24.7.2009 | 23:32
Að líta fram hjá aðalatriðunum
Enn og aftur verður maður óneitanlega fyrir vonbrigðum með þjóðmálaumræðu, bæði fjölmiðla, bloggara og ekki síst þingmenn. Lögfræðingarnir Eiríkur Tómasson, Ragnar H. Hall og Hörður Felix Harðarson hafa komið með mjög skýr og frambærileg rök fyrir því að mikilvæg ákvæði í IceSave samningum séu okkur alltof óhagstæð. Hér er um mjög mikla hagsmuni að ræða, sem geta skipt þjóðarbúið tugum milljarða. Ég bendi sérstaklega á grein Harðar Felix Harðarsonar Ragnars H Hall í Morgunblaðinu sl. miðvikudag 22. júlí, "Hvernig getur þetta gerst?" Hana má lesa alla í þessari bloggfærslu. Í þeirri grein eru sett fram þrjú einföld dæmi. Samkvæmt greininni er úthlutað samkvæmt þriðja dæminu, eftir því sem samningarnir um IceSave kveða á um.
Ef þetta er satt og rétt er það stórmál og það er mín skoðun eftir lestur þessara greina að sú reikniaðferð sé ósanngjörn og óeðlileg.
Þetta mál snýst ekki um að að tryggingasjóðurinn íslensku skuli hafa forgang, þannig að lægri innistæður gangi fyrir hærri innistæðum. Málið snýst um það, að ef t.d. 60% næst úr búinu upp í innistæðukröfur, þá fái allir 60%. Allir fá hins vegar að lágmarki fyrstu 20.300 evrur bættar. Það á ekki að þýða að fyrst skuli öllum greitt tryggingarupphæðin, svo fá allir greitt 60% af rest. Þannig væri verið að greiða fjölmörgum meira en 60%.
Sé það rétt að IceSave samningarnir eru með þessu móti er það að mínu mati með öllu óásættanlegt. (Þetta er betur skýrt í grein Ragnars og Harðar.)
Ég beið því spenntur eftir fréttum af málstofunni í HÍ í gær. Það hlyti að koma fram, í það minnsta hvort þetta væri rétt túlkun hjá Eiríki, Herði Felix og Ragnari, að úthluta skuli úr búinu með þessum hætti. Þá vildi ég líka fá að heyra hvort fulltrúar ríkisstjórnar teldu það eðlilegt ef svo er.
Hvorugt af þessu hef ég séð í fréttum. Þykir mér það miður.
Hins vegar eyða þingmenn og bloggarar miklu púðri í að þrasa um að Ragnar hafi dylgjað um að Íslendingar þurfi að standa straum af 2 milljarða "lögfræðikostnaði" Breta. Fjármálaráðherra "harmar" að þurfa að leiðrétta þennan mikla misskilning. Við þurfum alls ekki að borga neinn lögfræðikostnað, heldur umsýslukostnað við að endurgreiða breskum innistæðueigendum, bréfaskriftir við þá o.s.fr. Í samningnum við Hollendinga er sambærileg klausa um að við greiðum fasta upphæð, 1.3 milljarða ISK fyrir sams konar umsýslu vegna endurgreiðslu til Hollendinga.
OK - vissulega kostar það sitt að endurgreiða 350.000 manns peninga. Mér finnst þó sjálfum vel í lagt að það kosti að meðaltali um 10.000 kr á hvern innistæðueiganda! Bankinn átti væntanlega tölvuskrá með póstföngum og netföngum, og nákvæmar tölum um innistæðu þegar lokað var. Ég ímynda mér að það hefði þurft að senda öllum eitt einfalt eyðublað eða tölvupóst, biðja fólk um að gefa upp reikningsnúmer fyrir innágreiðslu eða að fá ávísun í pósti. Kostar þetta virkilega 10 þúsund kr á haus?! Fyrst svo er, er þetta væntanlega eitthvað flóknara, eitthvað sem kannski lögfræðingar og aðrir fræðingar þurfa að greiða úr. Er kannski hluti umsýslukostnaðarins lögfræðikostnaður...?
Þess vegna finnst mér sjálfum ofureðlilegt að Ragnari H. blöskri þessi upphæð og minnist á hana í erindi sínu á málstofunni. Þessi umsýslukostnaður sem íslenska ríkið greiðir nemur um 10.000 kr á hvert mannsbarn hér á landi, 40.000 kr á fjögurra manna fjölskyldu. Við eigum því fulla heimtingu að vita hvort þetta sé eðlilegur kostnaður og það má alveg ræða hvort það sé eðlilegt að Ísland borgi svo háan kostnað. Spurningar um slíkt eru ekki dylgjur.
En nóg um það. Því "umsýslu-lögfræði"-kostnaðurinn er ekki stóra málið í þessu, heldur hitt, hvort það sé rétt sem Ragnar H. og félagar skrifuðu um IceSave samninginn, og ef það er rétt hvort það sé eðlilegt.
Það er aðalatriðið í máli Ragnars, sem fjölmiðlar eiga að spyrja um og reyna að upplýsa. Ekki að eyða púðri í eitthvert þras um orðanotkun. Um bullubloggara sem geta ekki rætt málið á öðrum forsendum en að vera með eða á móti öðru hvoru "liðinu" segi ég sem minnst, en leitt þykir mér að þingmenn sitji fastir í slíkum hjólförum.
Ekki minnst á lögfræðikostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.7.2009 kl. 10:01 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er reyndar frekar hefðbundið hjá íslenskum fjölmiðlum, bloggurum, álitsgjöfum og öðrum. Betra að hanga á einhverjum smáatriðum til að rífast um en gleyma aðalatriðunum.
Varðandi þetta, þá á ég eftir að lesa þessa grein Ragnars og einnig svar Ásgeirs úr Seðlabankanum, sem svarar í Mogganum í dag. Maður gerir það kannski yfir helgina, þó að Ice-Save umræðan sé að gera út af við mann í billi.
AK-72, 24.7.2009 kl. 23:57
Aggi til hvers að lesa þetta aðkeypta álit frá auðvaldshundinum? Það eru einmitt þessir varðhundar sem eru að drepa umræðunni á dreif með svona draumóraplöggum og afvegaleiða óupplýsta bloggar á borð við síðueiganda sem greinilega trúa öllu bullinu af því að lögræðingur skrifaði það.
Þór Jóhannesson, 25.7.2009 kl. 13:56
Kannski er það nú svo Þór, að maður vill kynna sér allar hliðar. Þetta mál er ekkert svart-hvítt í eðli með/móti fótboltaliðsdæmi. Var ekki eitt af þeim vandamálum sem loddi við "gamla Ísland" að menn hlustuðu ekki á rök vegna þess að það hentaði ekki pólitíska litrófinu?
AK-72, 25.7.2009 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.