Færsluflokkur: Spaugilegt

Fréttablaðið hljóp 1. apríl

Þessi frétt tók heila fjóra dálka í Fréttablaðinu í gær, 2. apríl:

Screen shot 2014-04-03 at 11.13.13 PM 

Eitthvað fannst mér þetta skrýtin frétt, svo ég prófaði að gúggla og finna eitthvað meira um þetta í dönskum miðlum. Og fréttina fann ég, í 'Kristeligt Dagblad'. Nema hvað, fréttin sem hafði birst deginum áður, 1. apríl, hafði verið merkt þann 2. apríl sem "Aprilsnar" - aprílgabb. Svo það lítur út fyrir að Fréttablaðið hafið hlaupið 1. apríl, og látið gabbast. Ætti að kenna blaðamönnum að tvítékka vafasamar fréttir sem þeir finna á netinu.

Hér fyrir neðan er texti fréttarinnar, sem líka má enn lesa í þessum skrifuðum orðum á vef visir.is án þess að blaðið hafi birt leiðréttingu. Menn geta svo haft skiptar skoðanir á þessum "húmor", að búa til gabbfrétt um heimtufrekju austur-Evrópubúa sem lifa sníkjulífi á heiðvirðum Dönum og þjóðkirkju þeirra, allt í boði Evrópusambandsins. Þetta er kannski einhver útgáfa af kristilegum húmor í boði Kristilega dagblaðsins danska.

 

Danskir prestar í vinnuferðir til A-Evrópu
 Evrópusambandsborgarar eiga rétt á þjónustu dönsku þjóðkirkjunnar í heimalandi sínu hafi þeir starfað í Danmörku í einn mánuð eða lengur.

Evrópusambandsborgarar eiga rétt á þjónustu dönsku þjóðkirkjunnar í heimalandi sínu hafi þeir starfað í Danmörku í einn mánuð eða lengur. Danskir prestar eru þess vegna á faraldsfæti, að því er segir á fréttavef Kristilega dagblaðsins í Danmörku.

Þar kemur fram að það séu einkum Austur-Evrópubúar sem biðja um þessa þjónustu en hana fá þeir sér að kostnaðarlausu. Þjónustan felur í sér skírn, hjónavígslu og útför í heimalandinu. 

Haft er eftir formanni danska kirkjuráðsins, Anders Gadegaard, að prestum sem reglulega pakka niður í ferðatösku og halda til Austur-Evrópu fjölgi stöðugt. Hann bendir þó á að mikill hluti "nýja evrópska safnaðarins" tali ekki ensku þannig að innan tíðar verði nauðsynlegt að ráða farandpresta með sérþekkingu á slavneskum málum. 

Morten Messerschmidt, fulltrúi Danska þjóðarflokksins á Evrópuþinginu, segir þessa þróun hroðalega. Enn einu sinni komi í ljós slæmar afleiðingar stækkunar Evrópusambandsins til austurs og regluverks sambandsins.Hann segir það ekki eðlilegt að Danir hafi yfirvald yfir kirkjum sínum. Hann tekur það fram að Evrópusambandið sé orðið alltof valdamikið og hvetur Dani til þess að krefjast þess að fá erlenda presta til Danmerkur. 

 


Kostar 10 þúsund að hlusta á svikarann

Sigurður Kárason, sem nýverið var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir alvarleg fjársvik mun halda fyrirlestur um sannfæringartækni í Háskólabíó. Það er fyrirtækið Ysland, í eigu Jóns Gunnars Geirdals, sem heldur viðburðinn í Háskólabíói. Miðasala hefst á morgun, en miðarnir munu kosta milli 6.900 og 9.900 að sögn Jóns Gunnars. Þetta er gjafverð miðað við annan viðburð sem við erum að skipuleggja, fyrirlestur svikarans Jordan Belfort, en sá var líka miklu umsvifameiri svikari.
 
Í tilkynningu frá Yslandi kemur fram að Sigurður hafi byggt upp „eina öflugustu og ábatasömustu svikamyllu í sögu Íslands“. Söguna um hrun hans þekkja þó flestir, en hann var eins og áður sagði dæmdur til fangelsisvistar fyrir að hafa af fólki með svikum og prettum á annað hundrað milljónir dollara.
 
Nú miðlar Sigurður Kárason aðferðum sínum og þekkingu til að gera öðrum kleift að öðlast velgengni í starfi jafnt sem einkalífi.
 
sk 
 
Íslenskur svikahrappur
 
 
belfort 
 
Útlenskur svikahrappur
 

Bréf til kjósenda

Forsætisráðherra: Þetta bréf [sent ungum kjósendum fyrir kosningar 2009 undirritað af SDG] ... sett fram af hópi sem hefur síðan yfirgefið flokkinn og var ekki afstaða mín ...

Spyrill: Þú skrifaðir undir þetta bréf til kjósenda. Skrifaðir þú ekki bréfið sjálfur?

Forsætisráðherra: Nei. Ég skrifaði ekki þetta bréf.

Spyrill: Þannig að þetta var aldrei þín afstaða?

Forsætisráðherra:  Þetta hefur aldrei verið mín afstaða.

 

Capture2 


Sjálfstætt félag??

Þjóðkirkjan heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjálfstætt félag.

Það er er erfitt að lesa út úr þessari frétt að verið sé að fjalla um sjálfstætt félag.

Hvaða annað "sjálfstæða" félag er með svona ítarlegar reglur um alls konar atriði í starfi og rekstri félagasins  þar sem reglurnar eru ákvarðaðar af Alþingi með sérstökum landslögum? 

Ekki setur Alþingi sérstök lög um hvernig Knattspyrnufélagið Þóttur kýs sér formann og hvað formaðurinn má sitja lengi? En reyndar er formannsembætti í Þrótti ekki sérstakt ríkisembætti.


mbl.is Kirkjuþing fái aukin völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SMÁÍS og internetið

Samtökin Smáís hafa ekki fylgst með þróun internetsins síðustu 17 ár. Skoðið bara heimasíðu samtakanna. Hún lítur út eins og heimasíður gerðu árið 1996.

 

Þetta er ekki djók. 

 

vefur_i_vinnslu 


Meðalfjölskylda greiðir 150 þúsund á ári til RÚV!

Meðalfjölskylda sem er aðeins stærri en meðalstærð, með tvo foreldra og sex útivinnandi unglinga í heimili á aldrinum 16-30 ára greiðir sem nemur 150.400 kr á ári í nefskatt til RÚV. Ef þessir átta útivinnandi einstaklingar meðalfjölskyldunnar eru ekki á meðallaunum heldur eru á lágmarkslaunum þá jafngildir þetta nær heilum nettó mánaðarlaunum eins úr fjölskyldunni.

Þetta er rosalega mikið! segir þingmaðurinn Brynjar Níelsson, sem er sko enginn meðalmaður, þegar kemur að tölfræði.

  Spock_2267

 


Ólafur, Þóra og stóra ESB-samsærið

Sú kenning lifir góðu lífi meðal að minnsta kosti lítils hóps harðra ESB-andstæðinga og stuðningsmanna Ólafs Ragnars að verði Þóra Arnórsdóttir kosinn forseti muni ríkisstjórn geta þröngvað Íslandi inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Kenningin kann að hljóma fjarstæðukennd, en er einhvern veginn svona:

Eftir að aðildarviðræðum við ESB er lokið og samningur liggur fyrir er gert ráð fyrir að samningurinn verði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er í fullu samræmi við þingsályktunina sem meirihluti Alþingis samþykkti 2009 og fól ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktunin var svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Ótti þeirra vænisjúku er að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki „bindandi“ og því geti meirihluti Alþingis sniðgengið hana og samþykkt samninginn, í trássi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Rökin eru þau að þjóðaratkvæðagreiðsla lögfesti ekki samninginn og að Alþingi þurfi að leiða hann í lög. Svo er jafnvel bent á að núverandi þingmeirihluti hafi ekki viljað samþykkja tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði „bindandi“. (Horft er framhjá því að sú tillaga fól í sér að breyta skyldi stjórnarskrá áður en þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin, og menn geta svo ímyndað sér hvort núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu vera fljótir til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá - tillagan gekk þannig í raun ekki út á að tryggja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði virt, heldur út á það að fresta því að meirihluti þjóðarinnar fengi að segja hug sinn um þetta mál.)

Síðasti hlekkurinn í þessari samsæriskenningu er sú að Þóra Arnórsdóttir myndi skilyrðislaust skrifa uppá þess háttar lög sem sniðgengju útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, vilja meirihluta þjóðarinnar. Þar með hefðu landráðamennirnir í Samfylkingunni selt Ísland í hendur Brusselveldinu sem horfi löngunaraugum til okkar dýrmætu auðlinda. Til að þessi dómsdagsspá rætist ekki þurfi að tryggja að fulltrúi fólksins, hin fórnfúsa rödd þjóðarinnar, „síðasta stoppistöðin“ (að eigin sögn), Ólafur Ragnar Grímsson, verði áfram forseti.

Það er hálf dapurlegt að vita til þess að hluti þjóðarinnar telji fulltrúa sína á Alþingi þannig innréttaða að þeir myndu sniðganga niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og leiða í lög samning sem hefði verið hafnað af meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, og að slík ákvörðun sem sneri lýðræðinu algjörlega á hvolf gæti yfir höfuð staðist.

Langsótt? Já  Vænisjúkt? Já.

En hér kemur það virkilega dapurlega í þessari sögu. Sitjandi forseti Íslands tekur undir þessar vænisjúku samsæriskenningar og beinlínis elur á þeim. Forseti Íslands tortryggir Alþingi, fulltrúaþing Íslands og elur á samsæriskenningu sem beinlínis gerir ráð fyrir að Alþingi myndi hafa að engu lýðræði og vilja meirihluta þjóðarinnar, en setur sjálfan sig í annan og sérstakan gæðaflokk göfuglyndis og óeigingirni. Þetta kemur fram í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Ragnar segir:

Síðan hefur verið mjög á reiki hvort sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi myndi samþykkja varðandi Evrópusambandi yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eða hinn endanlegi dómur. Sumir hafa haldið því fram að eðli málsins samkvæmt yrði það að vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og svo yrði að koma í ljós hvort Alþingi myndi fylgja henni.

HVERJIR hafa sagt þetta, Ólafur Ragnar? Stuðningsmenn þínir á Útvarpi Sögu? Eiríkur Stefánsson eða Páll Vilhjálmsson? Trúir ÞÚ þessu sjálfur, eða ert þú bara að höfða til þeirra sem þessu trúa?

Þetta er í raun með ólíkindum. Forsetinn elur á tortryggni og lepur upp vænisýkina beint af spjallvefjum og bloggsíðum, samsæriskenningarnar um að umheimurinn sitji í launsátri um okkur, og svikarar og landráðamenn bíði færis að framselja fullveldið og fjallkonuna. Ólafur lýsir algjöru vantrausti á Alþingi og ásakar ríkisstjórn um að vera reiðubúna til að þröngva landinu inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Hann nærir átök, flokkadrætti, skotgrafnahernað og þann sundirlyndisfjanda sem hefur eitrað alltof mikið alla samfélagsumræðu síðustu misseri.

Allt til að ná endurkjöri.

Viljum við þannig forseta?

 

Í Guðanna bænum, skiptum um Forseta.

 

Næsti Forseti

Forseti lýðveldisins er um þessar mundir feykivinsæll. En það kemur að því að hann vilji sinna öðrum verkefnum, við getum ekki ætlast til að hann eyði ævihaustinu öllu í fórnfúst og erilsamt starf þjóðarleiðtoga. Heimildir mínar herma að háttsettir menn hjá Sameinuðu Þjóðunum horfi hýrum augum til hans sem fyrsta framkvæmdastjóra HIGPA, fyrirhugaðrar Jöklavarðveislustofnunar SÞ í Himalayafjöllum.

Hvort sem af því verður eða ekki verðum við fyrrr eða síðar að horfast í augu við að  enginn leiðtogi ríkir til eilífðar og að við munum þurfa að finna verðugan arftaka.Við þurfum annan gáfaðan og framsýnan leiðtoga, stórhuga, djarfan, sem getur talið í okkur kjark. Fámenn þjóð eins og við megum ekki láta þjóðarhagsmuni villa okkur sýn. Dæmum ekki menn eftir þjóðerni! Það á að gilda sami réttur og sömu lög, að mínum dómi, af hálfu Íslands gagnvart allri heimsbyggðinni.

Við þurfum sterkan og einbeittan leiðtoga, sem getur og þorir að standa í hárinu gagnvart óvinveittum þjóðum Evrópu þegar Bandaríkin eru hvergi sjáanleg.Í þessu samhengi er mikilvægt að koma því  á framfæri að engin ástæða sé til að óttast kínverska athafnamenn. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komist á framfæri svo menn fari ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi,“ 

Huang Nubo fyrir Forseta!

  

Huang Nubo að lýsa aðdáun sinni á Íslandi


mbl.is Ólafur Ragnar skipti um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkum farþegum ...?!

Fyrirtækið segir í tilkynningu, að horfur í rekstri Strætó fyrir seinni helming ársins séu ekki eins jákvæðar. Það stafi af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hafi fjölgun strætisvagnafarþega haft í för með sér aukinn kostnað og muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó.

Ja hérna. Er rétt eftir haft?! Megum við eiga von á næstu auglýsingaherferð svohljóðandi:

Ferðumst ekki með strætó!

Shocking


mbl.is Hagnaður hjá Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave umræðan með rósrauðum gleraugum

Bý ég í sama landi og þessi maður??

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði að sér hefði þótt þjóðfélagsumræðan í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-lögin efnisríkari, málefnalegri og víðtækari en hann hefði séð áður.

„Auðvitað féllu stór orð og mönnum var heitt í hamsi. En aldrei fyrr hefur jafnmikill fjöldi venjulegs fólks (...) komið fram á völlinn og skrifað alveg frábærar greinar," sagði Ólafur Ragnar. 

Hann sagði að hingað til hefði slík umræða einskorðast við þá sem væru í pólitískri forustu í landinu.  En umræðan nú sýndi gríðarlegt þroskamerki meðan þjóðarinnar og hún hefði dregið fram á völlinn stóran hóp af fólki, sem hefði haft mikil áhrif á umræðuna og skapað ný viðmið ...

 


mbl.is Gríðarlegt þroskamerki í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband