Færsluflokkur: Dægurmál

Hvað eiga kirkjan, KR, Oddfellow og Flugfreyjufélagið sameiginlegt?

Í sjálfu sér ekki neitt. En frá mínum sjónarhóli séð eiga öll þessi félög þó það sameiginlegt að ég er ekki félagi í þeim. Það þýðir ekki að ég sé neitt á móti þeim, síður en svo, ég bara á ekki samleið með þeim af ýmsum ástæðum og þarf auðvitað ekkert að afsaka það, frekar en að ég þurfi að skýra af hverju ég er ekki í ballett eða frímerkjaklúbbi. Ég held meira að segja að þetta séu allt góð og gegn félög sem vinna gott starf. En sem sagt, ég er ekki félagi í þeim og borga þ.a.l. ekki til þeirra félagsgjöld. Nema til kirkjunnar. Ríkið innheimtir af mér safnaðargjald þó svo ég sé ekki í neinum kirkjusöfnuði. Dálítið spes. Safnaðargjaldið mitt rennur beint í ríkissjóð, sem m.a. borgar laun biskups. Ég hefði frekar kosið að þetta félagsgjald gengi til félags sem ég sjálfur kýs að vera félagi í, svo sem til kórsins míns, RKÍ, Amnesty, Ferðafélagsins, eða annars félags, af þeim sem ég er félagi í og greiði gjöld til. En svona er þetta.

Má ekki fara að breyta þessu?


Yfirlýsing vegna fjölmiðlaumræðu

Vegna skipunar minnar sem Umboðsmaður heiðvirðra bloggara er rétt að taka fram eftirfarandi, í kjölfar fjölmiðlaumræðu:

Fyrirtækið ”Ég vil líka græða! ehf.” sem var í 75% eigu fyrirtækis míns “Áhættulaus fjárfesting ehf.” og 25% í eigu fyrirtækisins ”Með buxurnar á hælunum ehf.” sem var framselt til ungs háskólanema vegna veðmáls, var í lok árs 2008 selt til fyrirtækisins “Pabbi gerði bara eins og allir aðrir ehf.” sem var í eigu barna minna en hefur síðan verið afskráð.

500 milljón króna skuld fyrrnefnds fyrirtækis vegna ógreidds kúluláns sem notað var til hlutabréfakaupa með veði í engu nema bréfunum sjálfum er því mér algjörlega óviðkomandi.

Virðingarfyllst...


Mín Reykjavík

Eins og vanalega náði ég ekki að sjá nema lítinn hluta alls þess sem ég hafði krossað við og prentað út á lista mínum yfir atburði Menningarnætur. Skemmti mér þó prýðilega og sá og upplifði heilmargt. Einhvern veginn fannst mér borgin öll í góðu skapi.

Dagurinn byrjaði á því að við kona mín röltum í regnstökkum út að Kirkjusandi til að hvetja áfram hlaupara og klappa fyrir þeim. Ég hef tekið þátt sjálfur nokkrum sinnum og veit hvað það er gaman og gefur mikið að fá hvatningarorð áhorfenda og það stóð heima, þau sem við kölluðum eftir og klöppuðum fyrir brostu út að eyrum og veifuðu tilbaka. Ég mæli eindregið með þessu fyrir þá sem ekki vilja eða geta hlaupið með sjálfir! Við misstum af þeim fljótustu en fylgdumst með töluvert hálfmaraþonhlaupurum á meðaltempói. Viðskiptaráðherrann Gylfi Magnússon var einn þeirra sem fór framhjá, ég þekki hann ekki persónulega en var feykilega ánægður með að fá hann í ríkisstjórn í janúar og hvatti opinberlega til þess hér á þessari síðu og Facebook vefnum að hann yrði áfram í stjórn eftir kosningar.

Um hádegisbilið var farið á kóræfingu en kórinn minn Söngsveitin Fílharmónía steig fyrstur á svið við gafl Söngskólans og ræsti mikla söngskemmtun sem þar var haldin nú í þriðja sinn á Menningarnótt, með fjölda kóra og milli atriða stjórnaði Garðar Cortes fjöldasöng áheyrenda.

Við röltum svo yfir í Utanríkisráðuneyti þar sem ég heilsaði upp á góða vinkonu og fyrrum skólasystur sem var að segja frá og kynna störf ráðuneytisins á sviði kynningarmála og fjölmiðlatengsla. Fyrr en varði vorum við svo komin inn á skrifstofu ráðherra þar sem Össur sjálfur tók á móti okkur. Ég var óviðbúinn þessu skyndilega "ráðherraviðtali" og sagði mest lítið, fannst  ég ætti að segja eitthvað mjög merkilegt um öll þau stóru og miklu mál sem ráðherrann þarf að glíma við og ég rausa stundum um hér fyrst þetta tækifæri gafst. Hann lék þó á alls oddi, gaf okkur konfekt, sýndi gestum forláta útskorna taflmenn og leyfðu yngismeyjum tveimur að prufa ráðherrastólinn.

Við þræddum svo Grettisgötuna, þar sem gömul og falleg hús voru kynnt og komum upp á Skólavörðustíg. Þar fórum við á fallega málverkasýningu hjá vinkonu og fyrrum kórfélaga Margréti Brynjólfsdóttur en skömmu seinna hófust þar ljúfir og skemmtilegir tónleikar söngkonu, píanista og sellista. Þetta voru þau Sólveig Unnur, Hilmar Örn og Victoria og fór þetta fram í penni stofu í heimahúsi og bauð húsfreyjan gestum og gangandi kaffi og hafði fyrr um daginn borið fram stafla af vöfflum.

Tónleikar á Skólavörðustíg 25 á Menningarnótt

Tónleikar á Skólavörðustíg og myndlistarsýning Margrétar.

Úti fyrir á Skólavörðustígnum var margt um manninn, fjölmargir sem ég þekkti, gamlir skólafélagar og nágrannar, fólk sem ég unnið fyrir í starfi mínu og fólk tengt mér ýmsum fjölskyldu- og vinaböndum. Niðri á Laugaveg rakst ég fyrir einskæra tilviljun á góðan vin sem er búsettur í útlöndum og gátum við sest og spjallað í portinu við Lækjarbrekku.

Eftir stutt hlé þar sem farið var heim og snætt og bætt á nokkrum lögum af hlýjum fötum var haldið aftur út. Við fórum í Dómkirkjuna og hlýddum á hreint út sagt frábæra tónleika fjögurra ungra og hæfileikra söngvara og píanista, sungu óperuaríur og söngleikjaperlur af mikilli list og með heilmiklum leikrænum tilþrifum! (Takk fyrir mig, Hallveig, Gissur Páll, Sólveig, Jón Svavar og Hrönn!) 

Við héldum út í myrkrið og á Ingólfstorg og hlýddum á Hjaltalín og Hjálma. Torgið fullt af fólki og skemmtileg og glaðvær stemmning. Um meter aftan við mig stóð formaður fjárlaganefndar og naut tónlistarinnar sem barst frá sviðinu. Sá þar lögreglustjórann Stefán Eiríksson á vaktinni með tveimur lögregluþjónum. Stefáni kynntist ég í menntaskóla þegar leiðir okkar lágu saman í málfundafélaginu. Hann var einn af skærum stjörnum sigursæls ræðuliðs MH en ég hélt mig meira bakvið tjöldin í stjórn málfundafélagsins. Mér finnst virkilega flott af Stefáni að taka virkan þátt í störfum lögregluliðsins og ganga vaktir úti á götu meðal fólksins. Hann fær prik fyrir það!

Flugeldasýningin setti lokapunktinn á skemmtilegan og vel heppnaðan dag. Flott að vanda, gaman að heyra þúsundir fólks á öllum aldri breytast í hrifnæm börn og stara hugfangin á litadýrð þessarar ævagömlu efnafræði og segja Váááá í kór! Um 100.000 manns voru víst í bænum um þetta leyti eða tæplega þriðjungur allra landsmanna. Má geta þess, fyrir þá sem sjá á eftir peningum sem fara í flugelda sem fuðra upp, að sú fína skemmtun kostaði nú ekki nema 25 krónur á hvern haus sem á horfði.

Þetta var góður dagur. Ég var stoltur af borginni minni og glaður að sjá hversu margir eru tilbúnir að leggja á sig svo aðrir geta notið. Á svona degi hittast ráðherrar, þingmenn, skólakrakkar og popparar og heilsast og skemmta sér saman og ýta til hliðar áhyggjum og erli dagsins. Þrátt fyrir það hvað við erum ófullkomin, óþolinmóð og amatörar í svo mörgu og að hér er allt í skralli og er þetta mitt galna samfélag. Hér vil ég búa áfram, en ekki stinga af til Noregs eða annað útí heim og fara á nýjan byrjunarreit, fjarri vinum, kunnuglegum andlitum og götum. Ég vona innilega að sem fæstum finnist þau tilneydd að hverfa á brott.

Ég vil leyfa mér að vona að með svona jákvæðu hugarfari og samstöðu á öllum dögum, eins og við sýndum á laugardag, hljótum við að komast í gegnum hremmingarnar framundan.


Hvar fæst Grolsch léttöl??

Grolsch léttölHlustaði á skemmtilegan þátt á Rás 2 Ríkisútvarpsins í hringferð minni um landinu, Litlu hafmeyjuna. Endurtekið var kynnt að þátturinn er í boði Grolsch léttöls. Það er þakkarvert, annars væri væntanlega bara þögn í útvarpinu ef ekki kæmi til gæska ölsalans.

Í þakklætisskyni langaði mig að kaupa þetta góða léttöl sem býður upp á útvarpsþáttinn, en ég hef hvergi komið auga á það í búðum. Vita einhverjir blogglesendur hvar kaupa má Grolsch léttöl?  (Samkvæmt heildsala er það flutt inn.)

Kannski kaupi ég bara áfengan Grolsch bjór í staðinn, þó svo það hafi ábyggilega ekki verið meiningin með kostun þáttanna í ríkisfjölmiðlinum, enda með öllu óheimilt að auglýsa áfengi í útvarpi. 

Ekki færi ríkisfjölmiðillinn að fara í kringum þau lög, allra síst í þætti sem virðist beint til unglinga??


Uppfinningamaðurinn Michael Jackson

Listamaðurinn og skemmtikrafturinn Michael Jackson lést langt fyrir aldur fram í liðinni viku. Aðrir munu rifja upp hans merka tónlistarferil og á köflum ansi dapurlega líf. Ljóst er að Michael var hæfileikaríkur og lagði sig fram í starfi sínu og var geysimikill fagmaður.

Fáir vita að Michael Jackson er skráður uppfinningamaður á bandarísku einkaleyfi. Einkaleyfið er númer 5,255,452 og var útgefið 1993 og verndar uppfinningu sem Jackson er einn þriggja uppfinningamanna að, nánar tiltekið sérstaka skó sem hægt er að krækja í gólf til að halla sér framfyrir sig.  Á netinu er vísað til einkaleyfisins af einkaleyfanördum sem "Moonwalking" einkaleyfi Michael Jacksons. En eins og aðdáendur poppstjörnunnar sálugu vita er tungldansinn allt annar hlutur og þarf enga slíka töfraskó í slíkt. Uppfinningin var hins vegar örugglega notuð í myndbandinu við lagið "Smooth Criminal".

 

Einkaleyfið er ekki lengur í gildi enda ólíklegt að þessir skór hafi verið fjöldaframleiddir. Eins og sést á neðangreindum myndum úr einkaleyfinu er uppfinningin sára einföld, rauf í hæl skónna getur krækst í nagla eða tappa í gólfi, sem þarf að vera búið að koma fyrir á sviðinu þar sem nota á skónna.

Einkaleyfið má skoða í heild sinni á aðgengilegum einkaleyfavef Goggle.

Einkaleyfi Michael Jackson

jackson2.jpg

jackson1.jpg

jackson3.jpg

 


Ekki missa af þessu! - Þrusu 'sánd' á lokaæfingu

Bach+Mozart_250Generalæfing var í morgun, laugardag, fyrir tónleikana sem verða á morgun sunnudag og miðvikudag, í Langholtskirkju kl 20 báða daga.

Þetta er eitthvað sem unnendur stórra kórverka mega ekki að láta fram hjá sér fara, en líka þeir sem lítið þekkja klassíska tónlist munu njóta þess að kynnast voldugum og tilfinningaríkum tónaheimi þessara mögnuðu meistara!

85 manna gæðakór í fantaformi, 28 manna hljómsveit með fólki úr fremstu röðum og fjórir einvala einsöngvarar af ungu kynslóðinni. Sjá nánari upplýsingar í fyrri færslu. og á heimasíðu kórsins.

Bach-Mozart


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband