið bara að hann sé með alls konar dót í pokanum og þetta sé svolítið happadrætti, hver fær hvað. Rétt eins og lífið er.

Playmókall er auðvitað miklu flottari gjöf en mandarína. En ég held að það séu fyrst og fremst við fullorðnu sem hneykslumst á (ímynduðum) iPödum í skóinn. 7 ára krakkar eru ekki með jafn nákvæmlega línulegan kvarða á verðmæti gjafa, eftir því hvað þær kosta úti í búð. 

Eitt af því sem við þurfum að kenna börnunum okkar er að allir fá ekki alltaf nákvæmlega það sama, alltaf, í þessu lífi.

Sumir hafa ekki vaxið upp úr svoleiðis kökuskiptingarréttlætisprinsippum. "Stóra millifærslan" virðist að miklu leyti snúast um einhverskonar svoleiðis réttlæti. Nú eiga hinir að fá, sem eru ekkert búnir að "fá".

eitt að því sem þessi leiðrétting gengur út á er að jafna hlut þeirra sem voru með verðtryggð lán á þessum tíma í samræmi við þá leiðréttingu sem fólk með gengistryggð lán fékk í gegnum dómstóla.

svo segir orðrétt í kommenti við þessa grein. (En var það ekki þannig með gengistryggð myntkörfulán sem voru "leiðrétt" skv. dómi, að þeim var breytt í verðtryggð lán, með tilheyrandi háum vöxtum?)  Enn aðrir tala um að þessi fyrirhugaða aðgerð sé réttlæti fyrir þau sem fengu ekki afskrift í gegnum 110% leið.

En 110% leiðin var annað. það var einmitt afskrift. (Flettið upp orðinu ef þið skiljið það ekki.) Það var verið að stinga á skuldabólu, afskrifa ósjálfbærar íþyngjandi skuldir. Sú afskrift, rétt eins og leiðrétting á gengislánum skv. dómi,  var á kostnað lánveitendanna, ekki ríkissjóðs. Fyrirhugaða stóra millifærslan verður óhjákvæmilega á kostnað ríkissjóðs/skattgreiðenda. Og munið að fólkið sem fékk 110% afgreiðslu situr enn uppi með verulega skuldsetningu og er í sjálfu sér ekkert öfundsvert. 

En nú á sem sé að láta hina fá líka. Af því þeim líður eins og börnunum sem fengu mandarínu í skóinn. Og herrarnir sem stjórna landinu eru búnir að hugsa út leið sem kostar ekki neitt, rétt eins og þegar jólasveinninn kemur færandi hendi með gjafir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband