Færsluflokkur: Ferðalög
22.9.2013 | 16:00
Flugvöllur - nr. 2: Hvað með Bessastaðanes??
Ítarleg og vönduð skýrsla var gefin úr af Samgönguráðuneyti og Reykjavíkurborg í apríl 2007 um mögulega framtíð Reykjavíkurflugvallar. Að baki hennar liggur mikil vinna og margir sem komu að gerða hennar. Ég hvet þá sem vilja ræða þetta mál að lesa skýrsluna gaumgæfilega. Það er oft svo í samfélagsumræðunni, að menn tala og tala og mynda sér mjög eindregnar skoðanir, en hafa ekki fyrir því að kynna sér ítarlegar upplýsingar um málið.
Í skýrslunni er reynt að skoða efnahagsleg áhrif ýmissa möguleika, en þeir helstu eru: óbreyttur flugvöllur í Vatnsmýri, minni flugvöllur í Vatnsmýri, flugvöllur á Lönguskerjum, flugvöllur á Hólmsheiði, eða að innanlandsflug flytjist frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur.
Við vinnslu skýrslunnar var ekki búið að ljúka ítarlegri úttekt á veðurfari á Hólmsheiði, en það er þó gert ráð fyrir því að nýting flugvallar á heiðinni yrði lakari en í Vatnsmýri. Mér sjálfum hefur sýnst að flugvölllur á Hólmsheiði sé í rauninni ekki alvöru valkostur, og varla heldur á Lönguskerjum.
Það eru einnig nefndur til sögunnar ýmsir aðrir valkostir, sem hafa komist í umræðuna á einhverjum tímapunkti, m.a. flugvöllur á Bessastaðanesi. Það kemur raunar fram að flugvallarstæði á Bessastaðanesi fær góða einkunn.
Í forsendum skýrsluhöfunda kemur fram að Löngusker og Hólmsheiði eru taldir einu staðirnir í nágrenni Reykjavíkur sem hafa nægt rými fyrir "alhliða flugvöll", en Bessastaðanes er aðeins talið rýma "lágmarksflugvöll fyrir innanlandsflug" (Sjá skýrslu, bls. 43-44).
Mér kemur það spánskt fyrir sjónir að lesa að aðeins sé pláss fyrir "lágmarksflugvöll" á Bessastaðnesi, en "alhliða flugvöll" á Lönguskerjum, úti í sjó! Ef hægt er að gera uppfyllingar undir flugvöll á Lönguskerjum (sem myndi reyndar kosta mjög mikið, tugi milljarða, og hafa mikil umhverfisáhrif) er þá ekki líka hægt að gera minni uppfyllingar við Bessastaðanes, til að koma slíkum flugvelli fyrir þar?
Ég er líka nokkuð viss að ýmsar forsendur frá árunum 2006-2007 hafa breyst. Þegar skýrsluhöfundar teikna upp "alhliða flugvöll" er gert ráð fyrir umtalsverðri aðstöðu fyrir einkaflug, flugkennslu, og "viðsiptaflugi". Allt hefur þetta minnkað verulega (m.a. vegna breytts efahags og miklu hærri eldsneytisverðs) og, það sem meiru máli skiptir, mikið af þessu má að skaðlausu vera í Keflavík! Viðskiptaflug á væntanlega við einkaþotur, sem eru mun sjaldséðari nú en á árunum 2006-2007.
Er raunhæfur möguleiki að byggja innanlandsflugvöll á Bessastaðanesi, sem myndi fullægja þörfum innanlandsflugs næstu 100 ár og skapa ásættanlega málamiðlun - gefa Reykjavík möguleika á að stækka og auka verulega byggð nálægt miðbænum, en allir landsmenn hefðu hag af því - og viðhalda góðum flugsamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgar svæðis?
Hér er ein útfærsla (héðan), einföld teikning þar sem flugbrautum núverandi Reykjavíkurflugvölls er komið fyrir á Bessastaðanesi. Flugbrautirnar þurfa hins vegar ekki að vera þrjár og og þurfa ekki ða hafa þessa afstöðu hver til annarrar, þannig má hæglega koma tveimur flugbrautum betur fyrir, en myndin sýnir.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.4.2011 | 09:19
NEI þýðir að Ísland verður fátækara
Hvað þýðir það ef NEI verður ofan á?
Ísland verður fátækara. Og leiðinlegra. Og einangraðra.
Við munum eyða dýrmætri orku í þetta mál næstu árin, orku sem gæti nýst í uppbyggingu og framfarir.
Það verður líklegra en ella, að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur tapist í hendur erlendra lánadrottna.
Ef NEI verður ofan á, þýðir það að meirihluti landsmanna hefur ekki skilið hvernig Nýi Landsbankinn var búinn til úr þeim gamla, hvernig innistæður Íslendinga voru teknar út úr þrotabúinu (ekki úr ríkissjóði!) þrotabúi sem sumir vilja svo láta Bretum og Hollendingum eftir, þegar við erum búin að taka það sem okkur hentar.
Nei þýðir stöðnun.
Nei þýðir að hér ríkir stjórnlagakreppa, Ísland er land sem ekki er hægt að semja við, því enginn veit hver ræður. Ekki er hægt að treysta loforðum og samþykktum lýðræðislega kjörins meirihluta Alþingis.
Nei þýðir afturför.
Ég segi JÁ - fyrir framtíðina. Fyrir Ísland. Fyrir samvinnu þjóða.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2011 | 13:09
Jan Dismas Zelenka
Dresden var um aldir höfuðborg Saxlands og mikil menningarmiðstöð. Borgin skartaði einstaklega glæsilegum borgarkjarna í barokk- og rokkokóstíl, þar sátu kjörfurstar og síðar konungar Saxlands sem studdu dyggilega við menningarlíf borgarinnar. Frá tímum Ágústusar I kjörfursta höfðu laðast til borgarinnar framúrskarandi tónlistarmenn, arkitektar og málarar og borgin var miðstöð æðri menntunar og verkfræði auk lista.
Þangað kom Jan Zelenka, um það bil þrítugur að aldri, sem bassaleikari við konunglegu hljómsveit borgarinnar. Hann var fæddur og uppalinn í litlu sveitaþorpi í Bæheimi, Louňovice (nú í Tékklandi), sonur organista og skólameistara. Lítið er vitað um æsku hans, en ætlað er að hann hafi numið tónlist í Jesúítaskóla í Prag fyrir komuna til Dresden. Í Dresden var hann í háborg tónlistar þessa tíma. Þar starfaði ein allra fremsta hljómsveit Evrópu, tónlist gerjaðist og þaðan bárust um álfuna straumar og stefnur. Zelenka ávann sér virðingu, hann aðstoðaði um árabil hoftónlistarstjórann, en hlaut sjálfur ekki þá stöðu. Hins vegar var hann skipaður kirkjutónlistarstjóri hirðarinnar 1735. Johann Sebastian Bach var skipaður í sömu stöðu ári síðar við hlið Zelenka, Bach og hann þekktust og var Zelenka eitt af uppáhaldstónskáldum Bach. Sjálfur bjó Bach í Leipzig, sem ekki er langt frá Dresden og var einnig í ríki Saxlandskonungs. Aðdáendur Bach ættu hiklaust að kynna sér verk Zelenka, sem gefa þeim ríkari sýn í tónlistararf þessa tíma.
Zelenka kvæntist ekki og lítið vitað um hans persónulega líf. Tónlist hans er fyrst og fremst kirkjuleg og hann hefur verið trúaður. Hann var skírður millinafni guðspjallamanns, Lúkas, en tók sjálfur upp þess í stað nafnið Dismas. Dismas er óvenjulegt biblíunafn en það nafn er í síðari tíma guðspjöllum gefið öðrum ræningjanna tveggja sem dæmdir voru og krossfestir með Jesú. Barrabas var hinn, en Dismas var sá sem iðraðist. Engar heimildir höfum við fyrir því af hverju Jan Lukas tók þessa óvenjulegu ákvörðun. Engin mynd er heldur varðveitt af tónskáldinu, svo vitað sé. Trúarvissu tónskáldsins má skynja í tónlist hans. Eitt sitt stærsta og glæsilegasta verk, Missa Votiva, samdi hann 1739, eftir áralöng erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem þau bæði bera vitni hverfulleika lífs og í verkunum báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið. Það er meira sem er heillandi við tónlist Zelenka, hún líkist vissulega á margan hátt verkum samtímamannanna Bach og Handel, en er samt öðruvísi og sérstök, annar hrynjandi, sem kannski endurspeglar tékkneska upprunan, ekki sams konar formfesta og hjá þýsku meisturunum en tónmálið svo einstaklega ljóðrænt og hrífandi. Ýmsir lýsa því sem svo að hann noti tónmyndir af svipaðri sköpunar- og frásagnargleði eins og synfónisk tónskáld löngu síðar. Zelenka lést 1745, 66 ára að aldri. Hann hafði á seinustu árum sínum, sem betur fer, safnað saman og skipulagt nótnasafn sitt, sem var varðveitt tryggilega eftir hans daga. Einum of tryggilega næstum því, því fáir komust til að skoða verkin næstu 200 árin. Á seinustu árum hafa menn uppgötvað þennan fjársjóð og heillast af meistaraverkum Jan Zelenka. Eitt það glæsilegasta, áðurnefnd Missa Votiva, verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi næsta sunnudag 20. mars og miðvikudag 23. mars í Fella- og Hólakirkju, af Söngsveitinni Fílharmóníu og Bachsveitinni í Skálholti. Komið með í tímaferðalag og kynnist af eigin raun verðskulduðum meistara!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2011 | 19:58
Ýkjufrétt af einstæðum atburði
Meira HÉR
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 09:25
Óhætt að kaupa miða með ÍE langt fram í tímann?
Vinur minn einn frá Svíþjóð kemur hingað um miðjan september. Eins og Svíum er lagið er hann mjög tímanlega að skipuleggja og ganga frá ferðinni, og veltir fyrir sér að koma með Iceland Express. Þeir bjóði ódýrustu miðana.
Hvað mynduð þið segja? Þorir maður að mæla með kaupum á miðum með ÍE þrjá mánuði fram í tímann?
NTH á leiðinni í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.6.2009 | 21:17
Á sama bekk
Þessi borgarbúi Washington var ekki alveg viss hvort hann vildi leyfa mér að deila bekknum með sér, en lét mig svo afskiptan. Þetta var skammt fyrir aftan Hvíta húsið, kannski var hann í leynilegri nagdýradeild öryggisgæslu Bandaríkjaforseta.
Ferðalög | Breytt 14.6.2009 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2009 | 21:05
Hugleiðingar frá höfuðborg
Er staddur vestanhafs, í Washington, á fundið með fjölmörgum kollegum hvaðan æva úr heiminum. Margir spyrja hvernig okkur gangi á Íslandi. Hvorki þó með ásökun eða vorkunnsemi, fólk bara forvitið. Heimamenn sérstaklega hafa um nóg sín efnahagsmál að hugsa.Alltaf gaman að fá tækifæri ða hitta fólk utan úr heimi, hef rætt við fólk frá a.m.k. 20 löndum.
Hafði tíma til að skoða borgina síðastliðinn laugardag. Kom meðal annars að nýlega minnismerki um seinni heimsstyrjöldina, en þar voru þá staddir fjölmargar gamlar stríðskempur úr þeirri styrjöld, að minnast "D-dagsins", orrustunnar um Ermasund sem bar einmitt upp á þeim degi, 6. júní. Það var upplifun að fylgjast með þessum öldnu herrum. Þarna voru einnig yngri hermenn í nútíma herklæðum. Hvernig skyldum við minnast stríða sem þau heyja, eftir hálfa öld?
Fyrir utan Hvíta húsið voru mótmælendur, slíkt er víst daglegt brauð. Að þessu sinni fólk af tamílskum uppruna sem hefur áhyggjur af sinni þjóð. Skiljanlega, held ég. Alþjóðasamfélagið ætti að hafa vakandi auga með með ástandinu þar, til að raunverulegur friður geti skapast.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2009 | 13:24
Vopnaleit á komufarþegum á Leifsstöð
Kom fyrir fáeinum dögum úr stuttri Bandaríkjareisu, í fyrsta sinn í fjögur ár sem ég fer vestur um haf. ÞVí var það að ég kynntist því nú í fyrsta skipti að eftir að Ameríkufarþegar ganga frá borði þurfa þeir að fara í gegnum vopnaleit, á undan vegabréfaskoðuninni. Málmleitarhlið, skönnun á öllum handfarangri, af með föt, hald lagt á vatnsflöskur, með tilheyrandi biðröðum, töfum og leiðindum.
Hvers slags dómadags vitleysa er þetta? Ég var frekar úrillur eftir flugið, gat ekkert sofið enda lítið hægt að halla sætum í nýju fínu flugvélunum. Þegar ég var beðinn um að taka af mér belti spurði ég starfsmanninn kurteislega hvernig stæði á þessu. "Við höfum nú gert þetta í mörg ár", svaraði hann, en bætti svo við: "Æ, það verður blöndun á farþegum og eitthvað svona rugl". (Man þetta ekki alveg nákvæmlega, en þetta var svona efnislega það sem hann sagði.)
Blöndun á hvaða farþegum? Það eru ENGIR farþegar á þessu svæði flugstöðvarinnar sem ekki hafa þegar farið í gegnum vopnaleit einu sinni hið minnsta.
Af hverju þarf fólk að þola svona vita tilgangslausa vitleysu? Ef meiningin er að skapa atvinnu er nær að borga öryggisvörðunum fyrir að gera eitthvað gagnlegt, eða jafnvel bara fyrir að lesa góðar bækur og drekka kaffi, en ekki fyrir að gera beinlínis ógagn.
Afturför í flugsamgöngum
Kannski þetta sé framtíðin?
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2009 | 11:49
Lítil saga úr kosningum - mikið lagt á sig til að kjósa
Kosningadagur er ávallt stór dagur. Hver kjósandi hefur jafn mikið að segja , Bjarni, Jóhanna, Steingrímur og öll þau hin eru bara eitt atkvæði hvert, venjulegir kjósendur rétt eins og við hin.
Á námsárunum erlendis reyndum við námsmennirnir oft að koma atkvæðum okkartil skila og fá að vera með, en það gat verið örðugt uppi í miðju New York ríki ("Upstate" New york, eins og sagt er), langt frá næsta ræðismanni. Sumir skipulögðu heimsóknir til vinafólks í stórborgunum vikurnar fyrir kosningar, og slógu þannig tvær flugur í einu höggi.
Fyrir kosningarnar '99 vorum við nokkrir félagarnir í Íþöku sem endilega vildum vera með og kjósa. Ég var að ljúka námi og á heimleið aðeins fáeinum mánuðum síðar og skiljanlega farinn að hafa meiri áhuga á þjóðmálunum heima. Netmiðlar voru komnir til sögunnar, en langt í frá eins öflugir og nú, t.d. var ekki hægt að fylgjast með sjónvarpskappræðum á netinu. Námsbærinn Íþaka hafði þó þann kost umfram marga aðra staði, aðallega vegna Fiske safnsins fræga, að þangað kom Morgunblaðið aðeins nokkurra daga gamalt, það þótti mikill lúxus þegar ég fyrst kom á staðinn 1994! Alþingi var þó komið með fína heimasíðu og man ég eftir að hafa setið nokkur kvöld og lesið þingræður til að kynna mér betur störf og skoðanir þingmanna og flokka.
En þarna um vorið '99 hafði einn okkar haft samband við ræðismann Íslands í Pennsylvaníu til að forvitnast um utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Við vorum á báðum áttum, því um fjögurra tíma akstur var að ræðismannaskrifstofunni. Ræðismaðurinn tók hins vegar svo vel í erindi okkar að hann bauðst til að koma og mæta okkur á miðri leið. Og það varð úr að við hittum ræðismanninn á Holiday Inn hóteli á tilteknu 'Exit' á hraðbrautinni suður frá Binghampton til Pennsylvaníu, sem var ekki nema rúma tvo tíma frá okkur! Þarna var settur upp bráðabirgðakjörstaður og eftir kosninguna drukkið kaffi með ræðismanninum. Hann hafði brennandi áhuga á Íslandi og naut þess að spjalla við okkur og ræða hugmyndir sínar um að flest orð á ensku væru upprunnin úr íslensku (sem málvísindaneminn og forníslenskukennarinn í hópnum hlustaði á af kurteisi!), innflutning á íslensku vatni og margt fleira.
Tímanum var alls ekki illa varið á leiðinni, á suðurleiðinni var mikið skeggrætt um pólitík og þá flokka sem voru í boði, kosti þeirra og galla og reyndu ýmsir farþegar að sannfæra þá sem enn voru í einhverjum vafa. Heimleiðin var rólegri, en enginn okkar sá eftir þessum fjögurra tíma bíltúr um fögur skógarhéröð á Toyotunni minni gömlu sem rúllað hafði 130 þúsund mílur þegar þarna var komið.
----- ooo -----
Nýtum þennan dýrmæta lýðræðislega rétt okkar. Hvert atkvæði skiptir máli. Um það má lesa t.d. í þessari færslu frá Marinó: Reynslan frá 2007: Hvert atkvæði skiptir máli.
Mynd af hluta af háskólasvæði Cornell háskóla, í Íþöku í New york ríki.
Bjarni Ben kaus fyrstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 27.4.2009 kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2009 | 17:12
Draumalandið mitt
Sá Draumalandið fyrir skemmstu. Mögnuð ádeila. Rifjaði upp dýrmætar minningar úr ferð minni á virkjunarsvæði Kárahnjúka sumarið 2006. Við ferðafélagarnir gáfum okkur góðan tíma til að skoða svæðið, gistum tvær nætur í bændagistingu í Hrafnkelsdal og höfðum þannig heilan dag til að fara um, bæði keyrandi og gangandi, og kynnast með eigin augum þessum tröllauknu framkvæmdum og ekki síst svæðinu sem fórnað var.
Fyrst lá leiðin að virkjunarsvæðinu. Mannvirkin voru á sama tíma heillandi og ógnvænleg. Þetta er óumdeilanlega verkfræðilegt stórvirki, manngert landslag í sjálfu sér.
Þetta var um verslunarmannahelgi og fjöldi fólks lagði leið sína á svæðið, en flestir létu sér nægja að stoppa á útsýnisstæði sem útbúið var austan við stífluna, en þar voru upplýsingaskilti og sást vel yfir nyrsta hluta svæðisins sem átti eftir að verða lónið.
En við höfðum meiri áhuga á svæðinu sunnar, nær jöklinum, svæðinu sem ekki sást frá útsýnisstæðinu. Við keyrðum aftur yfir brúnna frægu (þá sem hafði farið á bólakaf dagana áður) og héldum suður eftir grófum slóða. Lögðum svo og gengum í átt að Kringilsánni, en við vildum sjá Kringilsárfoss, sem einnig var nefndur Töfrafoss, og jafnvel komast yfir í Kringilsárrana.
Þetta var sérstök tilfinning að upplifa svæðið. Hátt uppi, nálægt jökulrönd Vatnajökuls í þvílíkri gróðursæld, sól og bliðskaparveðri. Vitandi að þetta land átti eftir að hverfa. Land, sem sumir stjórnmálamenn létu hafa eftir sér að væri nú "ekkert sérstakt", eins og rifjað er upp í kvikmyndinni.
Á leið okkar í leit að Kringilsárfossi. Þetta land er nú undir Hálslóni.
Við fundum fossinn og áðum. Þetta var tilkomumikill foss og allt landlagið um kring. Eitt sem vakti athygli var hvað gróðurinn í fossúðanum var grálitaður, en fossinn úðaði fíngerðum leirúða yfir lyngið, sem sýndi þvílíkt magn af aur berst með jökulsánum og fyllir nú hægt og rólega botn lónsins.
Kringilsá neðan við Töfrafoss. Horfið.
Við gengum niður með ánni, að kláfnum yfir í Kringilsárrana, sem hagleiksmaðurinn Guðmundur á Vaði setti upp, vitandi að hann myndi aðeins gagnast í fáein ár, en nú er hann á 50-75 metra dýpi að ég hygg (fer eftir árstíð og yfirborðshæð lónsins).
Þetta var ógleymanleg ferð og sérstök tilfinning að ganga um land sem yrði ekki til ári síðar, og er nú, tæpum þremur árum síðar, horfið. Var þessi fórn þess virði? (Fyrir umdeilanlegan ágóða, sem okkur tókst svo á síðasta ári að tapa margfalt í efnahagshruninu.) Mín skoðun var staðföst eftir þessa ferð og hefur ekki breyst.
Ég hvet alla til að sjá kvikmyndina Draumalandið og munum að baráttunni fyrir landinu okkar er langt í frá lokið.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)