Segja 70% óákveðinna 'Nei' ?

Af þeim sem afstöðu taka segja 42,6% Já en 33,9% Nei.

Til að Nei-ið fái fleiri atkvæði miðað við að þeir sem afstöðu taki mæti á kjörstað og skipti ekki um skoðun, þyrfti Nei-ið að hljóta 70% atkvæða þeirra sem nú eru óákveðin.

Svo þetta lítur vel út fyrir Já-sinna.


mbl.is 42,6% styðja Icesave en tæpur fjórðungur er óákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að vita en ljótt að heyra

Það hefur verið furðulega hljótt um "aflandskrónurnar" síðustu misseri. Bjartsýnir héldu kannski að vandi þeirra væri leystur, en svo er sem sagt greinilega ekki.

Sjö ára gjaldeyrishöft. Ekki grunaði marga það fyrir tveimur og hálfu ári.


mbl.is Höft til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð meðal þjóða

ja_logo_1071983.jpg

 

Meira HÉR


Jan Dismas Zelenka

Dresden var um aldir höfuðborg Saxlands og mikil menningarmiðstöð. Borgin skartaði einstaklega glæsilegum borgarkjarna í barokk- og rokkokóstíl, þar sátu kjörfurstar og síðar konungar Saxlands sem studdu dyggilega við menningarlíf borgarinnar. Frá tímum Ágústusar I kjörfursta höfðu laðast til borgarinnar framúrskarandi tónlistarmenn, arkitektar og málarar og borgin var miðstöð æðri menntunar og verkfræði auk lista.

Þangað kom Jan Zelenka, um það bil þrítugur að aldri, sem bassaleikari við konunglegu hljómsveit borgarinnar. Hann var fæddur og uppalinn í litlu sveitaþorpi í Bæheimi, Louňovice (nú í Tékklandi), sonur organista og skólameistara. Lítið er vitað um æsku hans, en ætlað er að hann hafi numið tónlist í Jesúítaskóla í Prag fyrir komuna til Dresden. Í Dresden var hann í háborg tónlistar þessa tíma. Þar starfaði ein allra fremsta hljómsveit Evrópu, tónlist gerjaðist og þaðan bárust um álfuna straumar og stefnur. Zelenka ávann sér virðingu, hann aðstoðaði um árabil hoftónlistarstjórann, en hlaut sjálfur ekki þá stöðu. Hins vegar var hann skipaður kirkjutónlistarstjóri hirðarinnar 1735. Johann Sebastian Bach var skipaður í sömu stöðu ári síðar við hlið Zelenka, Bach og hann þekktust og var Zelenka eitt af uppáhaldstónskáldum Bach. Sjálfur bjó Bach í Leipzig, sem ekki er langt frá Dresden og var einnig í ríki Saxlandskonungs. Aðdáendur Bach ættu hiklaust að kynna sér verk Zelenka, sem gefa þeim ríkari sýn í tónlistararf þessa tíma.

Zelenka kvæntist ekki og lítið vitað um hans persónulega líf. Tónlist hans er fyrst og fremst kirkjuleg og hann hefur verið trúaður. Hann var skírður millinafni guðspjallamanns, Lúkas, en tók sjálfur upp þess í stað nafnið Dismas. Dismas er óvenjulegt biblíunafn en það nafn er í síðari tíma guðspjöllum gefið öðrum ræningjanna tveggja sem dæmdir voru og krossfestir með Jesú. Barrabas var hinn, en Dismas var sá sem iðraðist. Engar heimildir höfum við fyrir því af hverju Jan Lukas tók þessa óvenjulegu ákvörðun. Engin mynd er heldur varðveitt af tónskáldinu, svo vitað sé. Trúarvissu tónskáldsins má skynja í tónlist hans. Eitt sitt stærsta og glæsilegasta verk, Missa Votiva, samdi hann 1739, eftir áralöng erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem þau bæði bera vitni hverfulleika lífs og í verkunum báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið. Það er meira sem er heillandi við tónlist Zelenka, hún líkist vissulega á margan hátt verkum samtímamannanna Bach og Handel, en er samt öðruvísi og sérstök, annar hrynjandi, sem kannski endurspeglar tékkneska upprunan, ekki sams konar formfesta og hjá þýsku meisturunum en tónmálið svo einstaklega ljóðrænt og hrífandi. Ýmsir lýsa því sem svo að hann noti tónmyndir af svipaðri sköpunar- og frásagnargleði eins og synfónisk tónskáld löngu síðar. Zelenka lést 1745, 66 ára að aldri. Hann hafði á seinustu árum sínum, sem betur fer, safnað saman og skipulagt nótnasafn sitt, sem var varðveitt tryggilega eftir hans daga. Einum of tryggilega næstum því, því fáir komust til að skoða verkin næstu 200 árin. Á seinustu árum hafa menn uppgötvað þennan fjársjóð og heillast af meistaraverkum Jan Zelenka. Eitt það glæsilegasta, áðurnefnd Missa Votiva, verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi næsta sunnudag 20. mars og miðvikudag 23. mars í Fella- og Hólakirkju, af Söngsveitinni Fílharmóníu og Bachsveitinni í Skálholti. Komið með í tímaferðalag og kynnist af eigin raun verðskulduðum meistara!

dresden


Gjafasæði og líffræðilegt faðerni

30. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 54/2008 sem heimiluðu að konur sem eru ekki í sambúð með karli, þ.e. annaðhvort einhleypar eða í sambúð með annarri konu, geta farið í tæknisæðingu eða tæknifrjóvgun, með gjafakynfrumum. Lögin voru breyting á eldri lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun.

Nýju lögin gera það að verkum að tæknifrjóvganir eru nú mun algengari en áður, þegar slík aðstoð var aðeins veitt hefðbundnum pörum, karli og konu, vegna líffræðilegra erfiðleika við að geta barn. Í viðtali frá 2009 kom fram að þá leitaði á annan tug einhleypra kvenna eftir tæknisæðingu í hverjum mánuði, eða 140-200 konur á ársgrundvelli.

Svo virðist vera sem einhleypar konur séu miklu fleiri í hópi þeirra sem nota þjónustuna, heldur en konur í lesbískum samböndum. Sem er athyglisvert. (Ég ræddi þetta stuttlega í pistli frá 2009.)

Þegar kona fer í tæknisæðingu með gjafasæði getur hún valið annað hvort sæði gefið með fullri nafnleynd, eða sæði frá gjafa sem hefur veitt heimild til að barn getið með sæðinu megi, eftir vissan aldur, fá upplýsingar um faðerni sitt. Það er víst meira framboð á nafnlausu sæði, menn virðast tilbúnari að "gefa af sér" með þessum hætti, ef engin hætta fylgir að barn komi og leiti manns eftir 18 ár.

Nú myndu örugglega flestir taka undir að jákvætt sé fyrir sérhvern einstakling að vita um uppruna sinn. Þekkt er að ættleidd börn vilji seinna á lífsleiðinni fá vitneskju um blóðforeldra sína, og erfðafræðilega forfeður. Myndu þá ekki flestir sæðisþegar velja þann kost að barnið eigi þann möguleika, eftir 18 ára aldur, að fá vitneskju um sæðisgjafann, líffræðilegan föður sinn?

Nú veit ég ekki hvernig skiptingin er hér á landi, en vegna þess að framboðið er meira af nafnlausa sæðinu er rekjanlega sæðið einfaldlega dýrara. Rekjanlegur skammtur kostar 50.000 kr en órekjanlegt 38.500 kr. Ofan á þetta bætist kostnaður við uppsetningu og frjósemislyf og hafa ber í huga að svona meðferð þarf oftar en ekki að endurtaka 2-4 sinnum, áður en getnaður tekst. Verðið fyrir líffræðilegt faðerni barns sem getið er með gjafasæði er þannig 12.500 kr,

MEIRA HÉR


Ýkjufrétt af einstæðum atburði

Fréttir greindu frá því að Forseti vor fór á fund páfa í liðinni viku og færði honum styttu af merkiskonunni Guðríði Þorbjarnardóttur. Sagði Ólafur páfa frá því að Guðríður væri víðförlasti Íslendingur síns tíma, hún hafi ferðast til Grænlands, Ameríku og að lokum gengið til Rómar, á fund eins forvera Benedikts sextánda, núverandi páfa. Einstaka menn hafa áhyggjur af því að heimildir um Rómargöngu Guðríðar séu ótraustar, bækur sem séu blanda sögulegra frásagna og skáldskapar. Sagnfræðingar hafa jafnvel talið býsna langsótt að Guðríður hafi komist suður til Rómar. Aðrir segja þetta bara vera öfundarmenn Ólafs Ragnars sem svo tala, sem nú "endurskrifa Íslandssöguna til að koma höggi á hann".

 

Meira HÉR


Icesave - Þess vegna á að semja

Nokkur hundruð manns hafa lesið seinasta pistil minn og enn hefur enginn bent á nein rangindi eða misskilning. Ég hef tekið nokkurn þátt í umræðum á netinu og komið þessum sjónarmiðum og staðreyndum á framfæri annars staðar og fengið yfir þvílíka skæðadrífu af skömmum að ég hef sjálfur aldrei upplifað neitt þvílíkt. Bloggsamfélagið íslenska, a.m.k. afkiminn á blog.is, er ekkert að fara að taka uppá siðuðum umræðum þar sem hlustað er á mótrök og þau vegin og metin og svarað með rökum. Bjóst Forseti Íslands við því?

Ég er harðlega gagnrýndur fyrir að sýna engan skilning á neyðarétti þjóðarinnar. Ég skal fúslega útskýra af hverju ég tel ítrustu kröfur "Nei-sinna" ekki standast, og af hverju ég tel einsýnt að "dómstólaleið" sé röng leið.

Meira HÉR


mbl.is Áhættan af dómsmáli meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlæti Þórs Saari

Þingmaðurinn Þór Saari vill alls ekki semja um Icesave og segist í blaði dagsins vera ánægður með ákvörðun Forseta Íslands. Þetta er úr Fréttablaðinu:

“Við skulum ekki gleyma því að alveg frá fyrsta stigi málsins sagði Lee Buchheit að Íslendingar ættu ekki að borga þetta og þeir ættu ekkert að gera í málinu,” segir Þór. “Það ætti bara að leyfa Bretum og Hollendingum að fá það sem kemur út úr þrotabúinu. Ef þeir vilja svo fara í mál út af afganginum, þá verður það bara að koma í ljós.” Þór bendir á að verið sé að tala um þrotabú einkafyrirtækis sem verið sé að gera upp. “Að velta þessu yfir á íslenskan almenning er fáránlegur málflutningur. Það á að láta kyrrt liggja þar til það er búið að gera upp þrotabúið. Ef það er eitthvað sem stendur út af er hugsanlega hægt að ná samkomulagi við Breta og Hollendinga um afganginn.”

Svo mörg voru þau orð. (Feitletranir eru mínar.) Látum liggja milli hluta að umræddur Lee Buchheit mælir nú eindregið með því að við samþykkjum fyrirliggjandi samning, og segist aldrei hafa mælt með “dómstólaleið”. Ég kýs að treysta betur orðum Buchheits sjálfs um það sem hann sjálfur hefur sagt.

Ég hygg að sjónarmið Þórs endurspegli vel skoðanir þeirra sem mest eru mótfallnir samkomulagi um Icesave. Það væri vissulega óskandi að málið væri svona, að við gætum bara látið Icesave eiga sig. Okkar ríki gætti hagsmuna okkar sparífjáreigenda og breska og hollenska ríkið hugsaði um sitt fólk. Útrætt mál. En gagnstætt Þór Saari þá held ég ekki að ríkisstjórn og 70% þingmanna vilji leggja þessar byrðar á íslenska þjóð af einhverri illsku ef það er alls ekki nauðsyn. Kannski Þór viti betur? Skoðum málið aðeins.

Meira HÉR


Til ykkar sem viljið hafna Icesave

Ég legg það til að þið takið upphæð sem samsvarar öllum þeim peningum sem þið áttuð í banka 6. okt 2008, á launareikningum, sparireikningum, fermingarpeninga barnanna og sparifé afa og ömmu, ásamt þeim launagreiðslum sem þið fenguð næstu mánuðina á eftir frá launagreiðendum ykkar sem gátu greitt laun vegna þess að þeirra peningainninstæður voru tryggðar, að þið takið þessa peninga og skilið þeim í þrotabú gömlu íslensku bankanna.

Svo gerið þið kröfur í íslenska innlánstryggingasjóðinn og eftir atvikum gömlu bankanna og farið í SÖMU RÖÐ og þið viljið að breskir og hollenskir viðskiptavinir Landsbankans skulu standa í, og þeirra ríkissstjórnir fyrir þeirra hönd.

Nema að að rök ykkar byggi fyrst og fremst á þjóðrembingi og að hver þjóð skuli fyrst og fremst hugsa um eigið rassgat og að við "eigum ekki að greiða skuldir óreiðumanna" - nema það sem þeir skulduðu okkur og vinum okkar og fjölskyldum. Við erum búin að greiða þær skuldir, við gerðum það strax.


Það sem “ískalt hagsmunamat” þýðir í raun

Þegar menn segjast byggja ákvörðun um tiltekna niðurstöðu í lögfræðilegu ágreiningsmáli á ísköldu hagsmunamati þýðir það í raun alveg það sama og að segja að ákvörðunin sé byggð á faglegu lögfræðilegu mati, á kostum og göllum, áhættu og ávinningi, þeirra valkosta sem í boði eru.

Ef borðleggjandi væri að mál myndi vinnast væri ágreiningurinn borinn undir dómstól, myndi hvorki ískalt, hlandvolgt né funheitt hagsmunamat segja að frekar ætti að semja, heldur þvert á móti að fara ætti í mál. Þeir lögfræðingar sem mæla með fyrirliggjandi samningum um Icesave, og þeir eru nú allnokkrir, meðal annars Lee Buchheit og Lárus Blöndal, eru m.ö.o. að segja að okkar lagalegu rök séu ekki sérlega sterk og að gagnaðilinn hafi ýmislegt og jafnvel meira til síns máls en við.

Þetta þora stjórnmálamenn ekki að segja nægilega skýrt svo allir skilji. Bjarni Benediktsson komst þó nálægt því í umræðum á Alþingi við lokaatkvæðagreiðsluna um Icesave frumvarpið. Hafi hann þökk fyrir, betra væri ef hann hefði sagt það fyrr.

Sumum finnst að í stað þess að hlusta á færustu lögfræðinga, eigi að leggja þetta lögfræðilega hagsmunamat í hendur almennings. Það væri svona eins og að spyrja vinnufélagana og fjölskylduna hvort fara ætti í mál útaf flóknum ágreiningi, í stað þess að hlýða ráðum sérfræðinga. Það er að mínu mat óráð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband