Evrópusambandsborgarar eiga rétt á þjónustu dönsku þjóðkirkjunnar í heimalandi sínu hafi þeir starfað í Danmörku í einn mánuð eða lengur. Danskir prestar eru þess vegna á faraldsfæti, að því er segir á fréttavef Kristilega dagblaðsins í Danmörku.
Þar kemur fram að það séu einkum Austur-Evrópubúar sem biðja um þessa þjónustu en hana fá þeir sér að kostnaðarlausu. Þjónustan felur í sér skírn, hjónavígslu og útför í heimalandinu.
Haft er eftir formanni danska kirkjuráðsins, Anders Gadegaard, að prestum sem reglulega pakka niður í ferðatösku og halda til Austur-Evrópu fjölgi stöðugt. Hann bendir þó á að mikill hluti "nýja evrópska safnaðarins" tali ekki ensku þannig að innan tíðar verði nauðsynlegt að ráða farandpresta með sérþekkingu á slavneskum málum.
Morten Messerschmidt, fulltrúi Danska þjóðarflokksins á Evrópuþinginu, segir þessa þróun hroðalega. Enn einu sinni komi í ljós slæmar afleiðingar stækkunar Evrópusambandsins til austurs og regluverks sambandsins.Hann segir það ekki eðlilegt að Danir hafi yfirvald yfir kirkjum sínum. Hann tekur það fram að Evrópusambandið sé orðið alltof valdamikið og hvetur Dani til þess að krefjast þess að fá erlenda presta til Danmerkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.