Frétt af þyrlu-Manga og spekileki frá fjölmiðlum

Forsíðufrétt DV um meintar fyrirhugaðar afskriftir skulda Magnúsar Kristinssonar og tengdra félaga hans vakti að vonum mikil viðbrögð, ekki síst í netmiðlum og bloggheimum.

Fjölmiðlafulltrúi skilanefndar Landsbankans Páll Benediktsson bar hins vegar samdægurs þessa frétt tilbaka. DV menn voru þó kokhraustir, lýstu því á vef sínum að það sé Páll sem sé í vanda og vilja þakka sér það, ef skuldirnar verði svo þrátt fyrir allt ekki felldar niður.

Spurningin stendur þó eftir hvort fréttin var yfir höfuð á rökum reist. Látum liggja á milli hluta ónákvæma framsetningu blaðsins þegar þeir oðrétt tala um 50 milljarða skuldir Magnúsar og eiga við skuldir ýmissa félaga sem hann átti að meira eða minna leyti. Skuldir félaganna eru ekki sami hlutir og skuldir hans sjálfs. Ef svo væri gætum við auðvitað heimtað að Björgólfur Thor greiddi sjálfur IceSave skuldir Landsbankans sáluga. (Sem hann mætti þó sjá sóma sinn í að gera, að svo miklu leyti sem hann á einhverja alvöru peninga!)

Óneitanlega kemur upp í hugann fréttin á Stöð 2 frá því fyrir nokkrum vikum um meintar risa-millifærslur nafngreindra auðmanna frá Straumi til aflandsreikninga í kringum bankahrunið. Þeir báru af sér allar sakir og fréttin gufaði svo upp, reyndist byggð á munnlegum heimildum eins manns sem hafði engin gögn undir höndum. Mætti kalla kjaftasögufrétt.

Það er ekki gott ef fréttamenn þessara miðla kunna ekki undirstöðuatriði í fréttamennsku og þekkja ekki muninn á fréttum og gróusögum.

Kannski hafa of margir reyndir fréttamenn eins og áðurnefndur Páll Benediktsson spekilekið frá fréttastofunum. Páll var um árabil sjónvarpsfréttamaður, ritstýrði meðal annars skemmtilegum frétttaaukaþáttum, Í brennidepli. Í þeirri röð voru tveir áhugaverðir þættir um útrásina, eins og hún birtist 2004. (Ég minntist á þá í færslu frá apríl sl.)

Nokkru síðar fór þó Páll að vinna fyrir mafíuna útrásarfyrirtækið Landic Properties. Lái honum hver sem vill. Menn ráða því hvar þeir vinna, það er ekki þegnskylda að vinna ævina á enda á fjölmiðlum og launin hjá fréttastofu sjónvarps voru eflaust snöggtum lægri en laun spunameistara útrásardela. Eftir eitt og hálft ár hjá Landic fór svo Páll til skilanefndar Landsbankans snemma í vor.

Fleiri góðir fréttamenn urðu talsmenn útrásardólga, til að mynda Kristján Kristjánsson fyrrum Kastljósstjórnandi sem fór til FL Group. 'Þar fór góður biti í hundskjaft' myndu sumir segja. Kristján hefur skiljanlega fært sig um set aftur og starfar nú sem fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherra, hvorki meira né minna. Svo ekki missa menn alfarið æruna eftir tímabundin störf sem málpípur óheilbrigðra útrásarfyrirtækja.

Fréttamenn hafa svo sem flutt sig í fjölmiðlafulltrúastörf á öðrum vettvangi en í útrásargeiranum, má nefna að fyrrum fréttamenn starfa eða hafa starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu, Flugmálastjórn, Vegagerðinni svo nokkur dæmi séu nefnd. (Hef reyndar aldrei skilið af hverju Flugmálastjórn og Vegagerðin þurfa fjölmiðlafulltrúa í fullu starfi?! Þarf fréttafulltrúa í fullu starfi til að tilkynna hvar sé verið að leggja bundið slitlag á vegum úti?!)

Fjölmiðlar geta þó huggað sig við að varla spekileka fleiri góðir fréttamenn í þessa áttina, þ.e. í útrásarfyrirtækin, í kjölfar þess að sú bóla sprakk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband