Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.9.2013 | 17:54
Þjóðkirkjan hefur EKKI tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra
Ótal sinnum síðustu daga og vikur hef ég séð Biskup Íslands endurtaka þau orð, að Þjóðkirkjan hafi tekið "skýra afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra, fjölskyldum og hjónabandi" (t.d. hér á heimasíðu Biskupsstofu.)
Þjóðkirkjan sem stofnun hefur alls ekki tekið "skýra afstöðu" með hjónabandi samkynhneigðra. Þjóðkirkjan leyfir starfsmönnum sínum, prestum kirkjunnar, að vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og heimilar prestunum að sýna slíka andstöðu í verki í starfi sínu með því að neita samkynhneigðum um hjónavígslu.
Þetta er kallað að prestar hafi "samviskufrelsi" til að vera mótfallnir hjónabandi samkynhneigðra.
Það er í mínum huga Orwellskt "Newspeak" - öfugmæli - hjá Biskupi, að segja að kirkjan hafi tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra, þegar sannleikurinn er sá að kirkjan hefur alls ekki gert það!
Franklin Graham gæti eflaust orðið fínasti Þjóðkirkjuprestur. Maðurinn er elskulegur, sanntrúaður og góður predikari. Hann er vissulega mikið á móti hjónabandi samkynhneigðra, en það er engin fyrirstaða gegn því að vera Þjóðkirkjuprestur. Þjóðkirkjuprestar mega vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og mega neita samkynhneigðum um þjónustu.
Þetta er svona pínu svipað eins og ef bandarískt rútufyrirtæki árið 1963 hefði sagt: "Við höfum tekið skýra afstöðu með blökkumönnum og réttindabaráttu þeirra", en gefið bílstjórum sínum "samviskufrelsi" til að neita að aka með svarta farþega.
Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2013 | 16:00
Flugvöllur - nr. 2: Hvað með Bessastaðanes??
Ítarleg og vönduð skýrsla var gefin úr af Samgönguráðuneyti og Reykjavíkurborg í apríl 2007 um mögulega framtíð Reykjavíkurflugvallar. Að baki hennar liggur mikil vinna og margir sem komu að gerða hennar. Ég hvet þá sem vilja ræða þetta mál að lesa skýrsluna gaumgæfilega. Það er oft svo í samfélagsumræðunni, að menn tala og tala og mynda sér mjög eindregnar skoðanir, en hafa ekki fyrir því að kynna sér ítarlegar upplýsingar um málið.
Í skýrslunni er reynt að skoða efnahagsleg áhrif ýmissa möguleika, en þeir helstu eru: óbreyttur flugvöllur í Vatnsmýri, minni flugvöllur í Vatnsmýri, flugvöllur á Lönguskerjum, flugvöllur á Hólmsheiði, eða að innanlandsflug flytjist frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur.
Við vinnslu skýrslunnar var ekki búið að ljúka ítarlegri úttekt á veðurfari á Hólmsheiði, en það er þó gert ráð fyrir því að nýting flugvallar á heiðinni yrði lakari en í Vatnsmýri. Mér sjálfum hefur sýnst að flugvölllur á Hólmsheiði sé í rauninni ekki alvöru valkostur, og varla heldur á Lönguskerjum.
Það eru einnig nefndur til sögunnar ýmsir aðrir valkostir, sem hafa komist í umræðuna á einhverjum tímapunkti, m.a. flugvöllur á Bessastaðanesi. Það kemur raunar fram að flugvallarstæði á Bessastaðanesi fær góða einkunn.
Í forsendum skýrsluhöfunda kemur fram að Löngusker og Hólmsheiði eru taldir einu staðirnir í nágrenni Reykjavíkur sem hafa nægt rými fyrir "alhliða flugvöll", en Bessastaðanes er aðeins talið rýma "lágmarksflugvöll fyrir innanlandsflug" (Sjá skýrslu, bls. 43-44).
Mér kemur það spánskt fyrir sjónir að lesa að aðeins sé pláss fyrir "lágmarksflugvöll" á Bessastaðnesi, en "alhliða flugvöll" á Lönguskerjum, úti í sjó! Ef hægt er að gera uppfyllingar undir flugvöll á Lönguskerjum (sem myndi reyndar kosta mjög mikið, tugi milljarða, og hafa mikil umhverfisáhrif) er þá ekki líka hægt að gera minni uppfyllingar við Bessastaðanes, til að koma slíkum flugvelli fyrir þar?
Ég er líka nokkuð viss að ýmsar forsendur frá árunum 2006-2007 hafa breyst. Þegar skýrsluhöfundar teikna upp "alhliða flugvöll" er gert ráð fyrir umtalsverðri aðstöðu fyrir einkaflug, flugkennslu, og "viðsiptaflugi". Allt hefur þetta minnkað verulega (m.a. vegna breytts efahags og miklu hærri eldsneytisverðs) og, það sem meiru máli skiptir, mikið af þessu má að skaðlausu vera í Keflavík! Viðskiptaflug á væntanlega við einkaþotur, sem eru mun sjaldséðari nú en á árunum 2006-2007.
Er raunhæfur möguleiki að byggja innanlandsflugvöll á Bessastaðanesi, sem myndi fullægja þörfum innanlandsflugs næstu 100 ár og skapa ásættanlega málamiðlun - gefa Reykjavík möguleika á að stækka og auka verulega byggð nálægt miðbænum, en allir landsmenn hefðu hag af því - og viðhalda góðum flugsamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgar svæðis?
Hér er ein útfærsla (héðan), einföld teikning þar sem flugbrautum núverandi Reykjavíkurflugvölls er komið fyrir á Bessastaðanesi. Flugbrautirnar þurfa hins vegar ekki að vera þrjár og og þurfa ekki ða hafa þessa afstöðu hver til annarrar, þannig má hæglega koma tveimur flugbrautum betur fyrir, en myndin sýnir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.9.2013 | 08:31
Flugvöllur - nr. 1
Það vill einkenna þjóðmálaumræðu um hin ýmsu mál að menn ræða ekki saman, heldur henda fram sínum sjónarmiðum en hlusta ekki á andstæð sjónarmið. Úr verður kappræða en ekki samræða, sem verður oft persónuleg og heiftúðug. Þetta er ekki góð leið til að taka ákvörðun og svona ræðum við ekki erfið og flókin mál heima hjá okkur eða í vinnunni. Ég ætla að reyna að ræða hér hin ýmsu sjónarmið í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll, því mér finnst sjálfum ekkert auðvelt eða augljóst að taka einarða afstöðu með eða á móti flugvellinum.
Landsbyggðin þarf flugvöll vegna alls sem bara er í Reykjavík
Þessi rök heyrast oft, að á meðan margskonar stjórnsýsla, aðalsjúkrahúsið, o.fl. er einungis í Reykjavík, þá sé sjálfsagt og eðlilegt að allir landsmenn eigi greiða leið í borgina. Þetta er alveg gilt sjónarmið. En hitt skiptir líka máli að langflestir landsmenn nota flugið mjög sjaldan til að komast til Reykjavíkur. Fólk sem býr á Snæfellsnesi, Húnavatnssýslum, öllu Suðurlandi *(meginlandi), sunnanverðum Vestfjörðum*, sunnanverðum Austfjörðum* og Skagafirði, notar innanlandsflug sárasjaldan. Það er ekki flogið reglulega frá Blönduósi, Sauðárkróki*, Höfn*, Vík í Mýrdal, og fleiri stöðum. Flugfélag Íslands er með áætlunarflug á þessa staði: Akureyri, Ísafjörð, Egilsstaði, Þórshöfn, Vopnafjörð, og Grímsey.
*(Viðbót: Flugfélagið Ernir er líka með áætlunar flug frá Reykjavík á nokkra staði á landinu: Bíldudal, Gjögur, Húsavík, Höfn og Vestmannaeyjar. Eyjaflug flýgur reglulega milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, en þess er ekki getið á heimasíðu Reykjvíkurflugvölls.)
Íbúar á Akureyri og Ísafirði, þangað sem er flogið, keyra samt miklu oftar til Reykjavíkur en þeir fljúga. Langflestar fólksferðir milli Akureyrar og Reykjavikur eru farnar með bíl en ekki flugi.
Niðurstaða: flugvöllurinn er ekki mikið notaður, flestir nota hann aldrei eða sjaldan. Ísland er einfaldlega ekki svo stórt land. En það er samt skiljanlegt og málefnalegt sjónarmið að fólk vilji eiga möguleika á að fljúga til Reykjavíkur. Málið er að ef sá möguleiki er sjaldan nýttur, er það nokkuð sem við hljótum að taka tillit til í umræðu og ákvarðanatöku. Fyrst flugvöllurinn er lítið notaður af meginþorra landsmanna hljótum við frekar að geta gert málamiðlanir um framtíðarstarfsemi hans.
Heildarfarþegafjöldi sem fer um Reykjavíkurflugvöll hefur sl. 10 ár verið um 380.000 á ári. Það þýðir að að meðaltali fer hver Íslendingur rétt ríflega einu sinni í innanlandsflug á ári, en raunin er sú að flestir fara sjaldan eða aldrei, og nokkuð fámennur hópur fer þá ansi oft. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim ferðum, og þær geta skipt máli fyrir mun fleiri en bara þessa sem fljúga.
En þetta er samt sem áður ekki há tala í heildina. Um Hvalfjarðargöngin fóru t.d. 1.84 milljón bílar á síðasta ári. Ef við gefum okkur að 1.3 sitji að meðaltali í hverjum bíl þýðir það að 2.4 milljónir farþega fóru um Hvalfjarðargöng, eða u.þ.b. 5 sinnum fleiri en fara um Reykjavíkurflugvöll.
Þetta eru ekki góð rök fyrir því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Við sem samfélag viljum að hér séu samgöngur sem greiðastar, jafnvel til fámennra staða. En samgöngur og samgöngumannvirki mega heldur ekki kosta um of. Þess vegna er í dag flogið á mjög fáa staði á landinu, flugrekstur á minni staði er ekki arðbær og þyrfti verulegar niðurgreiðslur til að halda uppi slíku flugi.
Næst ætla ég að ræða hvort Reykjavík (og ekki bara Reykjavík heldur landið allt) hafi af því svo mikinn hag að nýta landið í Vatnsmýri undir annað, að réttlætanlegt væri að leggja niður flugvöllinn. Í því samhengi þarf líka að skoða hvað kæmi í staðinn, annar flugvöllur nálægt borginni, eða að flugið færi til Keflavíkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.9.2013 | 09:27
Það er nóg pláss í Reykjavík
Skipulagssaga Reykjavíkur eftir seinna stríð er svolítið sérstök. Hverfi voru byggð eins og litlar eyjar í holtum austantil í bænum. Væntanlega réð miklu að gott væri að grafa fyrir húsgrunnum. Mýrlendi var skilið eftir. Þannig eru eldri hverfi frá eftirstríðsárunum í Teigum, Laugarásholti, Sundum, Vogum, Gerðum, en á milli þessara hverfa voru heilmikil landflæmi, sem svo hægt og rólega voru numin. Þannig var t.d. Kringlan ekki fullbyggð fyrr en 1987. Allt svæðið sem fer undir hana, Borgarleikhúsið, Versló, Ofanleiti, Útvarpshúsgímaldið, var bara mýri og móar, fyrir innan við 30 árum. Nánast í miðri borginni.
Enn er verið að fylla uppí vannýtt svæði í borgarlandslaginu. Blokkirnar allar meðfram Skúlagötu eru innan við 20 ára og enn eru þar óbyggð flæmi. Stórt hverfi hefur risið á síðustu árum í túnunum (Sóltún), bakvið Borgartún og vestan Kringlumýrarbrautar, og það svæði er ekki klárað.
Svo fram á þennan dag virðist hafa verið nóg byggingarland miðsvæðis í Reykjavík.
Þess vegna á ég bágt með að skilja þann málflutning að ekki sé pláss fyrir flugvöll í Reykjavik.
Það hefur hingað til verið meira en nóg pláss í Reykjavík undir byggð. Meira að segja allt í kringum flugvöllinn. Þar var reistur heill háskóli (HR) fyrir fáum árum. Og HÍ virðist hafa meira en nóg pláss til að stækka, t.d. er mjög rúmt um Öskju, og stúdentagörðum hefur jafnt og þétt fjölgað, nú síðast er verið að byggja veglegar byggingar við Oddagötu. Íslensk erfðagreining byggði stórt og glæslegt hús á háskólasvæðinu fyrir um áratug.
Marga dreymir um að sjá nýtt og öðruvísi hverfi rísa í Vatnsmýri. Með þéttri byggð og miðbæjarbrag. Ég er efins. Af hverju er ekki fyrst prófað slíkt skipulag annars staðar, þar sem ekki þarf að fórna flugvelli?
Ég sé ekki að þau rök haldi að það vanti pláss í Reykjavík, og að þess vegna eigi að leggja niður flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.
16.8.2013 | 10:23
Brynjar Níelsson fer með rangt mál
Þingmaðurinn Brynjar Níelsson skrifar pistil á bloggi sínu um ríkisrekstur og almannaþjónustu, sem kemur inn á Þjóðkirkjuna og tengsl hennar við ríkið: Formaður Vantrúar og frjálshyggjan.
Margt er að athuga við grein Brynjars. Ég vil sérstaklega staldra við þessi orð Brynjars:
Til að koma í veg fyrir allan misskilning innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trúfélög.
Þetta er rangt.
Það vita þeir sem kynnt hafa sér málið. Ég skrifaði grein um þetta sem birtist fyrir rúmri viku í Fréttablaðinu og visir.is: Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld.
Það kemur ekki á óvart að Brynjar haldi þessu fram, líkast til gegn betri vitund. Það hafa fleiri gert á undan honum og margir munu halda því áfram.
Upplýstur þingmaður á að vita hvernig þessum málum er háttað.
26.7.2013 | 14:59
Meðalfjölskylda greiðir 150 þúsund á ári til RÚV!
Meðalfjölskylda sem er aðeins stærri en meðalstærð, með tvo foreldra og sex útivinnandi unglinga í heimili á aldrinum 16-30 ára greiðir sem nemur 150.400 kr á ári í nefskatt til RÚV. Ef þessir átta útivinnandi einstaklingar meðalfjölskyldunnar eru ekki á meðallaunum heldur eru á lágmarkslaunum þá jafngildir þetta nær heilum nettó mánaðarlaunum eins úr fjölskyldunni.
Þetta er rosalega mikið! segir þingmaðurinn Brynjar Níelsson, sem er sko enginn meðalmaður, þegar kemur að tölfræði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2013 | 11:06
Ertu ekki Íslendingur?!
Fór að skokka í kvöld stuttan hring í Laugardalnum. Á göngustígnum austan við Grasagarðinn, nálægt Álfheimum, stöðvaði mig maður og spurði mig til vegar, en hann var að leita að Fram vellinum, með rúmlega hálffullt bjórglas í hendi og nokkur í maga, af fasi hans að dæma. Líklega hefur hann hitað upp fyrir leikinn í Ölveri í Glæsibæ.
Ég hugsaði með mér að það væri nú munur ef menn gætu hellt í sig öli við hlið vallarins eða á bar í stúkunni sjáfri, eins og fótboltafélögin vilja, þá þyrfti þessi maður ekki að ganga allan Laugardalinn á enda og eiga á hættu að týnast eða að skvettist úr glasinu.
Hann þakkaði mér kærlega fyrir leiðbeiningar en spurði svo nokkuð hvumsa, Af hverju ertu í svona bol? Er þetta ekki tyrkneskur bolur? Af hverju ertu í tyrkneskum bol? Ertu ekki Íslendingur, ha?
Jú mikið rétt, ég var með tyrkneska fánann á maganum. Keypti bolinn í Tyrklandsferð fyrir 6 árum og nota hann til að skokka í. Skemmtilega eldrauður og fáninn er myndrænn og flottur.
En ég var lagður af stað og svaraði ekki manninum. Hefði auðvitað getað sagt honum að ég væri hálfur Tyrki og hefði búið í Tyrklandi til 5 ára aldurs, eða að konan mín væri tyrknesk og börnin mín með tvöfalt ríkisfang.
En af hverju ætti ég svo sem að þurfa að réttlæta fyrir þessum manni í hvaða fatnaði ég hleyp?? Hvort sem ég er Tyrki eða ekki?
Öl er innri maður er sagt. Það er sannleikskorn í því. Menn eru hömlulausari, ófeimnari við að láta í ljós tilfinningar, skoðanir, og fordóma. Er sérstök þörf á að ýta undir það á knattspurnuleikjum?
Bolurinn sem stuðaði öl- og fótboltaunnandann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2013 | 21:10
57% hærri greiðslubyrði - samt ódýrara
Ríkisstjórnin núverandi hefur á stefnuskrá sinni að "afnema" verðtryggingu, og vill að sem flestir lántakendur húsnæðislána geti breytt verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð.
Nú hafa óverðtryggð lán staðið húsnæðiskaupendum til boða síðustu misseri og eru víst töluvert vinsælli hjá bönkum en verðtryggð lán.
Ég prófaði að reikna út hvernig lán myndu koma út hjá mínum viðskiptabanka, Íslandsbanka, 20 milljón króna lán, verðtryggt annars vegar og óverðtryggt hins vegar.
Óverðtryggt lán
Sé lánið tekið sem jafngreiðslulán er mánaðarleg endurgreiðsla 134.487 kr.
7.70% vextir eru fastir til þriggja ára, en eftir það breytilegir. Þeir eru í boði fyrir 70% af fasteignamati, vilji kaupandi hærra lánshlutfall eru vextir hærri (8.6%) fyrir umfram lánið. Það eru líka í boði lán með breytilegum vöxtum strax frá upphafi, sem nú eru 6.75%, þá er mánaðarleg greiðslubyrði 120.606 kr.
Verðtryggt lán
Verðtryggt lán ber 3.95% nafnvexti, sem bankinn má endurskoða að 5 árum liðnum og þá eru þeir breytilegir. Mánaðarleg endurgreiðsla byrjar í 83.724 kr. Meðalgreiðsla fyrstu 12 mán. miðað við 4.6% verðbólgu er 85.327 kr.
Greiðslubyrði óverðtryggðu lánanna fyrsta árið er því 57.6% eða 41.3% hærri, eftir því hvort valið er lánið með föstum vöxtum til þriggja ára eða með breytilegum vöxtum strax frá upphafi.
Hvort er ódýrara?
Síðustu 18 mánuði hefur verðbólga að meðaltali verið 4.6%, það þýðir að heildarvextir á verðtryggðu láni eru í raun 8.6%. Það eru umtalsvert hærri vextir en á óverðtryggðu lánunum. Óverðtryggðu lánin eru því ódýrari. Munurinn í dag á þessum lánum að ofan er 0.9% eða 1,85%. Sá vaxtamunur jafngildir á 20 milljón króna láni ca. 180.000 kr eða 370.000 kr á ári, eftir því hvort tekið er lánið með 7.70% eða 6.75% vöxtum. (Munurinn er í raun aðeins meiri, því verðbæturnar (sem ég vil kalla hluta heildarvaxta) bætast við höfuðstól í hverjum mánuði, og því bætast að auki við vaxtavextir.)
Þannig er verðtryggða lánið dýrara sem nemur 15-35.000 kr á mánuði, þó svo greiðslubyrðin á mánuði sé 35-50.000 kr lægri!
Af hverju er greiðslubyrði svona miklu lægri á verðtryggða láninu?
Af því í raun ertu að taka lán með (í dag) 8.60% vöxtum, en þú borgar bara tæplega helming vaxtanna jafnóðum, hinn rúmlegi helmingurinn bætist við höfuðstólinn - þú ert að taka viðbótarlán í hverjum mánuði fyrir helming heildar vaxtagreiðslunnar!
Eru óverðtryggð lán "varasöm"?
Þau eru varasöm ef þú ræður illa við að greiðslubyrðin gæti hækkað t.d. um 20-40%, ef almennt vaxtastig hefur hækkað eða ef verðbólga er veruleg þegar bankinn endurskoðar vexti. Þá gæti 120 þúsund króna afborgunin skyndilega hækkað í 150.000 kr á mánuði.
En ef þú ræður við hærri greiðslubyrði OG hefur auk þess svigrúm til að ráða við umtalsverða hækkun á greiðslubyrði þá eru óverðtryggðu lánin ótvírætt hagstæðari í dag.
Verða óverðtryggðu lánin alltaf hagstæðari?
Það er ómögulegt að segja. Ef verðbólga skyldi detta niður í t.d. 2-2.5% þá eru heildarvextir verðtryggða lánsins komnir niður í 6-6.5%. En ef verðbólga helst stöðug í slíkum tölum er líklegt að óverðtryggðu vextirnir myndu smám saman lækka líka. (Og það er undantekning í sögu lýðveldisins að verðbólga sé svo lág.)
Eru einhverjir kostir við verðtryggð lán?
Já vissulega. Lánin hafa tvo kosti. Í fyrsta lagi er greiðslubyrði lægri en fyrir óvertryggðu lánin, og munar þar umtalsverðu. Ef þú vilt fá sem mest að láni með sem lægsta greiðslubyrði er verðtryggt lán betri kostur. (En það þýðir að þú ert að bæta við lánið í hverjum mánuði, þú færð í raun samtals mun meira lánað, í lengri tíma og borgar þar af leiðandi hærri upphæð í vexti, fyrir utan það að vextirnir sjálfir eru hærri.)
Verðtryggða lánið hefur í öðru lagi þann kost að greiðslubyrði sveiflast mun minna en hún gæti gert í tilviki óverðtryggðs láns. Ef það kemur langvarandi aukin verðbólga með t.d. 5-7% verðbólgu hækkar greiðslubyrðin lítið (þó svo vissulega hækkar höfuðstóllinn). En bankinn gæti tekið uppá því að hækka vexti á óverðtryggða láninu þínu úr t.d. 6.75% í 9.5%. Það þýðir að greiðslubyrðin gæti skyndilega hækkað um 40-50%, segjum úr 120.000 kr á mánuði í 170.000 kr á mánuði.
Verðtryggð lán hafa vissulega kosti, en þeir eru dýru verði keyptir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2013 | 09:31
Hvað gera þeir sem FREKAR vilja verðtryggt en óverðtryggt??
... eins og þingmaðurinn Karl Garðarsson, og eflaust fleiri, sem vilja frekar lægri greiðslubyrði sem fylgja verðtryggðum lánum, þó svo heildarkostnaður við þau lán sé hærri (fyrst og fremst vegna þess að hver króna er lánuð til lengri tíma, og þess vegna bætast við meiri vextir)
Hér er endurbirt grein frá því fyrir kosningar:
Framsóknarmaður vildi frekar verðtryggt lán!
Karl Garðarsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann kvartar undan því að verðbætur hafi bæst við verðtryggða lánið hans síðustu mánaðarmót. Af því tilefni skrifaði ég komment við grein hans:
Já en Karl, þér stóð til boða óverðtryggt lán! Þú sagðir sjálfur frá því í grein 15. febrúar sl. En þú vildir það ekki, því það var of dýrt. Þú vildir ekki borga alla vextina jafnóðum, heldur KAUST SJÁLFUR að taka verðtryggt lán, en þannig borgarðu í raun bara hluta vaxtanna núna (sjálfa nafnvextina) en geymir hluta vaxtanna (verðbæturnar) til síðari tíma. Þannig virka verðtryggð lán og hafa alltaf gert. Þú hlýtur að vita það?
Vissulega eru breytingarnar á höfuðstólnum sveiflukenndar, en það gerir lítið til, því afborgunin er nánast sú sama milli mánaða. Þennan síðasta mánuð hækkaði vissulega vísitalan þó nokkuð, en miklu minna tvo mánuðina á undan, Hvað hækkaði lánið þitt mikið fyrir 2 mánuðum, eða 3 mánuðum síðan? Fyrir nokkrum mánuðum lækkaði raunar vísitalan, og þá lækkaði lánið þitt! En þú skrifaðir ekki blaðagrein um það.
Ég hreinlega botna ekkert í því hvað þið Framsóknarmenn viljið. Viltu banna verðtryggð lán? (Það er samt ekki í stefnu xB, er það?) En verða þá ekki allir að taka óverðtryggð lán, sem þú sjálfur vildir EKKI taka!
Þú hefðir líka getað tekið lægra lán, og keypt aðeins ódýrara húsnæði. En það hefði verið mjög óíslenskt. Mjög ó-framsóknarlegt.
Þessa grein skrifaði ég í febrúar handa þér og öðrum Framsóknarmönnum, sem hafa ekkert lært:
Fjármálaráð til Framsóknarmanns
Varar við afnámi verðtryggingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2014 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.2.2013 | 23:53
HALLÓ Moggi !!!
Þegar lögmaður er sækjandi í hvorki fleiri né færri en þremur ærumeiðingarmálum fyrir hönd mjög frægrar og umdeildrar "celeb" fjölmiðlafígúru (skv. 8. mest lesnu frétt mbl.is) þá er sá lögmaður ekki hlutlaus og heppilegur til að tjá sig á sama tíma almennt um slík mál.
"lögin eru alveg skýr" segir fjölmiðlavæni lögfræðingurinn. Já auðvitað segir hann það. Það hentar hans málflutningi fyrir sinn skjólstæðing að presentera málin sem svo að allt sé þetta kýrskýrt, skýr lög og skýr brot.
Ekki veit ég hvort þessi lög sé góð eða slæm en ef lögin eru í lagi þá er eitthvað meira en lítið í ólagi hjá dómurum og dómstólum landsins, því meiðyrðadómar sem fallið hafa undanfarin misseri eru beinlínis ógnvekjandi og varpa skugga á málfrelsi í landinu.
Mogginn mætti gjarnan ræða það vil HLUTLAUSAN lögfræðing.
Vettvangurinn skiptir engu máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |