Sluppum með skrekkinn

Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave málinu kom mörgum Íslendingum þægilega á óvart. Fyrirfram þorðu fáir að spá fyrir um útkomuna. Voru sumir farnir að undirbúa sig undir það að málið myndi tapast, eins og Forseti Íslands. Hann talaði um það í útlöndum að þetta væri ekki bindandi dómstóll og að dómurinn yrði bara ráðgefandi álit. Þetta hafa þó fræðimenn staðfest að var misskilningur Forseta eða vísvitandi rangfærslur.

Ég hef skrifað ófáa pistla um Icesave síðustu 3-4 ár. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa frekar hallast að því að um þetta mál ætti að semja. Eðlilega velti ég því fyrir mér hvort ég hafi haft rangt fyrir mér. En ég lít ekki þannig á. Þegar reynt er að meta líkur á ýmsum lögfræðilegum matskenndum atriðum skiptir ekki bara máli hvort sagt er 'Já, ég held að þetta muni gerast' eða 'Nei, ég tel þetta ólíklegt', heldur skiptir yfirleitt ekki minna máli hvernig svona mat er rökstutt. Lögfræðiálit sem segir bara eða Nei er lítils virði.

Þegar ég lít tilbaka og rifja upp mín skrif um Icesave er ég prýðilega sáttur við þann rökstuðning. En það var eitt það sem helst  skorti í Icesave umræðunni, að fólk gerði sér grein fyrir því að gagnaðilar málsins höfðu ýmis rök sín megin. (Af ýmsum ástæðum gerðu íslensk stjórnvöld lítið af því að skýra slík rök og yfirhöfuð rökstyðja samningsleiðina, við áttum bara að treysta því að þau væru að velja skástu leiðina. Og það er varasamt, að treysta sjórnvöldum í blindni.)

Ég vil sérstaklega rifja upp síðasta pistil minn um Icesave (að ég held), frá 10. mars 2012. Þar reyni ég að útskýra að það hafi vissulega falist ákveðin mismunun í meðhöndlun innlánsreikninga við fall gamla Landsbankans - sumir voru fluttir yfir í nýja Landsbankann (með eignum á móti þessum skuldum bankans) en aðrir voru skildir eftir í gamla bankanum. Það er óumdeilt að það er ekki eins meðhöndlun, og kom sér verulega illa fyrir Icesave sparifjáreigendur, eða þar til stjórnvöld Bretlands og Hollands tilkynntu að þau myndu greiða út fulla tryggingu (bæði þá sem TIF átti að dekka og „Top-up“ tryggingu sem þarlendir sjóðir dekkuðu).

Eins og ég útskýri í pistlinum ársgamla má vissulega segja að þessi mismunun hafi verið óhjákvæmileg. Spurningin sem eftir stóð var hvort íslensk stjórnvöld myndu ekki þurfa að bæta hana upp að einhverju leyti. Segir EFTA-dómurinn að þetta hafi verið í lagi? Nei. Það er tekið fram í dómnum að akkúrat þessari spurningu sé ekki svarað, því sóknaraðili gerði ekki kröfu um að fá úr þessu skorið. Þetta segir í dómnum:

221 The applicant has limited the scope of its application by stating that “the present case does not concern whether Iceland was in breach of the prohibition of discrimination for not moving over the entirety of deposits of foreign Icesave depositors into ‘new Landsbanki’, as it did for domestic Landsbanki depositors.

The breach is constituted by the failure of the Icelandic Government to ensure that Icesave depositors in the Netherlands and the United Kingdom receive payment of the minimum amount of compensation provided for in the Directive ...”

Af einhverjum ástæðum sem við í sjálfu sér getum bara giskað á en vitum ekki kaus ESA að kæra ekki Ísland fyrir brot á EES samningnum vegna þessarar ástæðu, að Icesave innistæður voru ekki fluttar yfir í nýja bankann með sama hætti og innlendar innistæður.

Dómurinn minnist svo raunar aðeins frekar á þetta og gefur í skyn að þótt kæran um mismunun hefði verið orðuð öðruvísi þyrfti að taka tillit til að EES-aðildaríki hafi ríkulegt svigrúm til ákvarðana í tilviki kerfislægs áfalls og ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

227 For the sake of completeness, the Court adds that even if the third plea had been formulated differently, one would have to bear in mind that the EEA States enjoy a wide margin of discretion in making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis provided that certain circumstances are duly proven. This would have to be taken into consideration as a possible ground for justification.

Kannski vildi ESA einfaldlega ekki leggja út í vafasama óvissuferð sem myndi óneitanlega snúast mjög sértækt um efnahagsaðstæður í bankahruninu og strax eftir hrunið og hvort íslensk stjórnvöld hefðu mátt grípa til neyðarráðstafana og hvort slíkar ráðstafanir gengu of langt.

 

Núna eftirá getum við vissulega sagt að það kom sér vel fyrir okkur að ESA fór ekki þessa leið. Því við vitum ekki hver útkoman hefði verið úr slíkri krufningu fyrir EFTA-dómstólnum. (Nema Framsóknarmenn og Moggabloggarar.) Það má draga ýmsan lærdóm af þessu máli. Um það verður kannski fjallað síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Nákvæmlega! En núna þegar dómur liggur fyrir rís þjóðin upp, eins og henni hættir gjarnan til á slíkum stundum, og þykist öll Lilju kveðið hafa.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.2.2013 kl. 11:29

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Varðandi 4. grein EES, þá væri samt sem áður fróðlegt að sjá Dómstólinn hafna allri ábyrgð þar líka. þ.e.a.s. hvernig þeir færu að því og hvernig þeir myndu orða það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.2.2013 kl. 11:55

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Einar Karl, þú segir:

"Af einhverjum ástæðum [...] kaus ESA að kæra ekki Ísland fyrir brot á EES samningnum vegna þessarar ástæðu, að Icesave innistæður voru ekki fluttar yfir í nýja bankann með sama hætti og innlendar innistæður."

Þetta er reyndar athyglisvert atriði.
Hefði t.d. verið leyfilegt að færa erlendar Icesave-innstæður til Íslands og yfirfæra þær í krónur?  Hefði það hins vegar verið leyfilegt og framkvæmt þannig, vakna fleiri spurningar.

Gjaldeyrishöftin hefðu hugsanlega heft endurgreiðslur þessara inneigna - nema þá í krónum - og það sem verra er (fyrir Icesave-innstæðueigendur), að fullkominn jöfnuður hefði verið með íslenskum og erlendum; þ.e. að gengishrunið hefði rýrt þær allar jafnt.

Gæti verið að ESA hafi metið núverandi kjör Icesave betri en hinn kostinn?

Kolbrún Hilmars, 2.2.2013 kl. 12:51

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg mundi segja, að eins og dómsstólli leggur þetta upp þ.e. að hann viðurkennir (eðlilega) að samkv. 4. verði að menhöndla aðila á nákvæmlega sama hátt, að þá hlýtur að hafa verið nayðsynlegt að veita aðilum í B&H sömu meðferð og innlendum. Og hvaða meðferð hlutu innlendir? Jú, innstæður þeirra voru aðgengilegar samdægurs. þeir misstu aldrei aðgang að sínum innstæðum.

Ok. svo segir dómur:

,,one would have to bear in mind that the EEA States enjoy a wide margin of discretion in making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis provided that certain circumstances are duly proven. This would have to be taken into consideration as a possible ground for justification."

þeir segja þarna að nákvæmlega eins meðferð eigi ekki við í þessu tilfelli vegna íslenskra séraðstæðna. það er ekki hægt að skilja öðruvísi. þ.e. nákvæmlega eins meðferð er hát ákv. mati dómsstóls í þessu tilfelli.

Spurningin er bara hvernig nákvæmlega þeir myndu meta það.

Td. að ef fallist er á að aðstæður hafi verið með þeim hætti á Íslandi 2008 að eins meðferð hafi einfaldlega ekki verið kostur í stöðunni - að er þá brotið bara horfið um alla framtíð? þ.e. að mun dómurinn þá segja að Ísland þurfi ekkert að gera í framhaldinu af því að landið var í svo miklu rugli 2008?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.2.2013 kl. 13:08

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Og. ps. í framhaldi og samhliða þessu varðandi 4.grein, hlyti dómur líka að þurfa að horfa til hvernig eignum hins fallna banka var skipt milli kröfuhafa eða innstæðuegienda sem voru settir í forgang. (Svipð og Einar hefur oft bent á.)

Hvernig nákvæmlega var farið þessar eignir hins fallna banka er svo sér umræða. Td. varðandi þessar ,,ofteknu eignir" sem samið var um að Nýji Landsbankinn þyrfti að borga til baka. Og svo kom í ljós síðar að þeir þyrftu að borga meira og gott ef þetta var ekki komið í eitthvað 300 milljarða eða meira sem Ísland (Núji Landsbankinn) þarf að borga á næstu árum. Með vöxtum býst eg við.

Eða hvað? þarf Ísland nokkuð að borga það eða Nýji bankinn?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.2.2013 kl. 13:19

6 Smámynd: Einar Karl

Kolbrún veltir upp forvitnilegri "hypothetical" spurningu, hvort hefði mátt færa Icesave reikninga inn í Nýja Landsbankann og breyta þeim í krónur.

Það hefði þá skapað ansi margar viðbótar "snjóhengju"-krónur. Icelsave sparifjáreigendur hefðu jú mjög takmarkaðan áhuga á að eiga íslenskar krónur, þeir geta ekkert keypt fyrir þær í sínum heimaríkjum.

Einar Karl, 2.2.2013 kl. 15:39

7 Smámynd: Einar Karl

Ómar segir

... ef fallist er á að aðstæður hafi verið með þeim hætti á Íslandi 2008 að eins meðferð hafi einfaldlega ekki verið kostur í stöðunni - að er þá brotið bara horfið um alla framtíð? þ.e. að mun dómurinn þá segja að Ísland þurfi ekkert að gera í framhaldinu af því að landið var í svo miklu rugli 2008?

Akkúrat! Þetta er nefnilega stór spurning, og henni er ekki svarað í dómi EFTA-dómstólsins. Hvort Bretar og Hollendingar geti leitað til einhvers dómsvalds til að fá þeirri spurningu svarað skal ég ekki segja. Það er flókin lögfræðileg spurning og ég er ekki lögfræðimenntaður.

Auðvitað hefur það heilmikil áhrif á þetta mál allt núna að við vitum að búið skilar að mestu eða öllu leyti fé uppí forgangskröfur, það vissum við ekki 2008-2009 og það gerði málið erfiðara fyrir alla aðila.

Einar Karl, 2.2.2013 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband