Byr í Undralandi

Það blæs ekki byrlega fyrir sparisjóðnum BYR. Búið að eyða þvílíkt í flotta auglýsingaherferð með einum vinsælasta söngvara landsins, sem gengur út á fólk sýni ráðdeild og sparsemi - fjárhagslega heilsu. Væntanlega á undirliggjandi boðskapurinn að vera að BYR sé ábyrg stofnun.

En ekki sýndi bankastjórinn mikil merki um slíka heilsu þegar hann reyndi í Kastljósi í gærkvöldi af veikum mætti að skýra af hverju greiddur var út í apríl 2008 arður fyrir árið 2007 sem var tæplega helmingi hærri en hagnaður þess árs.

aliceSkildi einhver hvað maðurinn var að fara? Þetta var pínlegt. Maðurinn nefndi tvær ástæður, önnur var sú að þetta væri löglegt, en hin var sú að stofnfjáreigendur höfðu bætt við svo miklu stofnfé, sem þeir inntu af hendi nokkrum mánuðum áður en stór hluti fjárins var svo aftur greiddur út sem "arður"!

Minnti mig á Lísu í Undralandi. Eða góðan þátt í 'Já Ráðherra'. Svona öfugmælaorðræða, þar sem svarað er út í hött.


Eru öll félög þekkingarfélög?

Nýsir er alþjóðlegt þekkingar- og fjárfestingarfélag,

Hmm... félagið byggði og rak fasteignir fyrir hið opinbera, með garanteraðar leigutekjur í 40 ár, en fór samt á höfuðið. Í hverju lá þekkingin?

Þetta er svolítil kaldhæðni vissulega. Ekki ætla ég að dæma um hvort rekstur félagsins hafi verið eðlilegur eða ekki, margt hefur skiljanlega farið úrskeiðis í hremmingum síðustu mánaða.

En stimpillinn "þekkingarfélag" er óneitanlega skondinn, hefur venjulega verið notað um starfsemi sem skapar nýja þekkingu.  Að byggja og reka fasteignir og golfvöll hlýtur að teljast frekar hefðbundin starfsemi. Eða er t.d. Fönn fatahreinsun og Bílaverkstæði Badda líka þekkingarfélög? Þau hafa jú án nokkurs vafa heilmikla þekkingu á sínu sviði.


mbl.is Nýsir fasteignir gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er munur á hagfræði og stærðfræði?

Horfði á Kastljós með athygli. Bæði Tryggvi Þór og Sigríður fá plús fyrir að vera málefnanleg og kurteis! En ég skil samt ekki alveg þessa leið. Tryggvi fullyrðir að hún kosti ekkert, því þegar sé búið að afskrifa lánasafnið um 50% og á því verði séu lánin keypt yfir í nýju bankana. Með því að afskrifa öll lán jafnt um 20% "batni lánasafnið".

En ef við nú tökum fullkomlega heilbrigt lán, sem lántakandi er í 100% skilum með, og afskrifum það um 20%, þá þarf greiðslugeta lántakanda annars láns að batna um sömu upphæð, til að aðferðin komi út á núlli, eins og Tryggvi Þór lofaði.

Mörg lán fyrirtækja og félaga eru með algjörlega handónýt veð, t.d. kúlulánið sem Tryggvi sjálfur fékk og var minnst á í síðustu færslu minni. Það lán er alveg jafn ónýtt þó við afskrifum það fyrst um 20%, greiðslugeta eignarhaldsfélagsins með hin verðlitlu hlutabréf batnar ekkert við það.

Kristinn Pétursson setur upp tölur í færslu sinni. Hann talar um að lánasafn innlendu lánanna sé 7.000 milljarðar. Ef helmingur þess hefur verið afskrifaður standa eftir 3.500 milljarðar sem vænst er að skili sér. Ef við tökum þennan betri helming og afskrifum hann um 20%, eða 700 milljarða, á þá skyndilega að fást 700 milljarðar uppí ónýta helminginn, hina 3.500 milljarðana sem búið er að afskrifa? Hvernig getur greiðslugeta að baki þessa "ónýtu" lána batnað, við það að við afskrifum þau fyrst úr 3.500 milljörðum niður í 2.800 milljarða? Eru þessi lán ekki jafn ónýt eftir sem áður?

Endilega komið með athugasemdir við þessar talnahugleiðingar.


mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pýramídahagfræðingur á þing?

pyramidTryggvi Þór Herbertsson doktor í hagfræði er í öðru sæti á lista XD í Norðurlandi  og því mjög líklegur tilvonandi þingmaður. Eins og fram kom í fréttum vikunnar og Tryggvi skýrði skilmerkilega frá tók hann dyggan þátt í pýramídahagfræðinni hér á síðustu árum.

Þegar Tryggvi var ráðinn forstjóri Askar Capital árið 2006 var honum boðinn kaupréttarsamningur til kaupa á hlut í félaginu á hagstæðu gengi fyrir 300 milljónir króna. Félagið reddaði kúluláni með veði í bréfunum, en lánið var skráð á eignarhaldsfélag sem stofnað var til handa Tryggva. Eins og Tryggvi skýrði sjálfur:

Mér var tjáð að launin yrðu ekki í samræmi við það sem tíðkaðist í fjármálageiranum á þeim tíma en að í staðinn mér yrði umbunað með hlutdeild í árangri nýs banka. Í þessu samhengi var mér boðið að öðlast rétt á að kaupa 300 milljón hluti á sama gengi og stofnhlutafar nutu – genginu einum – á þrem árum. Ef bankinn gengi vel þá myndi hlutaféð vaxa í verði og ég hagnast á því. Þannig væru hagsmunir mínir beintengdir hagsmunum bankans. Jafnframt var mér tjáð að stofnað yrði félag sem væri í umsjá bankans sem ætti hlutabréfin og til að fjármagna kaupinn yrðu félaginu útveguð erlend lán, annars vegar frá Askar Capital og hins vegar frá einum viðskiptabankanna og öll bréfin lögð að veði. Að þrem árum liðnum myndi félagið endurgreiða lánið með þeim vöxtum sem tíðkast á markaði. Til að fjármagna endurgreiðslu lánanna gæti ég t.d. selt bréfin og vonandi hagnast ef þau yrðu meira virði en lánin. Til að stofna félagið þyrfti ég að reiða fram 500 þúsund krónur. Það er skemmst frá því að segja að ég tók boðinu.

Í sjálfur sér er skiljanlegt að menn þiggi svona boð, eins og Tryggvi segir "Ef bankinn gengi vel þá myndi hlutaféð vaxa í verði og ég hagnast á því", og ef illa gengur? Tja, þá fellur lánið væntanlega bara á eignarhaldsfélagið?

Var það ekki nákvæmlega þetta sem fólk hneykslaðist svo mikið á að Kaupþingsstjórar reyndu á síðustu stundu? Þegar þjóðarskútan var að sökkva og Tryggvi var ráðinn efnahagsráðgjafi forsætisráðherra taldi hann rétt að slíta tengslin við Askar og seldi félagið fyrir 500 þúsund, svo hann tapaði ekki einu sinni gjaldinu fyrir að stofna eignarhaldsfélagið!

Nú væri rétt að spyrja doktorinn, taldi hann á sínum tíma þetta skynsama hagfræði, að veita risalán til eignarhaldsfélaga, til kaupa á hlutabréfum, með veði í bréfunum sjálfum? Er það ekki rétt skilið að þessi ósiður hafi verið einn stór þáttur í íslensku lánabólunni?

Kjósendur á Norðurlandi, veltið þessu fyrir ykkur.

 


mbl.is Mikilsverð stuðningsyfirlýsing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð frétt

Ég sé að þetta blogg mitt er frekar á neikvæðum nótum. Ein lítil jákvæð frétt fór ekki  mjög hátt um daginn sem vert er að gefa gaum, en það var breyting á greiðslu dagpeninga til æðstu ráðamanna ríkisins. Hingað til hefur nefnilega tiltekinn hópur ríkisstarfsmanna ávallt fengið sk. "fulla" dagpeninga, það er dagpeninga fyrir bæði mat og húsaskjóli, þó svo þeir þurfi ekki að leggja út fyrir hótelkostnaði af þessum peningum. Yfir þessu hefur verið kvartað reglulega á nokkurra ára fresti en aldrei neitt gert. Þetta var einfaldlega viðurkennd leið til að greiða æðstu valdhöfum ríkis skattfrjálsan launabónus. Þar til nú, að þetta var lagfært með einu pennastriki:

Breytingar eru gerðar á sérstökum ákvæðum um greiðslu dagpeninga og endurgreiddan kostnað ráðherra, ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanna ráðherra, biskups, ríkisendurskoðanda, hæstarréttardómara, ríkissáttasemjara, forsetaritara og sendiherra. Með breytingunum munu dagpeningagreiðslur til ráðherra og forseta hæstaréttar skerðast töluvert. Auk þess eru afnumin sérstök ákvæði um dagpeninga og endurgreiddan kostnað fyrrgreindra embættismanna. Um þá gilda nú sömu reglur og um aðra starfsmenn ríkisins, þ.e. reglur um greiðslu almennra dagpeninga skv. ákvörðun ferðakostnaðarnefndar. Jafnframt er afnumin heimild til þess að greiða mökum ráðherra dagpeninga þegar þeir eru í för með ráðherra á ferðalögum erlendis.

Fjármálaráðherra fær prik fyrir þetta!


Hvað er arður?

Undarlegt fyrirtæki, skil ekki enn hvernig eigendur gátu fyrir tæpum 11 mánuðum greitt sér 13 milljarða í arð fyrir árið 2007, rúmlega tvöfaldan hagnað félagsins það árið, sem var þó eflaust að miklu leyti tilkominn vegna ofmats á hlutabréfaeign, en hlutabréfaverð fór jafnt og þétt hríðlækkandi einmitt á þeim tíma sem risa-arðgreiðslan átti sér stað.

Hinn galvaski bloggari Gunnar Axel Axelsson hefur töluvert skrifað um BYR, meðal annars reynt að skilja hvernig í ósköpunum menn gengu ófeimnir og fyrir opnum tjöldum í sjóði félagsins og jafnvel tóku lán í nafni félagsins til að stinga í eigin vasa sem arðgreiðslur!  Ég leyfi mér að vitna beint í orð Gunnars Axel frá 27. febrúar:

Ég hef skoðað opinbera ársreikninga eins af stóru eigendunum í BYR. Þar kemur fram hvernig þurrka átti upp varasjóðinn á aðeins tveimur árum. Lán var fengið frá Glitni í desember  2007 og af því var greiddur um þriðjungur strax um vorið 2008 þegar risaargreiðslan var borguð út. Samkvæmt ársreikningnum átti síðan að greiða megnið af láninu upp ári síðar, eða í næstu arðgreiðsluatrennu. 

Ef planið hefði gengið upp þá væru valdhafar í BYR nú að undirbúa næstu arðgreiðslu, sem eins og sú fyrri kæmi öll úr varasjóðnum (sem er lögum samkvæmt í almannaeign).  Það er hætt við að þá hefði varasjóðurinn verið tæmdur endanlega.

Er þetta löglegt? Boðlegt? Siðlegt? Hefur FME lagt blessun sína yfir þetta?


mbl.is Tap Byrs 28,9 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir meistarar - gæsahúð fyrir kórunnendur!

Ég má til með að auglýsa á þessum vettvangi tónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu, en pistlahöfundur syngur sjálfur í þeim kór. Á tónleikunum verða flutt glæsileg verk eftir tvo stærstu meistara tónlistarsögunnar, Sálumessa Mozarts og messa í g-moll eftir Johann Sebastian Bach.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 22. mars og miðvikudaginn 25. mars, kl. 20 báða daga, í Langholtskirkju.

Sálumessuna þekkja margir, en að þessu sinni verður flutt önnur útgáfa en sú sem oftast og raunar nær alltaf er flutt, sem er sú útgáfa sem nemandi Mozarts, Franz Xavier Süssmayr, lauk eftir að tónskáldið andaðist. Í 200 ár hafa tónlistarfræðingar og unnendur deilt um ágæti viðbóta Süssmayr, en auðvitað er ósanngjarnt að bera Süssmayr eða nokkurn annan mann saman við sjálfan Mozart.  Fáein tónskáld hafa, sérstaklega á síðustu áratugum, endurgert fullvinnslu Sálumessunnar, þ.e. tekið verkið eins og Mozart sjálfur skildi við það  og fyllt upp í eyðurnar. Sú útgáfa sem Fílharmónía nú flytur var kláruð árið 1982 af Duncan Druce, breskum fiðluleikara og tónskáldi, og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Fáir almennir tónlistarunnendur gera sér grein fyrir hversu stór hluti verksins var ófrágenginn þegar Mozart kvaddi. Sérstaklega átti eftir að ganga frá mikið af hljóðfæraröddunum, en Druce hafði tilfinnanlega fundið fyrir því að raddsetning Süssmayr var víða varfærnisleg og einföld. Þá fundust löngu eftir tíma Mozarts og Süssmayr vísbendingar og fyrstu hendingar af Amen fúgu sem ekki er að finna í Süssmayr útgáfunni, en Druce kláraði og bætti í sína útgáfu, og þannig má segja að hún sé fullgerðari en Süssmayr.

Okkur vitanlega er þetta í fyrsta skipti sem þessi útgáfa Sálumessunnar heyrist hér á landi. Kórinn telur nú 85 manns en á tónleikunum leikur auk þess 28 manna hljómsveit og einvalalið söngvara syngur einsöngshlutverk.


Nei - alvöru fjölmiðill

Vefritið Nei er ferskur andblær í íslenska fjölmiðlaflóru. Það fór af stað um miðjan október og hefur haldið góðum dampi, hefur að skipa vel ritfæru fólki sem leggur sig fram. Þetta er ekkert hálfkák. Blaðið fer ekkert í grafgötur með pólitískar skoðanir ritstjórnar en gerir það heiðarlega og er ekki fast í neinum flokkadráttum.

Vefritið er á slóðinni this.is/nei

Ég mæli til dæmis með viðtali við Forsætisráðherra frá því í gær, miðvikudaginn 11.2., "Dauði rökræðunnar". Viðtalið er ítarlegt, skemmtilegt og fróðlegt. Og svona spyrja alvöru blaðamenn:

Þannig að við munum fá að vita allt sem stendur í þessari aðgerðaráætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins? 

SJS: „Já, ég held að ég geti lofa því að við munum gera allt …“ 

Heldurðu að þú getir lofað því eða lofarðu því? 

 

Fyrir skemmstu birtist á síðunni mjög skemmtileg og flott greining á forsíðum Morgunblaðsins í kringum bankahrunið. Gæða blaðamennska hjá Nei!


Björguðu Kastljósinu

Það lyftist á manni brúnin við að hlusta á Gylfa og Jón í Kastljósinu, eitthvað bitastætt, eftir rýra pólitíska málsvörn Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri er náttúrulega vanur þessu hlutverki, að verja mjöög óvinsæla skjólstæðinga, jafnvel vita vonlaus 'case'! Oftar en ekki fær hann svo að láta ljós sitt skína sem helsti lögfræðilegi álitsgjafi Kastljóssins, eða eins og nú, sem málpípa flokksins síns.

Ég velti fyrir mér, af hverju fannst Kastljósinu ástæða til að vera með svona dæmigert 'með og á-móti' "setup" um þetta nánast dapurlega mál? Ástæðan fyrir því að ekki skyldu fleiri mæta fyrir utan Seðlabankann í morgun er ekki sú að langflestu fólki finnist ekki tímabært að senda Davíð í frí, heldur sú að fólk vill helst ekki þurfa að hugsa um hann.

Ég ætla að lesa skýrslu Gylfa og Jóns spjaldanna á milli. Hvet Davíð Oddsson til að gera það líka.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að ýta á 'IGNORE' ?

Það væri nú líkt þjóðinni að láta þetta mál fá alla athygli og umræðu næstu vikuna eða vikurnar.fallen_throne2 Þetta verður svona hálf-vandræðaleg og alltof langdregin lokaorrusta, eins og í 'Lord of the Rings II' eða 'Highlander' myndunum með Christopher Lambert. Þar var söguhetjan líka ódauðleg.

Í fyllstu alvöru, það má ekki láta umræðuna næstu daga snúast bara um þetta, fjölmörg erfið verkefni krefjast athygli og orku. Peningamálastefnunni er hvort eð er stýrt af IMF, svo hvort Kölski fái að sitja áfram í sínu fallna hásæti einhverjum mánuðum lengur eða skemur skiptir ekki öllu máli. 


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband