Hálfsannleikur eða bara ekki sannleikur?

Úr yfirlýsingu Guðlaugs Þórs frá skírdegi:

Í Morgunblaðinu í dag er því ranglega haldið fram í svonefndri „fréttaskýringu“ Agnesar Bragadóttur, að undirritaður hafi haft samband við tiltekin fyrirtæki og óskað fjárframlaga til Sjálfstæðisflokksins. Hið rétta er að ég fékk nokkra einstaklinga í flokknum til að aðstoða skrifstofu hans við fjársöfnun sem fram fór síðari hluta árs 2006. Ég óskaði ekki eftir styrk frá neinu ákveðnu fyrirtæki eða einstaklingi til Sjálfstæðisflokksins enda hafði ég hvorki umboð til þess né áhuga.

[...] Ég vil hins vegar ítreka að ég bað hvorki einstök fyrirtæki eða fyrirtækjahópa um styrk. Ég einungis hvatti þessa einstaklinga til að aðstoða við söfnunina

Sem sagt, "einstaklingarnir nokkru" voru annars vegar háttsettur stjórnandi hjá Landsbankanum (og gjaldkeri SUS á sama tíma og Guðlaugur var formaður sambandsins) og Þorsteinn M. Jónsson, varaformaður stjórnar FL Group. Í kjölfarið veittu svo fyrirtækin tvö styrkina umtöluðu.

Hélt Gulli að þetta myndi ekki koma fram í dagsljósið??

 

 


Um styrki til stjórnmálaflokka - ólík sjónarmið

Eftirfarandi er tilvitnun í umsögn SUS frá 2006 um frumvarpið sem þá var til meðferðar fyrir Alþingi:

Með takmörkun á framlagi einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka er reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunn. Réttur almennings til þess að tjá skoðun sína og styðja í opinberri umræðu er fótum troðin [sic] með slíkum hindrunum enda er það mikilvægur réttur borgara að geta stutt hugsjón sína og lífsskoðun, hvort sem er með fjárframlögum, sjálfboðastarfi eða hverjum öðrum þeim hætti sem hver og einn kýs.

Ljóst er að á þessum tíma voru a.m.k margir hinna yngri flokksfélaga á þeirri skoðun að það ætti alls ekki að takmarka hámarksupphæð styrkja til stjórnmálaflokka. Þeir hinir sömu hefðu vafalaust ekkert séð aðfinnsluvert við styrkina rausnarlegu frá FL og LÍ, heldur þvert á móti dæmi um frábæran árangur í fjáröflun. Eru einhverjir þessara ungu manna og kvenna í framboði nú?


mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"See no evil, hear no evil"

 

þrír apar

Hugtakið "lokað bókhald" fær alveg nýja merkingu í þessari umræðu. Kannski bókhald Sj-flokksins sé viljandi lokað helstu frammámönnum flokksins svo þeir geti viðhaldið sakleysi sínu og viti ekki hvaða öfl leggja til fúlgur fjár til að knýja áfram flokksmaskínuna.

Á það skal bent að Guðlaugur Þór raunar neitar því alls ekki að hafa vitað af styrkjunum, hann hringdi bara ekki beint í nein fyrirtæki. [Þetta er víst ekki rétt, það kom ekki fram í skriflegri yfirlýsingu Guðlaugs Þórs hvort hann vissi af styrkjunum á sínum tíma og ekki heldur í viðtali í fréttum kl 18 á skírdag, en í viðtali á visir.is neitar hann að hafa haft vitneskju um þá.]

Og ekkert hefur heyrst til varaformannsins. Ýmsilegt mun eiga eftir að gerast áður en haninn galar næst... 


mbl.is Illugi: Vissi ekki um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúnaður við hvern?

Eðli málsins samkvæmt getur flokkurinn þó ekki haft frumkvæði að því að birta opinberlega frá hverjum framlög komu árið 2006, enda var í flestum tilfellum samkomulag um að farið yrði með styrkveitingarnar sem trúnaðarmál

 Nú spyr maður, sem kjósandi, hverjum eiga stjórnmálaflokkar fyrst og fremst að sýna trúnað, styrktaraðilum eða kjósendum?

Veltum því fyrir okkur, þegar við göngum í kjörklefana.


mbl.is Heildarframlög til Framsóknar 30,3 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnun stjórnmálabaráttu

Þessar fréttir eru með ólíkindum. Reiðarslag fyrir stjórnmálaflokk að fá svona fréttir skömmu fyrir kosningar, en ekki er nú hægt að vorkenna þeim. Þetta sýnir líka hvað stjórnmálamenn voru tilbúnir að dansa með í firringunni með víkingunum, 30 millur voru nú bara "smotterí" í þá gömlu góðu daga, árslok 2006, eins og ein góð árshátíð í London eða svo. Hörðustu stuðningsmenn eru á því að "Baugsflokkurinn" hafi örugglega fengið álíka styrki (sem gengur ekki upp, því allir styrkir samtals til Samfylkingarinnar 2006 eru 10 milljónum lægri en þessir tveir styrkir). 

Kjósendur verða að gera upp við sig hvort uppgjör hins raunverulega Baugs-FLokks í þessu máli verði trúverðugt.

Allir flokkar ættu svo að birta lista yfir helstu stuðningsaðila á seinustu árum áður en lögin um fjármál flokka tóku gildi 1.1.2007.  Einhvern veginn grunar mann að hinn stjórnarflokkurinn 2006 hafi haft ekki síður trausta stuðningsaðila, enda margir innmúraðir og innvígðir í þann söfnuð, sem högnuðust vel í einkavæðingu þessara tveggja flokka.

Við þurfum að halda áfram umræðu um fjármögnun stjórnmálabaráttu og hvernig koma skuli í veg fyrir að fjársterkir aðilar liðki fyrir fyrirgreiðslu/kaupi sér vináttu með fjárframlögum, t.d. í prófkjörum, þar sem alþekkt er að einstaklingar hafi hafi haft verulegan kostnað í slíkri baráttu, án þess að gerð grein fyrir fjármögnun.

Stjórnmálaflokkar eiga fyrst og fremst að sýna kjósendum og landsmönnum trúnað og heilindi, frekar en styrktaraðilum.


mbl.is Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svör frá Kreditkortum vegna 193% hækkunarinnar

Í framhaldi af færslu frá 31.3. sl.

Ég hringdi í Kreditkort og talaði við almennilegan þjónustufulltrúa, sem benti mér á að ef ég afþakka mánaðarlegu pappírsyfirlitin borga ég "aðeins" 200 kr skuldfærslugjald, í stað 393 kr (sem er samt hærra en 180 kr gjaldið sem ég borgaði fyrir að fá pappírsyfirlit í júní 2008). Sendi svohljóðandi póst til fyrirtækisins:

Góðan dag,

Ég hringdi í þjónustufulltrúa ykkar rétt í þessu og kom á framfæri athugasemdum útaf seinstu reikningum. Hún var mjög almennileg og breytti stillingu á aðalkorti mínu [...]

Engu að síður vil ég gera alvarlega athugasemd við 193% hækkun á skuldfærslugjaldinu, úr 135 kr, sem það var um mitt síðasta ár, upp í 393 kr. Þetta er langt umfram nokkrar vísitölur og ég vildi gjarnan heyra skýringar á svo ríflegri hækkun. (Hefur sá kostnaður sem þetta gjald á að dekka, þrefaldast á skömmum tíma?)

  Fékk svo fáeinum dögum seinna eftirfarandi svar:

Hækkun á gjaldskrá til korthafa okkar er tilkomin vegna hækkunar á aðkeyptri þjónustu til Kreditkorts við tölvuvinnslu, uppgjör og færsluhirðingu frá seljendum. Þetta er sem sagt gjöld sem hafa hækkað til okkar og við verðum því miður að hækka verðin.

hmmm... ég veit ekki. Hafa þessir umræddu kostnaðarliðir hjá fyrirtækinu þrefaldast síðan í jún 2008?  Finnst líklegra að aðalástæðan sé snarminnkuð velta vegna miklu minni innkaupa, sérstaklega erlendis, Kreditkort hafi þess vegna þurft að "stilla" tekjustraumana...


Belgi kúkar

Meira af svona fréttum. Get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig nokkur maður vilji innbyrða, hvað þá sprauta í æð, efni sem kemur beint úr endaþarmi einhverra útlendinga...
mbl.is Efnin að skila sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

193% gjaldskrárhækkun hjá Kreditkort hf. - á 8 mánuðum!

Var að fá í pósti greiðslukortayfirlit frá Kreditkort hf. Tók eftir því að liðurinn "skuldfærslugjald" var kominn upp í 396 kr. Eitthvað minnti mig að þessi tala hefði verið mun lægri fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fletti í heimilisbókhaldinu og mikið rétt, þetta gjald hefur margfaldast á stuttum tíma.

Í júní 2008 var gjaldið 135 kr, en hækkaði um haustið í 180 kr, eða um 33%. Þetta 180 kr gjald entist fyrirtækinu hins vegar ekki lengi, því nú í mars er gjaldið hækkað í 396 kr, eða um 120%, til viðbótar við 33% hækkunina nokkrum mánuðum áður.

Samtals er hækkunin því frá júní '08 og þar til nú í mars 193%. Rétt tæp þreföldun, geri aðrir betur. Ég ætla að hafa samband við fyrirtækið í fyrramálið og leita skýringa og hvet aðra viðskiptavini til að gera hið sama.

Eigendur Kreditkort hf. eru bankar og sparisjóðir, fremstir á lista á heimasíðu félagsins eru ríkisbankarnir "Nýji Glitnir banki hf." [sic] og NBI hf.

Kannski ég ætti að beina spurningu minni líka til fjármálaráðherra?


Hópur til stuðnings Gylfa Magnússyni á Facebook

Við viljum Gylfa Magnússon áfram ráðherra eftir kosningar

gylfi_magnussin_hagfraedingurÞessi hópur hefur einfalt og skýrt markmið. Við þurfum áfram gegnheilan, traustan og greindan viðskiptaráðherra á næsta kjörtímabili, í þessu mikilvæga ráðuneyti sem mun hafa yfirstjórn yfir mest allri bankastarfsemi í landinu næstu misserin. Um þetta getum við verið sammála, jafnvel þó við styðjum og kjósum mismunandi flokka.



Ekki missa af þessu! - Þrusu 'sánd' á lokaæfingu

Bach+Mozart_250Generalæfing var í morgun, laugardag, fyrir tónleikana sem verða á morgun sunnudag og miðvikudag, í Langholtskirkju kl 20 báða daga.

Þetta er eitthvað sem unnendur stórra kórverka mega ekki að láta fram hjá sér fara, en líka þeir sem lítið þekkja klassíska tónlist munu njóta þess að kynnast voldugum og tilfinningaríkum tónaheimi þessara mögnuðu meistara!

85 manna gæðakór í fantaformi, 28 manna hljómsveit með fólki úr fremstu röðum og fjórir einvala einsöngvarar af ungu kynslóðinni. Sjá nánari upplýsingar í fyrri færslu. og á heimasíðu kórsins.

Bach-Mozart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband