Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Spurning til Sigmundar Davíðs

Finnst forsætisráðherra í lagi að oddviti flokksins í höfuðborg landsins í sveitarstjórnarkosningum sé á móti almennum mannréttindum og trúfrelsi?

 

Úr stefnu Framsóknarflokksins:

II. Mannréttindi

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

http://www.framsokn.is/stefnan/ 


mbl.is Kosið verði um lóð undir mosku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru mörg laus stæði?

Egill Helgason bendir á í pistli um fyrirhugaða byggingu við Ásholt undarlega tilfinningasama ást bílastæðakórsins svokallaða á bílastæðum. Og viti menn nokkrir kórsöngvarar mæta til leiks og kommentera á pistilinn. Tala um að þarna sé skortur á stæðum og mikill aðsteðjandi vandi sem myndi fylgja fækkun bílastæða e leyft verður að byggja á reit sem nú er bílaplan.

Hér er mynd af umræddu svæði. Lóðin sem nú er bílastæði en til stendur að byggja á námsmannaíbúðir er vinstra megin aðeins fyrir neðan miðju (neðan við hvítu húsin merkt "A", sem mynda ferning í kringum lokaðan garð).

Hér er smá getraun fyrir lesendur. Hvað eru mörg auð bílastæði á myndinni? (Smellið á mynd til að stækka.)

bilastaedi 


Brynjar Níelsson ruglar

Brynjar Níelsson Alþingismaður og hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að verja kristni gegn meintum árásum og ágangi trúlausra. Brynjari ferst þetta ekki vel úr hendi.

Brynjar nálgast málið eins og verjandi í dómstól. Hann tekur alfarið stöðu með sjónarmiðum öðru megin í rökræðum kirkjusinna og veraldlega þenkjandi fólks og neitar að horfa hlutlægt á málið. Það finnst mér slæmt fyrir þingmann, enda efast ég um að allir kjósendur hans taki undir íhaldssöm og illa rökstudd sjónarmið hans.

Kryfjum seinasta útspil Brynjars sem má lesa hér: Svar Til Sigurðar Hólm.

Í hvert sinn sem ég tjái mig um kristna trú og kristindóm rjúka æðstuprestar Vantrúar og Siðmenntar til og senda mér bréf. 

Ætli það sé ekki af því að í hvert sem Brynjar tjáir sig um kristna trú ræðst á aðrar lífsskoðanir og fer með rangfærslur og bull.

Það virðast margir halda að í trúfrelsi felist að stjórnvöld verði að gæta jafnræðis milli trúarbragða ...

Já það halda það margir! Stjórnvöld í trúfrjálsu ríki eiga ekki að hampa einni trú umfram aðra eða einhver einn Guð sé sannur og réttur, eða einhver ein tiltekin trú á æðri máttarvöld.

... og því megi ekki fræða nemendur um kristin fræði umfram önnur trúarfræði eða lífsskoðanir. 

eeehh ... Nei. Ég þekki engan sem er á móti því að fræða börn um trúarbrögð og "kristin fræði", ekki heldur kannast ég við að neinn hafi viljað sérstakan kvóta á fræðslu um kristindóm, að hún megi alls ekki vera meiri en um einhver önnur trúarbrögð. En margir telja að gera verði greinarmun á fræðslu og trúboði. 

Það er því ekkert að því að skólabörn séu frædd um kristni og kristindóm í kirkjum og skólum.  Í mínum huga er það beinlínis skylda ...

Af hverju vill Brynjar að börn séu frædd um kristni í kirkjum? Er það ekki pínu eins og að fræða börn um stjórnmál á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll?

Hvað skyldi Sigurðar kalla kennslu um helstu stjórnmálastefnur og lífskoðanir? Trúboð eða innrætingu?

Því verður Sigurður að svara, en það hlýtur að fara eftir því hver fræðir, hvort sá hafi hlutlausa afstöðu til kennsluefnisins. Hvað myndi Brynjar kalla kennslu um samkennd og mannkærleik í sósíaldemókratískri hugmyndafæði, kennda af Össuri Skarphéðinssyni á skrifstofu Samfylkingarinnar?

Hér á landi er ríkisvaldið ekki að skipta sér af trúarskoðunum fólks.

JÚ! A.m.k. einn þingmaður, Brynjar Níelsson, vill að öll börn fái sérstaka fræðslu um tiltekna trúarskoðun í kirkjum landsins!

Ríkisvaldið bannar ekki skoðanir og boðar ekki skoðanir öðruvísi en fram kemur í lögum.

Brynjari finnst í lagi að boða tiltekna skoðun, ef lögin segja það. Verðum við nú ekki að geta rökstutt að eitthvað sé í eðli sínu rétt, sanngjarnt og skynsamt, án þess bara að segja "lögin segja það". Hljómar pínu eins og "pabbi segir það"

Ég hef aldrei sagt að forsenda fyrir æðruleysi, kærleika og fyrirgefningu sé kristin trú

En þú hefur sagt að ef kristin trú hverfur sé hætt við að þessi gildi glatist. Ertu þá ekki að segja að þessi siðferðisgildi séu háð kristinni trú?

Sorrý, Brynjar. Ef þú værir að verja mig í Hæstarétti vona ég að þú rökstyðji mál þitt betur en þetta. 

 

 

 


Jónas og malbikið

Jónas Kristjánsson telur afleitt að í nýju skipulagi við Mýrargötu sé bara gert ráð fyrir 0.8 bílastæði á hverja íbúð. Jónas telur það vera ofsóknir að borgin geri ekki ráð fyrir 2 bílastæðum á sérhverja íbúð.

Með illu er reynt að pína fólk til að fylgja sérviturri hugmyndafræði. En ekki á að vera í verkahring borgar að ofsækja borgarana. 

segir Jónas í pistli sínum Borgarar ofsóttir

Þetta er furðulegur pistill, sér í lagi frá heimsborgara eins og Jónasi. Hvort finnst Jónasi meira gaman að rölta um miðbæinn í Flórens, eða úthverfi í Mílanó? 'Gamla stan' í Stokkhólmi eða Solna? 

Nei, svona í alvöru talað, veit Jónas hvílíkt gígantískt landflæmi fer undir bílastæði og umferðarmannvirki í borginni? Og hann vill endilega malbika meira, í hjarta borgarinnar, við gömlu höfnina??

Hvernig sjá Jónas og aðrir bílaelskendur fyrir sér að Reykjavík eigi að þróast?

Borgin mun vonandi stækka áfram, annars dafnar hún ekki. Við getum reynt að skapa umhverfi þar sem mannlíf dafnar á götunum. Eða við getum byggt hverfi þar sem fólk er inni í húsum, fer niður í bílakjallara og ekur svo út og horfir á umhverfið út um bílrúðu. Það er ekki mannlíf, það er bílalíf

Þessar tvær myndir eru úr nýlegu hverfi, við Sóltún/Mánatún (bakvið Borgartún). Myndirnar eru teknar á sunnudagsmorgni að vori, þegar flestir íbúar og bílar eru heima. En skipulagið er í anda Jónasar Kristjánssonar, með malbiksflæmi, yfirdrifið mörgum bílastæðum, bæði ofan og neðan jarðar.

Fólk sem finnst það vera ofsótt í miðbænum gæti kannski flutt sig hingað. 

 

tun

tun2 

Miðbæjarhverfi, sem skipuleggjendur hafa lagt sig fram við að láta líta út eins og úthverfi. 


Flugvöllur - nr. 2: Hvað með Bessastaðanes??

Ítarleg og vönduð skýrsla var gefin úr af Samgönguráðuneyti og Reykjavíkurborg í apríl 2007 um mögulega framtíð Reykjavíkurflugvallar. Að baki hennar liggur mikil vinna og margir sem komu að gerða hennar. Ég hvet þá sem vilja ræða þetta mál að lesa skýrsluna gaumgæfilega. Það er oft svo í samfélagsumræðunni, að menn tala og tala og mynda sér mjög eindregnar skoðanir, en hafa ekki fyrir því að kynna sér ítarlegar upplýsingar um málið. 

Í skýrslunni er reynt að skoða efnahagsleg áhrif ýmissa möguleika, en þeir helstu eru: óbreyttur flugvöllur í Vatnsmýri, minni flugvöllur í Vatnsmýri, flugvöllur á Lönguskerjum, flugvöllur á Hólmsheiði, eða að innanlandsflug flytjist frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur.

Við vinnslu skýrslunnar var ekki búið að ljúka ítarlegri úttekt á veðurfari á Hólmsheiði, en það er þó gert ráð fyrir því að nýting flugvallar á heiðinni yrði lakari en í Vatnsmýri. Mér sjálfum hefur sýnst að flugvölllur á Hólmsheiði sé í rauninni ekki alvöru valkostur, og varla heldur á Lönguskerjum.

Það eru einnig nefndur til sögunnar ýmsir aðrir valkostir, sem hafa komist í umræðuna á einhverjum tímapunkti, m.a. flugvöllur á Bessastaðanesi. Það kemur raunar fram að flugvallarstæði á Bessastaðanesi fær góða einkunn.

Screen shot 2013-09-22 at 3.38.15 PM 

Í forsendum skýrsluhöfunda kemur fram að Löngusker og Hólmsheiði eru taldir einu staðirnir í nágrenni Reykjavíkur sem hafa nægt rými fyrir "alhliða flugvöll", en Bessastaðanes er aðeins talið rýma "lágmarksflugvöll fyrir innanlandsflug" (Sjá skýrslu, bls. 43-44).

Mér kemur það spánskt fyrir sjónir að lesa að aðeins sé pláss fyrir "lágmarksflugvöll" á Bessastaðnesi, en "alhliða flugvöll" á Lönguskerjum, úti í sjó! Ef hægt er að gera uppfyllingar undir flugvöll á Lönguskerjum (sem myndi reyndar kosta mjög mikið, tugi milljarða, og hafa mikil  umhverfisáhrif) er þá ekki líka hægt að gera minni uppfyllingar við Bessastaðanes, til að koma slíkum flugvelli fyrir þar?

Ég er líka nokkuð viss að ýmsar forsendur frá árunum 2006-2007 hafa breyst. Þegar skýrsluhöfundar teikna upp "alhliða flugvöll" er gert ráð fyrir umtalsverðri aðstöðu fyrir einkaflug, flugkennslu, og "viðsiptaflugi". Allt hefur þetta minnkað verulega (m.a. vegna breytts efahags og miklu hærri eldsneytisverðs) og, það sem meiru máli skiptir, mikið af þessu má að skaðlausu vera í Keflavík! Viðskiptaflug á væntanlega við einkaþotur, sem eru mun sjaldséðari nú en á árunum 2006-2007.

Screen shot 2013-09-22 at 3.47.46 PM 

Er raunhæfur möguleiki að byggja innanlandsflugvöll á Bessastaðanesi, sem myndi fullægja þörfum innanlandsflugs næstu 100 ár og skapa ásættanlega málamiðlun - gefa Reykjavík möguleika á að stækka og auka verulega byggð nálægt miðbænum, en allir landsmenn hefðu hag af því - og viðhalda góðum flugsamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgar svæðis?

Hér er ein útfærsla (héðan), einföld teikning þar sem flugbrautum núverandi Reykjavíkurflugvölls er komið fyrir á Bessastaðanesi. Flugbrautirnar þurfa hins vegar ekki að vera þrjár og og þurfa ekki ða hafa þessa afstöðu hver til annarrar, þannig má hæglega koma tveimur flugbrautum betur fyrir, en myndin sýnir.

560495_499215676838208_1665264912_n 


Flugvöllur - nr. 1

Það vill einkenna þjóðmálaumræðu um hin ýmsu mál að menn ræða ekki saman, heldur henda fram sínum sjónarmiðum en hlusta ekki á andstæð sjónarmið. Úr verður kappræða en ekki samræða, sem verður oft persónuleg og heiftúðug. Þetta er ekki góð leið til að taka ákvörðun og svona ræðum við ekki erfið og flókin mál heima hjá okkur eða í vinnunni. Ég ætla að reyna að ræða hér hin ýmsu sjónarmið í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll, því mér finnst sjálfum ekkert auðvelt eða augljóst að taka einarða afstöðu með eða á móti flugvellinum.

Landsbyggðin þarf flugvöll vegna alls sem bara er í Reykjavík

Þessi rök heyrast oft, að á meðan margskonar stjórnsýsla, aðalsjúkrahúsið, o.fl. er einungis í Reykjavík, þá sé sjálfsagt og eðlilegt að allir landsmenn eigi greiða leið í borgina. Þetta er alveg gilt sjónarmið. En hitt skiptir líka máli að langflestir landsmenn nota flugið mjög sjaldan til að komast til Reykjavíkur. Fólk sem býr á Snæfellsnesi, Húnavatnssýslum, öllu Suðurlandi *(meginlandi), sunnanverðum Vestfjörðum*, sunnanverðum Austfjörðum* og Skagafirði, notar innanlandsflug sárasjaldan. Það er ekki flogið reglulega frá Blönduósi, Sauðárkróki*, Höfn*, Vík í Mýrdal, og fleiri stöðum. Flugfélag Íslands er með áætlunarflug á þessa staði: Akureyri, Ísafjörð, Egilsstaði, Þórshöfn, Vopnafjörð, og Grímsey.

*(Viðbót: Flugfélagið Ernir er líka með áætlunar flug frá Reykjavík á nokkra staði á landinu: Bíldudal, Gjögur, Húsavík, Höfn og Vestmannaeyjar. Eyjaflug flýgur reglulega milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, en þess er ekki getið á heimasíðu Reykjvíkurflugvölls.) 

Íbúar á Akureyri og Ísafirði, þangað sem er flogið, keyra samt miklu oftar til Reykjavíkur en þeir fljúga. Langflestar fólksferðir milli Akureyrar og Reykjavikur eru farnar með bíl en ekki flugi. 

Niðurstaða: flugvöllurinn er ekki mikið notaður, flestir nota hann aldrei eða sjaldan. Ísland er einfaldlega ekki svo stórt land. En það er samt skiljanlegt og málefnalegt sjónarmið að fólk vilji eiga möguleika á að fljúga til Reykjavíkur. Málið er að ef sá möguleiki er sjaldan nýttur, er það nokkuð sem við hljótum að taka tillit til í umræðu og ákvarðanatöku. Fyrst flugvöllurinn er lítið notaður af meginþorra landsmanna hljótum við frekar að geta gert málamiðlanir um framtíðarstarfsemi hans. 

Heildarfarþegafjöldi sem fer um Reykjavíkurflugvöll hefur sl. 10 ár verið um 380.000 á ári. Það þýðir að að meðaltali fer hver Íslendingur rétt ríflega einu sinni í innanlandsflug á ári, en raunin er sú að flestir fara sjaldan eða aldrei, og nokkuð fámennur hópur fer þá ansi oft. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim ferðum, og þær geta skipt máli fyrir mun fleiri en bara þessa sem fljúga.

En þetta er samt sem áður ekki há tala í heildina. Um Hvalfjarðargöngin fóru t.d. 1.84 milljón bílar á síðasta ári. Ef við gefum okkur að 1.3 sitji að meðaltali í hverjum bíl þýðir það að 2.4 milljónir farþega fóru um Hvalfjarðargöng, eða u.þ.b. 5 sinnum fleiri en fara um Reykjavíkurflugvöll.

Þetta eru ekki góð rök fyrir því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Við sem samfélag viljum að hér séu samgöngur sem greiðastar, jafnvel til fámennra staða. En samgöngur og samgöngumannvirki mega heldur ekki kosta um of. Þess vegna er í dag flogið á mjög fáa staði á landinu, flugrekstur á minni staði er ekki arðbær og þyrfti verulegar niðurgreiðslur til að halda uppi slíku flugi.

Næst ætla ég að ræða hvort Reykjavík (og ekki bara Reykjavík heldur landið allt) hafi af því svo mikinn hag að nýta landið í Vatnsmýri undir annað, að réttlætanlegt væri að leggja niður flugvöllinn. Í því samhengi þarf líka að skoða hvað kæmi í staðinn, annar flugvöllur nálægt borginni, eða að flugið færi til Keflavíkur.


Það er nóg pláss í Reykjavík

Skipulagssaga Reykjavíkur eftir seinna stríð er svolítið sérstök. Hverfi voru byggð eins og litlar eyjar í holtum austantil í bænum. Væntanlega réð miklu að gott væri að grafa fyrir húsgrunnum. Mýrlendi var skilið eftir. Þannig eru eldri hverfi frá eftirstríðsárunum í Teigum, Laugarásholti, Sundum, Vogum, Gerðum, en á milli þessara hverfa voru heilmikil landflæmi, sem svo hægt og rólega voru numin. Þannig var t.d. Kringlan ekki fullbyggð fyrr en 1987. Allt svæðið sem fer undir hana, Borgarleikhúsið, Versló, Ofanleiti, Útvarpshúsgímaldið, var bara mýri og móar, fyrir innan við 30 árum. Nánast í miðri borginni.

Enn er verið að fylla uppí vannýtt svæði í borgarlandslaginu. Blokkirnar allar meðfram Skúlagötu eru innan við 20 ára og enn eru þar óbyggð flæmi. Stórt hverfi hefur risið á síðustu árum í túnunum (Sóltún), bakvið Borgartún og vestan Kringlumýrarbrautar, og það svæði er ekki klárað.

Svo fram á þennan dag virðist hafa verið nóg byggingarland miðsvæðis í Reykjavík.

Þess vegna á ég bágt með að skilja þann málflutning að ekki sé pláss fyrir flugvöll í Reykjavik.

Það hefur hingað til verið meira en nóg pláss í Reykjavík undir byggð. Meira að segja allt í kringum flugvöllinn. Þar var reistur heill háskóli (HR) fyrir fáum árum. Og HÍ virðist hafa meira en nóg pláss til að stækka, t.d. er mjög rúmt um Öskju, og stúdentagörðum hefur jafnt og þétt fjölgað, nú síðast er verið að byggja veglegar byggingar við Oddagötu. Íslensk erfðagreining byggði stórt og glæslegt hús á háskólasvæðinu fyrir um áratug.

Marga dreymir um að sjá nýtt og öðruvísi hverfi rísa í Vatnsmýri. Með þéttri byggð og miðbæjarbrag. Ég er efins. Af hverju er ekki fyrst prófað slíkt skipulag annars staðar, þar sem ekki þarf að fórna flugvelli? 

Ég sé ekki að þau rök haldi að það vanti pláss í Reykjavík, og að þess vegna eigi að leggja niður flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.


Aðgengi

Átti erindi síðasta föstudag í verslun Símans í Kringlunni. Kom á bílnum á leið úr vinnu og lagði í drungalegu bílastæðahúsinu. Tók mig svo ca. 3-4 mínútur að labba frá bílnum að næsta inngangi, framhjá nokkrum búðum, upp rúllustigann, framhjá fleiri búðum og að búð símans.

Þetta er mjög svipaður tími og tekur venjulega að fara frá bílnum og að búð á Laugavegi. Þá finn ég yfirleitt bílastæði á Hverfisgötu, en frá Hverfisgötu og uppá Laugaveg er svona álíka langt og frá Jack&Jones í Kringlunni og í búð Símans. Með öðrum orðum mjööög stutt.

Skil ekki þetta meinta vandamál.

Þegar Laugavegur hefur verið opinn fyrir bílaumferð hef ég sjaldan keyrt þar niður um miðjan dag þegar verslanir eru opnar. Umferðin gengur of hægt og flest bílastæði eru alltaf full. Auðvelt er hins vegar að finna stæði á Hverfisgötu eða Skúlagötu. A.m.k. þegar ég á erindi á Laugaveg.

Strikið í Kaupmannahöfn var gert að göngugötu 1962, í tilraunaskyni. Sjálfsagt voru einhverjir búðaeigendur mótfallnir því.


mbl.is Opið fyrir umferð á Laugaveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig eru kirkjuheimsóknir í Hafnarfirði?

Af því Hafnarfjarðarklerkur fussar og sveiar hér yfir reglum Reykjavíkurborgar um heimsóknir skólanemenda með skólum sínum í kirkjur og aðra helgistaði trúfélaga er rétt að spyrja:

Hvernig fara slíkar heimsóknir fram í Hafnarfirði? Eru nemendurnir látnir spenna greipar og biðja til Guðs almáttugs?


mbl.is Bannað að fara með faðirvorið á aðventu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýst lýðræði?

Hvernig væri, í komandi þjóðaratkvæðagreiðslum um svona flókin mál, að á kjöseðlinum væri höfð með ein eða fleiri einfaldar spurningar, til að kanna hvort kjósandinn skilji málið sem um er kosið.

Ein spurning á kjörseðlinum í gær hefði geta verið:

Veist þú hvernig Íslendingar tryggðu íslenskar innstæður 100% þegar Landsbankinn féll?

a)  Þær voru tryggðar af því Geir Haarde sagði það.

b) Þær voru ekki tryggðar, það stendur ekki í Neyðarlögunum.

c) Þær voru tryggðar með skattpeningum úr ríkssjóði.

d) Þær voru tryggðar með því að færa peningalegar eignir út úr þrotabúi gamla Landsbankans yfir í nýja Landsbankann.

Aðeins þeir kjörseðlar sem gæfu rétt svar væru teknir gildir. Þá held ég að niðurstaðan hefði orðið önnur. Ég er þess fullviss að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu Nei í gær hafi ekki skilið ýmis grundvallaratriði málsins.

 

PS  Rétt svar er (d), innistæður Íslendinga voru tryggðar, með því að eignir voru teknar úr þrotabúinu til að dekka innistæðurnar. Sem þýðir að það er minna til skiptanna fyrir aðra kröfuhafa, svo sem Icesave innistæðueigendur. 

Óli og Dabbi

Til hamingju með sigurinn, Davíð Oddsson! 


mbl.is Afgerandi nei við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband