Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Meðvituð stefna Kaupþings að leika á kerfið?

Horfði á Kaupþingsmyndbandið umtalaða. Get svo sem fáu bætt við það sem aðrir hafa sagt, auðvitað var þetta fyrst og fremst hugsað sem svona "pepp", svipað og þegar fyrirtæki drífa starfsmenn í flúðasiglingar til að efla liðsandann. (Auðvitað hafa flúðasiglingar ekki þótt nógu "kúl" fyrir stjórnendateymið í Kaupþing, vafalaust hafa þau farið í fallhlífastökk í Nepal í staðinn, eða eitthvað álíka. Myndbandið umrædda var víst frumsýnt á starfsmannafundi í Nice á frönsku rívíerunni.)

En eins og Berlingske bendir á er þetta vissulega "tragikomiskt" á að horfa núna eftir á, yfir rjúkandi rústum bankans.

Eina setningu hnaut ég sérstaklega um í sjálfbyrgingslegum texta myndbandsins:

We think we can continue to grow the same way we always have by outwitting bureaucracy

Sem sagt, það að "leika á kerfið" - FME, Seðlabanka og aðra eftirlitsaðila - var meðvituð stefna bankans, 'part of the game'.

Akkúrat þegar þessi texti er lesinn birtist myndskeið úr kvikmyndinni Matrix, þar sem vondi kallinn 'Agent Smith' margfaldast með ógnarhraða. Smith margfaldaðist náttúrulega ekki í alvörunni í myndinni, myndin fjallaði um sýndarveruleika. Eins og sá heimur sem Kaupþing lifði í. Skondin tenging.

Og bankastjórinn fyrrverandi telur sig alls ekki skulda þjóðinni neina afsökunarbeiðni. Sjáum nú til hvað hann segir að ári liðnu eða svo þegar frekari rannsóknir á hruninu liggja fyrir...

Agent Smith

Svona margfaldaðist Kaupþing, að eigin sögn.


mbl.is Gamalt Kaupþingsmyndskeið vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðfræði handa bloggurum (og þingmönnum) úr máladeild - "Ragnars-Halls-ákvæðin"

Það er að mínu mati gott mál að Alþingi hlustaði vel á röksemdir Ragnars Hall og fleiri lögfræðinga og að fyrirvarar fjárlaganefndar taka á þeim atriðum.

Sumir líta svo að Ragnar Hall sé að krefjast einhvers konar "ofurforgangs" íslenska tryggingasjóðsins, sbr. blogg Marðar Árnasonar fyrir skemmstu, þar sem segir:

Ragnars-Halls-ákvæðin kynnu hinsvegar að standa í Bretum og Hollendingum, vegna þess að þar er farið útfyrir samningsrammann, sýnist leikmanni að minnsta kosti, og verulegt fé undir. Þetta kynni að setja samningana í uppnám, og þarna reynir sannarlega á yfirlýstan góðan vilja viðsemjenda okkar og á þær óskir bandamanna að loka Icesave-dæminu. Þingið tekur verulega áhættu með þessu ákvæði. Á hinn bóginn virðast Bretar og Hollendingar ekki eiga mikið á hættu, því ofurforgangurinn sem um ræðir er hvergi í lögum, íslenskum eða evrópskum, heldur aðeins til í praxís sumra þrotabústjóra hér gagnvart aðallega einum aðila, Ábyrgðarsjóði launa.

 

Ég tel einsýnt að Mörður hefur ekki lesið röksemdir Ragnars, eða þá ekki skilið þær. (Hrokafull fyrirsögn mín er fyrst og fremst skot á hann og aðra sem mynda sér skoðun á þessu án þess að reyna að skilja það, biðst afsökunar ef ég móðga aðra máladeildarstúdenta :-)

Ragnar var alls ekki að krefjast þess að íslenski tryggingasjóðurinn fengi einhvern ofurforgang, heldur var Ragnar að benda á að með tryggingum Breta og Hollendinga umfram lágmarkstrygginguna uppá 20.000 Evrur fellur meira á íslenska ríkið en því ber að greiða.

Ragnar skýrði þetta ágætlega með dæmum, en helstu grein hans má finna hér og ég hef skrifað um þetta áður. Ég skal reyna að skýra þetta aftur, svo jafnvel Mörður Árnason skilji:

Segjum nú að breskur sparifjáreigandi hafi átt 50.000 evrur á IceSave reikningi. EF íslenski tryggingasjóðurinn hefði haft nægt fé til að greiða þeim manni strax að minnsta kosti 20.000 evrur þyrfti íslenska ríkið ekkert að hugsa frekar um málið.

Nú var svo ekki, segjum til einföldunar að í sjóðnum hafi verið 0 evrur til handa manninum.  Þurfti því sjóðurinn að fá lán hjá ríkinu til að standa við lágmarksskuldbindingu (sem ríkið aftur fékk lánað hjá breska ríkinu).  Sem sagt, sjóðurinn fær lánaðar 20.000 evrur frá íslenska ríkissjóðnum og fellur sú upphæð á íslenska ríkið, sem á samsvarandi kröfu í þrotabú Landsbankans.

Breska ríkið ákvað hins vegar einhliða að veita manninum umframtryggingu, upp að 50.000 Evrum. Breska ríkið lætur því manninum í té 30.000 evrur ofan á þær 20.000 sem hann fyrst fær. Reikningseigandinn er því búinn að fá alla sína peninga tilbaka.

Segjum nú að helmingur - 50% - náist úr þrotabúi bankans upp í kröfur. Þannig eiga kröfuhafar almennt rétt á að fá helming upp í sínar kröfur. Hver innistæðueigandi ætti því að fá helming af sinni innistæðu tilbaka en að lágmarki 20.000 evrur samkvæmt evróputilskipuninni. Hvernig á að skipta þeim 25.000 evrum sem koma uppí þessa innistæðu?

Íslenska ríkið á 20.000 EUR kröfu, hið breska 30.000 EUR kröfu. (Ef ekki hefði komið til umframábyrgð breska ríkisins væri sú krafa innstæðueigandans, heildarkröfur eru þær sömu.)

Ef hægt hefði verið að fá þessa peninga strax út úr þrotabúinu hefði maðurinn sjálfur fengið þá, og íslenska ríkið væri stikkfrí, því hann hefði fengið meira en 20.000 evrur. Breska ríkið hefði svo greitt honum 25.000 evrur til að hann fengi samtals 50.000 evrur greiddar. með öðrum orðum: 0 evru kostnaður á íslenska innstæðusjóðinn/ríkið en 25.000 evru kostnaður á breska ríkið.

En samkvæmt IceSave samningnum eru allar kröfur jafnréttháar, svo upphæðinni verður skipt á milli kröfuhafa í hlutföllunum 2:3; íslenska ríkið fær tilbaka 2/5 af 25.000 EUR upphæðinni eða 10.000, breska ríkið fær 3/5 eða 15.000.

Það sem Ragnar bendir á að með því að gera kröfur íslenska innstæðusjóðsins og breska ríkisins jafn-réttháar þá saxast á þá upphæð sem ella kæmi tilbaka til íslenska ríkisins vegna þess að breska ríkið gaf umframábyrgðina. Sem sagt, íslenska ríkið (við íslenskir skattgreiðendur) þarf að greiða meira vegna einhliða ákvörðunar breska ríkisins um hækka lágmarksendurgreiðslu til innstæðueigenda umfram lágmarkið sem Evróputilskipunin kveður á um.

Er það sanngjarnt og eðlilegt? 

Ef breska umframtryggingin kæmi ekki til ætti innstæðueigandinn sjálfur 30.000 kröfu í þrotabúið. Ef sú krafa er jafnrétthá kröfu íslenska tryggingasjóðsins fær innstæðueigandinn 15.000 evrur tilbaka til viðbótar við upphaflega 20.000 greiðslu. Þá væri hann samtals búinn að fá 35.000 evrur í sinn vasa, 10.000 evrum meira en ef hægt hefði verið að gera upp þrotabúið strax.

Á lágmarksgreiðsla úr tryggingasjóðnum að vera greiðsla uppí þann hluta sem innstæðueigandi fær úr þrotabúi bankans eða á greiðslan að koma sem viðbót? Um það snýst sú óvissa sem Ragnar bendir á.

Þetta er það mikilvægt mál að úr því hlýtur að þurfa að fá skorið.


Bjarni Ben og Villta vestrið

Fréttablaðið birtir í morgun ummæli Bjarna Benediktssonar um birtingu upplýsinganna úr lánabók Kaupþings undir fyrirsögninni "Við viljum ekki villta vestrið".

Í fljótu bragði gætu lesendur haldið að fyrirsögnin vísaði til hneykslan Bjarna á því sem fram kemur í upplýsingunum, ofurlán til eigenda bankans, en fjöldi virtra erlendra fjölmiðla hefur fjallað um málið (sjá t.d. þessa fétt RÚV) og eru samdóma í mati sínu á upplýsingunum og hvað þær segja um gamla Kaupþing. (Sigurður Einarsson reynir vissulega í grein í dag að skýra að ekkert óeðlilegt komi fram í þessum upplýsingunum, en ég tek meira mark á Financial Times, Berlingske, Svenska Dagbladet, Dagens Nyheter o.fl. o.fl)

Bankar Íslands fyrir hrun voru sannkallað Villta vestur, þar sem glaðbeittir fjármálakúrekar gerðu það sem þeim sýndist.

En Bjarni var alls ekki að gagnrýna það. Hann virðist samkvæmt frétt Fréttablaðsins hafa miklu meiri áhyggjur af birtingu upplýsinganna og segir að það "getur aldrei verið ásættanlegt að menn brjóti lög" og honum finnist "óskiljanlegt með öllu að menn séu að bera i bætifláka fyrir það þegar slíkt gerist".

Með öðrum orðum er greinilegt að Bjarni telur að ekkert af þessum upplýsingum eða öðrum sem lekið hefur verið úr bönkunum hafi átt að koma fyrir sjónir almennings.

Það er nefnilega það.

Óttast Bjarni fleiri leka úr öðrum bönkum?

Bankamenn

Villta vestrið - íslenskir bankakúrekar


mbl.is Stórskuldug aflandsfélög í eigu hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþing bakkar - rýnum nú í efnisatriðin

Samkvæmt hádegisfréttum ætlar Nýja Kaupþing ekki að fylgja eftir lögbannsbeiðni sinni með staðfestingarmáli gegn Ríkisútvarpinu. RÚV bíður samt eftir grænu ljósi frá Sýslumanni.

Vissulega má færa fyrir því góð rök að Kaupþing hafi verið í erfiðir stöðu í málinu, eins og bloggarinn AK-72 gerir ágætlega grein fyrir í fínni færslu.

En nú getum við hætt að einblína um of á lögbannsbeiðnina og fjölmiðla menn geta einhent sér í að skoða upplýsingar og greina hvað þær þýða. 

Kaupþingsklíkan" hefur viljað halda því á lofti að kaupþing hafi verið langbesti bankinn, meira "pro" og allt fram að hruni hans töldu margir að þessi banki ætti sér mögulega viðreisnar von. Ítarlegri greining mun kannski varpa skýrara ljósi á það. Einn talsmaður klíkunnar, hinn dugmikli Pressu-bloggarinn Ólafur Arnarson leiðir að því líkum að leki lánabókar Kaupþings hafi verið smjörklípa til að beina athyglinni frá gjaldþroti Björgólds Guðmundssonar! Trúi hver sem vil.

Ætli tilfellið sé að Kaupþing hafi verið bestir í því að byggja spilaborg samkvæmt hinu stórhættulega og algjörlega ósjálfbæra "íslenska bankamódeli"? Ég mæli með því að menn lesi hvað erlendir fjölmiðlar hafi um málið að segja. Þetta má lesa í Svenska Dagbladet:

AVSLÖJAD AV DOKUMENT

Kaupthings korthus

Topphemliga dokument som läckt ut blottar den riskfyllda lånekarusellen i den isländska banken Kaupthing strax innan den kraschade. Banken hade lånat ut tiotals miljarder kronor till bankens egna stor­ägare och deras vänner – ofta utan säkerhet. Pengarna gick bland annat till köp av privatjet och hus i Frankrike

Den isländska staten tog den 9 oktober förra året över det då konkurshotade Kaupthing. Svenska Riksbanken fick i samband med kollapsen rycka in med ett nödlån på 5 miljarder kronor för att rädda pengar som svenska sparare placerat hos Kaupthing.

Kaupthing hade liksom de andra isländska bankerna expanderat våldsamt under 2000-talet och kraschen fick hela Islands ekonomi på fall. Nu avslöjar nya dokument detaljer om de affärer som bidrog till undergången. Det är sajten Wikileaks som fått händerna på ett topphemligt internt memorandum daterat den 25 september förra året. I det 209 sidor långa dokumentet redogörs för alla med lån på mer än 45 miljoner euro hos Kaupthing. Listan, som omfattar 205 kunder och som SvD Näringsliv tagit del av, avslöjar en systematisk och omfattande kreditgivning till personer och företag med starka band till Kaupthing och dess huvudägare. Bara de tio största låntagarna var skyldiga 65 miljarder kronor.

De största lånen var till bolag kontrollerade av bröderna Agust och Lydur Gudmundsson och deras finanskoncern Exista. Exista var vid den här tiden största aktieägare i Kaupthing och ägde också en stor post i finska Sampo, i sin tur stor ägare i Nordea.

Totalt uppgick Kaupthings kreditexponering mot brödernas företagssfär till 1425 miljoner euro, över 14,5 miljarder kronor till dagens kurs. 8 miljarder var lån direkt till Exista, varav 7 miljarder var lån utan säkerheter, enligt dokumenten.

Bröderna Gudmundssons privata investmentbolag Bakkabraedur hade därutöver lån på sammanlagt 3,9 miljarder kronor. Pengarna tycks ha finansierat brödernas privatliv. Av dokumenten framgår att Kaupthing i Luxemburg beviljat lån till Lydur Gudmundsson för köp av en fastighet i Storbritannien för motsvarande 155 miljoner kronor, till ett flygplan för 165 miljoner kronor och till Agust Gudmundsson för köp av fastigheter i Frankrike för över 90 miljoner kronor. Kaupthing skriver själv att säkerheter på minst 450 miljoner kronor saknas.

 

 Sumarhöll

Sumarhöll Bakkabróður. Fyrir lánsfé frá Kaupþing?

 


mbl.is Forsætisráðherra segir lögbann fráleitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En af hverju var SJÓVÁ knésett?

Viðvaningsleg fréttamennska Stöðvar 2 gefur þeim sem um var fjallað tækifæri til að svara fyrir sig enda sjálfsagt. Stöð 2 verður einfaldlega að vanda sig betur. Fréttin þessi var víst byggð á frásögn eins manns sem raunar hafði ekki gögn undir höndum og ekki virtist fréttin staðfest af öðrum aðila. Hljómar meira eins og orðrómur eða kjaftasaga. Ekkert meira hefur heyrst frá fréttastofunni um þessa tilteknu frétt.

Við megum ekki falla í þann pytt að trúa öllu upp á "þessa menn".

En aftur að grein nafna míns Karls Wernerssonar. Hann talar um Milestone sem fjölskyldufyrirtæki. Ég sé ekki alveg hvaða máli það skiptir, er þá minni ástæða fyrir aðra að forvitnast um málefni þess félags?

Karl spyr margra spurninga í grein sinni en gefur fá svör. Það er staðreynd að tryggingafélagið Sjóvá fór á hausinn. Af hverju gerðist það? Ekki snarminnkaði sala trygginga og ekki jókst heldur tjón sem bæta þurfti? Nei það var eitthvað annað sem kom til sem venjulegt fólk á erfitt að skilja. Svo það er engin furða þó fólk spyrji sig hvað í ósköpunum eigendur fyrirtækisins voru að bralla.

Hrun Sjóvár kostar skattgreiðendur í beinhörðum peningum 14 milljarða. Þó við séum orðin sljó á háar tölur er þetta há upphæð. Nemur sem samsvarar 43 þúsund krónur á hvert mannsbarn. Þetta er meira en kostar að reka Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í eitt ár. Þannig varðar hrun "fjölskyldufyrirtækis" Karls allar fjölskyldur í landinu.

Í þessu ljósi skil ég svo sem vel þá stefnu Milestone "að taka ekki nema að takmörkuðu leyti þátt í fjölmiðlaumfjöllun um félagið". 

Ég myndi sjálfur ganga með hauspoka, ef ég hefði bakað samferðamönnum annan eins skuldabagga.

Einkaþota Karls Wernerssonar

Einkaþota Karls Wernerssonar


mbl.is Að andæfa lyginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Karlar sem hata konur' og stóra millifærslumálið

***WARNING: THIS POST MAY CONTAIN A SPOILER***

 

Sérkennilegt þetta tiltekna mál. Stöð 2 kemur með þessa svaka hasarfrétt, þrír stórlaxar nafngreindir, aflandseyjar, hundruð reikninga, og margar risa-millifærslur.

Stórlaxarnir bregðast hinir verstu við, sárir og svekktir, þetta sé allt haugalygi og standi ekki steinn yfir steini. Hóta málaferlum og allt hvað eina.

Fréttin sú arna raunar mjög ónákvæm eins og hún birtist á visir.is, lítið um konkret upplýsingar og í raun ekkert sagt hver nákvæmlega gerði hvað. Eins og einhver einn heimildamaður hafi sagt frá eða sýnt upplýsingar, en ekki látið neitt efni í té.

Eitthvað virðist svo frekar hafa fjarað undan þessari frétt, skiptastjóri Samson kannaðist ekki við millifærslurnar eða FME. Forsvarsmenn Straums neita sömuleiðis öllu.

Ég las í vor sænsku spennusöguna Karlar sem hata konur, hörkufínn reyfari. Á eftir að sjá myndina sem nú er sýnd. Nú vil ég ekki spilla fyrir þeim sem eiga eftir að fara í bíó eða lesa bókina, en get þó greint frá einu atriði sem ekki spillir fyrir spennunni. Í upphafi bókarinnar er önnur söguhetjan, viðskiptablaðamaður, í mikilli kreppu, því hann var mataður á röngum fölsuðum upplýsingum um meinta spillingu mikils viðskiptajöfurs, sá kærði hann fyrir meiðyrði og blaðamaðurinn skíttapaði málinu og trúverðugleika sínum.

Þetta eru  bara svona sakleysislegar hugrenningar... en stundum er raunveruleikinn lygilegri en skáldskapur.

2504262197

 


mbl.is Yfirlýsing frá Karli Wernerssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að selja kökuna og borða hana...?

Forvitnileg frétt. Heppilegt fyrir núverandi 'Bókabúð Máls og Menningar' (í eigu hins "ríkisrekna" Penna) að finna hentugt húsnæði í 50 metra fjarlægð, þó svo húsnæðið nýja sé víst um helmingi minna. SPRON-húsið er vel staðsett og verður gaman að fá aukið líf upp á Skólavörðustíg.

Samkvæmt þessari frétt á hin "nýja" bókabúð Bókmenntafélagsins Mál og Menning að heita Mál og Menning, því þeir mega ekki kalla búðina "Bókabúð Máls og Menningar", það nafn hafi verið selt með rekstrinum fyrir sex árum síðan. Þetta hljómar í fljótu bragði undarlegt. Munu neytendur auðveldlega gera greinarmun á bókabúð sem kallar sig Mál og Menning, og annarri bókabúð sem heitir Bókabúð Máls og menningar? Svari hver fyrir sig.

Svo hliðstætt dæmi sé búið til, mætti Kaupás selja matvöruverslanirnar Nóatún ásamt heiti búðanna, en opna svo nýja verslun undir nafninu Matvöruverslunin Nóatún.

Hvað ætli Penninn hafi á sínum tíma greitt mikið fyrir vörumerkið 'Bókabúð Máls og Menningar'? Líklegt ða hluti verðsins sem greitt var 2003 hafi verið fyrir hið gamalgróna heiti verslunarinnar og viðskiptavild tengda heitinu.  Held að Penninn ætti að skoða vel sinn rétt í þessu máli. Segi ég sem einn eigandi ríkisbókakeðjunnar Pennans, þ.e. sem skattgreiðandi. 


mbl.is „Hrein og klár viðskipti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mestu mistök stjórnarinnar í IceSave málinu?

Það er hálfdapurlegt fylgjast með orðræðunni sem hæst lætur, hér í netmiðlum og víðar í samfélaginu í hinu ömurlega IceSave máli. Það dapurlega er þó ekki ömurleiki málsins, heldur það hversu fullir heift margir landsmenn eru hvor útí aðra. Þá á ég sérstaklega við þá heift sem margir sýna núverandi stjórnvöldum.Þessa stuttu athugasemd má finna við nýlega bloggfærslu Stefáns Friðriks Stefánssonar:

Þessir aumingjar sem stjórna landinu eru vísvitandileyna okkur plöggum sem sýna og sanna að Davíð hefur rétt fyrir sér! (Eins og raunar alltaf!)Þau vilja frekar að við greiðum fleiri hundruð milljarða heldur en að við gerum það ekki, í tvennum tilgangi:
 
- til að sanna hvað Sjálfstæðisflokkurinn fór ömurlega með landið og draga úr fylgi xD,
- til að neyða okkur inn í ESB.
 
Ljótt er það!
 

Ég skrifaði sjálfur þessa athugasemd. Hún er sett fram í háði. En ég veit ekki hvort bloggarinn Stefán Friðrik og lesendur hans hafi áttað sig á því, svo það tilkynnist hér með.

Er það virkilega svo, að margir landsmen telji að stjórnmálaleiðtogar okkar séu vísvitandi að leggja á okkur gífurlegan skuldaklafa og halda aftur upplýsingum sem bæta myndi stöðu Íslands? Það er dapurlegt.

Ég held að mestu mistök stjórnvalda í þessu máli séu að leysa þetta ekki þvert á flokkslínur.

Ég ætla sjálfur hins vegar alls ekki að dæma Svavar Gestsson, og finnst margir henda fram í fljótfærni órökstuddum palladómum. Er 65 ára gamall fyrrum flokksleiðtogi og ráðherra sem stóð í eldlínu stjórnmála ekki með reynslu til að tala máli Íslands? Er ekki ljóst að Bretar og Hollendingar líta á þetta meira sem pólitískt og siðferðislegt mál, frekar en lögfræðilegt, og er því ekki upplagt að senda pólitískan erindreka með sannfæringarkraft?

Hins vegar átti að senda einhver með Svavari sem hinn helmingur þjóðarinnar gæti treyst, sá helmingur sem fyrirfram myndi alltaf vantreysta Svavari.  Og hugsanlega hefði þjóðstjórn þurft til að ljúka þessu máli, því lausnin verður aldrei "ásættanleg".

Það er nefnilega alltof freistandi fyrir stjórnarandstöðu að leyfa stjórnarmeirihlutanum að bera alfarið ábyrg á lyktum málsins og reyna að slá sig til riddara með stórkallalegum yfirlýsingum um hörmungarhliðar málsins. Málir er til þess fallið.  


Bankar reknir með 8 milljarða tapi á mánuði?!

Ansi ítarlegt og gott viðtal birtist við bankaráðgjafann sænska Mats Josefsson í Fréttablaðinu fyrir helgi, nánar tiltekið fimmtudaginn síðasta 25. júní, eftir Jón Aðalstein Bergsveinsson. Þetta er fróðleg lesning og Mats er ekkert feiminn að gagnrýna bæði núverandi og fyrrverandi stjórnvöld fyrir seinagang. Þarna segir m.a.:

Frá upphafi hefur legið fyrir að unnið verði eftir hugmynd um að sett verði á fót eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem veiti bönkunum ráðgjöf vegna mikilvægra fyrirtækja sem eiga í miklum rekstrarerfiðleikum. Þá hafi verið stefnt að því að eignarhaldsfélag verði sett á laggirnar sem haldi utan um hlut ríkisins í bönkunum. [...]

Mats reiknar með að félagið geti litið dagsins ljós á næstu vikum: "Ég skil ekki hvers vegna þetta hefur tekið svona langan tíma. [...] Síðastliðnar tvær til þrjár vikur hafa verið stigin jákvæð skref. Þetta eru stór og mikilvæg skref í rétta átt."

"Í mínum augum er það samt ráðgáta hvers vegna fjármálaráðuneytið vann ekki hraðar í málinu."

Ofangreint er svo sem ekki nýtt. Fjöldamörg stór fyrirtæki eru komin í fangið á bönkum eða bíða svara frá bönkunum um örlög sín, og alls óvíst hvaða stefnu bankarnir skulu fylgja.

En það var þó þetta sem mér fannst mest sláandi:

Mats Josefsson segir varasamt að reka bankana í núverandi mynd. Misvægi á eignastöðu þeirra gömlu og nýju sem myndaðist við uppskiptingu þeirra valdi því að þeir séu reknir með miklu tapi í hverjum mánuði. Spurður hvort tap þeirra þriggja liggi nálægt átta milljörðum króna á mánuði segir hann það ekki fjarri lagi.

"Þetta verður að stöðva. Það er ekki flókið enda verður annað hvort að auka tekjur eða draga úr útgjöldum. Það var nauðsynlegt að gera þetta þegar ríkið tók bankana yfir en var ekki gert," og bætir við að enn sé ekki búið að ákveða í þaula hvernig bankakerfi muni verða hér í framtíðinni.

Ég tek heils hugar undir orð Mats. 

Það kostar um 13-14 milljarða að klára tónlistarhúsið, en samkvæmt ofangreindu tapast sú upphæð í rekstri bankanna þriggja á 6 vikum. 8 milljarða tap  er um 25.000 krónur á hvern Íslending - á mánuði - kornabörn jafnt sem atvinnulausa. Á þetta að rúlla svona áfram út árið? Þetta er væntanlega aðallega munur á inn- og útvöxtum, sparifjáreigendur liggja með sitt fé í bönkunum (enginn á lengur hlutabréf!) og fengu himinháa innlánsvexti allt haustið og framan af árinu sem hafa þó snöggtum lækkað, en enginn þiggur ný útlán hjá bönkunum á enn hærri útlánsvöxtum.

Hvar lendir svo tapið? Þetta eru jú ríkisbankar!

peningar

Peningar okkar halda áfram að flögra í burtu.


Hús fer á uppboð

Ég hef einu sinni verið viðstaddur nauðungaruppboð. Þetta var snemma árs 2003, í fallegu húsi í Hafnarfirði. Eigendurnir höfðu reynt að selja húsið, en það gekk ekki út af ýmsum lagaflækjum og erfiðri skuldastöðu þeirra. Skömmu fyrir boðaðan tíma þyrptust innheimtulögfræðingar inn í stofu á skónum, heilsuðust og göntuðust, fyrir þeim var þetta allt ósköp hversdagslegt. Þeir voru flestir í svörtum leðurjökkum, eins konar einkennisklæðnaður innheimtulögfræðinga greinilega. Fulltrúi sýslumanns hlammaði sér niður í heimilissófann og opnaði gerðarbókina á stofuborðinu. Heimilisfaðirinn reyndi að bera sig mannalega og týndi til stóla til að fólk gæti sér tyllt sér. Í eldhúsinu sat húsmóðirin með tárvot augu, hún vann heima sem dagmóðir og sátu börnin sem hún gætti í kringum hana. Hún sá fram á að missa ekki bara heimili sitt heldur líka atvinnuaðstöðu. Uppboðið gekk hratt fyrir sig og húsið slegið hæstbjóðanda með hamarshöggi.

Hin hliðin:

En það eru tvær hliðar á flestum málum. Svo er einnig með þessa sögu. Húsráðendurnir höfðu búið í húsinu fína í rúm tvö og hálft ár. Þau höfðu í rauninni aldrei haft efni á að kaupa þetta hús, en fasteignasali gaf þeim gott verðmat á fyrri íbúð og á grundvelli þess sýndi greiðslumat að kaupin væru viðráðanleg. Fyrri íbúðin þeirra seldist svo á 5 milljónum lægra verði en matið sýndi. Fasteignasalinn sem mat íbúðina svo skakkt var sá sami og seldi þeim húsið, tilviljun.

Dæmið gekk aldrei upp, það vantaði jú alltaf fimm milljónir. Íbúarnir skulduðu seljandanum enn nokkrar milljónir, þau höfðu aldrei greitt fasteignagjöld og sama og ekkert borgað af neinu þeirra lána sem hvíldu á húsinu.  Maðurinn rak lítið fyrirtæki sem greinilega skilaði litlu, og fjármálin öll í ólestri svo vægt sé til orða tekið. Með öðrum orðum var óhjákvæmilegt að fólkið myndi fyrr eða síðar hrökklast úr húsinu. Annað hefði í rauninni verið óeðlilegt. Engu að síður var þetta auðvitað sorgarsaga og leiðindamál.

Nýrri saga um húsmissi

bilde?Site=XZ&Date=20090617&Category=FRETTIR01&ArtNo=96616515&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1Í vikunni vakti mikla athygli frétt af manni sem misst hafði hús sitt. Í kjölfarið gjöreyðilagði hann svo húsið, á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Bloggarar spöruðu ekki stóru orðin, þetta var táknrænt um ástandið í samfélaginu, maðurinn sannkölluð hetja, skyldi fá fálkaorðu sagði einhver. Maðurinn var að "tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum", sagði einn mest lesni bloggari landsins, sem undirritaður almennt hefur miklar mætur á.

Fáir töldu þörf á að vita nokkuð um forsögu þessa tiltekna máls áður en þeir tjáðu sig fjálglega. Þingmaðurinn Þór Saari mætti á staðinn (býr sjálfur á Álftanesi) og sótti brak úr húsinu til að færa forsætisráðherra að gjöf.

husbrot2

Hvað vitum við um forsögu málsins? Jú, maðurinn byggði sjálfur húsið, innflutt einingahús, árið 2003. Fréttir herma að maðurinn sé smiður og hafi sjálfur sett húsið saman. Það hefur þá kostað hann á þeim tíma vel innan við 20 milljónir, líklega 17-18. Fullbúin timbureinbýlishús kostuðu á þessum tíma á bilinu 20-24 milljónir. Þess má geta að árið 2003 voru engin myntkörfulán í boði.

Seinna var svo tekið 34 milljón króna erlent lán, m.ö.o. maðurinn notfærði sér, eins og raunar fleiri, að fasteignaverð hækkaði. Hann hefur endurfjármagnað lán á húsinu og veðsett upp í topp, langt umfram það sem hann upphaflega greiddi fyrir húsið. Til hvers þetta lán var vitum ekki, eða af hverju maðurinn veðsetti húsið svo hressilega. Húsið var raunar ekki skráð á hann, heldur fyrirtæki hans sem flutti inn einingahús, og sem hefur komið í ljós að tók við stórum greiðslum frá fólki fyrir hús sem svo aldrei komu til landsins.

Við vitum raunar fleira. Húsið var slegið á uppboði í nóvember 2008. Það vita allir þeir sem til þekkja að nauðungaruppboð er ekki haldið fyrr en venjulega rúmu ári eftir að lán eru komin í vanskil, það má því álykta að maðurinn hafi verið kominn í fjárhagsvandræði löngu áður en gengi féll sem hraðast um vorið 2008, líklega fyrir áramót '07-'08. En auðvitað snarversnaði staðan eftir því sem gengið varð óhagstæðara.

Í ljósi alls þessa tel ég óskaplega vanhugsað að lyfta manninum á stall og líta á sem hetju,og fordæma sjálfkrafa aðgerðir bankans. Eða eru nú allir sem misst hafa tök á fjármálum sínum á síðustu tveimur árum sjálfkrafa píslarvottar bankahrunsins?

Fullt af fólki á virkilega um sárt að binda vegna banka- og gengishrunsins. Ég held að þessi maður sé ekki góður fulltrúi fyrir það fólk.

 

Þess má geta í lokin að Frjálsi Fjárfestingabankinn, sem átti húsið sem var rústað, var dótturfélag SPRON sem FME tók yfir og lokaði. Frjálsi er því væntanlega beint eða óbeint undir forræði FME og eigur þess og skuldir í rauninni eigur ríkisins - okkar skattgreiðenda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband