1.1.2014 | 20:44
Nýársávarp Forseta 2014 - rýni
Eins og ég sagði frá í seinasta pistli hlýddi ég eins og fleiri á Forsetann. Nú hef ég lesið ávarpið yfir í rólegheitum og langar að fara yfir það og kryfja nokkur atriði.
1. Heimkoma handritanna var ávöxtur "órofa samstöðu þjóðarinnar"
Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp.
Hátíðarhöldin í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar áréttuðu að heimkoma handritanna var ávöxtur af órofa samstöðu þjóðarinnar, krafti sem gaf kjörnum fulltrúum og fræðasveit styrk til að sannfæra Dani
Nú er ég aðeins of ungur til að muna atburðarás handritamálsins svokallaða þar sem hápunkturinn var koma helstu höfuðhandrita okkar árið 1971. En er ekki ofsögum sagt að þetta mál hafi verið knúið áfram með samstöðu þjóðarinnar? Vissulega var þetta óumdeilt mál hér á landi, en ég hef nú frekar haldið að þetta hafi verið unnið og leyst af stjórnmálamönnum og duglegum diplómötum og að almenningur hafi ekki skipt sér mikið af þeim málarekstri. Þeir sem eldri eru geta staðfest hvort þetta sé rétt. Hér er yfirlitsgrein frá 1994.
2. Hornsteinar sjálfstæðisbaráttunnar byggðust á samstöðu þjóðarinnar
Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði.
Ég hef aðeins skoðað þetta í seinasta pistli. Þetta er orðum aukið og að hluta alrangt. Flókin og erfið mál verða sjaldnast leyst í einhverri allsherjar samstöðu. Vissulega getur ákveðin samstaða verið gagnleg, en hún er alls ekki forsenda framfara, hvorki í sjálfstæðisbaráttu né öðrum lýðræðisumbótum. Gagnrýnin umræða, skoðanaskipti og líflegur "debatt" er hornsteinn lýðræðis, ekki samstaða.
3. Þjóðarsáttarsamningarnir
Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar.
"Þjóðarsátt" var fyrst og fremst snjöll nafngift á tímamótasamningum samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnarinnar. Samningar þessir voru vissulega ávöxtur sáttar milli þessara aðila. Nafngiftin var svo snjallt "PR", í þeirri viðleitni að sannfæra þjóðina um gagn og nauðsyn þessa samninga.
4. Icesave - "eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur"
Við munum líka hvernig eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur í harðri deilu um Icesave; málstaður okkar reyndist að lokum hafa lögin með sér.
Ólafur Ragnar, sem virkur þátttakandandi í Icesave-slagnum, er ekki heppilegastur sem hlutlaus söguskýrandi þessa máls. Vissulega má segja að Ísland hafi, með forseta í fararbroddi, náð að virkja almenning á sérstakan og nokkuð sögulegan hátt í þessari refskák við Breta og Hollendinga, en öllum er í fersku minni að sérstaklega á seinni stigum var langt í frá einhver "þjóðarsátt" um þetta mál. Margir töldu - og telja jafnvel enn - að sú leið sem farin var í lokakafla sögunnar, að fara með málið fyrir dóm, hafi verið mjög áhættusöm. Og það var svo sannarlega ekki þjóðarvilji eða "samstaða" sem réð hagstæðri útkomu dómstólsins. Sú útkoma koma raunar mjög mörgum lögspekingum á óvart, jafnvel hörðum Icesave-"Nei"-sinnum.
5. Samstaða Alþingis
Þótt málvenjan skipti Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu, er hollt að minnast þess að reisn þingsins var ætíð mest þegar flokkarnir báru gæfu til að standa saman; þingheimur vex af því að slíðra sverðin.
Forsetinn nefnir sem eitt dæmi um slíka "reisn" afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingum í lok síðustu aldar. Nú má vera að þetta dæmi sé ágætt sem slíkt. Hitt er þó líka algengt að ýmis mál renna í gegn umræðulaust í fullri "samstöðu" og síðar koma í ljós ýmsir gallar og vankantar sem hefði betur mátt ræða í undirbúningi. Þegar mikil samstaða ríkir um mál á Alþingi hef ég oftar en ekki áhyggjur af því að verið er að samþykkja eitthvað "gott", sem allir eiga að vera sammála um, en mætti samt skoða og ræða.
6. "Sáttmáli kynslóðanna"
Í glímunni við skuldavanda heimilanna er sáttmáli kynslóðanna forsenda víðtækrar lausnar.
Hvaðan kemur þetta hugtak, "sáttmáli kynslóðanna"? Jú, þetta er hugtak sem fyrst heyrðist í kynningu nefndar ríkisstjórnarinnar 30. nóvember á "skuldaleiðréttingar"-pakkanum margfræga: "Aðgerðin sögð sáttmáli kynslóða"
En af hverju skyldi þessi pakki kallaður þessu nafni? Ætli ástæðan sé ekki svipuð og með áðurnefnda "Þjóðarsáttar"-samninga, þetta er "PR", búið til nafn til að sannfæra okkur um ágæti og nauðsyn aðgerðanna. Hugsunin að baki, þ.e. tilvísun í "kynslóðir" er væntanlega sú að sumir fá auðvitað minna en aðrir í þessari risamillifærslu, elsta kynslóðin sem á skuldlaust húsnæði fær ekkert, yngsta kynslóðin sem ekki hefur keypt húsnæði fær heldur ekki neitt. Hugtakið "sáttmáli kynslóðanna" á kannski að að sætta þessar kynslóðir við stóru millifærsluna.
Það er óneitanlega sérstakt að Forsetinn taki með þessum hætti beinan þátt í kynningar- og PR-starfi ríkisstjórnarinnar í máli sem enn er ekki búið að kynna og ræða á Alþingi. En þetta kemur kannski ekki á óvart. Núverandi forseti er ekki ópólitískur og er bandamaður sitjandi ríkisstjórnar, a.m.k. nú um sinn.
7. Ísland í "lykilstöðu" á Norðurslóðum
Norðurslóðir sem áður voru taldar endimörk hins byggilega heims eru í vaxandi mæli hringiða nýrrar heimsmyndar, breyting sem Norðurskautsráðið staðfesti í maí með sögulegri samþykkt. [...] Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; ...
Ég verð að segja eins og er, ég skil ekki þetta norðurslóðatal Forsetans. Ég sótti Atlasinn minn og fletti upp kortum af Norðurpólnum til að að reyna að skilja hvernig Ísland eigi að verða miðpunktur Norðurslóða í bjartri framtíð bráðnandi jökla, einskonar Klondyke nýja Norðursins, ef marka má orð Forsetans!
Ég heyri lítið minnst Norðurslóðaráð (Arctic Council) nema helst í ræðum Forseta Íslands. (Vissuð þið að Ísland var í forsæti ráðsins árin 2002-2004? Nei, ekki Forseti Íslands heldur ríkisstjórn landsins, þ.e. utanríkisráðherra eða fulltrúi hans.) Á heimasíðu ráðsins er megináhersla lög á ýmis umhverfismál og hagsmuni frumbyggja Norðurslóða. Íslendingar eru ekki taldir með sem "frumbyggjar"* heldur er átt við Inúita, Sama og þjóðflokka norður-Síberíu og Kamchatka. Íslendingar hafa hingað til haft lítil samskipti við Ínúita og frekar litið niður á. Það er jákvætt ef Forsetinn nái að bæta samskipti Íslands við granna okkar í Grænlandi, en ég hefði frekar vilja heyra Forsetann tala um umhverfi Norðurslóða og ógnir og áskoranir sem íbúar hins raunverulega Norðurs þurfa að mæta í stað glaðhlakkalegrar umræðu um "tækifæri" sem felast í hlýnun jarðar og bráðnun jökla.
*(Við teljumst ekki frumbyggjar hins eiginlega norðurheimskautasvæðis, það sem á útlensku nefnist "the Arctic", sjá t.d. færslu hér um 'Arctic Council'.)
8. Gömul og góð tengsl Rússa við Ísland
Vilji Rússa til að efla gömul og góð tengsl við Ísland með auknum áherslum á Norðurslóðir birtist svo glöggt í viðræðum við Vladimir Putin í september, vilji sem forseti Rússlands hefur reyndar lýst áður einkar skýrt.
Hér verða sagnfræðingar að aðstoða mig. Hvað í ósköpunum er Forsetinn að tala um? Vöruskipti Íslands og Sovétríkjanna?
Ég vil gjarnan sjá góð tengsl Íslands við sem flestar þjóðir, þar á meðal Rússa, frekar þó við aðra Rússa en akkúrat leiðtoga þeirra Pútín, fyrrum foringja leyniþjónustu alræðisríkisins gamla, sem ræktar jöfnum höndum fordóma gegn samkynhneigðum og styrk tengsl við óligarka Rússa sem tóku yfir helstu auðlindir Sovétsins og eru nú meðal ríkustu manna heims.
9. Vorum "heft í fjötra kalda stríðsins", nú í lykilstöðu
Ísland sem var um aldir einangrað og á fyrstu áratugum lýðveldis heft í fjötra kalda stríðsins, er nú eftirsóttur bandamaður við þróun samstarfs um nýja Norðrið; er í lykilstöðu á vettvangi margra stofnana og tengslaneta, norrænna og evrópskra, og einnig þeirra sem teygja sig alla leið til Asíu og yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna og Kanada.
Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður, "heft í fjötra kalda stríðsins". Að hvaða leyti hefti kalda stríðið Íslendinga? Ég hélt reyndar að við hefðum haft allnokkurn hag af strategískri legu Íslands í kalda stríðinu, alla vega sköpuðust störf og viðskipti fyrir fjölda fólks, hvort sem það hafði alfarið góð áhrif á þjóðarsálina.
Hvað varðar meinta lykilstöðu Íslands þá er ég langt í frá sannfærður um að stórþjóðir í kringum okkur sjái okkur sem "lykilríki" ef og þegar reynir á hagsmuni þeirra á Norðurslóðum. Kannski skortir mig hæfileika Ólafs frænda míns til að sjá sjálfan mig og þjóð mína sem nafla alheimsins.
Þessi pistill gæti orðið enn lengri, ræða mætti hvernig Forsetinn dregur inn Nelson Mandela til að styrkja enn frekar áramótaboðskap sinn um samstöðu. Mandela var mikils háttar maður, og honum tókst vissulega að halda margbreytilegri þjóð sinni saman á miklum umbreytingartímum. Ýmsir myndu kalla það kraftaverk að Mandela skyldi takast að leiða valdaskipti í Suður-Afríku án blóðsúthellinga og borgarastríðs, þó ýmsir meina að sú samstaða hafi verið á kostnað misskiptingar, sem alltof lítið var gert til að laga, enda fékk ríki minnihluti landsins að halda eigum sínum og yfirráðum yfir auðlindum svo til óskertum.
Það sem Mandela hins vegar tókst var að vera óskoraður leiðtogi allra landsmanna sinna, líka fyrrum andstæðinga sinna. Mandela rétti sáttahönd til hvíta minnihlutans og naut virðingar og vinsælda allra. Ólafur Ragnar á nokkuð langt í land með að verða óumdeilur Forseti allra Íslendinga. Boðskapur hans um samstöðu (um pólitísk stefnumál hans og ríkisstjórnarinnar sem hann veitir brautargengi?) breytir því ekki.
Leiðtogar Íslands
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 2.1.2014 kl. 01:13 | Facebook
Athugasemdir
Góð skýring málflótta ÓRG
Njörður Helgason, 1.1.2014 kl. 22:51
Góð greining.
Ómar Bjarki Smárason, 2.1.2014 kl. 00:41
Samstaða merkir tilfinning um einungu, og raunverulegan velvilja sem nær yfir heild alls samfélagsins. Hún merkir ekki það sama og "sammála" eins og sumir vænusjúkir halda og hræðast því þetta orð, og var mjög áberandi í umræðunni um Þóru Arnórsdóttur sem átti að vera komin til að heilaþvo þjóðina til varhugaverðrar "samstöðu" samkvæmt "gáfumönnunum"?
Það er gott að einhver sem reynir að takast á við það hlutverk að eiga að vera "landsfaðir" skuli minna menn á að þeir eigi að sýna samstöðu. Þjóð sem sýnir ekki samstöðu er skipuð nágrönnum sem sýna ekki samstöðu og fjölskyldum sem sýna ekki samstöðu. Þannig þjóð getur ekki sýnt bræðrum sínum og systrum í heiminum samstöðu. Hún getur því aldrei verið skipuð heimsborgurum.
En standa Íslendingar með hver öðrum? Nei. Hér eykst hvers kyns stéttskipting, snobb og manngreinarálit. Hér ræður efnishyggja og flokkadrættir ríkjum, og menn eru dæmdir eftir stjórnmálaskoðum, trúarskoðun, uppruna eða menntunarstigi, fremur en af mannkostum og skilyrðislaus náungakærleikur er lítill sem enginn.
Nágrannar þekkjast almennt ekki einu sinni með nafni og geta engan veginn reitt sig á hvern annan.
Og margir eiga fjölskyldur sem vart talast við. Stórfjölskyldan gufuð upp víðast og farin forgörðum. Og sambönd manna byggjast meira og meira á sameiginlegum hagsmunum, og litlu dýpra en því.
Á pínulitla Íslandi, vellríkri þjóð miðað við flestar þjóðir heims, sem hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndaríki nema SAMSTÖÐUNA, standa hundruðir í röðum eftir mat frá mæðrastyrksnefnd afþví að Íslendingar eru almennt of upptekinn við að kaupa fleiri leikföng og fatnað framleiddan af Asískum barnaþrælum, til að láta sér ekki standa á slétt sama um hvort annarra manna börn fái að borða eða ekki. Sumir afsaka sig með pólítík og segja ríkisstjórnin eigi að sjá um þetta og þeir hafi jú greitt atkvæði og þannig eitt sekúndubroti af lífi sínu í kjörklefa í að þykjast ekki vera sama. Aðrir afsaka sig með einhverju öðru og viturlegra. En allir eiga þeir það sameiginlegt að segja í anda afbökunar Íslendinga á jólunum að vísa minnsta bróður sínu og náunga á bug.
Það er nú öll samstaðan.
Hver og einn ætti að spyrja sig: Hvað gerðir þú til að hjálpa fátækum Íslenskum fjölskyldum fyrir jólin? Skilningur hans á samstöðuhugtakinu ræðst af svarinu.
Íslendingur (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 01:19
Ad 3) Samkvæmt dómi Hæstaréttar fyrir 20 árum var Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi fjármálaráðherra, sekur um stjórnarskrárbrot í tengslum við umrædda þjóðarsátt.
Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 03:06
Samstaða er dyggð. Dyggð er athöfn frjáls manns, og getur ekki verið byggð á þvingun og nauð. Sá sem borgar skattinn sinn eða kýs flokk sem vill hækka skattana og hjálpa fátækum, hann er með því að lýsa yfir vantrausti á meðborgara sína, kannski verðskulduðu og því að nauðsynlegt sé ríkið knýi fram þessa fjármuni og aðstoð með valdi. Að ráðstafa atkvæði sínu af þannig hræðslu er ekki um leið dyggðugt. Og að borga skatta lögum samkvæmt er aldrei dyggð, heldur er það að gera það ekki lögbrot sem við liggur hegning. Ótti við refsingu er aldrei rót sannrar dyggðar. Einungis þeir sem sjálfviljugir láta af hendi rakna tíma, fé og aðra aðstoð í þágu þeirra sem minnsta mega sín geta sýnt samstöðu, því samstaða er dyggð. Þeir sem gera það ekki búa ekki yfir samstöðu. Íslendingar eru of eigingjarnir og of miklir efnishyggjumenn. Við þykjumst geta haft okkur yfir aðrar þjóðir af því þar séu önnur lög og öðruvísi stjórnmál, í hroka okkar og rasisma. Þannig þykjumst við til dæmis vera, af stórmennskubrjálæði og sveitamennsku, auk þess að vera betri en allir aðrir í heiminum, nema kannski örfáar þjóðir náskyldra evrópskra hvítingja, mikið betri en Bandaríkjamenn þó tölfræðin sýni og sanni að yfir helmingur allra Bandaríkjamanna eyðir verulegum tíma lífs síns í ólaunuð sjálfboðaliðastörf í þágu þeirra verst stöddu. Það er alvöru góðverk.
Reality Check (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.