Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
15.6.2009 | 23:49
Hin hliðin - ef Allianz væri IceSave
Þó nokkur fjöldi Íslendinga safnar viðbótarlífeyrissparnaði hjá þýska tryggingarfyrirtækinu Allianz sem rekur útibú á Íslandi, Fyrirtækið býður einnig slysa- og líftryggingar handa Íslendingum.
Ímyndum okkur nú að Allianz færi á hausinn, hefði reynst hálfgerð svikamylla og farið glæfralega með það fé sem þeim er trúað fyrir. Ímyndum okkur að þýsk stjórnvöld myndu lofa öllum viðskiptavinum 100% ábyrgð á öllum lífeyrissparnaði, en þó, ekki alveg öllum viðskiptavinum, ekki þeim sem átt höfðu viðskipti við útibúið á Íslandi. Það fólk fengi engin svör mánuðum saman og þyrfti á endanum að leita á náðir stjórnvalda í sínu landi.
Ætli fólk, sem hefði látið fé sitt í hendur fyrirtækisins og treyst því að þar færi heiðvirt fyrirtæki, væri ekki býsna fúlt? Væri það sanngjarnt að þýskir viðskiptavinir fengju allt sitt bætt en íslenskir viðskiptavinir ekki? Alla vega myndi enginn nokkurn tímann treysta þýsku trygginga- eða fjármálafyrirtæki fyrir peningum í mjög langan tíma.
12.5.2009 | 21:42
Lesefni fyrir ráðherra, FME og alla aðra
Ég leyfi mér að vona að viðskipta- og fjármálaráðherrar og nýr forstjóri FME hafi lesið greinargóðar færslu Gunnars Axels Axelssonar um BYR sparisjóð. Hann ritar mjög fína færslu í gær.
Þetta hljómar allt hálf ótrúlegt. Gunnar Axel hefur vakið máls á þessum um alllanga hríð. Menn hljóta að leggja við hlustir,ekki síst samflokksmenn Gunnars, sem setið hafa í stjórn landsins í rúm tvö ár, en Gunnar Axel er formaður Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Er þetta mál bara eitt af mörgum á lista yfir alla skrýtna fjármálagjörninga sem yfirvöld þurfa að fara yfir? Var þetta allt löglegt og eðlilegt sem fram fór í BYR? Hafa einhverjir andmælt skrifum Gunnars Axels.
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.5.2009 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2009 | 23:35
Leikur að eldi í Kastljósi - stíum ekki þjóðinni í sundur
Horfði á umræður í Kastljósi kvöldsins milli viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar, Björns Þorra Viktorssonar fasteignasala og lögmanns og Þórðar Björns Sigurðssonar frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Skiljanlega heitar umræður enda um mjög erfið mál að ræða.
Eitt sló mig illa, þegar Björn Þorri andmælti þeim orðum ráðherrans mjög ákveðið að kreppan væri að lenda á okkur öllum. Ekki væri það svo meinti Björn Þorri, fjármagnseigendur væru sko með allt sitt á þurru og tiltók sérstaklega að ríkið hefði sett 200 milljarða af "fersku fé" í peningamarkaðssjóði.
Fyrst aðeins um tölurnar, það er vissulega svo að keypt voru út léleg bréf úr sjóðunum í kringum og eftir hrun og er það umdeilt, en alls ekki fyrir 200 milljarða. Þessari tölu er vissulega búið að klifa á lengi en hún verður ekki sannari fyrir vikið. 200 milljarðar var heildarupphæðin sem var greidd úr peningamarkaðssjóðunum.
En nóg um það. Hitt fannst mér verra að Björn Þorri vildi stilla upp tveimur hópum þjóðarinnar hvorum á móti hinum, samkvæmt honum er annar hlutinn - þeir sem bera fasteignalán - að bera allan þunga af bankahruni og peningakreppu, en hinn - þeir sem eiga peninga - væri á grænni grein.
Var Björn Orri að vísa til þeirra sem áttu sparifé í peningamarkaðssjóðum Landsbanka og töpuðu um 35% af sínu fé? Eða til þeirra sem settu hluta af sparifé sínu í hlutabréf og missti 90-100% af því sparifé?
Eða hvað með þá sparifjáreigendur - sem er hugsanlega stærsti hópurinn - sem tapaði hluta af sparifé sínu og er líka með fasteignaskuldir á bakinu??
Í guðanna bænum förum ekki að stía í sundur þjóðinni í andstæðar fylkingar, "við" sem töpum, og "þið hin" sem sleppið. Nógu erfitt er ástandið nú samt.
1.5.2009 | 13:50
JÖKLABRÉF - hver skilur þau??
Eðalbloggarinn Lára Hanna kynnti skemmtilega nýjung á bloggsíðu sinni fyrir tveimur dögum, þar sem hagfræðingurinn Haraldur Líndal Haraldsson svaraði spurningum frá lesendum í athugasemdunum í blogginu, í kjölfar greinargóðs erindis sem Haraldur flutti á fundi Félagi viðskipta- og hagfræðinga undir yfirskriftinni "Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota?" Fundinum er lýst hér af Marínó Erni, en erindi Haraldar þótti vel rökstutt og greinargott, þó svo menn séu ekki alveg sammála hvernig réttast sé að skýra frá skuldastöðu þjóðarinnar
Haraldur var m.a. spurður á bloggi Láru Hönnu - "Hvað með jöklabréfin? Hvernig falla þau inn í myndina?"
og svarar:
Ég átta mig ekki á þessum svo kölluðum jöklabréfum. Hver eða hverjir eiga þessi bréf og hverjir skulda þau?
Ég held að Haraldur sé alls ekki vitlaus, tek ofan af fyrir honum, fyrir að viðurkenna að hann átti sig ekki á þessari flækju! Ætli t.d. þingmenn og blaðamenn geri það nokkuð frekar? Ég hef einmitt spurt fleiri um þennan jökabréfavanda og fáum tekst að skýra þetta svo skiljist. Á Vísindavefnum er raunar svar við spurningunni "Hvað eru jöklabréf?" Svarið, skrifað af núverandi viðskiptaráðherra, er greinargott svo langt sem það nær, skýrir ekki þann vanda sem þessi bréf virðast vera að valda nú.
Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað í mínum huga:
- Hver skuldar hverjum?
- Hver er aðkoma Seðlabankans að þessum bréfum?
- Er íslenska ríkið að greiða eigendum bréfanna vexti, einsog oft virðist gefið í skyn í fjölmiðlum?
- Ef þessi jöklabréf tengjast skuldum bankanna, af hverju eru þau ekki bara inni í allsherjarsúpunni í gömlu bönkunum?
Ef einhver sem les þetta veit svörin, eð veit hvar greinargóðar upplýsingar er að finna, væri það vel þegið!
Viðskipti og fjármál | Breytt 2.5.2009 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2009 | 11:32
Lobbýismi á Íslandi - talsmenn erlendra stórfyrirtækja
"Lobbýismi" er það þegar hagsmunaaðilar reyna að koma sínum sjónarmiðum og hagsmunum á framfæri við stjórnvöld. Fyrirbærið er sérstaklega þekkt frá Bandaríkjunum, þar sem heil atvinnugrein þrífst á þessari iðju. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt ef þess er gætt að hagsmunagæsla sé fyrir opnum tjöldum.
Í Íslandi er 'lobbýismi' ekki eins þróaður og vestanhafs en þekkist auðvitað. Hugtakið kemur oft í hugann þegar ég les greinar eftir framkvæmdastjóra Samtakanna Frumtök - Samtök framleiðenda frumlyfja. Samtökin eru með skrifstofu í Borgartúni, 7 manna stjórn skipuð Íslendingum og að því er virðist a.m.k. einn starfsmann.
Hið skondna er að það eru engir framleiðendur frumlyfja á Íslandi. Eitt íslenskt fyrirtæki á aðild að samtökunum, Íslensk Erfðagreining. Það fyrirtæki gerir margt spennandi, en mörg ár eru í það að ÍE framleiði lyf. Hin aðildarfyrirtækin eru stór erlend lyfjafyrirtæki, svosem GlaxoSmithkline, Pfizer, Novartis, o.fl. Félagið fer svo sem ekkert í grafgötur með það að einn tilgangur þess er "að gæta hagsmuna framleiðenda frumlyfja á Íslandi". Þeir hagsmunir eru náttúrulega að selja sem mest af sinni vöru á sem bestu verði!
Allt gott um þessi fyrirtæki að segja í sjálfu sér, samt pínu skondið að þau reki skrifstofu hér á landi til að gæta sinna hagsmuna, undir þessu íslenska nafni, eins og um sé að ræða hefðbundið íslenskt félag.
Væri svona svipað og ef bílaframleiðendur, Toyota, Volkswagen, Ford, o.fl. myndi reka hér lobbýismaskrifstofu sem "íslenskt" félag, Félag bifreiðaframleiðenda, og leyfa kannski Arctic Trucks að vera með!
Viðskipti og fjármál | Breytt 2.5.2009 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 21:26
Flensa og fagmennska
Hlustaði á viðtal við sóttvarnarlækni Harald Briem í útvarpinu í dag. Ákaflega vandaður maður og traustur, talaði skýrt og rólega, en þó án þess að gera lítið úr þessu grafalvarlega máli.
þegar svona fréttir berast viljum við heyra í fagmönnum, sem þekkja vel til, hafa reynslu og sambönd við kollega í útlöndum. Með fullri virðingu fyrir stjórnmálamönnum þá hygg að heilbrigðisráðherra, núverandi eða fyrrverandi, hafi ekki jafn mikið vit á svínaflensu og nauðsynlegum viðbrögðum við henni og sóttvarnarlæknir.
Efnahagslíf okkar Íslendinga er enn helsjúkt, bankakerfið í gjörgæslu, rúmliggjandi enn að heita má. Þess vegna er það mín skoðun að við eigum að halda í fagmann í embætti viðskiptaráðherra, og skipta ekki út Gylfa Magnússyni fyrir óreyndan þingmann, sem þarf að byrja á að setja sig inn í starfið, sem fær hugsanlega ráðherraembætti í laun fyrir góðan árangur í sínu kjördæmi og hollustu við flokksforystu, eins og gert var þegar ríkisstjórn var mynduð 2007.
Prófið að máta nýkjörna 63 þingmenn við hlið Gylfa. Er einhver sem þið haldið að geti strax hlaupið í skarðið, og sem landsmenn allir geti treyst fyrir þessu vandmeðfarna starfi í dag?
Höldum Gylfa áfram sem ráðherra!
Hvet þá sem eru sammála að skrá sig í stuðningshóp á Facebook: Við viljum GYLFA MAGNÚSSON áfram ráðherra eftir kosningar
WHO hækkar viðbúnaðarstig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 28.4.2009 kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2009 | 13:12
Áfram kvótaleiguliða!
Er það það sem mennirnir vilja? Óbreytt kerfi? Að menn og fyrirtæki geti "átt" kvóta - óveiddan fisk í sjónum - án þess að nýta sjálfir og leigt öðrum árum og áratugum saman?
Meira hér: Er kvótaleiga eðileg?
Hótanir ráðherra ekki við hæfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2009 | 10:55
Er kvótaleiga eðlileg?
Í fréttinni stendur:
Fyrirtækið á ekki kvóta og þarf að leigja allar aflaheimildir fyrir útgerð og vinnslu, umfram byggðakvótann. Haraldur segir að byggðakvótinn geri það mögulegt að leigja dýran kvóta fyrir vinnsluna.
Í núverandi kvótakerfi geta einstaklingar og lögaðilar átt nýtingarrétt á auðlindum hafsins án þess að nýta sjálfir réttinn, samt fá þeir endurúthlutað kvóta ár eftir ár og geta leigt hann frá sér dýru verði, jafnvel áratugum saman, eins og fram kemur í þessari frétt svart á hvítu.
Þessu kerfi vill fyrrverandi stærsti flokkur landsins viðhalda. Hvað finnst ykkur?
Allar forsendur bresta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2009 | 09:38
Hvað þýðir þetta fyrir okkur?
Vonandi rýna blaðamenn sjálfir í þá skýrslu sem Sunday Times vitnar í og reyna að skýra hvað þetta þýði fyrir íslenska ríkið. Þarna er sagt að
sparifjáreigendur geti átt von á að minnsta kosti 70% af innistæðum sínum
Er verið að tala um alla sparifjáreigendur, eða bara stofnanir, fyrirtæki og félög, sem standa utan við skuldbindingu tryggingasjóðsins og íslenska ríkisins?
Þýðir þetta að það sé áætlað að 30% standi eftir ógreitt þegar allar eignir Landsbankans hafa verið gerðar upp? Hvað mikið vantar þá uppá til að allir einstaklingar fái upp í 21.000 EUR skuldbindinguna sem íslenska ríkið þarf að standa skil á? Var ekki heildarupphæð ICESAVE innistæðnanna í Bretlandi eitthvað á bilinu 600-700 milljarðar? Í fréttum fyrir fáeinum vikum gerði Skilanefndin ráð fyrir að ríflega 70 milljarðar myndu falla í íslenska ríkið, eða um 10% af heildarupphæðinni. Breyta þessar nýju fréttir því mati eitthvað? Um það er ómögulegt að dæma, út frá frétt mbl eða fréttinni í Sunday Times.
Óvænt fé í íslenskum banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.4.2009 | 09:23
Góð hugmynd í boði xB - 20% afsláttur til allra
Framsóknarflokkurinn veit að það skiptir þjóðina miklu næstu misserin að halda andlegri heilsu og viðhalda orku og jákvæðu hugarfari. Flokkurinn lofar því fyrir þessar kosningar að allir landsmenn fái 20% AFSLÁTT af öllum sólarlandaferðum* næstu árin.
Þetta loforð mun ekki kosta skattgreiðendur neitt, því kostnaðurinn lendir allur á ferðaskrifstofum landsins. Þær munu hvort eð er þurfa að horfa uppá mikinn samdrátt í sölu og verulega rýrnun tekna, og því mjög líklegt að þær samþykki þessa snjöllu hugmynd. Með því að gefa öllum 20% afslátt munu fleiri en ella kaupa sér sólarlandaferðir og því er hugsanlegt að þetta muni, þegar upp er staðið, ekki kosta ferðaskrifstofurnar neitt.
x-B Flokkur sem lofar ekki upp í ermina á sér -
heldur upp í ermina á öðrum.
*Þessi færsla er ádeila á eitt helsta "kosningaloforð" Framsóknarflokksins og sett fram í háðskum stíl. Flokkurinn lofar ekki í alvörunni 20% afslætti á sólarlandaferðum, en hins vegar lofar hann 20% afslætti á öllum húsnæðisskuldum Íslendinga og raunar öllum bankaskuldum íslenskra fyrirtækja. Þessi afskrift muni ekki kosta skattgreiðendur neitt, því afföllin lendi alfarið á erlendum kröfuhöfum.
Það er alls ekki búið að ganga frá 50% afskriftum af heildarlánasafni gömlu bankanna, enda geta auðvitað ekki skilanefndir gömlu bankanna ákveðið það upp á sitt eindæmi, það hafa Framsóknarmenn viðurkennt. En Framsóknarflokkurinn telur líklegt að kröfuhafar fallist á þetta, því þeir þurfi hvort eð er að sætta sig við afskriftir af kröfum sínum, sbr. skýringar þeirra:
Eru einhverjar líkur á að erlendir kröfuhafar samþykki þessa niðurfærslu?
Fjármagnseigendur, þar með taldir kröfuhafa íslensku bankanna, hafa þurft að sætta sig við það á síðustu misserum að eignir þeirra hafa rýrnað mjög í verði og svo er komið að sumar eignir hafa hreinlega ekkert verð þar sem það eru engir kaupendur. Kröfuhafar verða því að sætta sig við einhverjar afskriftir af sínum kröfum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)