Færsluflokkur: Fjölmiðlar
11.1.2014 | 09:34
Pása á 'Prime time'
Á heimilinu er oft hlustað yfir eldamennsku og kvöldmat á sex-fréttirnar í útvarpinu og Spegilinn sem kemur í kjölfarið, á Rás 1 eða 2. Nú er raunar búið að stytta tímann verulega, svo fréttir og Spegillinn taka samtals bara 30 mínútur.
Ég tók eftir því í vikunni að þegar stillt var á Rás 2 að á milli 18:30 og 19 rúlluðu bara íslensk lög án kynningar, með þulurödd af upptöku inn á milli sem upplýsti á hvaða stöð væri hlustað.
Óneitanlega finnst manni það bera vott um mikið metnaðarleysi af þeim sem þessu réðu að skera niður einn besta fréttaskýringaþátt fjölmiðla um helming. Hitt er líka mjög spes að á þessum tíma þegar ætla mætti að mjög margir séu með kveikt á útvarpinu, a.m.k. eru dýrustu auglýsingatímar útvarpsins sitt hvoru megin við sexfréttir, að vera ekki með neina alvöru dagskrá heldur bara lög til uppfyllingar, í hálftíma.
Þetta er eitt af mörgum merkjum þess að mikið skipulagsleysi og ringulreið virðist einkenna uppstokkun og endurskipulagningu útvarpsdagskrár.
Vonandi tekst að finna nýjan útvarpsstjóra sem getur leitt útvarpsrásirnar tvær úr þeim ógöngum sem nýhættur útvarpsstjóri kom þeim í. Og vonandi fær Spegillinn aftur ða njóta sín betur.
1.1.2014 | 16:28
Stenst söguskoðun Forseta?
Ólafur Ragnar hélt athygli minni í ávarpi sínu, það er góður kostur ræðumanna. Eins og endranær vekur ræðan fleiri spurningar en hún svarar.
Ég velti til dæmis fyrir mér hvort söguskoðun Forseta fái staðist. Forseti segir svo í ávarpi sínu:
Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði.
Var þetta svo?
Margir eru sögufróðari en ég og gætu hjálpað til að rifja upp. Var það ekki svo að hér logaði allt í illvígum deilum í upphafi 20. aldar, um heimastjórnarmálið svokallaða? Heimastjórnarmenn á móti Valtýingum. Ég held að almenn samstaða á þessum árum hafi alls ekki verið fyrir hendi, og æsingur, flokkadrættir og skotgrafaorðræða ekkert ósvipuð og 110 árum síðar.
Hvað með stjórnarskránna 1874? Um tilurð hennar má lesa í greinargóðri samantekt Eiríks Tómassonar og fleiri frá 2005. Þar má lesa:
Á Alþingi árin 1867, 1869 og 1871 hafði stjórnin lagt fram stjórnarskrárfrumvörp sem í mörgum atriðum líktust stjórnarskránni sem konungur síðan gaf 1874. Ýmislegt í athugasemdum og tillögum Alþingis virðist hafa haft áhrif á útfærslu stjórnarskrárinnar í endanlegri gerð. Hins vegar náðist ekki samkomulag á milli Alþingis og stjórnarinnar um stjórnarskrána sjálfa og var hún því á endanum gefin einhliða af konungi, af frjálsu fullveldi hans, eins og það var orðað. Íslendingar voru ósáttir við þá aðferð sem viðhöfð var við að setja landinu stjórnarskrá. ...
Ekki heldur hér var um að ræða samstöðu.
Ég er ekki að segja að samstaða geti ekki verið til góðs. En algjör samstaða er engin forsenda framfara og erfið og flókin mál verða sjaldan leyst með einhverri kröfu um "samstöðu" heldur hafa slík mál oftar en ekki gagn af vandlegri og gagnrýnni yfirlegu og umfjöllun.
Fleira vakti athygli í ávarpi forseta, svo sem tal hans um norðurslóðir, sem ég einfaldlega skil ekki. Það er efni í annan pistil.
Úr "Ingólfi", 1906
Ólafur hvetur til samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2013 | 22:52
Sigmundur á að biðjast afsökunar
Mér finnst rétt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur orðum og gjörðum okkar unga forsætisráðherra. Margir höfðu nokkrar efasemdir um að hann hefði það sem þarf til að leiða ríkisstjórn landsins. Hann er ungur, með mjög litla reynslu úr stjórnmálum og ekki reynslu af stjórnarstörfum annars staðar frá. Reyndar hefur hann litla reynslu af atvinnulífi almennt. Hann starfaði nokkur misseri sem fréttamaður í hlutastarfi, kom svo í fjölmiðla nokkrum sinnum fyrir fáum árum og tjáði sig af áhuga og einhverri kunnáttu um skipulagsmál. Hann hefur setið lengi á skólabekk, lauk grunnnámi í viðskiptafræði á 10 árum, hefur svo lært áfram eitthvað í stjórnmálafræði og skipulagsfræðum, en ekki lokið gráðu eða ritgerð, að mér skilst. Þar með er hans ferilskrá upptalin, að viðbættu starfinu sem Alþingismaður og flokksformaður síðasta kjörtímabil.
Hvernig er svo reynsla þessa hálfa árs af Sigmundi Davíð í stól forsætisráðherra?
Því miður held ég að Sigmundur sé ekki rétti maðurinn í þetta starf.
Ég efa það í sjálfu sér ekki að hann búi yfir ýmsum kostum og að hann vilji vel, sé greindur og geti verið skemmtilegur.
En hann er vondur forsætisráðherra. Eiginlega afleitur.
Vinnubrögð og samskipti í stjórnarmeirihlutanum og ríkisstjórn virðast ekki heilbrigð og skilvirk. Verkstjórnin virðist á köflum ekki vera til staðar. Samskipti við fjölmiðla og almenning eru óskýr, misvísandi og á köflum hrokafull. Sigmundur talar stundum eins og kjáni.
Vissulega er Alþingi sérstakur vinnustaður. Það þarf styrk, traustan karakter og ákveðið innra jafnvægi til að láta ekki neikvæða umræðu, sífellda togstreitu og mikið álag draga sig niður á plan skætings og virðingarleysis. Alþingi getur haft slæm áhrif á a.m.k. suma sem þar sitja. Ég held að Sigmundur Davíð höndli þetta ekki vel.
Tökum tvö dæmi:
Í aðdraganda þess að ríkisstjórnin kynnti stóra "skuldaleiðréttingarpakkann" varaði forsætisráðherra við því að stjórnarandstaðan myndi ráðast á tillögurnar og myndu eiga eftir að ljúga í gagnrýni sinni á tillögurnar.
Forsætisráðherra landsins sakaði menn og konur fyrirfram um að ætla að ljúga.
Mér vitanlega gekk þessi hrakdómsspá alls ekki eftir. Margir hafa auðvitað rýnt í tillögurnar og gagnrýnt, ekki bara stjórnarandstæðingar heldur velflestir hagfræðingar sem á annað boð hafa tjáð sig um málið, enda er um að ræða stórkostlega dýra efnahagsaðgerð svo það væri mjög óeðlilegt ef þessar tillögur væru ekki vandlega rýndar með gagnrýnu hugarfari. (Gagnrýni á "stóru skuldaleiðréttinguna# er svo efni í annan pistil. Ég tel þessar tillögur glórulausar.)
En sem sagt, forsætisráðherra réðst á stjórnarandstæðinga áður en tillögurnar voru kynntar og ásakaði þá um að ætla að ljúga.
Mér finnst þetta mjög merkilegt, þess vegna tvítek ég þetta og feitletra. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé nýjung í íslenskri stjórnmálasögu. En þetta er ekki bara óvenjulegt og sérstakt, þetta er einstaklega ódrengilegt og dónalegt. Þetta sýnir vænisýki og pólitískan vanþroska, að tala svona.
Minnst var á þetta í viðtali við forsætisráðherra í gær. Hverju skyldi hann svara, jú hann segir brosandi
.. ég talaði ekki um að ljúga. Ég talaði um að menn myndu segja ósatt ...
og bætir svo við:
... ég tel að það hafi síðan komið á daginn
Stöldrum við. Hér bætir Sigmundur við fyrri ásakanir sínar um að menn og konur myndu ætla að ljúga, nú beinlínis ásakar hann pólitíska andstæðinga sína um að hafa logið.
Nefnir hann DÆMI?
Nei.
Forsætisráðherra landsins ásakar stjórnarandstæðinga um að ljúga án þess að tilgreina hver laug eða hverju var logið. Slær því svo upp í kæruleysi að hann hafi ekki talað um lygar heldur um að "tala ósatt".
Mér blöskrar. Mér finnst ótækt að forsætisráðherra tala svona til annarra stjórnmálamanna. Það er alvarleg ásökun að saka menn um að ljúga.
En tölum áfram um lygar. Hitt dæmið sem ég vildi minnast á er þetta:
Fulltrúar ríkistjórnarflokkana sögðu skýrt og skilmerkilega frá því í fjölmiðlum að barnabætur yrðu lækkaðar í fjárlagafrumvarpinu. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu þetta en forsætisráðherrann sakaði menn um að vera að æsa sig út af einhverjum getgátum. ("áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar. [...] Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar"#)
Svo kom í ljós að skýrar og klárar tillögur höfðu vissulega verið samþykktar ríkisstjórn í þessa veru og hafa fjölmiðlar staðfest það. Baðst ráðherrann afsökunar? Nei. Hann hins vegar þverneitaði því að hafa talað um að stjórnarandstæðingarnir höfðu byggt á getgátum! ("Það að halda því fram að ég hafi sagt að skerðing barnabóta væri eingöngu getgátur er hins vegar alrangt."#)
Forsætisráðherrann fór í tvígang á svig við sannleikann í einu og sama máli í sömu vikunni, fyrst neitaði hann því að tilteknar skýrar tillögur lægju fyrir sem sannanlega lágu fyrir og sagði að gagnrýni á þær væri byggð á getgátum, svo neitaði hann því einum eða tveimur dögum seinna að hafa talað um getgátur í þessu samhengi.
Þessi tvö dæmi eru kannski ekki stórvægileg sem slík. En þau sýna að eitthvað mikið er að. Forsætisráðherrann verður að temja sér að tala við bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina af virðingu og hætta svona bulli og lágkúru.
Forsætisráðherrann á að sjálfsögðu að draga tilbaka órökstuddar ásakanir um lygar og biðjast afsökunar.
En helst af öllu vona ég að hann finni sér annað starf á nýju ári, starf þar sem mannkostir hans og hæfileikar fái notið sín.
Ekki réttur maður á réttum stað.
Fjölmiðlar | Breytt 22.12.2013 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.12.2013 | 21:03
Páll vill ekki Rás 1
Nú rúmri viku eftir fjöldauppsagnir á Ríkisútvarpinu þar sem m.a. helmingur af dagskrárgerðarfólki á Rás 1 var látinn fara, langflestir samstundis, hefur útvarpsstjóri Páll Magnússon loksins gefið einhverjar skýringar á þessu, af hverju Rás 1 var reitt þetta bylmingshögg þegar rásin - fyrir þessa helmingun hennar - kostaði aðeins til sín 7% af tekjum stofnunarinnar.
Páli finnst Rás 1 ekki höfða til nógu margra. Dagskráin er of "þröng" og sérviskuleg segir útvarpsstjórinn.
Það má ekki hafa skírskotunina of þrönga, þetta heitir almannaþjónustuútvarp, þetta er ekki fámannaþjónustuútvarp og út á það gengur skilgreiningin á þessari starfsemi alls staðar í kringum okkur, ... það verður að vera almenn skírskotun í dagskrárgerð, en það má ekki breyta þessu í einhverja sérviskulega, þrönga dagskrá sem hefur ekki almenna skírskotun
Þetta er nú ekki mjög skýrt hjá útvarpsstjóranum, frekar loðið satt að segja, en altént einhverskonar hálfgildings skýring* á því af hverju hann (og, samkvæmt honum, einhverjir enn ónafngreindir og ósýnilegir "sviðsstjórar") ákváðu að henda út helmingnum af Rás 1. Við getum spurt okkur af hverju hann kemur með þessa skýringu fyrst núna, 10 dögum eftir uppsagnirnar.
*[viðbót, í viðtalinu sagði hann víst líka "Það er ákveðin týpa af dagskrárgerð sem við erum að hverfa frá".]
En bíðum nú hæg. Er þetta hlutverk Páls Magnússonar? Að ákveða hvernig dagskrá Rásar 1 skuli vera? Og reka fólk ef dagskráin er ekki nógu alþýðleg að hans mati? Ég heyrði sjálfur ekki ummæli Páls, en mér skilst að hann hafi ekki komið með nein dæmi um það sem honum fannst of "þröngt og sérviskulegt" á Rás 1.
Stjórnarformaður stjórnar RÚV virðist hins vegar ekki sammála því að það þurfi að gera meirháttar uppstokkun á efni og efnistökum RÚV, hann segir það vera "skýra stefnu stjórnar að engar meiriháttar breytingar verði gerðar á áherslum Rásar 1".
Hvað á stjórnin að gera við útvarpstjóra sem gengur í berhögg við stefnu stjórnarinnar??
Hvað fannst Páli vera of sérviskulegt á Rás 1? Beinar útsendingar af Sinfóníutónleikum? Verðlaunaðir vísinda- og fræðsluþættir Péturs Halldórssonar, tónlistarumfjöllun Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og fleira fólks, sem látið var fara?
Eða á dagskráin að vera minna "sérviskuleg" og höfða meira til fjöldans? Kannski bara spila vinsældalista hverju sinni og segja hvað klukkan sé á milli laga?
Þetta er ekki í lagi.
Þetta er mitt ríkisútvarp, jafn mikið og Páls Magnússonar. Hann má ekki sitja og skemma menningarstarf ríkisútvarpsins, bara af því að honum finnist það ekki samræmist hans hugmyndum hvernig skuli reka "fyrirtæki". RÚV á að vera miklu meira en það.
Björgum Rás 1.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.10.2013 | 22:10
Álit lögmanns
Lögmaður er ekki véfrétt. Þú sendir ekki spurningu til lögmanns eins og til Vísindavefsins.
Oftar en ekki er álit lögmanns fengið til að rökstyðja tiltekin sjónarmið. Lögfræði snýst ekki fyrst og fremst um að finna hið eina rétta svar við spurningu heldur miklu frekar um að rökstyðja svarið sem best.
Lögfræðiálit sem segir bara 'Já, þú gera svona', án frekari rökstuðnings er einskis virði.
Þegar hagsmunaaðili í miðri varnarbaráttu fyrir peningalegum hagsmunum kallar eftir lögfræðiáliti þá er það til að hjálpa sér í sinni baráttu, til að rökstyðja sín sjónarmið. Hagsmunaaðilinn er ekki að leita eftir hlutlausu áliti.
Lögmaðurinn talar máli umbjóðanda síns og rökstyður það lögfræðilega sem best hann getur.
Þess vegna er það ekki fréttnæmt að útgerðarfyrirtæki fær lögmann til að setja á blað álit sem hentar fjárhagslega hagsmunum þess. Ekki fréttnæmara en þegar einhver lögmaður úti í bæ talar máli skjólstæðings í hagsmuna- eða ágreiningsmáli.
Alveg sama hvað lögmaðurinn gerði í fyrra starfi.
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2013 | 23:53
HALLÓ Moggi !!!
Þegar lögmaður er sækjandi í hvorki fleiri né færri en þremur ærumeiðingarmálum fyrir hönd mjög frægrar og umdeildrar "celeb" fjölmiðlafígúru (skv. 8. mest lesnu frétt mbl.is) þá er sá lögmaður ekki hlutlaus og heppilegur til að tjá sig á sama tíma almennt um slík mál.
"lögin eru alveg skýr" segir fjölmiðlavæni lögfræðingurinn. Já auðvitað segir hann það. Það hentar hans málflutningi fyrir sinn skjólstæðing að presentera málin sem svo að allt sé þetta kýrskýrt, skýr lög og skýr brot.
Ekki veit ég hvort þessi lög sé góð eða slæm en ef lögin eru í lagi þá er eitthvað meira en lítið í ólagi hjá dómurum og dómstólum landsins, því meiðyrðadómar sem fallið hafa undanfarin misseri eru beinlínis ógnvekjandi og varpa skugga á málfrelsi í landinu.
Mogginn mætti gjarnan ræða það vil HLUTLAUSAN lögfræðing.
Vettvangurinn skiptir engu máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2012 | 08:58
Ólafur, Þóra og stóra ESB-samsærið
Sú kenning lifir góðu lífi meðal að minnsta kosti lítils hóps harðra ESB-andstæðinga og stuðningsmanna Ólafs Ragnars að verði Þóra Arnórsdóttir kosinn forseti muni ríkisstjórn geta þröngvað Íslandi inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Kenningin kann að hljóma fjarstæðukennd, en er einhvern veginn svona:
Eftir að aðildarviðræðum við ESB er lokið og samningur liggur fyrir er gert ráð fyrir að samningurinn verði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er í fullu samræmi við þingsályktunina sem meirihluti Alþingis samþykkti 2009 og fól ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktunin var svohljóðandi:
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.
Ótti þeirra vænisjúku er að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi og því geti meirihluti Alþingis sniðgengið hana og samþykkt samninginn, í trássi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Rökin eru þau að þjóðaratkvæðagreiðsla lögfesti ekki samninginn og að Alþingi þurfi að leiða hann í lög. Svo er jafnvel bent á að núverandi þingmeirihluti hafi ekki viljað samþykkja tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði bindandi. (Horft er framhjá því að sú tillaga fól í sér að breyta skyldi stjórnarskrá áður en þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin, og menn geta svo ímyndað sér hvort núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu vera fljótir til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá - tillagan gekk þannig í raun ekki út á að tryggja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði virt, heldur út á það að fresta því að meirihluti þjóðarinnar fengi að segja hug sinn um þetta mál.)
Síðasti hlekkurinn í þessari samsæriskenningu er sú að Þóra Arnórsdóttir myndi skilyrðislaust skrifa uppá þess háttar lög sem sniðgengju útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, vilja meirihluta þjóðarinnar. Þar með hefðu landráðamennirnir í Samfylkingunni selt Ísland í hendur Brusselveldinu sem horfi löngunaraugum til okkar dýrmætu auðlinda. Til að þessi dómsdagsspá rætist ekki þurfi að tryggja að fulltrúi fólksins, hin fórnfúsa rödd þjóðarinnar, síðasta stoppistöðin (að eigin sögn), Ólafur Ragnar Grímsson, verði áfram forseti.
Það er hálf dapurlegt að vita til þess að hluti þjóðarinnar telji fulltrúa sína á Alþingi þannig innréttaða að þeir myndu sniðganga niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og leiða í lög samning sem hefði verið hafnað af meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, og að slík ákvörðun sem sneri lýðræðinu algjörlega á hvolf gæti yfir höfuð staðist.
Langsótt? Já Vænisjúkt? Já.
En hér kemur það virkilega dapurlega í þessari sögu. Sitjandi forseti Íslands tekur undir þessar vænisjúku samsæriskenningar og beinlínis elur á þeim. Forseti Íslands tortryggir Alþingi, fulltrúaþing Íslands og elur á samsæriskenningu sem beinlínis gerir ráð fyrir að Alþingi myndi hafa að engu lýðræði og vilja meirihluta þjóðarinnar, en setur sjálfan sig í annan og sérstakan gæðaflokk göfuglyndis og óeigingirni. Þetta kemur fram í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Ragnar segir:
Síðan hefur verið mjög á reiki hvort sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi myndi samþykkja varðandi Evrópusambandi yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eða hinn endanlegi dómur. Sumir hafa haldið því fram að eðli málsins samkvæmt yrði það að vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og svo yrði að koma í ljós hvort Alþingi myndi fylgja henni.
HVERJIR hafa sagt þetta, Ólafur Ragnar? Stuðningsmenn þínir á Útvarpi Sögu? Eiríkur Stefánsson eða Páll Vilhjálmsson? Trúir ÞÚ þessu sjálfur, eða ert þú bara að höfða til þeirra sem þessu trúa?
Þetta er í raun með ólíkindum. Forsetinn elur á tortryggni og lepur upp vænisýkina beint af spjallvefjum og bloggsíðum, samsæriskenningarnar um að umheimurinn sitji í launsátri um okkur, og svikarar og landráðamenn bíði færis að framselja fullveldið og fjallkonuna. Ólafur lýsir algjöru vantrausti á Alþingi og ásakar ríkisstjórn um að vera reiðubúna til að þröngva landinu inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Hann nærir átök, flokkadrætti, skotgrafnahernað og þann sundirlyndisfjanda sem hefur eitrað alltof mikið alla samfélagsumræðu síðustu misseri.
Allt til að ná endurkjöri.
Viljum við þannig forseta?
Í Guðanna bænum, skiptum um Forseta.
28.4.2012 | 10:43
Rökrétt niðurstaða
Þeir fjölmiðlar sem stýrt er af Sjálfstæðismönnum halda nú áfram þar sem frá var horfið í málflutningi verjanda fyrir Landsdómi, og halda áfram uppi vörnum fyrir félaga sinn Geir H. Haarde.
Fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins Þorsteinn Pálsson sem skrifar á hverjum laugardegi hátíðlega ritstjórnarpistla í Fréttablaðið (við hlið hátíðlegra leiðara Sjálfstæðismannsins Ólafs Stephensen) ver öllum pistli sínum í morgunn í Landsdómsmálið. Þorsteinn talar um stjórnarskrána 1918, lögskýringargögn, stjórnskipuleg hugtök, og svona þurr lagatæknileg hugtök sem eru frekar óspennandi fyrir ólöglærða. En niðurstaða Þorsteins er sú sama og Sjálfstæðisflokkkurinn og KOM Auglýsingastofan og Geir hafa hamrað á:
Sama hvað á dynur, ef til dæmis væri hér yfirvofandi innrás erlends ríkis eða hvað annað grafalvarlegt ástand sem gæti orsakaða neyð og upplausn, þá sé engin ástæða fyrir Forsætisráherra að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi.
Forsætisráðherra geti þess í stað til dæmis rætt málið óformlega við þá sem hann telur að málið komi við, nágranna sinn og samflokksmanninn bankastjórann, útvalda ráðherra inni á kaffistofu Stjórnarráðsins, eða samflokksmenn og gamla vini í embættismannaliði ríkisins, sem flokkurinn hefur komið þar fyrir. Flokkurinn skuli ráða eins miklu og hann mögulega getur.
Eina rökrétta niðurstaðan af þessum málflutningi Þorsteins og annarra Sjálfstæðismanna er þessi:
Það er ótækt að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Flokkurinn hefur ekkert lært og neitar allri ábyrgð á því sem úrskeiðis fór undir hans stjórn.
Eitt sinn stuttbuxi, ávallt stuttbuxi.
Það var reitt hátt til höggs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2011 | 23:00
Næsti Forseti
Forseti lýðveldisins er um þessar mundir feykivinsæll. En það kemur að því að hann vilji sinna öðrum verkefnum, við getum ekki ætlast til að hann eyði ævihaustinu öllu í fórnfúst og erilsamt starf þjóðarleiðtoga. Heimildir mínar herma að háttsettir menn hjá Sameinuðu Þjóðunum horfi hýrum augum til hans sem fyrsta framkvæmdastjóra HIGPA, fyrirhugaðrar Jöklavarðveislustofnunar SÞ í Himalayafjöllum.
Hvort sem af því verður eða ekki verðum við fyrrr eða síðar að horfast í augu við að enginn leiðtogi ríkir til eilífðar og að við munum þurfa að finna verðugan arftaka.Við þurfum annan gáfaðan og framsýnan leiðtoga, stórhuga, djarfan, sem getur talið í okkur kjark. Fámenn þjóð eins og við megum ekki láta þjóðarhagsmuni villa okkur sýn. Dæmum ekki menn eftir þjóðerni! Það á að gilda sami réttur og sömu lög, að mínum dómi, af hálfu Íslands gagnvart allri heimsbyggðinni.
Við þurfum sterkan og einbeittan leiðtoga, sem getur og þorir að standa í hárinu gagnvart óvinveittum þjóðum Evrópu þegar Bandaríkin eru hvergi sjáanleg.Í þessu samhengi er mikilvægt að koma því á framfæri að engin ástæða sé til að óttast kínverska athafnamenn. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komist á framfæri svo menn fari ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi,
Huang Nubo fyrir Forseta!
Huang Nubo að lýsa aðdáun sinni á Íslandi
Ólafur Ragnar skipti um skoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2011 | 15:26
Fækkum farþegum ...?!
Fyrirtækið segir í tilkynningu, að horfur í rekstri Strætó fyrir seinni helming ársins séu ekki eins jákvæðar. Það stafi af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hafi fjölgun strætisvagnafarþega haft í för með sér aukinn kostnað og muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó.
Ja hérna. Er rétt eftir haft?! Megum við eiga von á næstu auglýsingaherferð svohljóðandi:
Ferðumst ekki með strætó!
Hagnaður hjá Strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |