Færsluflokkur: Bloggar

Yfirgef Moggabloggið

Moggabloggið er því miður orðinn hræðilega leiðinlegur og dapur vettvangur. Ég ætla því að hvíla þessa síðu og taka mér hlé frá bloggskrifum. Kannski finn ég mér síðar annan vettvang ef áhuginn vaknar á ný. Ég vil aðeins útskýra af hverju ég er búinn að gefast upp á akkúrat þessum vettvangi.

 1) Mjög einhliða skoðanir

Alltof margir af þeim sem hér eru eftir eru forpokaðir íhaldspúkar. Mikill meirihluti sem hér skrifar styður ríkisstjórnarflokkana, eru harðir andstæðingar ESB og með svona leiðinda þjóðrembutuð og útlendingaótta og fordóma. Flestir sem hér skrifa og kommentera virðast miðaldra eða eldri og áberandi skortur er á konum. Þær eru varla nema 5-10% hér á blogginu

2)  Alltof mikill rasismi

Alltof margir eru hér að básúna ljótum og leiðinlegum rasistaskoðunum, og of fáir virðast kippa sér upp við það. Þessu tengt er furðulega hátt hlutfall heitra stuðningsmanna Ísraels í stríði því sem nú stendur yfir og þar sem Ísraelsmenn hafa murrkað lífið úr vel yfir þúsund óbreyttum borgurum og þar af yfir 200 börnum. Margir Moggabloggara telja þetta sjálfsagða "sjálfsvörn". Ég nenni ekki að rífast lengur við ykkur, þið gerið mig dapran og ég vil ekki eyða orku í ykkar ljótu og neikvæðu skrif. (Reynar voru þó nokkrir bloggarar sem yfirgáfu þessa skútu í rasismabylgjunni sem reið hér yfir í moskuumræðunni í borgarstjórnarkosningunum.)

 3) Fátíðar gefandi umræður

Kommentasvæðin eru ekki notuð til rökræðna og heilbrigðra skoðanaskipta, heldur sitja sömu mennirnir og rausa og rausa, margir "peista" inn sömu langlokunum aftur og aftur við marga pistla, leiðinlegur tröllaskapur er áberandi og virðist vera að þeir helstu sem kommentera er fólk sem enginn myndi nenna að tala við augliti til auglitis.

4) Fáir lesendur

Moggabloggið er minna lesið nú en áður, a.m.k. eru miklu færri sem lesa  það sem ég skrifa hér en var fyrir 5-6 árum síðan. Raunar hampar forsíða moggabloggsins miklu frekar ropgösprurum og rasistum en þessu kvabbi mínu.

 

Auðvitað eru undantekningar frá þessu. Einstaka menn er hægt að lesa til gamans og fróðleiks, Ómar Ragnarsson og Jens Guð koma upp í hugann. En hinir eru of margir, sem taka bara frá manni tíma við lesturinn, maður æsir sig upp, rífst kannski aðeins og skammast, en það er vita tilgangslaust því þverhausarnir sem hér skrifa skipta aldrei um skoðun.

Eigið góða helgi. Verið þið sæl! 

fjall3

Ljós í myrkri 


"Ég skal hlusta"

- en mér er alveg sama hvað þið segið.

Ég er alveg til í að koma til móts við þau svo lengi sem ég fæ mínu framgengt.

 

Svona nokkurn veginn voru orð Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra Íslands, þegar hann tók við undirskriftum 53 þúsund kjósenda.

Hvar lærir maður svona samskipti?

gunnar_bragi_vidtal_0 

 


Breyttar aðstæður

Illugi hét maður, klókur en undirförull.

Illugi þráði að ganga að eiga Ísafold (hann elskaði hana ekki í raun, en vildi eignast heimanmund hennar og jarðir sem hún átti). Ísafold var óákveðin, vissi ekki hvort þau ættu skap saman.

- Já en, ég lofa að vera heima á kvöldin, taka þátt í heimilisstörfum og fara gætilega með fé okkar, sagði Illugi stimamjúkur og strauk henni um vanga.

Nú jæja, sagði Ísafold og giftist honum nokkru síðar.

Níu mánuðum seinna sá Ísafold að Illugi ætlaði alls ekki að efna loforð sitt.

Hví svíkur þú loforðið sem þú gafst mér, þegar þú baðst mín? spurði Ísafold.

Illugi svaraði með gáfulegum svip, að hann hefði einfaldlega skipt um skoðun og afstaða hans væri önnur nú. Svo vitnaði hann í frægan hagfræðing sem hafði sagt

 

Já en, hvaða „staðreyndir“ hafa breyst? 

- Elskan mín góða, sérðu það ekki? Þegar menn nú til dæmis horfa á þessa stöðu hérna, hvernig heimilið er samansett, og horfa til þess að hér við völd er ég, eiginmaður þinn, sem er harður andstæðingur þess sem ég lofaði...

staðreyndirnar sem hafa breyst eru að þegar ég gaf þér loforðið fyrir níu mánuðum vorum við ógift. En nú eru aðstæður allt aðrar. Nú ertu búin að giftast mér.

 

fjallkona 


Pása á 'Prime time'

Á heimilinu er oft hlustað yfir eldamennsku og kvöldmat á sex-fréttirnar í útvarpinu og Spegilinn sem kemur í kjölfarið, á Rás 1 eða 2. Nú er raunar búið að stytta tímann verulega, svo fréttir og Spegillinn taka samtals bara 30 mínútur.

Ég tók  eftir því í vikunni að þegar stillt var á Rás 2 að á milli 18:30 og 19 rúlluðu bara íslensk lög án kynningar, með þulurödd af upptöku inn á milli sem upplýsti á hvaða stöð væri hlustað.

Óneitanlega finnst manni það bera vott um mikið metnaðarleysi af þeim sem þessu réðu að skera niður einn besta fréttaskýringaþátt fjölmiðla um helming. Hitt er líka mjög spes að á þessum tíma þegar ætla mætti að mjög margir séu með kveikt á útvarpinu, a.m.k. eru dýrustu auglýsingatímar útvarpsins sitt hvoru megin við sexfréttir, að vera ekki með neina alvöru dagskrá heldur bara lög til uppfyllingar, í hálftíma.

Þetta er eitt af mörgum merkjum þess að mikið skipulagsleysi og ringulreið virðist einkenna uppstokkun og endurskipulagningu útvarpsdagskrár.

Vonandi tekst að finna nýjan útvarpsstjóra sem getur leitt útvarpsrásirnar tvær úr þeim ógöngum sem nýhættur útvarpsstjóri kom þeim í. Og vonandi fær Spegillinn aftur ða njóta sín betur.

 


HVAÐ var að umsögn ASÍ ?

Eitt af stóru málunum á komandi þingi verður væntanlega umræða um kvótakerfið. Málið snertir stóra hagsmuni og vissulega eru margir fyrirfram skeptískir á málflutning útgerðarmanna og þeirra miðla. Að sjálfsögðu vilja þeir ekki missa spón úr aski sínum.

En er öll gagnrýni á tillögur ríkisstjórnarinnar eins og þær líta út nú runnin undan rifjum "hins liðsins"? Er þetta slagur, fólkið í landinu á móti útgerðarmafíunni?ASÍ sendi í vikunni frá sér umsögn um kvótafrumvarpið. Sambandið leggst gegn samþykt frumvarpsins í núverandi mynd, þó tekið sé undir mörg helstu meginmarkmið málsins. Ágætt er að lesa umsögnina í heild sinni, ef menn vilja á annað borð ræða hana.

Í fréttinni kemur fram að á flokksráðsfundi VG hafi komið fram "mikil óánægja með umsagnir Landsbankans og nokkurra hagsmunaaðila" um frumvarpið, "og var óánægjan með umsögn Alþýðusambandsins mest".HVAÐ voru VG-liðar svona óánægðir með?  Voru flokksmenn óánægðir með niðurstöðu umsagnarinnar? Að ASÍ væru að styðja hitt liðið? Gáfu þau sér tíma til að ræða málefnanlega efnisatriði umsagnarinnar?

Ég kíkti sjálfur fyrir nokkru á frumvarpstextann sjálfann. Hann er rosalega tyrfinn og mjög erfitt að skilja frumvarpið.Mér finnst það vekja athygli að ekki ein einasta jákvæð umsögn hefur borist um frumvarpið. Eru þingmenn VG óánægðir með það?

Ég vona að VG-liðar gefi sér tíma og útskýri í fjölmiðlum af hverju þau voru svona "óánægð" með umsögn ASÍ. Ég vona að þau, og aðrir þingmenn, skilji frumvarpið, en styðji það ekki bara, af því það er lagt fram af þeirra liði.En ég óttast að umræða á Alþingi og í fjölmiðlum verði ekki svo upplýsandi, og að málið fari í hefðbundið íslenskt þjark, þar sem menn skipist í fylkingar sem svo ráðast hvor á aðra með gífuryrðum. Ég treysti því miður ekki Alþingi til að fjalla af viti um flókin mál.


mbl.is Ætla að tryggja þjóðareign auðlinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra loft

Tek eftir því að búið er að viðra út óloft héðan af bloggsvæðinu. Mikið var. Menn verða að kunna að skiptast á skoðunum án dónaskaps og hortugheita. Það er ekki öllum gefið.

Færi mig um set

Ég hef fært mig á nýjan vettvang þar sem ég mun áfram viðra hugleiðingar mínar:

www.patentlausn.blogspot.com

Þakka Morgunblaðinu fyrir að hafa gert mér kleift að tjá mig hér og og óska almennum starfsmönnum blaðsins alls hins besta.


Lýður um blogglýð

Lýður Guðmundsson er ósáttur við íslenska fjölmiðla og ekki síst bloggheima sem hann tilgreindi sérstaklega í ræðu á aðalfundi Exista. Hann sagði orðrétt í Kastljósi að "þjóðfélagið stjórnast af miklu leyti af því sem ekki er flutt undir nafni", m.ö.o. nafnlausum bloggurum og þeim sem tjá sig á netmiðlum. Lýð var tíðrætt um nornaveiðar.

Það er rétt hjá Lýð að það er mjög mikið af upphrópunum og orðljótum athugasemdum á netinu. Ég les t.d. sjaldan athugasemdir við fréttir á Eyjunni þar sem vitrænar ábendingar og viðbótarupplýsingar við fréttirnar týnast í upphrópununum og orðljótum vaðli.

Ég bendi Lýð á að nota Blogggáttina www.blogg.gattin.com, þar getur maður auðveldlega valið  bloggara til að fylgjast með og búið til sinn eigin lista með uppáhaldsbloggurum og losnað við "blogglýðinn"! Vissulega finnast skemmtilegir og vitrænir bloggarar, þó þeir týnist svolítið innan um aragrúa hömlulausra rausara.

En ég held nú að það sé mjög orðum aukið hjá Lýð að samfélagið stjórnist af nafnleysingjum. Hitt er að mörgu leyti rétt að íslenskir fjölmiðlar eru veikburða og ná alls ekki alltaf að kryfja flókin mál af fagþekkingu. Þetta var þó enn meira vandamál á árunum 2004-2008, þegar bólan blés út sem hraðast og fjölmiðlar sváfu á verðinum. Ekki bætti úr skák að auðmenn áttu flesta fjölmiðla. Bakkabræður voru þar ekki undanskildir, en Exista átti Viðskiptablaðið, sem steyptist lóðrétt á hausinn eftir bankahrun, enda held ég það hafi nú aldrei verið rekið með hagnaði frekar en önnur dagblöð. Og við getum svo velt fyrir okkur af hverju auðmenn höfðu samt svona mikinn áhuga á að kaupa upp fjölmiðla!

Lýður má heldur ekki gleyma því að erlendir fjölmiðlar hafa líka fjallað um Exista og Kaupþing. Ekki stjórnast þeir af íslenskum bloggurum.  Fjölmargir virtir fjölmiðlar ráku upp stór augu þegar þeir rýndu í lánabók Kaupþings sem lekið var á netið. Ég skrifaði um það færslu og þar geta lesendur rifjað upp hvað Svenska Dagbladet hafði um útlán Kaupþings að segja undir fyrirsögninni "Afhjúpaðir af skjölunum", í stuttu máli að þar var um að ræða ósjálfbæra lánahringekju þar sem Exista bræðurnir tveir voru í miðju vefsins og fengu óheyrileg lán, ekki bara til kaupa á fyrirtækjum heldur líka í rándýrar lúxusíbúðir úti í heimi.

Í Kastljósi dagsins kom svo annar virtur útlendingur og talaði um hversu óheilbrigt íslenska bankakerfið var. Ómar Ragnarsson gerir þessu góð skil á sinni síðu.

Ég dæmi ekki Lýð fyrir glæpi, en ég fullyrði að hann átti stóran þátt í að byggja upp mjög sjúkt bankakerfi og hagkerfi og hrun þess hefur valdi íslensku þjóðinni gífurlegum vandamálum sem ekki sér fyrir endann á. (Og sem viðskiptavinur bæði Símans og VÍS hef ég takmarkaðan áhuga á að standa undir þeim mikla arði sem til þarf, til að Exista planið gangi upp.)

Hrun Kaupþings var ekki vegna alþjóða fjármálakreppunnar - Kaupþing var þáttur og birtingarmynd alþjóða fjármálakreppunnar, sem var vegna glórulausra útlána og ofveðsetningar.

 


Á sama bekk

mynd2

Þessi borgarbúi Washington var ekki alveg viss hvort hann vildi leyfa mér að deila bekknum með sér, en lét mig svo afskiptan. Þetta var skammt fyrir aftan Hvíta húsið, kannski var hann í leynilegri nagdýradeild öryggisgæslu Bandaríkjaforseta.

Íkorni

 


Biðlaunabloggarar

... kemur upp í hugann þegar lesnar eru færslur eins og þessar. Ekki mikið um lausnir, tillögur eða famtíðarsýn, bara svona meinlaust karp, skítkast og fyndni, eins og svo sem hjá vel flestum hinum eldhúsborðsbloggurum landsins.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband