Færsluflokkur: Vísindi og fræði
13.2.2014 | 00:16
Maríus og móðursýkin
Merkilegt að skoða ofsafengin viðbrögð úti í heimi við fréttum af því þegar gíraffinn Maríus var felldur í Kaupmannahöfn og gert að skrokknum fyrir framan áhugasama gesti. Dýragarðsyfirvöld hafa gefið mjög góð rök fyrir því af hverju dýrið var fellt, það var einfaldlega eðlilegt viðhald á stofninum, gíraffar eiga auðvelt með að fjölga sér, það er takmarkað pláss í garðinum og hindra verður of mikla skyldleikarækt.
Mörgum finnst viðbrögðin sýna firringu nútíma vesturlandabúa, sem halda að kjöt verði til út í búð og hafa sko ekki alist upp í sveit, þar sem heimalningnum var slátrað að hausti og kýrnar voru felldar áður en þær hættu að mjólka.
EN - - er þetta svona einfalt? Er reiði og hneykslun mjög margra bara móðursýki?
Búum til smá dæmi, segjum að ég ætti gullfallegan hund, tveggja ára Border collie, hana Trýnu.
Trýna
Svo þegar vinnufélagarnir spyrja mig einn mánudag um Trýnu, segi ég "Nei, við sko vorum að kaupa lúxusíbúð í Skuggahverfinu, það var ekki pláss fyrir hana svo ég fór með hana út í garð og skaut hana."
Svolítið kaldranalegt eða hvað?
Ég held að mörgum (í útlöndum) finnist að Maríusarmálið hafi verið í áttina að einhverju svona. Maríus hafi verið meira eins og gæludýr, svo hafi hann, enn ungur og fullfrískur, verið skotinn í hausinn og brytjaður sundur fyrir framan forvitin skólabörn. Svona eins og ef ég hefði brytjað niður Trýnu og gefið krummunum sem halda til hér úti við leikskólann.
Ég er ekki að reyna að ganga fram af fólki. Ég er bara að reyna að sýna að við öll, amerísk borgarbörn og veraldarvanir Íslendingar sem voru í sveit sem krakkar, flokkum dýr, og gefum þeim mismikinn rétt til að lifa og til að njóta sín. Sú flokkun er sjaldnast fullkomlega skynsöm eða lógísk. Við myndum til að mynda ekki samþykkja að hundar (hér á landi) þyrftu að búa við sömu aðstæður og svín þurfa að þola. Samt eru svín ekkert vitlausari eða minni tilfinningaverur en hundar.
Auðvitað er afstaða okkar lituð af okkar reynslu og af tilfinningum. Sumir Íslendingar hneykslast yfir því að starfsfólk Húsdýragarðsins borði sem veislumat kjöt af dýrum sem fella þarf í garðinum. Aðrir hneykslar á því að hinir hneykslast og að þetta skyldi yfirhöfuð teljast frétt. Fannst blaðamanninum að það væri óeðlilegt að starfsfólk Húsdýragarðsins væri sjálft að njóta kjötsins af dýrum sem það hafði fóðrað, umgengist og þekkt?
Sjálfsagt er það svo að einmitt fólk sem mest umgengst dýr, bændur, dýraræktendur, starfsfólk í dýragörðum verður að temja sér jarðbundna afstöðu til dýranna.
Það sem ég vildi segja er að við ættum kannski ekki að hneykslast svo voðalega á fólkinu sem hneykslaðist á sýningarslátruninni á Maríusi. Okkar húsbóndavald yfir öðrum skepnum jarðar er alltaf heimspekilega pínu vandmeðfarið, og aldrei hægt að útiloka tilfinningalega afstöðu, og ekkert endilega eðlilegt að gera þá kröfu.
Það er hvorki rétt eða rangt að finnast það óviðeigandi (eða viðeigandi) að gera að fræðslu- og fjölmiðlasýningu uppskurð og vinnslu á skrokki gíraffans Maríusar. Sumum einfaldlega finnst það óviðeigandi, líkt og verið væri að gera fjölmiðlasýningu á kjötvinnslu á hundinum Trýnu. Nú eða Maríusi frænda.
Maríus hugsi. Úr sýningunni 'Bodies' (mjög svo umdeildri).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2014 | 08:40
Um vexti - fræðsla fyrir Framsókn 1
Eru 40 ára verðtryggð lán óhagstæðari en 25 ára verðtryggð lán?
Nei, ef lánin bera sömu vexti er annað ekki óhagstæðara en hitt.
Búum til einfalt dæmi. Ef þú færð 1 milljón að láni í eitt ár með einn gjalddaga, á 5% vöxtum, greiðir þú eina milljón og fimmtíu þúsund tilbaka ári seinna. Heildarkostnaður lánsins er 50.000 kr.
Ef þú færð eina milljón að láni í 10 ár, með tíu jöfnum afborgunum þar sem allir vextir borgast jafnóðum, 5% af höfuðstól hverju sinni, eru vaxtagreiðslur í heildina 275.000 kr.
Er síðara lánið óhagstæðara en hið fyrra?
Nei. Lánin eru nákvæmlega jafn hagstæð. Í síðara tilvikinu ert þú að fá MEIRA að láni. Þú færð eina milljón lánaða í eitt ár, en að því ári liðnu færðu 900.000 kr. lánaðar í annað ár, svo færðu 800.000 kr. lánaðar þriðja árið og svo koll af kolli.
Þú borgar sama verð, en þú ert ekki að fá sömu vöru, þú ert að fá meira lánað, þú færð hverja krónu lánaða að meðaltali í fimm sinnum lengri tíma. Fyrir hverja lánaða krónu er greitt jafn mikið í vexti, á hverju ári.
Með sama hætti er 40 ára lán húsnæðislán, hvort sem það er verðtryggt eða ekki, ekki óhagstæðara en 25 ára lán á sömu vaxtakjörum. Þetta ættu meira að segja Framsóknarmenn að skilja.
10.7.2010 | 22:44
Stökkbreytt lán? Stökkbreytt laun?
SPURNING: Vita einhverjir lesendur hvort boðið sé uppá svona hlutalaun enn í dag, miðuð við fasta upphæð í erlendum gjaldeyri?
Ætli þessi starfsmenn líti svo á þessi hluti launa sinna hafi stökkbreyst??
Líkingarmál um stökkbreytingar kemur úr líffræði. Ég held þó að líkingin sé ekki alls kostar rétt. Þessi lán hafa alls ekki stökkbreyst. Sé miðað við þann gjaldeyri/gjaldeyris-körfur sem lánin miðuðust við standa þau nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir. Það er bara þegar farið er að reikna lánin yfir í örmyntina íslenska krónu sem lánin stökkbreytast.
Það voru nefnilega alls ekki lánin sem stökkbreyttust, það var krónan sem stökbreyttist.
Önnur líking vísinda á betur við, það eru hnitakerfi stærðfræðinnar. Við lifum og hrærumst í einu hnitakerfi og eðlilega miðum við flesta hluti út frá því. Séð frá okkar ör-hnitakerfi hefur ýmislegt stökkbreyst, svo sem verðið á kaffibollla á Strøget í Kaupmannahöfn, svo ekki sé talað um miða á fótboltaleiki í Bretlandi, vinsælt tómstundagaman 2007. En kaffið í köben kostar álíka margar krónur nú og 2007, danskar krónur. Þær breyttust ekki neitt, í sínu hnitakerfi.
1.7.2009 | 23:53
Uppfinningamaðurinn Michael Jackson
Listamaðurinn og skemmtikrafturinn Michael Jackson lést langt fyrir aldur fram í liðinni viku. Aðrir munu rifja upp hans merka tónlistarferil og á köflum ansi dapurlega líf. Ljóst er að Michael var hæfileikaríkur og lagði sig fram í starfi sínu og var geysimikill fagmaður.
Fáir vita að Michael Jackson er skráður uppfinningamaður á bandarísku einkaleyfi. Einkaleyfið er númer 5,255,452 og var útgefið 1993 og verndar uppfinningu sem Jackson er einn þriggja uppfinningamanna að, nánar tiltekið sérstaka skó sem hægt er að krækja í gólf til að halla sér framfyrir sig. Á netinu er vísað til einkaleyfisins af einkaleyfanördum sem "Moonwalking" einkaleyfi Michael Jacksons. En eins og aðdáendur poppstjörnunnar sálugu vita er tungldansinn allt annar hlutur og þarf enga slíka töfraskó í slíkt. Uppfinningin var hins vegar örugglega notuð í myndbandinu við lagið "Smooth Criminal".
Einkaleyfið er ekki lengur í gildi enda ólíklegt að þessir skór hafi verið fjöldaframleiddir. Eins og sést á neðangreindum myndum úr einkaleyfinu er uppfinningin sára einföld, rauf í hæl skónna getur krækst í nagla eða tappa í gólfi, sem þarf að vera búið að koma fyrir á sviðinu þar sem nota á skónna.
Einkaleyfið má skoða í heild sinni á aðgengilegum einkaleyfavef Goggle.
Vísindi og fræði | Breytt 2.7.2009 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)