Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ómakið tekið af Brynjari Níelssyni

'Markaðsmisnotkun' er það þegar menn "plata" markaðinn með röngum og villandi upplýsingum.

'Umboðssvik' er það kallað þegar menn gera eitthvað án umboðs, svo sem að lána út mjög háar upphæðir úr fyrirtæki, án þess að hafa til þess bærar heimildir.

Vona að lesendur þreyttust ekki á að lesa þetta. Það er ekkert voða flókið að útskýra hugtökin í grófum dráttum, þó svo Brynjar Níelsson hafi ekki viljað ómaka sig til þess, í harðorðum pistli um 'Al Thani' dóminn. Kannski var Brynjar svona mikið að flýta sér, alla vega hafði hann varla tíma til að lesa, hvað þá gaumgæfa dóminn, sem er mjög langur og ítarlegur og var birtur á netinu rétt áður en Brynjar birti pistil sinn. (Dómurinn var kveðinn upp kl. 15 og birtur á netinu nokkru síðar, en Brynjar birtir pistil sinn kl. 16:30.)

Dómurinn var kveðinn upp af fjölskipuðum héraðsdómi. Þar er rökstutt að hinir dæmdu hafi gerst sekir um þetta tvennt ofangreint, annars vegar gefið rangar og mjög villandi upplýsingar sem höfðu áhrif á markað, og hins vegar lánað mjög háar fjárhæðir út úr bankanum án þess að hafa til þess heimildir, til vafasamra viðskipta sem einn hinna dæmdu var beinn aðili að.

Það er mjög sérstakt að þingmaður á löggjafarþingi gagnrýni nýfallinn dóm svo harkalega sem Brynjar gerir. Ekki er hægt að túlka orð hans öðruvísi en svo að dómararnir kunni ekki skil á lögunum sem dæmt var eftir, og að ekki sé lengur óhætt að starfa í banka.

Það sem ekki síður vekur athygli við gagnrýni Brynjars er ekki hversu hrokafull hún er, hann skrifar yfirleitt ekki öðruvísi, heldur að hann rökstyður ekki með einu orði þessa harkalegu gagnrýni sína á Héraðsdóm Reykjavíkur.

Mér finnst að löglærður Alþingismaður sem ræðst með þessum hætti á dómstóla verði að skýra mál sitt. 

 


Mandarínuréttlæti

Hún er ansi kostuleg umræðan sem kemur upp á hverju ári, umræðan um að krakkar fá misflottar gjafir frá jólasveininum í skóinn. Sögur fara á kreik að sumir krakkar fá Playstation leik meðan aðrir fá mandarínu, og enn einn fær iPad.

Ef við ætlum ekki að sitja stífar reglur um að jólasveininn gefi alltaf nákvæmlega það sama þá munu krakkar fá ólíkar gjafir í skóinn. Einn fær mandarínu meðan önnur fær Playmókall. Eigum við að skamma fólk fyrir að gefa dót í skóinn? Eða setja samræmdar reglur, mandarína 12. desember, límmiða 13. desember. Pez-kall 14. desember o.s.fr.

Foreldrar sem segja barni sínu að jólasveinn komi með dót í skóinn hljóta að geta útskýrt af hverju hann gefi ekki öllum nákvæmlega það sama (sem væri auðvitað ósköp eðlilegt, ef einn og sami maðurinn kæmi með allar gjafirnar á hverri nóttu!) Segið bara að hann sé með alls konar dót í pokanum og þetta sé svolítið happadrætti, hver fær hvað. Rétt eins og lífið er.

Playmókall er auðvitað miklu flottari gjöf en mandarína. En ég held að það séu fyrst og fremst við fullorðnu sem hneykslumst á (ímynduðum) iPödum í skóinn. 7 ára krakkar eru ekki með jafn nákvæmlega línulegan kvarða á verðmæti gjafa, eftir því hvað þær kosta úti í búð. 

Eitt af því sem við þurfum að kenna börnunum okkar er að allir fá ekki alltaf nákvæmlega það sama, alltaf, í þessu lífi.

Sumir hafa ekki vaxið upp úr svoleiðis kökuskiptingarréttlætisprinsippum. "Stóra millifærslan" virðist að miklu leyti snúast um einhverskonar svoleiðis réttlæti. Nú eiga hinir að fá, sem eru ekkert búnir að "fá".

eitt að því sem þessi leiðrétting gengur út á er að jafna hlut þeirra sem voru með verðtryggð lán á þessum tíma í samræmi við þá leiðréttingu sem fólk með gengistryggð lán fékk í gegnum dómstóla.

svo segir orðrétt í kommenti við þessa grein. (En var það ekki þannig með gengistryggð myntkörfulán sem voru "leiðrétt" skv. dómi, að þeim var breytt í verðtryggð lán, með tilheyrandi háum vöxtum?)  Enn aðrir tala um að þessi fyrirhugaða aðgerð sé réttlæti fyrir þau sem fengu ekki afskrift í gegnum 110% leið.

En 110% leiðin var annað. það var einmitt afskrift. (Flettið upp orðinu ef þið skiljið það ekki.) Það var verið að stinga á skuldabólu, afskrifa ósjálfbærar íþyngjandi skuldir. Sú afskrift, rétt eins og leiðrétting á gengislánum skv. dómi,  var á kostnað lánveitendanna, ekki ríkissjóðs. Fyrirhugaða stóra millifærslan verður óhjákvæmilega á kostnað ríkissjóðs/skattgreiðenda. Og munið að fólkið sem fékk 110% afgreiðslu situr enn uppi með verulega skuldsetningu og er í sjálfu sér ekkert öfundsvert. 

En nú á sem sé að láta hina fá líka. Af því þeim líður eins og börnunum sem fengu mandarínu í skóinn. Og herrarnir sem stjórna landinu eru búnir að hugsa út leið sem kostar ekki neitt, rétt eins og þegar jólasveinninn kemur færandi hendi með gjafir.


Páll vill ekki Rás 1

Nú rúmri viku eftir fjöldauppsagnir á Ríkisútvarpinu þar sem m.a. helmingur af dagskrárgerðarfólki á Rás 1 var látinn fara, langflestir samstundis, hefur útvarpsstjóri Páll Magnússon loksins gefið einhverjar skýringar á þessu, af hverju Rás 1 var reitt þetta bylmingshögg þegar rásin - fyrir þessa helmingun hennar - kostaði aðeins til sín 7% af tekjum stofnunarinnar.

Páli finnst Rás 1 ekki höfða til nógu margra. Dagskráin er of "þröng" og sérviskuleg segir útvarpsstjórinn.

Það má ekki hafa skírskotunina of þrönga, þetta heitir almannaþjónustuútvarp, þetta er ekki fámannaþjónustuútvarp og út á það gengur skilgreiningin á þessari starfsemi alls staðar í kringum okkur, ... það verður að vera almenn skírskotun í dagskrárgerð, en það má ekki breyta þessu í einhverja sérviskulega, þrönga dagskrá sem hefur ekki almenna skírskotun 

Þetta er nú ekki mjög skýrt hjá útvarpsstjóranum, frekar loðið satt að segja, en altént einhverskonar hálfgildings skýring* á því af hverju hann (og, samkvæmt honum, einhverjir enn ónafngreindir og ósýnilegir "sviðsstjórar") ákváðu að henda út helmingnum af Rás 1. Við getum spurt okkur af hverju hann kemur með þessa skýringu fyrst núna, 10 dögum eftir uppsagnirnar.

*[viðbót, í viðtalinu sagði hann víst líka "Það er ákveðin týpa af dagskrárgerð sem við erum að hverfa frá".]

En bíðum nú hæg. Er þetta hlutverk Páls Magnússonar? Að ákveða hvernig dagskrá Rásar 1 skuli vera? Og reka fólk ef dagskráin er ekki nógu alþýðleg að hans mati? Ég heyrði sjálfur ekki ummæli Páls, en mér skilst að hann hafi ekki komið með nein dæmi um það sem honum fannst of "þröngt og sérviskulegt" á Rás 1.

Stjórnarformaður stjórnar RÚV virðist hins vegar ekki sammála því að það þurfi að gera meirháttar uppstokkun á efni og efnistökum RÚV, hann segir það vera "skýra stefnu stjórnar að engar meiriháttar breytingar verði gerðar á áherslum Rásar 1".

Hvað á stjórnin að gera við útvarpstjóra sem gengur í berhögg við stefnu stjórnarinnar?? 

Hvað fannst Páli vera of sérviskulegt á Rás 1? Beinar útsendingar af Sinfóníutónleikum? Verðlaunaðir vísinda- og fræðsluþættir Péturs Halldórssonar, tónlistarumfjöllun Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og fleira fólks, sem látið var fara?

Eða á dagskráin að vera minna "sérviskuleg" og höfða meira til fjöldans? Kannski bara spila vinsældalista hverju sinni og segja hvað klukkan sé á milli laga?

Þetta er ekki í lagi.

Þetta er mitt ríkisútvarp, jafn mikið og Páls Magnússonar. Hann má ekki sitja og skemma menningarstarf ríkisútvarpsins, bara af því að honum finnist það ekki samræmist hans hugmyndum hvernig skuli reka "fyrirtæki". RÚV á að vera miklu meira en það.

Björgum Rás 1. 

ekf-ruv 


Dómharka

Ég er svolítið forviða að sjá hversu margir telja sjálfsagða og eðlilega sjö ára fangelsidóma yfir 19 ára konum sem gerðu tilraun til að smygla dópi. 

Þær hefðu átt að hugsa um þetta áður en brutu af sér - eða eitthvað á þessa leið segja margir.

Jú fólk verður að taka afleiðingum gjörða sinna. En refsing fyrir lögbrot hlýtur að eiga að vera í einhverju samræmi við alvarleika brotsins.  

Á hverjum er dópsmyglari að brjóta??  Dópneytendum?  Vilja dópistar að burðardýr séu dæmd í margra ára fangelsisvist? Er það ekki staðreynd að margir dópsmyglarar eru sjálfir dópistar? (Sbr. ógæfusama manninn sem fyrir skemmstu lést á Litla Hrauni vegna of stórs skammts af dópi.)

Ég er ekki bara að tala um stelpurnar tvær í fangelsi í Prag. Hér á landi eru dópsmyglarar dæmdir mjög þungum dómum, margra ára fangelsi fyrir hörð efni og mikið magn. 

Af hverju á "burðardýr" sem smyglar dópi (en neyðir engan til að taka það) að fá margfalt harðari dóm en einhver sem er sekur um alvarlega líkamsárás? Jafnvel þótt þú limlestir einhvern hrottalega fengirðu vægari dóm en fyrir að smygla nokkrum kílóum af dópi. Sanngjarnt og réttlátt? 

Hér er raunverulegt dæmi um dóm fyrir líkamsárás:

"Sakfellt fyrir þrjár líkamsárásir, þar af eina sérstaklega hættulega. Refsing ákveðin fangelsi í 8 mánuði, þar af eru 6 mánuðir skilorðsbundnir til 3 ára. Þá var ákærði dæmdur til að greiða tveimur brotaþolum skaðabætur."

 


Þingmaður vill lækka laun kvenna í Sinfó

Ungur þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill lækka laun kvenna í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Samkvæmt frétt RÚV lýsti þingmaðurinn furðu sinni á launum kvenna í hljómsveitinni.

Þingmaðurinn telur að konurnar í Sinfó eigi að vera svo ánægðar með að fá tækifæri til að spila með sveitinni og geta sett það á ferilskrá sína, að þær þurfi alls ekki há laun.

Ég held að það væri heiður að spila í einni flottustu sinfóníu heims og það væri dýrmætt fyrir frekari frama í tónlistinni. 

Þingmaðurinn, sem er af karlkyni, talaði ekkert um laun karlmanna í Sinfóníuhljómsveitinni, svo væntanlega vekja þau enga furðu í huga hans. Þingmaðurinn telur sem sé ekki að það þurfi að lækka laun karlmanna í Sinfóníhljómsveitinni, bara laun kvenna.

Sjaldan hefur karlremba opinberast með jafn skýrum hætti úr ræðustól Alþingis.


Ayn Rand: 'Undirstaðan' - FRAMHALD

Róttæki einstaklingshyggjusinninn Ayn Rand skrifaði skáldsöguna 'Undirstaðan' (Atlas shrugged), sem þýdd hefur verið á íslensku og fjallar um að hinir ríku sem bera samfélagið á herðum sér (eins og gríski guðinn Atlas forðum) segja STOPP og stinga af, til að þurfa ekki að halda uppi alls konar aumingjum og sníkjudýrum samfélagsins.

Ýmsir frjálshyggjumenn hafa mikið dálæti á þessari bók, og telja hana einskonar framtíðarspá um það sem gæti gerst ef vestrænar ríkisstjórnir hætta ekki geigvænlegri skattpíningu á ríka fólkinu, fólkinu sem "skapar verðmætin". (Þetta með að ríkasta fólkið skapi verðmæti samfélagsins eru ekki mín orð, heldur stjórnmálafræðiprófessors við Háskóla Íslands, svo þeim ætti að mega treysta.)

Í framhaldsbókinni, 'Undirstaðan II' (sem Ayn Ran náði ekki sjálf að klára) snýr hins vegar ríka fólkið aftur tilbaka.

Í útópíska ríkafólks-landinu var nefnilega enginn til að þrífa klósett, enginn til að gera við bíla, enginn til að hirða garða og slá gras, enginn til að byggja hús, enginn til að leggja vegi, enginn til að afgreiða á kassa í matvöruverslunum, enginn til að fylla á hyllurnar, enginn til að keyra vörubíla, enginn til að vinna í verksmiðjum, enginn til að rækta korn eða slátra nautgripum, enginn til sauma föt, enginn til að setja saman iPad tölvur, enginn til að steikja hamborgara og þjóna á veitingastöðum, enginn til að keyra ruslabíl.

Það er nefnilega ekki þannig að bara ríka fólkið haldi samfélaginu gangandi og geri allt.

Farmworkers

Farandverkamenn í Bandaríkjunum. 


Álit lögmanns

Lögmaður er ekki véfrétt. Þú sendir ekki spurningu til lögmanns eins og til Vísindavefsins.

Oftar en ekki er álit lögmanns fengið til að rökstyðja tiltekin sjónarmið. Lögfræði snýst ekki fyrst og fremst um að finna hið eina rétta svar við spurningu heldur miklu frekar um að rökstyðja svarið sem best.

Lögfræðiálit sem segir bara 'Já, þú gera svona', án frekari rökstuðnings er einskis virði.

Þegar hagsmunaaðili í miðri varnarbaráttu fyrir peningalegum hagsmunum kallar eftir lögfræðiáliti þá er það til að hjálpa sér í sinni baráttu, til að rökstyðja sín sjónarmið. Hagsmunaaðilinn er ekki að leita eftir hlutlausu áliti. 

Lögmaðurinn talar máli umbjóðanda síns og rökstyður það lögfræðilega sem best hann getur. 

Þess vegna er það ekki fréttnæmt að útgerðarfyrirtæki fær lögmann til að setja á blað álit sem hentar fjárhagslega hagsmunum þess. Ekki fréttnæmara en þegar einhver lögmaður úti í bæ talar máli skjólstæðings í hagsmuna- eða ágreiningsmáli.

Alveg sama hvað lögmaðurinn gerði í fyrra starfi. 

jsg 

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður. 


Meinlegur misskilningur séra Sigríðar

Séra Sigríður Guðmarsdóttir mætti í útvarpsviðtal í gærmorgun til að gagnrýna hugmynd sem vakið hefur athygli, um að stofna nýtt trúfélag, Læknavísindakirkjuna, í þeim tilgangi að láta sóknargjöld sem félagið fengi frá ríkinu renna til heilbrigðisþjónustu.

Sigríður fann margt að þessari hugmynd og sagði hana bæði neyðarlega og einfeldningslega. Henni tókst að færa rök fyrir því að hugmyndin gerði lítið úr lífsskoðunarfélaginu Siðmennt.

Ég held að séra Sigríður hafi viljandi verið að misskilja hugmyndina. Hugmyndin er ekki komin fram vegna þess að fólk finni hjá sér einlæga þörf á nýju trúfélagi. Hugmyndin er komin fram vegna þess að margt fólk finnur ekki þörf fyrir trúfélög, fyrir sig og sitt líf. Þess vegna finnst fólki ekki að ríkið eigi að fjármagna trúfélög eins og hverja aðra almannaþjónustu með því að greiða sóknargjöld til trúfélaga án þess að innheimta slík gjöld sérstaklega frá þeim sem skráðir eru í félögin. 

Fólki finnst asnalegt og það fyrirkomulag að ríkisjóður greiði sóknargjöld til allra mögulegra trúfélaga, beint úr ríkissjóði eins og hver önnur ríkisútgjöld. (Ríkið innheimtir ekki sérstaklega þessi gjöld frá þeim sem eru í trúfélögum gagnstætt við það sem oft er haldið fram heldur er þetta fé tekið af almennum tekjum ríkissjóðs.) 

Trúfélög eru í eðli sínu ekki almannaþjónusta sem hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eiga að fjármagna . Í trúfrjálsu landi á ríkisvaldið ekki að leitast við að styrkja trúfélög, sem eru grundvölluð á trúarkenningum sem alls ekki allir fallast á. Það breytir engu þó svo lögin heimili nú lífsskoðunarfélögum að fá sambærilega viðurkenningu og skráð trúfélög. Það breytir heldur engu þó svo margt í starf trúfélaga geti talist gott og þarft starf. Margs konar félög vinna gott starf, hjálparsveitir, góðgerðafélög, kórar og íþróttafélög, án þess að ríkið haldi þeim uppi og greiði félagsgjöld fyrir meðlimi félaganna beint úr ríkissjóði.  Svona félög, líkt og trúfélög og lífsskoðunarfélög, eru frjáls félagasamtök sem ríkið á ekki að fjármagna.

Hugmyndin um Læknavísindakirkjuna snýst um það að fólk vill ekki að almennir skattar sem við greiðum í ríkissjóð fari í að greiða sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar, Votta Jehóva, Krossins, o.fl. trúfélaga, eins og gert er í dag.

Ef ríkið og ríkisstofnunin Þjóðkirkjan ætla að fela sig á bakvið þann útúrsnúning að ríkið innheimti sóknargjöld, þá eiga þeir sem ekki eru í trúfélagi að fá að sleppa því að greiða þann "skatt" - eða - fá að ráðstafa þessu "innheimta" gjaldi til hvaða (trú)félags sem er, jafnvel trúfélags sem er stofnað utan um trú og traust á læknavísindum og heilbrigðisþjónustu.

sera


"Læknavísindakirkjan" og sóknargjöld

Nokkur umræða hefur skapast um þá hugmynd frá formanni Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, að stofna sérstakt trúfélag, "Læknavísindakirkjuna" í þeim tilgangi að fá sóknargjöld frá ríkinu og láta þau svo renna til Landspítalans.

Fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi við hugmyndina og lýst sig reiðubúna til að ganga í félagið. Undirliggjandi er sú hugsun að ríkið láti of mikið fé til Þjóðkirkjunnar, m.a. sóknargjöld, sem eru 8.700 kr á mann á ári. (Sóknargjöld eru ekki innheimt sérstaklega af neinum manni, heldur "innifalin" í tekjuskatti. Ríkið greiðir sóknargjald fyrir sóknarbörn 16 ára og eldri, en innheimtir það ekki frá viðkomandi. Nánar útskýrt t.d. hér.)

En ef fólki finnst að of mikið fé renni frá ríkinu til Þjóðkirkjunnar í formi sóknargjalda þá er óþarft að stofna nýtt félag. Nóg er að þú sér ekki skráður hjá Þjóðskrá hjá viðurkenndu trúfélagi* þar með rennur ekki sóknargjald fyrir þig úr ríkissjóði.

Ef fækkar í Þjóðkirkjunni þá fækkar líka prestum á launaskrá hjá ríkinu**, um 1 prest fyrir hverja 4.000 (minnir mig) manns sem fækkar. (Með sama hætti myndi fjölga stöðugildum presta ef fjölgar í Þjóðkirkjunni.)

*(Eitt svokallað lífsskoðunarfélag, Siðmennt, er líka viðurkennt með sama hætti og skráð trúfélög, og rennur sóknargjald frá ríkissjóði til Siðmenntar fyrir hvern félagsmann sem skráður er í félagið samkvæmt Þjóðskrá. Þess ber að geta að félagið býður líka fólki að vera skráðir félagar bara hjá félaginu sjálfu en ekki í Þjóðskrá. Þeir félagar greiða beint og milliliðalaust félagsgjald til félagsins, sem fær ekki sóknargjald frá ríkinu fyrir viðkomandi.)  

**(Allir prestar Þjóðkirkjunnar og starfsfólk Biskupsstofu eru ríkisstarfsmenn og þiggja laun frá ríkinu.)

startrek

Myndin tengist efni pistilsins ekki beint. Þetta er mynd af Strak Trek söfnuðinum í Lynchburg, Virginu. 


Jónas og malbikið

Jónas Kristjánsson telur afleitt að í nýju skipulagi við Mýrargötu sé bara gert ráð fyrir 0.8 bílastæði á hverja íbúð. Jónas telur það vera ofsóknir að borgin geri ekki ráð fyrir 2 bílastæðum á sérhverja íbúð.

Með illu er reynt að pína fólk til að fylgja sérviturri hugmyndafræði. En ekki á að vera í verkahring borgar að ofsækja borgarana. 

segir Jónas í pistli sínum Borgarar ofsóttir

Þetta er furðulegur pistill, sér í lagi frá heimsborgara eins og Jónasi. Hvort finnst Jónasi meira gaman að rölta um miðbæinn í Flórens, eða úthverfi í Mílanó? 'Gamla stan' í Stokkhólmi eða Solna? 

Nei, svona í alvöru talað, veit Jónas hvílíkt gígantískt landflæmi fer undir bílastæði og umferðarmannvirki í borginni? Og hann vill endilega malbika meira, í hjarta borgarinnar, við gömlu höfnina??

Hvernig sjá Jónas og aðrir bílaelskendur fyrir sér að Reykjavík eigi að þróast?

Borgin mun vonandi stækka áfram, annars dafnar hún ekki. Við getum reynt að skapa umhverfi þar sem mannlíf dafnar á götunum. Eða við getum byggt hverfi þar sem fólk er inni í húsum, fer niður í bílakjallara og ekur svo út og horfir á umhverfið út um bílrúðu. Það er ekki mannlíf, það er bílalíf

Þessar tvær myndir eru úr nýlegu hverfi, við Sóltún/Mánatún (bakvið Borgartún). Myndirnar eru teknar á sunnudagsmorgni að vori, þegar flestir íbúar og bílar eru heima. En skipulagið er í anda Jónasar Kristjánssonar, með malbiksflæmi, yfirdrifið mörgum bílastæðum, bæði ofan og neðan jarðar.

Fólk sem finnst það vera ofsótt í miðbænum gæti kannski flutt sig hingað. 

 

tun

tun2 

Miðbæjarhverfi, sem skipuleggjendur hafa lagt sig fram við að láta líta út eins og úthverfi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband