Færsluflokkur: Umhverfismál

"Fólkið hefur valið bílinn"

Þegar heimilis-ruslatunnur fyrst komu til sögunnar þóttu þær mikið þarfaþing og merki um siðmenningu og nútímaþægindi. Allt drasl sem féll til á heimilinu fór beint út í tunnu og þurfti svo ekkert að hugsa meira um það. Það "hvarf" strax úr huga þess sem henti. Eini vandinn var ef tunnan fylltist yfir jólin. Í fínum sérhæðum og einbýlishúsum byggðum svona 1955-65 voru settar ruslalúgur upp á vegg í eldhúsinu og varð enn auðveldara að fleygja ruslinu, opna - henda - loka - farið!

Ruslatunnur voru við hvert einasta heimili og enginn velti vöngum yfir þeim eða efaðist um réttmæti þeirra. Sumir gætu sagt að neytendur höfðu valið ruslatunnuna.

En í aðeins víðara samhengi var það auðvitað ekki svo að ruslið væri algjörlega horfið um leið og lúgunni var lokað. Því var ekið á ruslahauga þar sem öllu ægði saman, óflokkuðu heimilis- og iðnaðarsorpi, þessu var ýtt í hrauka eða reynt að grafa ofan i dældir og eftir fáeina áratugi þurfti svo að finna nýtt haugstæði.

Með vaxandi velmegun stórjókst ruslamagnið. En samfélagið varð smám saman meðvitaðra, en samt 20 árum seinna en á meginlandi Evrópu,  um að það væri beinlínis óábyrgt og skaðlegt umhverfinu, að fleygja hverju sem er í tunnuna og bara ætlast svo til að einhver annar sæi um restina. Enn hendum við þó mörg hver eins og enginn sé morgundagurinn.

Margir reyna þó að lágmarka það sem fer í tunnuna og flokka það sem hægt er að endurvinna með einhverjum hætti. Enn fellur samt til gríðarlegt magn af rusli, sem hér á höfuðborgarsvæðinu er komið fyrir á Álfsnesi, en þar mun allt fyllast innan ekkert mjög margra ára. (Að grafa rusl með þessum hætti er víða búið að banna, í löndum sem við berum okkur saman við.)

Hvernig tengist þessi saga fólksbílum?

Jú, ruslatunnur og ruslalúgur voru og eru mjög þægilegar í daglegu lífi en það er beinlínis óábyrgt að hrúga bara í tunnuna rusli ÁN ÞESS að hugsa aðeins í víðara samhengi hvaða afleiðingar það hefur.

Alveg það sama gildir um einkabílinn. Bíllinn er hið mesta þarfaþing. Ég á einn slíkan og nota flesta daga. En að stoppa bara þar og hugsa ekkert lengra, að segja að fólk hafi "valið bílinn" og ÞESS VEGNA eigi samfélagið að gjöra svo vel og aðlaga sig að því með öllu móti, er einfeldningslegt viðhorf, bara hálf hugsun. Við getum ekki bara hugsað um hvað sé þægilegt fyrir okkur sjálf. Við eigum og verðum að huga um hvaða áhrif á AÐRA - á samfélagið og umhverfið - val okkar sem einstaklinga hefur.

  

sorp

Sorpfjallið í Álfsnesi


Með lengstu handleggi í heimi

„Við erum í sjokki hérna í hús­inu,“ seg­ir Ingrid Backm­an Björns­dótt­ir, íbúi í fjöl­býl­is­húsi fyr­ir eldri borg­ara á Skúla­götu 20 í Reykja­vík.

Reykja­vík­ur­borg er með áform uppi um að byggja átta hæða fjöl­býl­is­hús við hlið húss­ins á Skúla­götu 20, svo ná­lægt vest­urgafli þess að Ingrid seg­ist nán­ast eiga eft­ir að geta snert það út um glugg­ann hjá sér.

Hér er mynd af fyrirhugaðri byggingu, ljósa byggingin fyrir miðri mynd. Húsið við Skúlagötu 20 er vinstra megin við það. (sjá http://reykjavik.is/skipulag-i-kynningu/frakkastigur-skulagata)

skulagata


mbl.is Dæmd til að búa í myrkri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Unga fólkið velji bíl­laus­an lífstíl.“

„Af­ten­posten ræðir við hægri­mann­inn Jens Lie sem seg­ir sí­fellt færri og færri borg­ar­búa eiga bíl og það sé staðreynd að ungt fólk tek­ur bíl­próf seinna en áður.

Því sjái hverf­is­ráð Frogner ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að fækka bíla­stæðum og koma þar á móts við hjól­reiðafólk líkt og ungt fólk vill. Unga fólkið velji bíl­laus­an lífstíl.“

Hvað Moggabloggarar athugið. Framtíðin er ekki í sífellt fleiri og fleiri bílum. Bílar eru vissulega gagnlegir, en þeir eru mengandi og rándýrir í innkaupumn og rekstri og plássfrekir í umhverfinu.

Vonandi tekst okkur að þróa samfélagið meira og meira í þá átt að fólk sé ekki eins háð bílum og verið hefur síðustu áratugi.


mbl.is Bílastæðin hopa fyrir stígum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð hvala þolir ekki dagsljósið

Sjávarútvegsráðherra og fiskistofustjóri vilja ekki opinbera niðurstöðu rannsókna á dauðatíma hvala sem veiddir eru, en þetta hefur verið rannsakað á yfirstandandi hvalavertíð. Ráherrann svaraði fyrirspurn um þetta á Alþingi. Hér er frétt um málið á visir.is.

Margir andstæðingar hvalveiða beita meðal annars þeirri röksemd fyrir afstöðu sinni að erfitt sé að taka af lífi hval á skjótan og mannúðlegan hátt. Leynd ráðherrans styrkir þeirra málsstað, því ef rannsóknirnar myndu sýna að hvalirnir væru aflífaðir hratt og vel myndi þeim upplýsingum varla verið haldið leyndum.

Stæði fólki á sama ef nautgripir væru drepnir þannig í sláturhúsum að það tæki frá nokkrum mínútum og upp í hálftíma* að drepast?  Þetta er hvoru tveggja stór spendýr, með nokkuð álíka taugaþroska og tilfinningar.

 LMazzuca_Fin_Whale

Langreyður 

naut

Naut 

*Þetta er ágiskun, þar sem tölum um raunverulegan dauðatíma er haldið leyndum. 


Maríus og móðursýkin

Giraffe 

 Merkilegt að skoða ofsafengin viðbrögð úti í heimi við fréttum af því þegar gíraffinn Maríus var felldur í Kaupmannahöfn og gert að skrokknum fyrir framan áhugasama gesti. Dýragarðsyfirvöld hafa gefið mjög góð rök fyrir því af hverju dýrið var fellt, það var einfaldlega eðlilegt viðhald á stofninum, gíraffar eiga auðvelt með að fjölga sér, það er takmarkað pláss í garðinum og hindra verður of mikla skyldleikarækt.

Mörgum finnst viðbrögðin sýna firringu nútíma vesturlandabúa, sem halda að kjöt verði til út í búð og hafa sko ekki alist upp í sveit, þar sem heimalningnum var slátrað að hausti og kýrnar voru felldar áður en þær hættu að mjólka.

EN - - er þetta svona einfalt? Er reiði og hneykslun mjög margra bara móðursýki?

Búum til smá dæmi, segjum að ég ætti gullfallegan hund, tveggja ára Border collie, hana Trýnu. 

collie

Trýna 

Svo þegar vinnufélagarnir spyrja mig einn mánudag um Trýnu, segi ég "Nei, við sko vorum að kaupa lúxusíbúð í Skuggahverfinu, það var ekki pláss fyrir hana svo ég fór með hana út í garð og skaut hana."

Svolítið kaldranalegt eða hvað?

Ég held að mörgum (í útlöndum) finnist að Maríusarmálið hafi verið í áttina að einhverju svona. Maríus hafi verið meira eins og gæludýr, svo hafi hann, enn ungur og fullfrískur, verið skotinn í hausinn og brytjaður sundur fyrir framan forvitin skólabörn. Svona eins og ef ég hefði brytjað niður Trýnu og gefið krummunum sem halda til hér úti við leikskólann.

Ég er ekki að reyna að ganga fram af fólki. Ég er bara að reyna að sýna að við öll, amerísk borgarbörn og veraldarvanir Íslendingar sem voru í sveit sem krakkar, flokkum dýr, og gefum þeim mismikinn rétt til að lifa og til að njóta sín. Sú flokkun er sjaldnast fullkomlega skynsöm eða lógísk. Við myndum til að mynda ekki samþykkja að hundar (hér á landi) þyrftu að búa við sömu aðstæður og svín þurfa að þola. Samt eru svín ekkert vitlausari eða minni tilfinningaverur en hundar. 

Auðvitað er afstaða okkar lituð af okkar reynslu og af tilfinningum. Sumir Íslendingar hneykslast yfir því að starfsfólk Húsdýragarðsins borði sem veislumat kjöt af dýrum sem fella þarf í garðinum. Aðrir hneykslar á því að hinir hneykslast og að þetta skyldi yfirhöfuð teljast frétt. Fannst blaðamanninum að það væri óeðlilegt að starfsfólk Húsdýragarðsins væri sjálft að njóta kjötsins af dýrum sem það hafði fóðrað, umgengist og þekkt? 

Sjálfsagt er það svo að einmitt fólk sem mest umgengst dýr, bændur, dýraræktendur, starfsfólk í dýragörðum verður að temja sér jarðbundna afstöðu til dýranna.

Það sem ég vildi segja er að við ættum kannski ekki að hneykslast svo voðalega á fólkinu sem hneykslaðist á sýningarslátruninni á Maríusi.  Okkar húsbóndavald yfir öðrum skepnum jarðar er alltaf heimspekilega pínu vandmeðfarið, og aldrei hægt að útiloka tilfinningalega afstöðu, og ekkert endilega eðlilegt að gera þá kröfu.

Það er hvorki rétt eða rangt að finnast það óviðeigandi (eða viðeigandi) að gera að fræðslu- og fjölmiðlasýningu uppskurð og vinnslu á skrokki gíraffans Maríusar. Sumum einfaldlega finnst það óviðeigandi, líkt og verið væri að gera fjölmiðlasýningu á kjötvinnslu á hundinum Trýnu. Nú eða Maríusi frænda.

 

bodies.

Maríus hugsi. Úr sýningunni 'Bodies' (mjög svo umdeildri). 

 


Mega aðrir skipta sér af OKKAR málum?

Enn á ný eru Bandaríkjamenn að gera veður út af hvalveiðum Íslendinga og hóta okkur ýmsu, ef við höldum þeim til streitu. og enn á ný heyrast sumir kvarta undan því að þeir séu að skipta sér af hvernig við nýtum okkar auðlindin.

mér finnst þetta bara prinsippmál að vera ekki að láta aðrar þjóðir segja okkur fyrir verkum, sama hvað það er

las ég í kommenti á Facebook. 

Eru þetta góð rök? Er það gott og sjálfsagt "prinsippmál" að aðrir skulu ekki skipta sér af okkar málum? Hvaða mál eru OKKAR mál?

Var Kárahnúkavirkjun og Hálslón bara "okkar" mál? Hvað ef við byggjum háhitavirkjun í Landmannalaugum? Virkjum Dettifoss? Útrýmum haferninum eins og við útrýmdum geirfuglinum?

Þessi má eru ekki alfarið okkar mál. Ekki frekar en að það sé einka-innanríkismál Brasilíumanna hvort þeir höggvi niður allan Amasónfrumskóginn, eða einkamál suður-Afríkumanna hvort þeir heimili veiðar á svörtum nashyrningum.

Akkúrat núna vilja margir að íslenskir ráðamenn komi skilaboðum áleiðis til Rússlands vegna lagasetningar um "áróður" um samkynhneigð.  Mörgum Rússum finnst þetta örugglega vera hin mesta afskiptasemi af þeirra innanríkismálum.

Það er ekkert prinsipp að ekki megi skipta sér af einhverju sem gerist í öðru ríki. Landamæri afmarka ekki hverju við megum skipta okkur af. Mannréttindi, sjálfbær nýting náttúru, virðing fyrir lífi, bæði mönnum og skepnum eru málefni sem eru ekki afmörkuð af landamærum.

Landamæri eru ekki til í alvörunni.

rhino 


2.898 kr fyrir eitt dýr

Ég las hjá Dr. Gunna að eitt stykki lífrænt ræktaður kjúklingur innfluttur frá Danmörku kosti í Fjarðarkaup 2.898 kr.

Er það svo voðalega mikið? Kjúklingurinn vegur ca. 1.2 kg. Þetta er ekki tiltakanlega dýrara en annað kjöt. (Mér persónulega stendur á sama hvort kjúklingurinn uppfylli alla staðla til að teljast "lífrænn", ég vil fyrst og fremst að dýrið búi við viðunandi aðstæður, eins og t.d. kýr og sauðfé.

Af hverju finnst okkur að kjúklingakjöt eigi að vera ódýrt?

Gerum okkur grein fyrir að kjúklingur er ódýr eingöngu vegna þess að búið er að hámarka hagkvæmni í ræktun kjúklinga, sem gerir aðstæður dýranna og meðhöndlun alla ömurlega. Þeir lifa mjög þröngt alla ævi, gangandi um í eigin skít, þeir eru ofaldir og eiginlega vanskapaðir fullvaxnir, farið er með þá eins og dauða hluti meðan þeir eru enn á lífi, þegar þeir eru færðir til slátrunar er þeim bókstaflega hrúgað í kassa, menn grípa þá hvernig sem er, í vængi, fætur, í akkorði.

Þannig er hægt að framleiða kjúkling ódýrt.

Meðan við lokum augum fyrir þessu og höldum áfram að kaupa "venjulegan" kjúkling erum við að styðja svona verksmiðjuframleiðslu á dýrum. 

 

chicken2

Berum virðingu fyrir dýrum, líka hænsfuglum. 

 

 

 

 


Hvað eru mörg laus stæði?

Egill Helgason bendir á í pistli um fyrirhugaða byggingu við Ásholt undarlega tilfinningasama ást bílastæðakórsins svokallaða á bílastæðum. Og viti menn nokkrir kórsöngvarar mæta til leiks og kommentera á pistilinn. Tala um að þarna sé skortur á stæðum og mikill aðsteðjandi vandi sem myndi fylgja fækkun bílastæða e leyft verður að byggja á reit sem nú er bílaplan.

Hér er mynd af umræddu svæði. Lóðin sem nú er bílastæði en til stendur að byggja á námsmannaíbúðir er vinstra megin aðeins fyrir neðan miðju (neðan við hvítu húsin merkt "A", sem mynda ferning í kringum lokaðan garð).

Hér er smá getraun fyrir lesendur. Hvað eru mörg auð bílastæði á myndinni? (Smellið á mynd til að stækka.)

bilastaedi 


Nýársávarp Forseta 2014 - rýni

Eins og ég sagði frá í seinasta pistli hlýddi ég eins og fleiri á Forsetann.  Nú hef ég lesið ávarpið yfir í rólegheitum og langar að fara yfir það og kryfja nokkur atriði.

1. Heimkoma handritanna var ávöxtur "órofa samstöðu þjóðarinnar" 

Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp. 

Hátíðarhöldin í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar áréttuðu að heimkoma handritanna var ávöxtur af órofa samstöðu þjóðarinnar, krafti sem gaf kjörnum fulltrúum og fræðasveit styrk til að sannfæra Dani 

Nú er ég aðeins of ungur til að muna atburðarás handritamálsins svokallaða þar sem hápunkturinn var koma helstu höfuðhandrita okkar árið 1971. En er ekki ofsögum sagt að þetta mál hafi verið knúið áfram með samstöðu þjóðarinnar? Vissulega var þetta óumdeilt mál hér á landi, en ég hef nú frekar haldið að þetta hafi verið unnið og leyst af stjórnmálamönnum og duglegum diplómötum og að almenningur hafi ekki skipt sér mikið af þeim málarekstri. Þeir sem eldri eru geta staðfest hvort þetta sé rétt. Hér er yfirlitsgrein frá 1994.

2. Hornsteinar sjálfstæðisbaráttunnar byggðust á samstöðu þjóðarinnar

Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun – allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði. 

Ég hef aðeins skoðað þetta í seinasta pistli. Þetta er orðum aukið og að hluta alrangt. Flókin og erfið mál verða sjaldnast leyst í einhverri allsherjar samstöðu. Vissulega getur ákveðin samstaða verið gagnleg, en hún er alls ekki forsenda framfara, hvorki í sjálfstæðisbaráttu né öðrum lýðræðisumbótum. Gagnrýnin umræða, skoðanaskipti og líflegur "debatt" er hornsteinn lýðræðis, ekki samstaða.

3. Þjóðarsáttarsamningarnir

Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar. 

"Þjóðarsátt" var fyrst og fremst snjöll nafngift á tímamótasamningum samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnarinnar. Samningar þessir voru vissulega ávöxtur sáttar milli þessara aðila. Nafngiftin var svo snjallt "PR", í þeirri viðleitni að sannfæra þjóðina um gagn og nauðsyn þessa samninga. 

4. Icesave - "eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur"

Við munum líka hvernig eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur í harðri deilu um Icesave; málstaður okkar reyndist að lokum hafa lögin með sér. 

Ólafur Ragnar, sem virkur þátttakandandi í Icesave-slagnum, er ekki heppilegastur sem hlutlaus söguskýrandi þessa máls. Vissulega má segja að Ísland hafi, með forseta í fararbroddi, náð að virkja almenning á sérstakan og nokkuð sögulegan hátt í þessari refskák við Breta og Hollendinga, en öllum er í fersku minni að sérstaklega á seinni stigum var langt í frá einhver "þjóðarsátt" um þetta mál. Margir töldu - og telja jafnvel enn - að sú leið sem farin var í lokakafla sögunnar, að fara með málið fyrir dóm, hafi verið mjög áhættusöm. Og það var svo sannarlega ekki þjóðarvilji eða "samstaða" sem réð hagstæðri útkomu dómstólsins. Sú útkoma koma raunar mjög mörgum lögspekingum á óvart, jafnvel hörðum Icesave-"Nei"-sinnum.

5. Samstaða Alþingis

Þótt málvenjan skipti Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu, er hollt að minnast þess að reisn þingsins var ætíð mest þegar flokkarnir báru gæfu til að standa saman; þingheimur vex af því að slíðra sverðin. 

Forsetinn nefnir sem eitt dæmi um slíka "reisn" afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingum í lok síðustu aldar. Nú má vera að þetta dæmi sé ágætt sem slíkt. Hitt er þó líka algengt að ýmis mál renna í gegn umræðulaust í fullri "samstöðu" og síðar koma í ljós ýmsir gallar og vankantar sem hefði betur mátt ræða í undirbúningi. Þegar mikil samstaða ríkir um mál á Alþingi hef ég oftar en ekki áhyggjur af því að verið er að samþykkja eitthvað "gott", sem allir eiga að vera sammála um, en mætti samt skoða og ræða.

6. "Sáttmáli kynslóðanna"

Í glímunni við skuldavanda heimilanna er sáttmáli kynslóðanna forsenda víðtækrar lausnar.

Hvaðan kemur þetta hugtak, "sáttmáli kynslóðanna"? Jú, þetta er hugtak sem fyrst heyrðist í kynningu nefndar ríkisstjórnarinnar 30. nóvember á "skuldaleiðréttingar"-pakkanum margfræga: "Aðgerðin sögð sáttmáli kynslóða"

En af hverju skyldi þessi pakki kallaður þessu nafni? Ætli ástæðan sé ekki svipuð og með áðurnefnda "Þjóðarsáttar"-samninga, þetta er "PR", búið til nafn til að sannfæra okkur um ágæti og nauðsyn aðgerðanna. Hugsunin að baki, þ.e. tilvísun í "kynslóðir" er væntanlega sú að sumir fá auðvitað minna en aðrir í þessari risamillifærslu, elsta kynslóðin sem á skuldlaust húsnæði fær ekkert, yngsta kynslóðin sem ekki hefur keypt húsnæði fær heldur ekki neitt. Hugtakið "sáttmáli kynslóðanna" á kannski að að sætta þessar kynslóðir við stóru millifærsluna.

Það er óneitanlega sérstakt að Forsetinn taki með þessum hætti beinan þátt í kynningar- og PR-starfi ríkisstjórnarinnar í máli sem enn er ekki búið að kynna og ræða á Alþingi. En þetta kemur kannski ekki á óvart. Núverandi forseti er ekki ópólitískur og er bandamaður sitjandi ríkisstjórnar, a.m.k. nú um sinn.

7. Ísland í "lykilstöðu" á Norðurslóðum

Norðurslóðir sem áður voru taldar endimörk hins byggilega heims eru í vaxandi mæli hringiða nýrrar heimsmyndar, breyting sem Norðurskautsráðið staðfesti í maí með sögulegri samþykkt. [...] Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; ...

Ég verð að segja eins og er, ég skil ekki þetta norðurslóðatal Forsetans. Ég sótti Atlasinn minn og fletti upp kortum af Norðurpólnum til að að reyna að skilja hvernig Ísland eigi að verða miðpunktur Norðurslóða í bjartri framtíð bráðnandi jökla, einskonar Klondyke nýja Norðursins, ef marka má orð Forsetans!

Ég heyri lítið minnst Norðurslóðaráð (Arctic Council) nema helst í ræðum Forseta Íslands. (Vissuð þið að Ísland var í forsæti ráðsins árin 2002-2004? Nei, ekki Forseti Íslands heldur ríkisstjórn landsins, þ.e. utanríkisráðherra eða fulltrúi hans.) Á heimasíðu ráðsins er megináhersla lög á ýmis umhverfismál og hagsmuni frumbyggja Norðurslóða. Íslendingar eru ekki taldir með sem "frumbyggjar"* heldur er átt við Inúita, Sama og þjóðflokka norður-Síberíu og Kamchatka. Íslendingar hafa hingað til haft lítil samskipti við Ínúita og frekar litið niður á. Það er jákvætt ef Forsetinn nái að bæta samskipti Íslands við granna okkar í Grænlandi, en ég hefði frekar vilja heyra Forsetann tala um umhverfi Norðurslóða og ógnir og áskoranir sem íbúar hins raunverulega Norðurs þurfa að mæta í stað glaðhlakkalegrar umræðu um "tækifæri" sem felast í hlýnun jarðar og bráðnun jökla.

*(Við teljumst ekki frumbyggjar hins eiginlega norðurheimskautasvæðis, það sem á útlensku nefnist "the Arctic", sjá t.d. færslu hér um 'Arctic Council'.) 

8. Gömul og góð tengsl Rússa við Ísland 

Vilji Rússa til að efla gömul og góð tengsl við Ísland með auknum áherslum á Norðurslóðir birtist svo glöggt í viðræðum við Vladimir Putin í september, vilji sem forseti Rússlands hefur reyndar lýst áður einkar skýrt. 

Hér verða sagnfræðingar að aðstoða mig. Hvað í ósköpunum er Forsetinn að tala um? Vöruskipti Íslands og Sovétríkjanna?

Ég vil gjarnan sjá góð tengsl Íslands við sem flestar þjóðir, þar á meðal Rússa, frekar þó við aðra Rússa en akkúrat leiðtoga þeirra Pútín, fyrrum foringja leyniþjónustu alræðisríkisins gamla, sem ræktar jöfnum höndum fordóma gegn samkynhneigðum og styrk tengsl við óligarka Rússa sem tóku yfir helstu auðlindir Sovétsins og eru nú meðal ríkustu manna heims.  

9. Vorum "heft í fjötra kalda stríðsins", nú í lykilstöðu

Ísland sem var um aldir einangrað og á fyrstu áratugum lýðveldis heft í fjötra kalda stríðsins, er nú eftirsóttur bandamaður við þróun samstarfs um nýja Norðrið; er í lykilstöðu á vettvangi margra stofnana og tengslaneta, norrænna og evrópskra, og einnig þeirra sem teygja sig alla leið til Asíu og yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna og Kanada. 

Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður, "heft í fjötra kalda stríðsins". Að hvaða leyti hefti kalda stríðið Íslendinga?  Ég hélt reyndar að við hefðum haft allnokkurn hag af strategískri legu Íslands í kalda stríðinu, alla vega sköpuðust störf og viðskipti fyrir fjölda fólks, hvort sem það hafði alfarið góð áhrif á þjóðarsálina.

Hvað varðar meinta lykilstöðu Íslands þá er ég langt í frá sannfærður um að stórþjóðir í kringum okkur sjái okkur sem "lykilríki" ef og þegar reynir á hagsmuni þeirra á Norðurslóðum. Kannski skortir mig hæfileika Ólafs frænda míns til að sjá sjálfan mig og þjóð mína sem nafla alheimsins.

Þessi pistill gæti orðið enn lengri, ræða mætti hvernig Forsetinn dregur inn Nelson Mandela til að styrkja enn frekar áramótaboðskap sinn um samstöðu. Mandela var mikils háttar maður, og honum tókst vissulega að halda margbreytilegri þjóð sinni saman á miklum umbreytingartímum. Ýmsir myndu kalla það kraftaverk að Mandela skyldi takast að leiða valdaskipti í Suður-Afríku án blóðsúthellinga og borgarastríðs, þó ýmsir meina að sú samstaða hafi verið á kostnað misskiptingar, sem alltof lítið var gert til að laga, enda fékk ríki minnihluti landsins að halda eigum sínum og yfirráðum yfir auðlindum svo til óskertum.

Það sem Mandela hins vegar tókst var að vera óskoraður leiðtogi allra landsmanna sinna, líka fyrrum andstæðinga sinna. Mandela rétti sáttahönd til hvíta minnihlutans og naut virðingar og vinsælda allra. Ólafur Ragnar á nokkuð langt í land með að verða óumdeilur Forseti allra Íslendinga. Boðskapur hans um samstöðu (um pólitísk stefnumál hans og ríkisstjórnarinnar sem hann veitir brautargengi?) breytir því ekki. 

leidtogar 

Leiðtogar Íslands 


Það er nóg pláss í Reykjavík

Skipulagssaga Reykjavíkur eftir seinna stríð er svolítið sérstök. Hverfi voru byggð eins og litlar eyjar í holtum austantil í bænum. Væntanlega réð miklu að gott væri að grafa fyrir húsgrunnum. Mýrlendi var skilið eftir. Þannig eru eldri hverfi frá eftirstríðsárunum í Teigum, Laugarásholti, Sundum, Vogum, Gerðum, en á milli þessara hverfa voru heilmikil landflæmi, sem svo hægt og rólega voru numin. Þannig var t.d. Kringlan ekki fullbyggð fyrr en 1987. Allt svæðið sem fer undir hana, Borgarleikhúsið, Versló, Ofanleiti, Útvarpshúsgímaldið, var bara mýri og móar, fyrir innan við 30 árum. Nánast í miðri borginni.

Enn er verið að fylla uppí vannýtt svæði í borgarlandslaginu. Blokkirnar allar meðfram Skúlagötu eru innan við 20 ára og enn eru þar óbyggð flæmi. Stórt hverfi hefur risið á síðustu árum í túnunum (Sóltún), bakvið Borgartún og vestan Kringlumýrarbrautar, og það svæði er ekki klárað.

Svo fram á þennan dag virðist hafa verið nóg byggingarland miðsvæðis í Reykjavík.

Þess vegna á ég bágt með að skilja þann málflutning að ekki sé pláss fyrir flugvöll í Reykjavik.

Það hefur hingað til verið meira en nóg pláss í Reykjavík undir byggð. Meira að segja allt í kringum flugvöllinn. Þar var reistur heill háskóli (HR) fyrir fáum árum. Og HÍ virðist hafa meira en nóg pláss til að stækka, t.d. er mjög rúmt um Öskju, og stúdentagörðum hefur jafnt og þétt fjölgað, nú síðast er verið að byggja veglegar byggingar við Oddagötu. Íslensk erfðagreining byggði stórt og glæslegt hús á háskólasvæðinu fyrir um áratug.

Marga dreymir um að sjá nýtt og öðruvísi hverfi rísa í Vatnsmýri. Með þéttri byggð og miðbæjarbrag. Ég er efins. Af hverju er ekki fyrst prófað slíkt skipulag annars staðar, þar sem ekki þarf að fórna flugvelli? 

Ég sé ekki að þau rök haldi að það vanti pláss í Reykjavík, og að þess vegna eigi að leggja niður flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband