Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Af hverju ekki?

Sat og fletti Viðskiptablaðinu. Leiðarahöfundur blaðsins telur að birting álagningarskrár sé með öllu óréttlætanleg og að henni skuli hætta strax. "Þetta ógeðfellda skipulag grefur líka undan sátt í samfélaginu", segir ritstjórinn. Nokkrum línum neðar segir hann þó að það sé sjálfsagt að birta upplýsingar um tekjur og eignir athafnamanna. En blaðið telur óþarft að birta þessar tölur fyrir "venjulegt fólk". Hver skuli flokka fólk í áhugavert "athafnafólk" og "venjulegt" fólk er ekki sagt.

Hvenær urðu tekjur og skattar svona mikið feimnismál?  Ég held að í gamla daga hafi þetta alls ekki verið svona. Enda má auðveldlega áætla a.m.k. gróflega tekjur hefðbundinna launastétta, t.d. bænda útfrá fjölda skepna sem þeir halda, sjómanna út frá aflatölum o.s.fr. 

Það má minna ritstjóra Viðskiptablaðsins á að venjulegt fólk hefur litlu að leyna þegar kemur að tekjum og sköttum. Venjulegt fólk (sem fæst les Viðskiptablaðið) fær laun samkvæmt kjarasamningum og þeim getur hver sem er flett upp á netinu. Hugtakið "launaleynd" (sem þekktist varla fyrr en fyrir ca. 25 árum) gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum aðgengilegir.

Ég skal fúslega gangast við því að ég hef flett aðeins í víðfrægu Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Mér finnst forvitnilegt að fylgjast með launaþróun vel launaðra og áhugavert að sjá t.d. hvað fyrirtæki sem ýmist urðu nýverið gjaldþrota, eru í umsjá banka, eða í einhverju undarlegu eignarhaldslimbói hafa efni á að greiða rausnarleg laun - olíufélög, fjölmiðlar, tryggingafélög, fjármálafyrirtæki, verslanakeðjur, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig gaman að sjá hvað hin ýmsu ohf. gera vel við yfirmenn.

Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir tveimur árum, endurbirti fyrir ári og rétt að gera enn aftur.

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: “Hættum að snuðra í einkamálum annarra“.

Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó “ekki nema” 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að “þetta komi okkur ekkert við“.Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborgósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekki hundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja? 

 


Brynjar Níelsson með klén rök til að réttlæta mismunun

Innstæðueigendum var mismunað við fall Landsbankans. Það viðurkenna meira segja þeir lögfræðingar sem tekið hafa að sér pólitískan málarekstur NEI-sinna í Icesave-málinu.Hrl-dvergpistlahöfundarnir átta skrifa í Fréttablaðinu um helgina að
... jafnvel þótt einhvers konar óbein mismunun teldist hafa átt sér stað þá verður hún réttlætt með því neyðarástandi sem brugðist var við.

Vissulega réttlætti hætta á neyðarástandi í byrjun október 2008 róttækar aðgerðir. En réttlætir sú hætta sem þá var var talin fyrir hendi, að mismunun sé enn réttlætanleg og skuli staðfest, 9. apríl 2011, þegar hættuástandið frá því í október 2008 er löngu liðið??

 

Meira hér: Hraðbankavörnin: NEI-lögfræðingar viðurkenna mismunun


Fulltrúi fávita

Ein er sú opinbera persóna íslensk sem vekur hjá mér ónotalegri gæsahúð en margar aðrar. Virðist að mestu óvitlaus, alla vega er maðurinn hæstaréttarlögmaður og hefur starfað heilmikið sem slíkur og ágætlega máli farinn, en popúlisti par excellence. Þetta er enginn annar en rasisma-daðrarinn, fyrrverandi þingmaðurinn, fyrrverandi “Frjálslyndi”, núverandi Sjálfstæðismaðurinn ...

Meira HÉR


Hvar eru "efnislegu svörin", Lilja?

Ég las yfirlýsingu Lilju Mósesd, Atla og Ásmundar Einars, sem þáu gáfu sér vegna hjásetunnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Fátt konkret kemur fram í henni sem snertir fjárlagagerðina, nema að þau telja að hugmyndir sínar hafi ekki fengist ræddar, um tekjuöflun og “róttæka endurskoðun á niðurskurði innan velferðarkerfisins” (minni niðurskurð). Einu raunverulegu hugmyndirnar um breytta tekjuöflun snúa að tillögum Lilju um samtíma skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar. Þessar hugmyndir komu þó fram fyrr eins og flestir muna, Sjálfstæðismenn lögðu þær til fyrir meira en ári. Ég vænti þess að stjórnvöld hafi skoðað þær þá. (Sakna þess þó að hafa aldrei séð greinargóða úttekt og útskýringu frá stjórnvöldum af hverju leiðin henti ekki. Það bara hlýtur að hafa verið gert fyrir ári. Eða hvað?  Sjálfur er ég á því að breyting í þessa veru sé líkast til alls ekki sniðug.)

Samflokksmaður þrenningarinnar, Árni Þór Sigurðsson, lagði fram ansi ítarlegt andsvar við yfirlýsingunni, þar sem hann gerir heiðarlega tilraun til að svara gagnrýni þremenningana málefnanlega.  Lilja svaraði  í fyrradag að orð hans kæmu sér “á óvart” en sagði jafnframt að þau myndu svara efnislegaá morgun“, þ.e. í gær, miðvikudag. Ég hef ekki séð þessi efnislegu svör enn.

Fjölmiðlar mættu ganga á eftir þeim.

Meira HÉR


mbl.is Lilja maður ársins á Útvarpi Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Julian Assange, kannski kvensamur en ekki nauðgari

Eins og fleiri hef ég veri gáttaður vegna fréttanna um ásakanir á hendur Julian Assange, stofnanda og helsta talsmanni Wikileaks, um nauðgun og önnur kynferðisbrot í Svíþjóð. Getur verið að þessi geðþekki og hugaði maður sé kynferðisbrotamaður? Eða er þetta allt plott CIA??

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa lengi þá er hér stutta útgáfa þessa pistils:

  • Julian Assange er ekki nauðgari
  • CIA átti engan þátt í upphaflegum ásökunum um nauðgun og kynferðisbrot.

Fréttir af þessu máli hafa verið óljósar, enda hefur sænski saksóknarinn sem sækir málið lítið sem ekkert gefið upp og Assange sjálfur veit enn sáralítið fyrir nákvæmlega hvað hann er sakaður. Eftir nokkurt gúggl hef ég grafið upp eftirfarandi.

Meira HÉR


Hvað ef dólgurinn Catalina hefði heitið Vitas Navrabutis ?

Skil ekki alveg hvað blaðamenn eru að hugsa sem birtu nú undanfarna daga klígjugjarnar sögur af hjartagæsku glæpakvendisins Catalinu Ncoco. Þessar fréttir DV og visir.is segja frá því hversu miklir vinir hennar vændiskaupendur voru, sem hún kallaði elskhuga í einhverri fréttinni. Einhver þeirra kom með unglingsson sinn með sér, svo sá gæti “kynnst” konum. Oj barasta.

Henni þykir vænt um sína viðskiptavini sem hún lítur á sem vini sína – hún er í þessu til að gleðja

 

hafa blaðamennirnir og rithöfundarnir tveir eftir henni, sem skrifa jólaviðtalsbókina við konuna. Eru mennirnir með réttu ráði?? Hverja var hún að gleðja? Stelpurnar sem hún blekkti hingað, hótaði og seldi í vændi?

 

MEIRA HÉR


Verið að færa til fyrra horfs

Það mætti koma fram í fréttinni að með þessari launabreytingu e verið að færa laun fyrstu varaborgarfulltrúa til fyrra horfs, svo það er hálfskrýtið að fyrrverandi borgarstjóri skuli vera svo mótfallinn þessu. Fyrstu varamenn hvers lista voru einmitt með 70% af launum fastafulltrúa þar til um síðustu áramót, en fengu í staðinn ekki aukalega grett fyrir nefndarsetu, sjá þessar t.d. þessar frétt frá 7. jan. 2010Greiðslur til borgafulltrúa lækkaðar

og þessa frétt frá 12. nóv. 2009: Margsamsett laun borgarfulltrúa.


mbl.is Fimm milljónir í vasa varaborgarfulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýtur Ólafur stjórnarskrá?

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og skýrri stjórnskipun felur Forseti Íslands ráðherrum vald sitt. Forsetinn er þjóðhöfðingi með afar takmarkað pólitískt vald.

Milliríkjasamningar og pólitískar deilur eru klárlega á forræði ríkisstjórnar og ráðherra. Nú fer Ólafur út um víðan völl með pólitískar yfirlýsingar um mál sem er viðkvæmt og erfitt og samningar standa yfir um.

Eru yfirlýsingar Forseta í samræmi við stefnu ríkisstjórnar landsins? Hefur hann borið ummæli sín undir þann ráðherra sem ber ábyrgð á samningum um Icesave?

Er Ólafur að tala í umboði íslenskra stjórnvalda? Eða er hann talsmaður "þjóðarinnar" en án nokkurs sambands við þau stjórnvöld sem stjórna landinu eða umboðs frá þeim?

Hvað finndist okkur ef Karl Bretaprins eða Beatrix Hollandsdrottning væri að tjá sig um þessa deilu við Íslendinga, eða önnur viðkvæm milliríkjapólitísk mál í sínum löndum, án nokkurs samráðs við ríkisstjórnir sinna landa?


mbl.is Ósanngjarnar kröfur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes toppar sjálfan sig!

Er hægt að rökstyðja að milljón króna styrkir fyrirtækja til einstakra frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins séu sjálfsagðir og eðlilegir, en að jafn háir styrkir til frambjóðenda Samfylkingarinnar séu siðferðislega óverjandi?

Jú! Ef maður heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann skrifar einn af sínum óborganlegu pistlum á Pressunni í dag, þar sem hann toppar sjálfan sig í súrrealískri sýn sinni á stjórnmál.

Meira HÉR.


Fjölmiðlafulltrúar geta verið gagnlegir

Ef Magnús Árni Skúlason væri með sinn eigin prívat fjölmiðlafulltrúa eins og sumir helstu ríkisbubbar landsins myndi hann ekki hafa eftir sér sama dag og þessi frétt er birt að hann íhugi meiðyrðamál gegn Morgunblaðinu vegna þessarar fréttar! Það bætir ekki stöðu hans, þvert á móti.

Maður getur svo sem velt fyrir sér hvort þessi frétt verðskuldi stríðsfyrirsögn þvert yfir forsíðu. Eins og tekið er fram í netfréttinni hefur Magnús ekki gert neitt ólöglegt eða hvatt til neins ólöglegs. Kannski á mörkum þess að vera siðlegt, að liðka fyrir og hvetja til viðskipta sem grafa undan markmiðum þeirrar stofnunar sem hann gegnir trúnaðarstörfum fyrir, og skapa vinnu og arð fyrir vini sína. En hann virðist alls ekki vera að misnota sér trúnaðarupplýsingar og ég býst ekki við að bankaráðið komi neitt að því að ákveða hvaða fyrirtæki fái "aflandskrónukvóta".

Held að réttast sé að hann segi af sér sem bankaráðsmaður, til að komast útúr þessum augljósa hagsmunaárekstri. (Ef maðurinn er fulltrúi Framsóknarflokks er kannski ekki von að hann skilji hugtakið, þeir virðast líta á slíka árekstra sem eftirsóknarverð hagsmunatengsl!) 

Held nú að aðalmálið sé að þessi fjárans höft verði að leggja af sem fyrst. Það einfaldlega gengur ekki upp að hafa tvöfalt gengi á krónunni. Að stjórnvöld úthluti svo einstökum fyrirtækjum kvóta til að kaupa krónur á undirverði, miðað við önnur fyrirtæki, sér hver maður að býður upp á fyrirgreiðslupólitík af verstu sort.  Ég man síðast eftir svona tvöföldu gengi í heimsókn til Austur-Þýskalands 1988.


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband