Færsluflokkur: Heimspeki
13.2.2014 | 00:16
Maríus og móðursýkin
Merkilegt að skoða ofsafengin viðbrögð úti í heimi við fréttum af því þegar gíraffinn Maríus var felldur í Kaupmannahöfn og gert að skrokknum fyrir framan áhugasama gesti. Dýragarðsyfirvöld hafa gefið mjög góð rök fyrir því af hverju dýrið var fellt, það var einfaldlega eðlilegt viðhald á stofninum, gíraffar eiga auðvelt með að fjölga sér, það er takmarkað pláss í garðinum og hindra verður of mikla skyldleikarækt.
Mörgum finnst viðbrögðin sýna firringu nútíma vesturlandabúa, sem halda að kjöt verði til út í búð og hafa sko ekki alist upp í sveit, þar sem heimalningnum var slátrað að hausti og kýrnar voru felldar áður en þær hættu að mjólka.
EN - - er þetta svona einfalt? Er reiði og hneykslun mjög margra bara móðursýki?
Búum til smá dæmi, segjum að ég ætti gullfallegan hund, tveggja ára Border collie, hana Trýnu.
Trýna
Svo þegar vinnufélagarnir spyrja mig einn mánudag um Trýnu, segi ég "Nei, við sko vorum að kaupa lúxusíbúð í Skuggahverfinu, það var ekki pláss fyrir hana svo ég fór með hana út í garð og skaut hana."
Svolítið kaldranalegt eða hvað?
Ég held að mörgum (í útlöndum) finnist að Maríusarmálið hafi verið í áttina að einhverju svona. Maríus hafi verið meira eins og gæludýr, svo hafi hann, enn ungur og fullfrískur, verið skotinn í hausinn og brytjaður sundur fyrir framan forvitin skólabörn. Svona eins og ef ég hefði brytjað niður Trýnu og gefið krummunum sem halda til hér úti við leikskólann.
Ég er ekki að reyna að ganga fram af fólki. Ég er bara að reyna að sýna að við öll, amerísk borgarbörn og veraldarvanir Íslendingar sem voru í sveit sem krakkar, flokkum dýr, og gefum þeim mismikinn rétt til að lifa og til að njóta sín. Sú flokkun er sjaldnast fullkomlega skynsöm eða lógísk. Við myndum til að mynda ekki samþykkja að hundar (hér á landi) þyrftu að búa við sömu aðstæður og svín þurfa að þola. Samt eru svín ekkert vitlausari eða minni tilfinningaverur en hundar.
Auðvitað er afstaða okkar lituð af okkar reynslu og af tilfinningum. Sumir Íslendingar hneykslast yfir því að starfsfólk Húsdýragarðsins borði sem veislumat kjöt af dýrum sem fella þarf í garðinum. Aðrir hneykslar á því að hinir hneykslast og að þetta skyldi yfirhöfuð teljast frétt. Fannst blaðamanninum að það væri óeðlilegt að starfsfólk Húsdýragarðsins væri sjálft að njóta kjötsins af dýrum sem það hafði fóðrað, umgengist og þekkt?
Sjálfsagt er það svo að einmitt fólk sem mest umgengst dýr, bændur, dýraræktendur, starfsfólk í dýragörðum verður að temja sér jarðbundna afstöðu til dýranna.
Það sem ég vildi segja er að við ættum kannski ekki að hneykslast svo voðalega á fólkinu sem hneykslaðist á sýningarslátruninni á Maríusi. Okkar húsbóndavald yfir öðrum skepnum jarðar er alltaf heimspekilega pínu vandmeðfarið, og aldrei hægt að útiloka tilfinningalega afstöðu, og ekkert endilega eðlilegt að gera þá kröfu.
Það er hvorki rétt eða rangt að finnast það óviðeigandi (eða viðeigandi) að gera að fræðslu- og fjölmiðlasýningu uppskurð og vinnslu á skrokki gíraffans Maríusar. Sumum einfaldlega finnst það óviðeigandi, líkt og verið væri að gera fjölmiðlasýningu á kjötvinnslu á hundinum Trýnu. Nú eða Maríusi frænda.
Maríus hugsi. Úr sýningunni 'Bodies' (mjög svo umdeildri).
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2014 | 09:09
2.898 kr fyrir eitt dýr
Ég las hjá Dr. Gunna að eitt stykki lífrænt ræktaður kjúklingur innfluttur frá Danmörku kosti í Fjarðarkaup 2.898 kr.
Er það svo voðalega mikið? Kjúklingurinn vegur ca. 1.2 kg. Þetta er ekki tiltakanlega dýrara en annað kjöt. (Mér persónulega stendur á sama hvort kjúklingurinn uppfylli alla staðla til að teljast "lífrænn", ég vil fyrst og fremst að dýrið búi við viðunandi aðstæður, eins og t.d. kýr og sauðfé.
Af hverju finnst okkur að kjúklingakjöt eigi að vera ódýrt?
Gerum okkur grein fyrir að kjúklingur er ódýr eingöngu vegna þess að búið er að hámarka hagkvæmni í ræktun kjúklinga, sem gerir aðstæður dýranna og meðhöndlun alla ömurlega. Þeir lifa mjög þröngt alla ævi, gangandi um í eigin skít, þeir eru ofaldir og eiginlega vanskapaðir fullvaxnir, farið er með þá eins og dauða hluti meðan þeir eru enn á lífi, þegar þeir eru færðir til slátrunar er þeim bókstaflega hrúgað í kassa, menn grípa þá hvernig sem er, í vængi, fætur, í akkorði.
Þannig er hægt að framleiða kjúkling ódýrt.
Meðan við lokum augum fyrir þessu og höldum áfram að kaupa "venjulegan" kjúkling erum við að styðja svona verksmiðjuframleiðslu á dýrum.
Berum virðingu fyrir dýrum, líka hænsfuglum.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2013 | 17:58
Ayn Rand: 'Undirstaðan' - FRAMHALD
Róttæki einstaklingshyggjusinninn Ayn Rand skrifaði skáldsöguna 'Undirstaðan' (Atlas shrugged), sem þýdd hefur verið á íslensku og fjallar um að hinir ríku sem bera samfélagið á herðum sér (eins og gríski guðinn Atlas forðum) segja STOPP og stinga af, til að þurfa ekki að halda uppi alls konar aumingjum og sníkjudýrum samfélagsins.
Ýmsir frjálshyggjumenn hafa mikið dálæti á þessari bók, og telja hana einskonar framtíðarspá um það sem gæti gerst ef vestrænar ríkisstjórnir hætta ekki geigvænlegri skattpíningu á ríka fólkinu, fólkinu sem "skapar verðmætin". (Þetta með að ríkasta fólkið skapi verðmæti samfélagsins eru ekki mín orð, heldur stjórnmálafræðiprófessors við Háskóla Íslands, svo þeim ætti að mega treysta.)
Í framhaldsbókinni, 'Undirstaðan II' (sem Ayn Ran náði ekki sjálf að klára) snýr hins vegar ríka fólkið aftur tilbaka.
Í útópíska ríkafólks-landinu var nefnilega enginn til að þrífa klósett, enginn til að gera við bíla, enginn til að hirða garða og slá gras, enginn til að byggja hús, enginn til að leggja vegi, enginn til að afgreiða á kassa í matvöruverslunum, enginn til að fylla á hyllurnar, enginn til að keyra vörubíla, enginn til að vinna í verksmiðjum, enginn til að rækta korn eða slátra nautgripum, enginn til sauma föt, enginn til að setja saman iPad tölvur, enginn til að steikja hamborgara og þjóna á veitingastöðum, enginn til að keyra ruslabíl.
Það er nefnilega ekki þannig að bara ríka fólkið haldi samfélaginu gangandi og geri allt.
Farandverkamenn í Bandaríkjunum.
12.10.2013 | 07:44
Systur, mæður og dætur
Erna og Hulda eru systur. Erna á tvö börn. Hulda gat ekki eignast börn án aðstoðar. Hún fékk gjafaegg frá systur sinni. Eggið var frjóvgað í glasafrjóvgun með sæðisfrumum frá Hrafni, manni Huldu. Hulda er nú ólétt af sínu fyrsta barni. Hún og Hrafn eru að vonum himinlifandi enda búin að reyna lengi að eignast barn og nú gat systir hennar hjálpað þeim að láta drauminn rætast. Líffræðilega verður barnið barn Ernu og Hrafns, en auðvitað er barnið hennar Huldu. Þær systur ræddu þetta vel og vandlega og fengu ráðgjöf fagfólks.
Erna og Hulda
Sigrún og Ragnheiður eru systur. Vegna sjúkdóms getur Sigrún ekki gengið með barn, en hún er með heilbrigðar eggfrumur. Ragnheiður bauðst til að gerast staðgöngumóðir fyrir systur sína. Egg úr Sigrúnu var frjóvgað með sæði Stefáns, manns Sigrúnar. Nú bíða Stefán og Sigrún spennt eftir sínu fyrsta barni. En það er Ragnheiður sem gengu með barnið.
Sigrún og Ragnheiður
Hulda og Ragnheiður eru sem sagt báðar óléttar. í hvorugu tilfelli er barnið orðið til úr þeirra eigin kynfrumu. Hulda gengur með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar og Ragnheiður gengur líka með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar. Bæði ófæddu börnin eru jafnskyld mæðrunum sem ganga með þau.
Barn Huldu er að sjálfsögðu barn hennar, þó hún hafi fengið kynfrumu annars staðar frá. Hún naut bara aðstoðar systur sinnar til að barnið yrði til.
En hvað með barnið sem Ragnheiður gengur með? Auðvitað verður það barn Sigrúnar og Stefáns, eftir að það fæðist. Um það eru þau öll sammála, Ragnheiður, Sigrún og Stefán. En þangað til? Getur það verið hluti af líkama Ragnheiðar, en samt ekki hennar barn?
Ég vil meina að við getum ekki litið svo á að ófætt barn í móðurkviði sé ekki barn móðurinnar sem gengur með það. Uppruni kynfrumna breytir því ekki.
Dæmin hér að ofan sýna að við lítum öðruvísi á kringumstæður, jafnvel þó svo tæknilega, þ.e. líffræðilega séu dæmin alveg eins.
Er það þá huglægt hver sé móðir barns, þegar móðir gengur með barn sem er ekki úr hennar eigin kynfrumu?
Ég spurði konu, í umræðu um málefnið, hvort hún gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir aðra konu, ef hún sjálf hefði getið barnið með manni sínum. Hún kvað það af og frá, fannst það satt að segja fráleit spurning. Henni fannst algjör grundvallarmunur á því að ganga með eigið barn og að ganga með annarrar konu barn.
Orðrétt sagði viðmælandi minn:
Snýst ekki umræðan um að egg og sæði sem staðgöngumóðirin á ekkert í séu sett saman í glasi og komið fyrir í legi hennar og hún afhendi síðan kynforeldrum barnið aftur þegar hún er búin að baka það? [...]
það er engin ástæða til að flækja umræðuna með einhverjum hugleyðingum um hvort maður geti pantað eina frænku frá systur sinni til að eiga sjálf eða hvað það var... það er ekki staðgöngumæðrun, það er ættleiðing... og MILLJÓN sinnum flóknara...
Er þessi munur fyrir hendi? Er hann jafn mikill og við höldum? Er hann milljón-faldur??
Fyrstu staðgöngumæður lögðu til eigin egg, voru bæði egggjafar og staðgöngumæður. Svo líffræðilega voru þær að ganga með eigið barn. (Þetta er kallað traditional surrogacy, en er miklu óalgengara nú en hinsegin staðganga, gestational surrogacy.) Og eins og lýst er í dæmunum hér að ofan, þá er barn sem staðgöngumóðir gengur með úr annarrar konu eggi tæknilega (líffræðilega) alveg eins og barn sem kona gengur með, sem þegið hefur gjafaegg. Í fyrra tilvikinu líta margir svo á að móðirin, sú sem gengur með barnið sé alls ekki móðir þess, heldur "bara" staðgöngumóðir, sem sé eitthvað allt annað.
Ég er sjálfur mjög hugsi yfir þessu sjónarmiði, sem ég held reyndar að sé algengt og þessi ofangreindi viðmælandi sem ég vitna í er alls ekki ein um að halda á lofti, að það sé grundvallarmunur á því að búa til og ganga með eigið barn, og að "hýsa" annarra manna barn. Ég vona að dæmin hér að ofan sýni fólki að munurinn er kannski fyrst og fremst í huganum á okkur.
Ég sé t.d. alls ekki að það sé neinn grundvallarmunur á staðgöngu-meðgöngu og því þegar kona sem verður óviljandi ólétt ákveður að halda meðgöngu áfram til að gefa frá sér barnið til ættleiðingar. Í báðum tilvikum veit konan, á seinni helming meðgöngunnar að hún muni ekki ala barnið eftir fæðingu. Barnið verður ekki hennar. En ég held því fram að það sé hennar á meðgöngunni, óháð uppruna eggfrumunnar. (þetta sjónarmið útilokar ekki staðgöngumeðgöngur og er raunar lagt til grundvallar t.d. í Bretlandi, þar sem staðgöngumóðirin getur ekki endanlega gefið frá sér barnið, lagalega, fyrr en eftir fæðingu. Hún er að gefa frá sér sitt barn.)
Ég held að við eigum að velta þessum málum vel fyrir okkur í umræðu um fyrirbærið staðgöngumæðrun.
Hennar eigið barn?
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.10.2013 | 18:31
Með annars barn í móðurkviði??
Nokkur umræða hefur nú aftur sprottið upp um staðgöngumæðrun. Greinar um málið hafa birst á vefritunum knuz.is og skodun.is:
Að leigja leg eins og geymsluskápa
Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni
Að gefa líffæri eins og varahluti - hugleiðing um staðgöngumæðrun
Mér finnst þó besta greinin um málið sem ég hef rekist á á íslensku þessi hér, sem er næstum þriggja ára, eftir Ástríði Stefánsdóttur:
Álitamál tengd staðgöngumæðrun
Eins og ég skrifaði um í síðasta pistli hefur mér fundist rökstuðningur gegn staðgöngumæðrun á köflum ósannfærandi. En þetta er engu að síður vandasamt og viðkvæmt umfjöllunarefni, sem ég er ekki reiðubúinn að styðja skilyrðislaust.
Í Bretlandi hefur staðgöngumæðrun verið leyfð. Bretar hafa þó gætt vel að einu mikilvægu skilyrði sem ekki hefur verið nægilega rætt hér: Staðgöngumóðirin hefur full yfirráð yfir sínum líkama meðan á meðgöngunni stendur. Dómstólar taka ekki til greina bindandi samninga um að staðgöngumóður beri að afhenda barn. (Sjá t.d. hér: www.gov.uk/rights-for-surrogate-mothers)
Þetta fyrirkomulag gerir staðgöngumæðrun alls ekki ómögulega. Það er mjög fátítt að staðgöngumóðir skiptir um skoðun. (Það gæti líka gest en er alveg örugglega mjög fátítt, að þegarnir sem bíða eftir ófæddu barninu snúist hugur. Við komum aldrei algjörlega í veg fyrir þess háttar vanda, ekki frekar en þegar börn verða til með hefðbundnum hætti. Það þarf bara að vera klárt hver er réttur hvers, og að réttur barnsins sé í fyrirrúmi.)
Í mínum huga er þetta algjört lykilatriði - ófætt barn ER barn þeirrar móður sem gengur með það. Annað er að mínu mati siðferðislega óverjandi.
Sumir hafa líkt staðgöngumæðrun við líffæragjöf. Þetta eru þó eðlísólík fyrirbæri þó sumt sé svipað. EN jafnvel þó ég hafi samþykkt að gefa annað nýrað úr mér til náins ættingja, þá er það mitt nýra alveg þangað til læknar hafa fjarlægt það. Ef mér snýst hugur daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð þá er það vissulega mjög bagalegt fyrir marga en ég hef til þess óumdeildan rétt, það kæmi aldrei lögregla heim til mín til að taka mig með valdi uppá spítala í nýrnabrottnám.
Ég ræð yfir mínum líkama. Punktur.
Fóstur er hluti af líkama konu. Uppruni kynfrumna breytir því ekki neitt. Þetta skilyrði verður að liggja til grundvallar allri umræðu um staðgöngumæðrun. Annars erum við komin á háskalegar brautir.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.10.2013 | 08:26
Veik "þrýstings"rök gegn staðgöngumæðrun
Þau rök heyrast furðulega oft sem ein helstu rök gegn staðgöngumæðrun, að ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði leyfð þá gætu konur orðið fyrir svo miklum þrýstingi að gerast staðgöngumæður fyrir systur eða nánar vinkonur sem óskuðu eftir slíkri þjónustu. Rökin eru sem sé að vegna þessa þrýstings myndu kannski sumar konur taka slíkt að sér án þess að vera raunverulega sáttar við það.
Þetta er ekki sterk rök.
Konur (og karlar) verða fyrir alls konar þrýstingi. Kona sem á kærasta verður fyrir miklum þrýsting ef hann biður hana að giftast sér. Er víst að hún geti staðist þann þrýsting? Segir hún 'já' bara til að þóknast kærastanum?
Kona sem á mann sem langar í börn getur orðið fyrir miklum þrýstingi frá honum að eignast barn. Getur verið að hún láti undan þeim þrýstingi og verði ólétt vegna óska mannsins?
Hvað með konu sem á systur sem er um það bil að verða gjaldþrota og missa íbúðina sína og biður systurina um aðstoð, verður sú kona fyrir miklum þrýstingi?
Kona sem yrði spurð hvort hún gæti gerst staðgöngumóðir yrði ekkert fyrir meiri þrýstingi en í fólk í ýmsum öðrum aðstæðum sem spurt er um erfiða hluti. Það eru ekki alvöru rök gegn staðgöngumæðrun, að þessi "þrýstingur" yrði svo óbærilegur að konur myndu samþykkja slíka bón gegn eigin sannfæringu.
Ég tel sjálfur önnur rök miklu veigameiri. Þau helstu eru þau, að það er að mínu mati ekki hægt að aðskilja (lögfræðilega, siðferðilega) fóstur í móðurkviði og móður þess. Við lítum svo á flest að fóstur sé ekki orðið að sjálfstæðum einstaklingi snemma á meðgöngu, móðir og fóstur er ein manneskja, einn líkami, með vísi að öðrum einstaklingi.
Umræða um staðgöngumæðrun og undirbúningur að hugsanlegri löggjöf um slíkt ætti að taka mið af því.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2013 | 18:28
Þjóðkirkjan, sértrúarsöfnuðir og bókstafstrú
Þjóðkirkjan hefur heldur betur lent í mótvindi vegna þess að hún (ýmsir söfnuðir hennar og prestar) er í samkrulli með öðrum trúfélögum að halda trúarhátíð í næsta mánuði þar sem aðalgestur er bókstafstrúaður bandarískur predikari sem hefur talað oft og mikið gegn mannréttindum samkynhneigðra.
Ameríkaninn, og margir íslenskir sértrúarsöfnuðir, byggja afstöðu sína til samkynhneigðar og margvíslegra annarra mála á tvöþúsund ára gömlum fornritum frá botni Miðjarðarhafs.
Sértrúarsöfnuðirnir trúa því að fornritin, Biblían, sé heilagur óskeikull sannleikur, orð Guðs almáttugs, tjáð í gegnum þá sem rituðu biblíuna.
Biblían í heild sinni er hins vegar kolómögulegur leiðarvísir fyrir líf okkar og lélegur kompás fyrir margvísleg siðferðisleg mál. Það er hægt að finna í Biblíunni alls konar vitleysu, strangar reglur um hitt og þetta, og boðorð um að dauðarefsingar skuli fylgja ýmsum yfirsjónum sem okkur þykja ekki tiltökumál í dag. Enda þurfa prestar Þjóðkirkjunnar fimm ára háskólanám til að geta skilið og túlkað Biblíuna fyrir okkur óbreytta.
En Þjóðkirkjan getur ekki komið hreint fram og sagt, "Þetta er vitleysa! Það Á EKKI að taka Biblíuna bókstaflega! Það er vitlaust, það er órökrétt, og það getur verið beinlínis hættulegt."
Því samkvæmt kenningum þeim sem Þjóðkirkjan aðhyllist og játningum hennar er Biblían annað og meira en fornrit, hún er "heilagt orð", orð Guðs.
Þess vegna er Þjóðkirkjan í eilífum vanda þegar kemur að sértrúarsöfnuðum, því hún á í basli með að lýsa því yfir skýrt og skorinort að bókstafstrúaðir sértrúarsöfnuðir séu á villigötum.
Ég skil satt að segja ekki HVAÐ það er sem Þjóðkirkjan sér jákvætt við þetta samstarf við sértrúarsöfnuði. Aðhyllist Þjóðkirkjan sömu grunngildi til mannlegs samfélags og þessir söfnuðir?
Ekki hefur Þjóðkirkjan mér vitanlega tekið þátt í íslensku trúboðs-sjónvarpsstöðinni Ómega. Á þeirri stöð eru oft og iðulega sýndir svona bandarískir sjónvarpspredikarar, eins og Franklin Graham. Svona predikanir ganga út á einskonar múgsefjun, að ná fólki helst í einhverskonar trans. Er það andlega heilbrigt og hollt?
Þetta sagði einn gestur á fyrri svona hátíð á Íslandi:
... við hjónin fórum á þessa hátíð Vonar fyrir ca. 20 árum síðan þegar við vorum í Kristkirkjunni. Það sem var mjög áberandi var þessi múgsefjun sem minnti einna helst á rokktónleika og peningaplokkið í kjölfarið. Eftir á að hyggja held ég að svona samkomur séu vel útfærð viðskiptahugmynd.
(komment við þennan pistil)
Til hvers er leikurinn gerður? Hvert er Þjóðkirkjan að fara með þessu?
Kannski er tími kominn til að Þjókirkjan endurskoði kenningar sínar, ef hún vill kalla sig ÞJÓÐ-kirkju. Kannski ætti hún að gerast almenn andleg heilsubótarstofnun þar sem hægt að sækja frið og ró og næra sálina, en sleppa því að boða einhverja tiltekna trú á heimsendaspá, syndafórn og guðleg fornrit.
Hinn valkosturinn er að Þjóðkirkjan gerist sjálfstætt trúfélag, eins og hún segist vera en er ekki, og að ríkisrekstri Þjóðkirkjunnar verði hætt.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.8.2013 | 21:50
Var Jesús örvhentur?
Borgarstjóri ónefndrar borgar kastaði fram þeirri spurningu hvort Jesús Kristur hefði mögulega verið örvhentur. Og viti menn, hópur fólks brást hinn versti við, ásakaði borgarstjórann fyrir að niðurlægja kristindóm og kirkjuna, sögðu jafnvel að orð hans væru guðlast og brot á stjórnarskrá!
Eða hvað?
Hvað er svona hræðilegt við að vera örvhentur?
Ef einhverjum finnst það svona hræðilegt að velta því upp hvort Jesús hafi verið örvhentur, segir það ekki bara meira um viðkomandi, að hann eða hún sé með óheilbrigð og fordómafull viðhorf?
Hvaða spurningar finnst þér niðurlægjandi og niðrandi?
- Var Jesús rauðhærður?
- Var Jesús lesblindur?
- Var Jesús blökkumaður?
- Var Jesús arabi?
- Var Jesús vöðvastæltur snöggklipptur Litái með tattú?
- Var Jesús vinstrisinni?
- Bjó Jesús í Asparfelli?
- Var Jesús ESB-andstæðingur?
- Var Jesús hommi?
Heimspeki | Breytt 9.8.2013 kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2011 | 14:43
Eilífðin er ekki eilíf
Svo upplýsti Guðfræðingur í Fréttablaðinu í gær:
... með eilífð er ekki átt við endalaust magn af tíma.
Ekki það? Þetta hefur maður haldið hingða til að eitthva sem varir að eilífu er endalaust. Pistalhöfundur skýrir svo frekar
Eilíft líf er andlegt líf sem er eðlisólíkt jarðnesku og veraldlegu lífi, ný og guðdómleg vídd tilveru.
Einmitt það. Segir manni mikið. Eða þannig. Þetta er ein ástæða þess að við þurfum Guðfræðinga. Til að fræða okkur um svona speki og skýra.
8.10.2011 | 10:44
Á ekki meirihlutinn að fá að ráða?
Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa á Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum norm á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.
Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.
Fáeinar fjölskyldur hafa mótmælt þessu, það eru helst kommafjölskyldurnar í litlu dönsku 180 fm timbureinbýlishúsunum. Komið hefur verið til móts við þessar vandræðafjölskyldur með því leyfa börnum þeirra að fara á skólabókasafnið og horfa á sænskar heimildamyndir meðan hin börnin sitja og nema í samfélagsfræðitímunum.
Í áttunda bekk fara flestir nemendur á tveggja daga ræðu- og leiknámskeið flokksins úti á landi og fá frí frá kennslu á meðan. Flokkskennarinn spyr öll börnin, Ætlar þú að koma með á ræðunámskeið? Af hverju ekki? spyr hann þau sem svara neitandi. Trúir þú ekki á stefnu Sjálfstæðisflokksins?? Þau sem ekki fara með í ferðalagið mæta í skólann og dunda sér eitthvað, til að fara ekki fram úr hinum krökkunum.
Ný fjölskylda í hverfinu hefur verð með hávær mótmæli og kvartað til skólayfirvalda. Hún vill úthýsa flokknum alfarið úr skólastofunum. Þetta finnst flestum Arfbæingum ansi langt gengið, ekki síst íhaldssama ritstjóranum Ólafi Arnlufsen, sem spyr "Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra?" Löng hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi og ótækt að umbylta góðum gildum útaf einhverju ofstækisfullu umburðarlyndi. Þrátt fyrir allt sé meirihlutinn sáttur við að hafa þetta svona áfram.
Á meirihlutinn að beygja sig fyrir háværum minnihluta?
Loftmynd af Arnarnesi í Arfabæ.