Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Nöfn hústökumanna

Það er gott að þetta brýna mál komist aftur á dagskrá. Töluvert var rætt fyrir tæpu ári um auð hús í miðborginni, en í skýrslu slökkviliðsstjóra frá mars 2008 kom fram að 57 hús stóðu auð að öllu leyti eða að hluta. Í apríl í fyrra var lögð fram samantekt á fundi skipulagsráðs borgarinnar þar sem kom fram að  37 hús voru auð í miðborginni. Þar stóð að fyrirhugað væri að rífa 18 þessara húsa og að gera ætti upp tíu. Níu hús voru sögð standa auð vegna eigendabreytinga. 17 húsanna sem tilgreind voru í samantektinni voru í eigu þriggja félaga: Samson Properties (5 hús), ÁF-húsa ehf. (5 hús) og Festa ehf. (7 hús).

Fleiri fyrirtæki mætti nefna, svo sem Stafna á milli ehf. sem töluvert var í fréttum 2006-07. Áhugasamir geta gúglað.

Eru þetta ekki hústökumennirnir sem þarf að varast?

Hvernig eru ástand og horfur húsanna 57 nú?


mbl.is Götuvirki hústökufólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um styrki til stjórnmálaflokka - ólík sjónarmið

Eftirfarandi er tilvitnun í umsögn SUS frá 2006 um frumvarpið sem þá var til meðferðar fyrir Alþingi:

Með takmörkun á framlagi einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka er reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunn. Réttur almennings til þess að tjá skoðun sína og styðja í opinberri umræðu er fótum troðin [sic] með slíkum hindrunum enda er það mikilvægur réttur borgara að geta stutt hugsjón sína og lífsskoðun, hvort sem er með fjárframlögum, sjálfboðastarfi eða hverjum öðrum þeim hætti sem hver og einn kýs.

Ljóst er að á þessum tíma voru a.m.k margir hinna yngri flokksfélaga á þeirri skoðun að það ætti alls ekki að takmarka hámarksupphæð styrkja til stjórnmálaflokka. Þeir hinir sömu hefðu vafalaust ekkert séð aðfinnsluvert við styrkina rausnarlegu frá FL og LÍ, heldur þvert á móti dæmi um frábæran árangur í fjáröflun. Eru einhverjir þessara ungu manna og kvenna í framboði nú?


mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"See no evil, hear no evil"

 

þrír apar

Hugtakið "lokað bókhald" fær alveg nýja merkingu í þessari umræðu. Kannski bókhald Sj-flokksins sé viljandi lokað helstu frammámönnum flokksins svo þeir geti viðhaldið sakleysi sínu og viti ekki hvaða öfl leggja til fúlgur fjár til að knýja áfram flokksmaskínuna.

Á það skal bent að Guðlaugur Þór raunar neitar því alls ekki að hafa vitað af styrkjunum, hann hringdi bara ekki beint í nein fyrirtæki. [Þetta er víst ekki rétt, það kom ekki fram í skriflegri yfirlýsingu Guðlaugs Þórs hvort hann vissi af styrkjunum á sínum tíma og ekki heldur í viðtali í fréttum kl 18 á skírdag, en í viðtali á visir.is neitar hann að hafa haft vitneskju um þá.]

Og ekkert hefur heyrst til varaformannsins. Ýmsilegt mun eiga eftir að gerast áður en haninn galar næst... 


mbl.is Illugi: Vissi ekki um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svör frá Kreditkortum vegna 193% hækkunarinnar

Í framhaldi af færslu frá 31.3. sl.

Ég hringdi í Kreditkort og talaði við almennilegan þjónustufulltrúa, sem benti mér á að ef ég afþakka mánaðarlegu pappírsyfirlitin borga ég "aðeins" 200 kr skuldfærslugjald, í stað 393 kr (sem er samt hærra en 180 kr gjaldið sem ég borgaði fyrir að fá pappírsyfirlit í júní 2008). Sendi svohljóðandi póst til fyrirtækisins:

Góðan dag,

Ég hringdi í þjónustufulltrúa ykkar rétt í þessu og kom á framfæri athugasemdum útaf seinstu reikningum. Hún var mjög almennileg og breytti stillingu á aðalkorti mínu [...]

Engu að síður vil ég gera alvarlega athugasemd við 193% hækkun á skuldfærslugjaldinu, úr 135 kr, sem það var um mitt síðasta ár, upp í 393 kr. Þetta er langt umfram nokkrar vísitölur og ég vildi gjarnan heyra skýringar á svo ríflegri hækkun. (Hefur sá kostnaður sem þetta gjald á að dekka, þrefaldast á skömmum tíma?)

  Fékk svo fáeinum dögum seinna eftirfarandi svar:

Hækkun á gjaldskrá til korthafa okkar er tilkomin vegna hækkunar á aðkeyptri þjónustu til Kreditkorts við tölvuvinnslu, uppgjör og færsluhirðingu frá seljendum. Þetta er sem sagt gjöld sem hafa hækkað til okkar og við verðum því miður að hækka verðin.

hmmm... ég veit ekki. Hafa þessir umræddu kostnaðarliðir hjá fyrirtækinu þrefaldast síðan í jún 2008?  Finnst líklegra að aðalástæðan sé snarminnkuð velta vegna miklu minni innkaupa, sérstaklega erlendis, Kreditkort hafi þess vegna þurft að "stilla" tekjustraumana...


193% gjaldskrárhækkun hjá Kreditkort hf. - á 8 mánuðum!

Var að fá í pósti greiðslukortayfirlit frá Kreditkort hf. Tók eftir því að liðurinn "skuldfærslugjald" var kominn upp í 396 kr. Eitthvað minnti mig að þessi tala hefði verið mun lægri fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fletti í heimilisbókhaldinu og mikið rétt, þetta gjald hefur margfaldast á stuttum tíma.

Í júní 2008 var gjaldið 135 kr, en hækkaði um haustið í 180 kr, eða um 33%. Þetta 180 kr gjald entist fyrirtækinu hins vegar ekki lengi, því nú í mars er gjaldið hækkað í 396 kr, eða um 120%, til viðbótar við 33% hækkunina nokkrum mánuðum áður.

Samtals er hækkunin því frá júní '08 og þar til nú í mars 193%. Rétt tæp þreföldun, geri aðrir betur. Ég ætla að hafa samband við fyrirtækið í fyrramálið og leita skýringa og hvet aðra viðskiptavini til að gera hið sama.

Eigendur Kreditkort hf. eru bankar og sparisjóðir, fremstir á lista á heimasíðu félagsins eru ríkisbankarnir "Nýji Glitnir banki hf." [sic] og NBI hf.

Kannski ég ætti að beina spurningu minni líka til fjármálaráðherra?


Hópur til stuðnings Gylfa Magnússyni á Facebook

Við viljum Gylfa Magnússon áfram ráðherra eftir kosningar

gylfi_magnussin_hagfraedingurÞessi hópur hefur einfalt og skýrt markmið. Við þurfum áfram gegnheilan, traustan og greindan viðskiptaráðherra á næsta kjörtímabili, í þessu mikilvæga ráðuneyti sem mun hafa yfirstjórn yfir mest allri bankastarfsemi í landinu næstu misserin. Um þetta getum við verið sammála, jafnvel þó við styðjum og kjósum mismunandi flokka.



Byr í Undralandi

Það blæs ekki byrlega fyrir sparisjóðnum BYR. Búið að eyða þvílíkt í flotta auglýsingaherferð með einum vinsælasta söngvara landsins, sem gengur út á fólk sýni ráðdeild og sparsemi - fjárhagslega heilsu. Væntanlega á undirliggjandi boðskapurinn að vera að BYR sé ábyrg stofnun.

En ekki sýndi bankastjórinn mikil merki um slíka heilsu þegar hann reyndi í Kastljósi í gærkvöldi af veikum mætti að skýra af hverju greiddur var út í apríl 2008 arður fyrir árið 2007 sem var tæplega helmingi hærri en hagnaður þess árs.

aliceSkildi einhver hvað maðurinn var að fara? Þetta var pínlegt. Maðurinn nefndi tvær ástæður, önnur var sú að þetta væri löglegt, en hin var sú að stofnfjáreigendur höfðu bætt við svo miklu stofnfé, sem þeir inntu af hendi nokkrum mánuðum áður en stór hluti fjárins var svo aftur greiddur út sem "arður"!

Minnti mig á Lísu í Undralandi. Eða góðan þátt í 'Já Ráðherra'. Svona öfugmælaorðræða, þar sem svarað er út í hött.


Pýramídahagfræðingur á þing?

pyramidTryggvi Þór Herbertsson doktor í hagfræði er í öðru sæti á lista XD í Norðurlandi  og því mjög líklegur tilvonandi þingmaður. Eins og fram kom í fréttum vikunnar og Tryggvi skýrði skilmerkilega frá tók hann dyggan þátt í pýramídahagfræðinni hér á síðustu árum.

Þegar Tryggvi var ráðinn forstjóri Askar Capital árið 2006 var honum boðinn kaupréttarsamningur til kaupa á hlut í félaginu á hagstæðu gengi fyrir 300 milljónir króna. Félagið reddaði kúluláni með veði í bréfunum, en lánið var skráð á eignarhaldsfélag sem stofnað var til handa Tryggva. Eins og Tryggvi skýrði sjálfur:

Mér var tjáð að launin yrðu ekki í samræmi við það sem tíðkaðist í fjármálageiranum á þeim tíma en að í staðinn mér yrði umbunað með hlutdeild í árangri nýs banka. Í þessu samhengi var mér boðið að öðlast rétt á að kaupa 300 milljón hluti á sama gengi og stofnhlutafar nutu – genginu einum – á þrem árum. Ef bankinn gengi vel þá myndi hlutaféð vaxa í verði og ég hagnast á því. Þannig væru hagsmunir mínir beintengdir hagsmunum bankans. Jafnframt var mér tjáð að stofnað yrði félag sem væri í umsjá bankans sem ætti hlutabréfin og til að fjármagna kaupinn yrðu félaginu útveguð erlend lán, annars vegar frá Askar Capital og hins vegar frá einum viðskiptabankanna og öll bréfin lögð að veði. Að þrem árum liðnum myndi félagið endurgreiða lánið með þeim vöxtum sem tíðkast á markaði. Til að fjármagna endurgreiðslu lánanna gæti ég t.d. selt bréfin og vonandi hagnast ef þau yrðu meira virði en lánin. Til að stofna félagið þyrfti ég að reiða fram 500 þúsund krónur. Það er skemmst frá því að segja að ég tók boðinu.

Í sjálfur sér er skiljanlegt að menn þiggi svona boð, eins og Tryggvi segir "Ef bankinn gengi vel þá myndi hlutaféð vaxa í verði og ég hagnast á því", og ef illa gengur? Tja, þá fellur lánið væntanlega bara á eignarhaldsfélagið?

Var það ekki nákvæmlega þetta sem fólk hneykslaðist svo mikið á að Kaupþingsstjórar reyndu á síðustu stundu? Þegar þjóðarskútan var að sökkva og Tryggvi var ráðinn efnahagsráðgjafi forsætisráðherra taldi hann rétt að slíta tengslin við Askar og seldi félagið fyrir 500 þúsund, svo hann tapaði ekki einu sinni gjaldinu fyrir að stofna eignarhaldsfélagið!

Nú væri rétt að spyrja doktorinn, taldi hann á sínum tíma þetta skynsama hagfræði, að veita risalán til eignarhaldsfélaga, til kaupa á hlutabréfum, með veði í bréfunum sjálfum? Er það ekki rétt skilið að þessi ósiður hafi verið einn stór þáttur í íslensku lánabólunni?

Kjósendur á Norðurlandi, veltið þessu fyrir ykkur.

 


mbl.is Mikilsverð stuðningsyfirlýsing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er arður?

Undarlegt fyrirtæki, skil ekki enn hvernig eigendur gátu fyrir tæpum 11 mánuðum greitt sér 13 milljarða í arð fyrir árið 2007, rúmlega tvöfaldan hagnað félagsins það árið, sem var þó eflaust að miklu leyti tilkominn vegna ofmats á hlutabréfaeign, en hlutabréfaverð fór jafnt og þétt hríðlækkandi einmitt á þeim tíma sem risa-arðgreiðslan átti sér stað.

Hinn galvaski bloggari Gunnar Axel Axelsson hefur töluvert skrifað um BYR, meðal annars reynt að skilja hvernig í ósköpunum menn gengu ófeimnir og fyrir opnum tjöldum í sjóði félagsins og jafnvel tóku lán í nafni félagsins til að stinga í eigin vasa sem arðgreiðslur!  Ég leyfi mér að vitna beint í orð Gunnars Axel frá 27. febrúar:

Ég hef skoðað opinbera ársreikninga eins af stóru eigendunum í BYR. Þar kemur fram hvernig þurrka átti upp varasjóðinn á aðeins tveimur árum. Lán var fengið frá Glitni í desember  2007 og af því var greiddur um þriðjungur strax um vorið 2008 þegar risaargreiðslan var borguð út. Samkvæmt ársreikningnum átti síðan að greiða megnið af láninu upp ári síðar, eða í næstu arðgreiðsluatrennu. 

Ef planið hefði gengið upp þá væru valdhafar í BYR nú að undirbúa næstu arðgreiðslu, sem eins og sú fyrri kæmi öll úr varasjóðnum (sem er lögum samkvæmt í almannaeign).  Það er hætt við að þá hefði varasjóðurinn verið tæmdur endanlega.

Er þetta löglegt? Boðlegt? Siðlegt? Hefur FME lagt blessun sína yfir þetta?


mbl.is Tap Byrs 28,9 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björguðu Kastljósinu

Það lyftist á manni brúnin við að hlusta á Gylfa og Jón í Kastljósinu, eitthvað bitastætt, eftir rýra pólitíska málsvörn Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri er náttúrulega vanur þessu hlutverki, að verja mjöög óvinsæla skjólstæðinga, jafnvel vita vonlaus 'case'! Oftar en ekki fær hann svo að láta ljós sitt skína sem helsti lögfræðilegi álitsgjafi Kastljóssins, eða eins og nú, sem málpípa flokksins síns.

Ég velti fyrir mér, af hverju fannst Kastljósinu ástæða til að vera með svona dæmigert 'með og á-móti' "setup" um þetta nánast dapurlega mál? Ástæðan fyrir því að ekki skyldu fleiri mæta fyrir utan Seðlabankann í morgun er ekki sú að langflestu fólki finnist ekki tímabært að senda Davíð í frí, heldur sú að fólk vill helst ekki þurfa að hugsa um hann.

Ég ætla að lesa skýrslu Gylfa og Jóns spjaldanna á milli. Hvet Davíð Oddsson til að gera það líka.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband