Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sluppum með skrekkinn

Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave málinu kom mörgum Íslendingum þægilega á óvart. Fyrirfram þorðu fáir að spá fyrir um útkomuna. Voru sumir farnir að undirbúa sig undir það að málið myndi tapast, eins og Forseti Íslands. Hann talaði um það í útlöndum að þetta væri ekki bindandi dómstóll og að dómurinn yrði bara ráðgefandi álit. Þetta hafa þó fræðimenn staðfest að var misskilningur Forseta eða vísvitandi rangfærslur.

Ég hef skrifað ófáa pistla um Icesave síðustu 3-4 ár. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa frekar hallast að því að um þetta mál ætti að semja. Eðlilega velti ég því fyrir mér hvort ég hafi haft rangt fyrir mér. En ég lít ekki þannig á. Þegar reynt er að meta líkur á ýmsum lögfræðilegum matskenndum atriðum skiptir ekki bara máli hvort sagt er 'Já, ég held að þetta muni gerast' eða 'Nei, ég tel þetta ólíklegt', heldur skiptir yfirleitt ekki minna máli hvernig svona mat er rökstutt. Lögfræðiálit sem segir bara eða Nei er lítils virði.

Þegar ég lít tilbaka og rifja upp mín skrif um Icesave er ég prýðilega sáttur við þann rökstuðning. En það var eitt það sem helst  skorti í Icesave umræðunni, að fólk gerði sér grein fyrir því að gagnaðilar málsins höfðu ýmis rök sín megin. (Af ýmsum ástæðum gerðu íslensk stjórnvöld lítið af því að skýra slík rök og yfirhöfuð rökstyðja samningsleiðina, við áttum bara að treysta því að þau væru að velja skástu leiðina. Og það er varasamt, að treysta sjórnvöldum í blindni.)

Ég vil sérstaklega rifja upp síðasta pistil minn um Icesave (að ég held), frá 10. mars 2012. Þar reyni ég að útskýra að það hafi vissulega falist ákveðin mismunun í meðhöndlun innlánsreikninga við fall gamla Landsbankans - sumir voru fluttir yfir í nýja Landsbankann (með eignum á móti þessum skuldum bankans) en aðrir voru skildir eftir í gamla bankanum. Það er óumdeilt að það er ekki eins meðhöndlun, og kom sér verulega illa fyrir Icesave sparifjáreigendur, eða þar til stjórnvöld Bretlands og Hollands tilkynntu að þau myndu greiða út fulla tryggingu (bæði þá sem TIF átti að dekka og „Top-up“ tryggingu sem þarlendir sjóðir dekkuðu).

Eins og ég útskýri í pistlinum ársgamla má vissulega segja að þessi mismunun hafi verið óhjákvæmileg. Spurningin sem eftir stóð var hvort íslensk stjórnvöld myndu ekki þurfa að bæta hana upp að einhverju leyti. Segir EFTA-dómurinn að þetta hafi verið í lagi? Nei. Það er tekið fram í dómnum að akkúrat þessari spurningu sé ekki svarað, því sóknaraðili gerði ekki kröfu um að fá úr þessu skorið. Þetta segir í dómnum:

221 The applicant has limited the scope of its application by stating that “the present case does not concern whether Iceland was in breach of the prohibition of discrimination for not moving over the entirety of deposits of foreign Icesave depositors into ‘new Landsbanki’, as it did for domestic Landsbanki depositors.

The breach is constituted by the failure of the Icelandic Government to ensure that Icesave depositors in the Netherlands and the United Kingdom receive payment of the minimum amount of compensation provided for in the Directive ...”

Af einhverjum ástæðum sem við í sjálfu sér getum bara giskað á en vitum ekki kaus ESA að kæra ekki Ísland fyrir brot á EES samningnum vegna þessarar ástæðu, að Icesave innistæður voru ekki fluttar yfir í nýja bankann með sama hætti og innlendar innistæður.

Dómurinn minnist svo raunar aðeins frekar á þetta og gefur í skyn að þótt kæran um mismunun hefði verið orðuð öðruvísi þyrfti að taka tillit til að EES-aðildaríki hafi ríkulegt svigrúm til ákvarðana í tilviki kerfislægs áfalls og ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

227 For the sake of completeness, the Court adds that even if the third plea had been formulated differently, one would have to bear in mind that the EEA States enjoy a wide margin of discretion in making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis provided that certain circumstances are duly proven. This would have to be taken into consideration as a possible ground for justification.

Kannski vildi ESA einfaldlega ekki leggja út í vafasama óvissuferð sem myndi óneitanlega snúast mjög sértækt um efnahagsaðstæður í bankahruninu og strax eftir hrunið og hvort íslensk stjórnvöld hefðu mátt grípa til neyðarráðstafana og hvort slíkar ráðstafanir gengu of langt.

 

Núna eftirá getum við vissulega sagt að það kom sér vel fyrir okkur að ESA fór ekki þessa leið. Því við vitum ekki hver útkoman hefði verið úr slíkri krufningu fyrir EFTA-dómstólnum. (Nema Framsóknarmenn og Moggabloggarar.) Það má draga ýmsan lærdóm af þessu máli. Um það verður kannski fjallað síðar.


23 þingmenn áhrifalausir?

Landsbyggðarþingmennirnir Einar og Ólína óttast áhrifaleysi landsbyggðar verði atkvæðavægi jafnað.

Nú hafa stóru kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu samtals 34 þingmenn, önnur kjördæmi hafa 29 þingmenn. Sé breytingin rétt reiknuð varðandi þingmennina 6 sem myndu færast til þýddi það að landsbyggðarþingmenn yrðu 23.

Varla væru 23 þingmenn áhrifalausir á 63 manna Alþingi?

 


mbl.is Ólína á móti jöfnun atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstætt trúfélag eða ríkisstofnun? - Eða hvoru tveggja?

Þjóðkirkjan skilgreinir sig með mismunandi hætti allt eftir tilefni og samhengi. Þegar gagnrýnt er að kirkjan njóti óeðlilegs stuðnings frá ríkinu og talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju leggja talsmenn kirkjunnar áherslu á að Þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag, nánast eins og hvert annað trúfélag, nema með sérstaka samninga við ríkið.

En þegar talið berst að því hvort ekki skuli klippa alveg á tengsl ríkis og kirkju og gagnrýnt að eitt trúfélag - í trúfrjálsi ríki - hafi sérstök tengsl við ríkið og njóti verndar og stuðnings ríkisvaldsins, þá er gert lítið úr trúfélagshlutverkinu og talað um kirkjuna sem einhverskonar þjónustustofnun. Hvað er Þjóðkirkjan, í eigin augum?

 

Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt.

 

(úr ályktun aukakirkjuþings í gær, 1. september. Í ályktuninni er hvorki minnst á að kirkjan sé sjálfstæð né trúfélag.)

 

Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag.

 

(Frá heimasíðu Þjóðkirkjunnar, undir fyrirsögninni 'Hvað er Þjóðkirkjan'?)

Þjóðkirkjan er stofnun sem hefur á að skipa vel menntuðu fagfólki um land allt, sem er til þjónustu reiðubúið hvenær sem er, fyrir allan landslýð hverrar trúar eða trúfélags sem hann telst til.

 

(Agnes Sigurðardóttir, í bréfi til kjörmanna fyrir biskupskosningar 2012) 

 

Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu ... Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja ...

(úr pistli séra Gunnlaugs Stefánssonar á tru.is frá 19.10.2010)  

 

Gengur þetta tvennt upp, annars vegar að vera trúfélag sem er grundvallað á mjög ákveðnum trúarkenningum, ritum og trúarjátningum, og að vera ríkisrekin þjónustustofnun sem býður öllum þjónustu, óháð trú og trúfélagsaðilld? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þessari þjónustu kirkjunnar, en minni á að fjölmargir vilja ekki þiggja slíka þjónustu trúfélags eða greiða fyrir hana með sköttum.   

 

Þjóðkirkjan - sjálfstætt trúfélag, ríkisstofnun, eða hvoru tveggja?

 
mbl.is Ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisstefna forseta?

Samkvæmt Stjórnarskrá Íslands fer ríkisstjórn með æðsta framkvæmdavald í landinu. Ríkisstjórnin er samkvæmt þingræðishefð íslenskrar stjórnskipunar studd meirihluta Alþingis, löggjafarþings Íslendinga. Alþingi markar utanríkistefnu þjóðarinnar, sem ríkisstjórn vinnur eftir.

Bara eitt lítið dæmi er t.d. þegar Alþingi samþykkti með miklum meirihluta að viðurkenna Palestínsku sjálfstjórnarsvæðin sem sjálfstætt ríki. Slíkt hefði aldrei utanríkisráðherra getað gert á eigin spýtur. Hvað þá Forseti. Það er Alþingis að samþykkja alþjóðasamninga og taka afstöðu í stórmálum. Annað dæmi er að það eru flestir sammála um að það hafi verið vítaverð mistök Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að samþykkja að setja Ísland á lista "viljugra þjóða" sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak. Slíka alvarlega ákvörðun og yfirlýsingu um stuðning við árásarstríð (sem ekki naut stuðnings Sameinuðu Þjóðanna) gegn sjálfstæðu ríki hefði tvímælalaust átt að bera undir Alþingi.

Þriðja dæmið sem við getum nefnt snýr að beiðni Kínverja um að fá áheyrnarfulltrúa í Norðurheimskautssráðið. Það eru fulltrúar ríkisstjórna þeirra ríkja sem í ráðinu sitja sem því ráða hvort Kínverjar fái þar áheyrn, þó svo einstaka þjóðhöfðingjar geti vissulega talað fyrir auknum samskiptum við ríkið stóra í austri. (Kína er raunar mjög langt frá Norðurheimsskautinu og þverneitar að ræða við eitt helst ríkið í Norðurheimskautsráðinu, Noreg, vegna þess að Norðmenn, ekki samt norska ríkisstjórnin, veittu kínverskum baráttumanni fyrir mannréttindum friðarverðlaun Nóbels.). 

Það dettur því fáum í hug að það sé hlutverk forseta Íslands að ákveða utanríkistefnu Íslands, eða pólitíska stefnu að öðru leyti. Enda myndu þá frambjóðendur til forseta væntanlega kynna pólitíska stefnuskrá sína, ef svo væri. Það er skýrt í stjórnarskrá að forseti "lætur ráðherra framkvæma vald sitt" (13. gr.), þar með talið vald í utanríkismálum. Forsetinn er "ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum" (11. gr.), "Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum." (14. gr.)

Þetta er allt frekar skýrt. Þess vegna vekur það athygli að einn núverandi forsetaframbjóðenda skuli tala um þetta með mjög sérstökum hætti og á skjön við alla aðra frambjóðendur og alla lagaspekinga landsins. Sá frambjóðandi segir að  forsetinn ekki bara geti markað sér sjálfstæða utanríkisstefnu, alveg óháð stefnu ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, heldur að það sé "hættuleg kenning" að telja að forsetinn skuli fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda!

Það vekur furðu að sá frambjóðandi sem svo talar sé núverandi forseti og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði. Er ekki eðlileg krafa kjósenda að frambjóðandinn upplýsi um utanríkisstefnu sína, fyrst hann telur sig algjörlega óbundinn af þeirri stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn markar? Hvaða stefnu ætlar Ólafur Ragnar Grímsson að fylgja næstu 4, 8 eða 12 ár, ef hann verður kjörinn forseti áfram?

Þetta sagði Ólafur Ragnar 13. maí sl.:

Það alvarlegasta er, að þessi fullyrðing hennar [Þóru Arnórsdóttur] um að forsetinn hafi, það sé skylda hans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar, maður heyrir þetta svona hjá ýmsum ráðherrum og fulltrúum ríkistjórnar á hverjum tíma, er alröng og af mörgum ástæðum. [...]Það hefur verið óskaforseti kannski sérhverrar ríkisstjórnar og óskaforseti núverandi forsætisráðherra, það væri forseti sem teldi það skyldu sína að fylgja bara línunni úr stjórnarráðinu. En þetta er bara stórhættuleg kenning. En hún er líka kolröng. [...] Það er auðvitað alvarlegt ef sá sem er að bjóða sig fram til þess að gegna forsetaembættinu lýsi því skýrt yfir í viðtali að hún telji það skyldu forsetans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnar. Og af hverju er þetta rangt. Þetta er í fyrsta lagi rangt stjórnskipulega séð vegna þess að það er ekkert í stjórnarskránni eða lögum sem segir að forseti eigi að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum enda hafa þær tekið miklum breytingum.

Ég komst ekki í að pikka inn meira. Þið getið hlustað á þetta hér, í upptöku af þættinum Sprengisandi frá 13.5., ca. 85. mínútu.

Ég skil ekki hvað forseta gangi til að tala svona. Ég held raunar að þarna tali hann þvert gegn betri vitund. Af því að hann heldur að þetta gangi vel í kjósendur, að stilla sér upp sem sjálfstæðu stjórnmálalegu valdi, gegn sitjandi óvinsællri ríkisstjórn og meirihluta Alþingis. Hann ætti að vita betur.

Þrátt fyrir ásýnd Alþingis þessi misseri þá tel ég það hættulegt, að frambjóðandi til forsetaembættis telji sig geta valsað um heiminn sem talsmaður okkar, án þess að fylgja stefnu löggjafarþings Íslands. Við lögum ekki Alþingi með því að kjósa forseta sem telur sig óháðan Alþingi og ríkisstjórn og heldur að það sé á valdsviði sínu, forsetaembættisins, að marka pólitíska stefnu Íslands.


Ólafur, Þóra og stóra ESB-samsærið

Sú kenning lifir góðu lífi meðal að minnsta kosti lítils hóps harðra ESB-andstæðinga og stuðningsmanna Ólafs Ragnars að verði Þóra Arnórsdóttir kosinn forseti muni ríkisstjórn geta þröngvað Íslandi inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Kenningin kann að hljóma fjarstæðukennd, en er einhvern veginn svona:

Eftir að aðildarviðræðum við ESB er lokið og samningur liggur fyrir er gert ráð fyrir að samningurinn verði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er í fullu samræmi við þingsályktunina sem meirihluti Alþingis samþykkti 2009 og fól ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktunin var svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Ótti þeirra vænisjúku er að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki „bindandi“ og því geti meirihluti Alþingis sniðgengið hana og samþykkt samninginn, í trássi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Rökin eru þau að þjóðaratkvæðagreiðsla lögfesti ekki samninginn og að Alþingi þurfi að leiða hann í lög. Svo er jafnvel bent á að núverandi þingmeirihluti hafi ekki viljað samþykkja tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði „bindandi“. (Horft er framhjá því að sú tillaga fól í sér að breyta skyldi stjórnarskrá áður en þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin, og menn geta svo ímyndað sér hvort núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu vera fljótir til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá - tillagan gekk þannig í raun ekki út á að tryggja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði virt, heldur út á það að fresta því að meirihluti þjóðarinnar fengi að segja hug sinn um þetta mál.)

Síðasti hlekkurinn í þessari samsæriskenningu er sú að Þóra Arnórsdóttir myndi skilyrðislaust skrifa uppá þess háttar lög sem sniðgengju útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, vilja meirihluta þjóðarinnar. Þar með hefðu landráðamennirnir í Samfylkingunni selt Ísland í hendur Brusselveldinu sem horfi löngunaraugum til okkar dýrmætu auðlinda. Til að þessi dómsdagsspá rætist ekki þurfi að tryggja að fulltrúi fólksins, hin fórnfúsa rödd þjóðarinnar, „síðasta stoppistöðin“ (að eigin sögn), Ólafur Ragnar Grímsson, verði áfram forseti.

Það er hálf dapurlegt að vita til þess að hluti þjóðarinnar telji fulltrúa sína á Alþingi þannig innréttaða að þeir myndu sniðganga niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og leiða í lög samning sem hefði verið hafnað af meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, og að slík ákvörðun sem sneri lýðræðinu algjörlega á hvolf gæti yfir höfuð staðist.

Langsótt? Já  Vænisjúkt? Já.

En hér kemur það virkilega dapurlega í þessari sögu. Sitjandi forseti Íslands tekur undir þessar vænisjúku samsæriskenningar og beinlínis elur á þeim. Forseti Íslands tortryggir Alþingi, fulltrúaþing Íslands og elur á samsæriskenningu sem beinlínis gerir ráð fyrir að Alþingi myndi hafa að engu lýðræði og vilja meirihluta þjóðarinnar, en setur sjálfan sig í annan og sérstakan gæðaflokk göfuglyndis og óeigingirni. Þetta kemur fram í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Ragnar segir:

Síðan hefur verið mjög á reiki hvort sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi myndi samþykkja varðandi Evrópusambandi yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eða hinn endanlegi dómur. Sumir hafa haldið því fram að eðli málsins samkvæmt yrði það að vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og svo yrði að koma í ljós hvort Alþingi myndi fylgja henni.

HVERJIR hafa sagt þetta, Ólafur Ragnar? Stuðningsmenn þínir á Útvarpi Sögu? Eiríkur Stefánsson eða Páll Vilhjálmsson? Trúir ÞÚ þessu sjálfur, eða ert þú bara að höfða til þeirra sem þessu trúa?

Þetta er í raun með ólíkindum. Forsetinn elur á tortryggni og lepur upp vænisýkina beint af spjallvefjum og bloggsíðum, samsæriskenningarnar um að umheimurinn sitji í launsátri um okkur, og svikarar og landráðamenn bíði færis að framselja fullveldið og fjallkonuna. Ólafur lýsir algjöru vantrausti á Alþingi og ásakar ríkisstjórn um að vera reiðubúna til að þröngva landinu inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Hann nærir átök, flokkadrætti, skotgrafnahernað og þann sundirlyndisfjanda sem hefur eitrað alltof mikið alla samfélagsumræðu síðustu misseri.

Allt til að ná endurkjöri.

Viljum við þannig forseta?

 

Í Guðanna bænum, skiptum um Forseta.

 

Rökrétt niðurstaða

Þeir fjölmiðlar sem stýrt er af Sjálfstæðismönnum halda nú áfram þar sem frá var horfið í málflutningi verjanda fyrir Landsdómi, og halda áfram uppi vörnum fyrir félaga sinn Geir H. Haarde.

Fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins Þorsteinn Pálsson sem skrifar á hverjum laugardegi hátíðlega ritstjórnarpistla í Fréttablaðið (við hlið hátíðlegra leiðara Sjálfstæðismannsins Ólafs Stephensen) ver öllum pistli sínum í morgunn í Landsdómsmálið. Þorsteinn talar um stjórnarskrána 1918, lögskýringargögn, stjórnskipuleg hugtök, og svona þurr lagatæknileg hugtök sem eru frekar óspennandi fyrir ólöglærða. En niðurstaða Þorsteins er sú sama og Sjálfstæðisflokkkurinn og KOM Auglýsingastofan og Geir hafa hamrað á:

Sama hvað á dynur, ef til dæmis væri hér yfirvofandi innrás erlends ríkis eða hvað annað grafalvarlegt ástand sem gæti orsakaða neyð og upplausn, þá sé engin ástæða fyrir Forsætisráherra að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi.

Forsætisráðherra geti þess í stað til dæmis rætt málið óformlega við þá sem hann telur að málið komi við, nágranna sinn og samflokksmanninn bankastjórann, útvalda ráðherra inni á kaffistofu Stjórnarráðsins, eða samflokksmenn og gamla vini í embættismannaliði ríkisins, sem flokkurinn hefur komið þar fyrir. Flokkurinn skuli ráða eins miklu og hann mögulega getur.

Eina rökrétta niðurstaðan af þessum málflutningi Þorsteins og annarra Sjálfstæðismanna er þessi:

Það er ótækt að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Flokkurinn hefur ekkert lært og neitar allri ábyrgð á því sem úrskeiðis fór undir hans stjórn.

 

 classa_1149295.jpg

Eitt sinn stuttbuxi, ávallt stuttbuxi. 

 


mbl.is Það var reitt hátt til höggs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg hneykslun

Já en Steingrímur samþykkt ekki neyðarlögin!!!

... segja nú íhaldsmenn í hneykslunartón, af því fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon skyldi lýsa því að hann væri feginn að neyðarlögin héldu, og að ríkissjóður fengi ekki á sig þrettánhundruð milljarða kröfu, eða hvað það var sem hefði gerst ef dómur Hæstaréttur hafði farið á annan veg.

Ekki-leiðtogi stjórnarandstöðunnar sagði í yfirlýsingu:

Einnig er rétt að minna á að núverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sér ekki fært að styðja þau, né aðrir þingmenn vinstri grænna.

 

og blogggjammarar syngja með í kór.

Það má ALDREI gleymast að Vinstri-Grænir studdu EKKI neyðarlögin!!!!!!!

 

segir Halldór Halldórsson og fær tíu læk fyrir.

Gott að halda því til haga að vinstri grænir studdu ekki neyðarlögin. Er ekki rétt að setja ný neyðarlög og banna vinstri græna ?

 

segir Þórarinn Friðriksson brosmildur á svip.og einn helsti hugsuður Íslands, fyrrverandi farandverkamaðurinn og alþýðuhetjan, núverandi stórtæki laxveiðigúrú og lúxusjeppakall, Bubbi Morthens, segir:

Vinstri Grænir studdu ekki neyðarlögin veit fólk það ekki?

 

Þess vegna skulum við aðeins rifja upp söguna, fyrir þá sem eru með valvíst (selektíft) minni:Klukkan 16 mánudaginn 6. október 2008 hélt Geir Hilmar Haarde "Guð blessi Ísland"-ávarpið og sagði fólki að haldast í hendur en útskýrði að öðru leyti ekki neitt hvað stæði til. Samtímis voru starfsmenn Alþingis í óða önn að ljúka yfirlestri og útprentun á Neyðarlagafrumvarpinu. Þingmenn fengu frumvarpið í hendur rétt fyrir klukkan fimm. Þingfundur hófst klukkan 16:54. Forystumenn stjórnarandstöðu höfðu fengið að vita af málinu fyrr þennan dag og í framsöguræðu sinni sagði Geir Hilmar:

Ég hef kynnt þetta mál fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar og þakka þeim fyrir gott samstarf. Ég vænti þess að mál þetta geti orðið að lögum síðar á þessum degi.

 

Lokaatkvæðagreiðsla eftir þriðju umræðu um þetta risavaxna mál og flókna frumvarp fór fram klukkan 23:18 þetta sama kvöld.

Frumvarpið var viðamikið og gaf stjórnvöldum margháttaðar heimildir til að bregðast við yfirvofandi neyðarástandi. Mogginn reynir i stuttu máli að gera grein fyrir innihaldi laganna, nú þremur árum síðar og ég hvet lesendur til að renna yfir fréttaskýringuna og sjá hvort þeir átti sig glögglega á lögunum, og svari því hver fyrir sig hvernig þeim hefði liðið sem þingmönnum að fá svona frumvarp fyrirvarlaust í hendur klukkan fimm með þeim orðum að frumvarpið yrði að verða að lögum samdægurs.

Og svo voga hægrimenn sér að berja sér á brjóst og ásaka stjórnarandstöðuþingmenn þess tíma fyrir að hafa setið hjá við afgreiðslu neyðarlagafrumvarpsins, þingmenn sem þó voru fullkomlega samvinnuþýðir og hleyptu málinu í gegn á stysta mögulega tíma ÁN NOKKURRAR EFNISLEGRAR SKOÐUNAR EÐA UMRÆÐU.

Skammastu þín Bjarni Benediktsson.


mbl.is Hvað felst í neyðarlögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Vestfirðingar málhaltir?

Horfði á frétt í vikunni í Kastljósi af reiðu suður-Vestfirðingunum sem gengu af fundi með innanríkisráðherra, af því hann vill ekki leggja veg eins og þeir vilja. Í fréttinni var svo talað við tvo bæjarstjóra héraðsins sem lýstu því hversu skelfilegt þetta yrði fyrir héraðið, íbúar sumra byggðakjarnanna þyrftu nú að fara yfir 8 heiðar á leið sinni suðu til höfuðborgarinnar. (Þeim myndi fækka niður í sex ef íbúarnir fengju draumaveginn sinn.) Fram kom líka að framkvæmdir og skipulag hafi tafist vegna málaferla við landeigendur, svo tafir eru alls ekki eingöngu stjórnvöldum að kenna. Samt er nú látið eins og ráðherrann ætli eins síns liðs að flæma alla íbúa af svæðinu með handónýtum vegi.

Margt var ekki sagt í fréttinni. Ekki var minnst á hversu hátt þessir umræddu "hálendisvegir" liggja yfir sjávarmáli. (Þeir fara víst upp í 160 metra hæð, svolítið láglent hálendi það.) Ekki var talað um hvernig fyrirhugað vegstæði nýs vegar yfir hálsana væri í samanburði við gamla veginn sem nú er, hvort komist verði hjá bröttum brekkum og kröppum beygjum, ekkert var minnst á vegalengdir, þ.e. hvort einhverju munar í nýjum vegi yfir hálsana tvo eða strandvegi, ekki var minnst á snjóalög á svæðinu og hvort gamli vegurinn sem nú er sé oft ófær á veturna. Sem sagt, engar upplýsingar sem gætu hjálpað manni að taka afstöðu í málinu!

Hvað varð um það að menn færi rök fyrir máli sínu? Tíni til upplýsingar, staðreyndir og röksemdir. En grenji ekki bara og berjist fyrir sínu með frekjunni einni saman. Eru Vestfirðingar nokkuð málhaltir? Eða voru þeir bara TÁKNMYND Íslendinga í dag, sem kunna ekki að hlusta og tala saman og komast að skynsamlegri og málefnalegri niðurstöðu. 

 Horft út Djúpafjörð, af Hjallahálsi.


Hraði snigilsins

Samkvæmt tillögunum, sem forsetinn er að undirbúa, mun hátekjufólk greiða að minnsta kosti saman [sic] skatthlutfall og það fólk, sem er með meðaltekjur.

 

Það er naumast að byltingarandinn hefur gagntekið háttvirtan Forsetann og fylgismenn hans! Alltént skref í rétta átt að nú skuli hátekjufólk með yfir 10 milljónir íslenskar á mánuði greiða að minnsta kosti sama skatthlutfall og meðatekjufólk.

Auðvitað eru Repúblikanar á móti því, í þeirra hugum á ríka fólkið að fá greiða áfram lægra skatthlutfall en meðaltekjufólkið!

Fyrr frýs í helvíti en að ríkt fólk í Bandaríkjunum verði látið greiða hærri skatta en meðaltekjufólkið. 


mbl.is Obama undirbýr hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um sóknargjöld

Gott mál að innanríkisráðherra sé að skoða þetta sjálfsagða sanngirnismál. Fólki er frjálst að trúa - eða trúa ekki. Það getur ekki talist eðlilegt í nútímasamfélagi að ríkið styrki í stórum stíl tiltekna trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri, jafnvel þó svo í nafni þeirrar trúar sé rekin ýmiskonar falleg og gagnleg samfélagsþjónust

 Í svari ráðherra við fyrirspurn varaþingmannsins segir m.a.

stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda en veraldleg lífsskoðunarfélög, sem vilja veita sömu þjónustu til sinna félagsmanna, fái engan stuðning.

Blessuð sóknargjöldin já. Þau eru jú ekki innheimt sem slík, heldur hluti tekjuskatts og hafa verið síðan staðgreiðslukerfi var komið á. Það er ekki innheimt sérstakt sóknargjald, trúfélög fá einfaldlega greidd sóknargjöld úr ríkissjóði í hlutfalli við sóknarbörn, án tillits til þess hvort þau sóknarbörn greiði tekjuskatt eða ekki.Nú má vera að þegar tekjuskattsprósentan var ákvörðuð við innleiðingu staðgreiðslukerfisins hafi tiltekinn hluti hennar verið hugsaður sem sóknargjöldin, en það breytir því ekki að sóknargjöldin eru einfaldlega greidd úr rikissjóði. Með sama hætti mætti segja að greidd séu skólagjöld í grunnskóla, þau séu einfaldlega innheimt sem hluti tekjuskatts.

Ef ríkið vill áfram veita trúfélögum þessa þjónustu, að "innheimta" sóknargjöld í gegnum skattkerfið má það svo sem gera það, en í guðanna bænum, ekki innheimta líka sóknargjöld af þeim sem ekki eru í neinni sókn og standa utan allra trúfélaga.

Meira um þetta hér: Ég styð Krossinn


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband