Færsluflokkur: Dægurmál
31.7.2014 | 23:16
Yfirgef Moggabloggið
Moggabloggið er því miður orðinn hræðilega leiðinlegur og dapur vettvangur. Ég ætla því að hvíla þessa síðu og taka mér hlé frá bloggskrifum. Kannski finn ég mér síðar annan vettvang ef áhuginn vaknar á ný. Ég vil aðeins útskýra af hverju ég er búinn að gefast upp á akkúrat þessum vettvangi.
1) Mjög einhliða skoðanir
Alltof margir af þeim sem hér eru eftir eru forpokaðir íhaldspúkar. Mikill meirihluti sem hér skrifar styður ríkisstjórnarflokkana, eru harðir andstæðingar ESB og með svona leiðinda þjóðrembutuð og útlendingaótta og fordóma. Flestir sem hér skrifa og kommentera virðast miðaldra eða eldri og áberandi skortur er á konum. Þær eru varla nema 5-10% hér á blogginu
2) Alltof mikill rasismi
Alltof margir eru hér að básúna ljótum og leiðinlegum rasistaskoðunum, og of fáir virðast kippa sér upp við það. Þessu tengt er furðulega hátt hlutfall heitra stuðningsmanna Ísraels í stríði því sem nú stendur yfir og þar sem Ísraelsmenn hafa murrkað lífið úr vel yfir þúsund óbreyttum borgurum og þar af yfir 200 börnum. Margir Moggabloggara telja þetta sjálfsagða "sjálfsvörn". Ég nenni ekki að rífast lengur við ykkur, þið gerið mig dapran og ég vil ekki eyða orku í ykkar ljótu og neikvæðu skrif. (Reynar voru þó nokkrir bloggarar sem yfirgáfu þessa skútu í rasismabylgjunni sem reið hér yfir í moskuumræðunni í borgarstjórnarkosningunum.)
3) Fátíðar gefandi umræður
Kommentasvæðin eru ekki notuð til rökræðna og heilbrigðra skoðanaskipta, heldur sitja sömu mennirnir og rausa og rausa, margir "peista" inn sömu langlokunum aftur og aftur við marga pistla, leiðinlegur tröllaskapur er áberandi og virðist vera að þeir helstu sem kommentera er fólk sem enginn myndi nenna að tala við augliti til auglitis.
4) Fáir lesendur
Moggabloggið er minna lesið nú en áður, a.m.k. eru miklu færri sem lesa það sem ég skrifa hér en var fyrir 5-6 árum síðan. Raunar hampar forsíða moggabloggsins miklu frekar ropgösprurum og rasistum en þessu kvabbi mínu.
Auðvitað eru undantekningar frá þessu. Einstaka menn er hægt að lesa til gamans og fróðleiks, Ómar Ragnarsson og Jens Guð koma upp í hugann. En hinir eru of margir, sem taka bara frá manni tíma við lesturinn, maður æsir sig upp, rífst kannski aðeins og skammast, en það er vita tilgangslaust því þverhausarnir sem hér skrifa skipta aldrei um skoðun.
Eigið góða helgi. Verið þið sæl!
Ljós í myrkri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.3.2014 | 20:06
Kostar 10 þúsund að hlusta á svikarann
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2014 | 11:28
Íslensk orðræða
Hverskonar drög að geðbilunarruglandi er það sem hrjáir þetta ESB fársjúka kratastóð, sem þessa dagana safnast saman á Austurvelli til að opinbera andlega fátækt sína, ofstæki og illkvittni? Þetta einkennilega fólk minnir einna helst á holdsveikisjúklinga fortíðarinnar, sem sagðir voru gjarnir á að ota fram kaunum sínum að vegfarendum á fjölförnum stöðum.
Svo mælti tæplega sextug íslensk húsmóðir, Anna Valvesdóttir, í kommenti við frétt DV af mótmælafundi á Austurvelli og ræðu Evu Maríu Jónsdóttur. Anna er sjálfsagt vænsta kona, en ekki er beint hægt að segja að hún reyni að skilja sjónarmið þeirra sem eru ósammála henni, þótt í þeim hópi séu eflaust ættingjar og vinir og samferðafólk.
Anna fékk fimm læk fyrir kommentið.
Er þetta leið til að tala saman?
- - - o - o o o - o - - -
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2014 | 09:34
Pása á 'Prime time'
Á heimilinu er oft hlustað yfir eldamennsku og kvöldmat á sex-fréttirnar í útvarpinu og Spegilinn sem kemur í kjölfarið, á Rás 1 eða 2. Nú er raunar búið að stytta tímann verulega, svo fréttir og Spegillinn taka samtals bara 30 mínútur.
Ég tók eftir því í vikunni að þegar stillt var á Rás 2 að á milli 18:30 og 19 rúlluðu bara íslensk lög án kynningar, með þulurödd af upptöku inn á milli sem upplýsti á hvaða stöð væri hlustað.
Óneitanlega finnst manni það bera vott um mikið metnaðarleysi af þeim sem þessu réðu að skera niður einn besta fréttaskýringaþátt fjölmiðla um helming. Hitt er líka mjög spes að á þessum tíma þegar ætla mætti að mjög margir séu með kveikt á útvarpinu, a.m.k. eru dýrustu auglýsingatímar útvarpsins sitt hvoru megin við sexfréttir, að vera ekki með neina alvöru dagskrá heldur bara lög til uppfyllingar, í hálftíma.
Þetta er eitt af mörgum merkjum þess að mikið skipulagsleysi og ringulreið virðist einkenna uppstokkun og endurskipulagningu útvarpsdagskrár.
Vonandi tekst að finna nýjan útvarpsstjóra sem getur leitt útvarpsrásirnar tvær úr þeim ógöngum sem nýhættur útvarpsstjóri kom þeim í. Og vonandi fær Spegillinn aftur ða njóta sín betur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2014 | 16:28
Stenst söguskoðun Forseta?
Ólafur Ragnar hélt athygli minni í ávarpi sínu, það er góður kostur ræðumanna. Eins og endranær vekur ræðan fleiri spurningar en hún svarar.
Ég velti til dæmis fyrir mér hvort söguskoðun Forseta fái staðist. Forseti segir svo í ávarpi sínu:
Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði.
Var þetta svo?
Margir eru sögufróðari en ég og gætu hjálpað til að rifja upp. Var það ekki svo að hér logaði allt í illvígum deilum í upphafi 20. aldar, um heimastjórnarmálið svokallaða? Heimastjórnarmenn á móti Valtýingum. Ég held að almenn samstaða á þessum árum hafi alls ekki verið fyrir hendi, og æsingur, flokkadrættir og skotgrafaorðræða ekkert ósvipuð og 110 árum síðar.
Hvað með stjórnarskránna 1874? Um tilurð hennar má lesa í greinargóðri samantekt Eiríks Tómassonar og fleiri frá 2005. Þar má lesa:
Á Alþingi árin 1867, 1869 og 1871 hafði stjórnin lagt fram stjórnarskrárfrumvörp sem í mörgum atriðum líktust stjórnarskránni sem konungur síðan gaf 1874. Ýmislegt í athugasemdum og tillögum Alþingis virðist hafa haft áhrif á útfærslu stjórnarskrárinnar í endanlegri gerð. Hins vegar náðist ekki samkomulag á milli Alþingis og stjórnarinnar um stjórnarskrána sjálfa og var hún því á endanum gefin einhliða af konungi, af frjálsu fullveldi hans, eins og það var orðað. Íslendingar voru ósáttir við þá aðferð sem viðhöfð var við að setja landinu stjórnarskrá. ...
Ekki heldur hér var um að ræða samstöðu.
Ég er ekki að segja að samstaða geti ekki verið til góðs. En algjör samstaða er engin forsenda framfara og erfið og flókin mál verða sjaldan leyst með einhverri kröfu um "samstöðu" heldur hafa slík mál oftar en ekki gagn af vandlegri og gagnrýnni yfirlegu og umfjöllun.
Fleira vakti athygli í ávarpi forseta, svo sem tal hans um norðurslóðir, sem ég einfaldlega skil ekki. Það er efni í annan pistil.
Úr "Ingólfi", 1906
Ólafur hvetur til samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2013 | 21:03
Páll vill ekki Rás 1
Nú rúmri viku eftir fjöldauppsagnir á Ríkisútvarpinu þar sem m.a. helmingur af dagskrárgerðarfólki á Rás 1 var látinn fara, langflestir samstundis, hefur útvarpsstjóri Páll Magnússon loksins gefið einhverjar skýringar á þessu, af hverju Rás 1 var reitt þetta bylmingshögg þegar rásin - fyrir þessa helmingun hennar - kostaði aðeins til sín 7% af tekjum stofnunarinnar.
Páli finnst Rás 1 ekki höfða til nógu margra. Dagskráin er of "þröng" og sérviskuleg segir útvarpsstjórinn.
Það má ekki hafa skírskotunina of þrönga, þetta heitir almannaþjónustuútvarp, þetta er ekki fámannaþjónustuútvarp og út á það gengur skilgreiningin á þessari starfsemi alls staðar í kringum okkur, ... það verður að vera almenn skírskotun í dagskrárgerð, en það má ekki breyta þessu í einhverja sérviskulega, þrönga dagskrá sem hefur ekki almenna skírskotun
Þetta er nú ekki mjög skýrt hjá útvarpsstjóranum, frekar loðið satt að segja, en altént einhverskonar hálfgildings skýring* á því af hverju hann (og, samkvæmt honum, einhverjir enn ónafngreindir og ósýnilegir "sviðsstjórar") ákváðu að henda út helmingnum af Rás 1. Við getum spurt okkur af hverju hann kemur með þessa skýringu fyrst núna, 10 dögum eftir uppsagnirnar.
*[viðbót, í viðtalinu sagði hann víst líka "Það er ákveðin týpa af dagskrárgerð sem við erum að hverfa frá".]
En bíðum nú hæg. Er þetta hlutverk Páls Magnússonar? Að ákveða hvernig dagskrá Rásar 1 skuli vera? Og reka fólk ef dagskráin er ekki nógu alþýðleg að hans mati? Ég heyrði sjálfur ekki ummæli Páls, en mér skilst að hann hafi ekki komið með nein dæmi um það sem honum fannst of "þröngt og sérviskulegt" á Rás 1.
Stjórnarformaður stjórnar RÚV virðist hins vegar ekki sammála því að það þurfi að gera meirháttar uppstokkun á efni og efnistökum RÚV, hann segir það vera "skýra stefnu stjórnar að engar meiriháttar breytingar verði gerðar á áherslum Rásar 1".
Hvað á stjórnin að gera við útvarpstjóra sem gengur í berhögg við stefnu stjórnarinnar??
Hvað fannst Páli vera of sérviskulegt á Rás 1? Beinar útsendingar af Sinfóníutónleikum? Verðlaunaðir vísinda- og fræðsluþættir Péturs Halldórssonar, tónlistarumfjöllun Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og fleira fólks, sem látið var fara?
Eða á dagskráin að vera minna "sérviskuleg" og höfða meira til fjöldans? Kannski bara spila vinsældalista hverju sinni og segja hvað klukkan sé á milli laga?
Þetta er ekki í lagi.
Þetta er mitt ríkisútvarp, jafn mikið og Páls Magnússonar. Hann má ekki sitja og skemma menningarstarf ríkisútvarpsins, bara af því að honum finnist það ekki samræmist hans hugmyndum hvernig skuli reka "fyrirtæki". RÚV á að vera miklu meira en það.
Björgum Rás 1.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2013 | 11:06
Ertu ekki Íslendingur?!
Fór að skokka í kvöld stuttan hring í Laugardalnum. Á göngustígnum austan við Grasagarðinn, nálægt Álfheimum, stöðvaði mig maður og spurði mig til vegar, en hann var að leita að Fram vellinum, með rúmlega hálffullt bjórglas í hendi og nokkur í maga, af fasi hans að dæma. Líklega hefur hann hitað upp fyrir leikinn í Ölveri í Glæsibæ.
Ég hugsaði með mér að það væri nú munur ef menn gætu hellt í sig öli við hlið vallarins eða á bar í stúkunni sjáfri, eins og fótboltafélögin vilja, þá þyrfti þessi maður ekki að ganga allan Laugardalinn á enda og eiga á hættu að týnast eða að skvettist úr glasinu.
Hann þakkaði mér kærlega fyrir leiðbeiningar en spurði svo nokkuð hvumsa, Af hverju ertu í svona bol? Er þetta ekki tyrkneskur bolur? Af hverju ertu í tyrkneskum bol? Ertu ekki Íslendingur, ha?
Jú mikið rétt, ég var með tyrkneska fánann á maganum. Keypti bolinn í Tyrklandsferð fyrir 6 árum og nota hann til að skokka í. Skemmtilega eldrauður og fáninn er myndrænn og flottur.
En ég var lagður af stað og svaraði ekki manninum. Hefði auðvitað getað sagt honum að ég væri hálfur Tyrki og hefði búið í Tyrklandi til 5 ára aldurs, eða að konan mín væri tyrknesk og börnin mín með tvöfalt ríkisfang.
En af hverju ætti ég svo sem að þurfa að réttlæta fyrir þessum manni í hvaða fatnaði ég hleyp?? Hvort sem ég er Tyrki eða ekki?
Öl er innri maður er sagt. Það er sannleikskorn í því. Menn eru hömlulausari, ófeimnari við að láta í ljós tilfinningar, skoðanir, og fordóma. Er sérstök þörf á að ýta undir það á knattspurnuleikjum?
Bolurinn sem stuðaði öl- og fótboltaunnandann.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2011 | 23:00
Næsti Forseti
Forseti lýðveldisins er um þessar mundir feykivinsæll. En það kemur að því að hann vilji sinna öðrum verkefnum, við getum ekki ætlast til að hann eyði ævihaustinu öllu í fórnfúst og erilsamt starf þjóðarleiðtoga. Heimildir mínar herma að háttsettir menn hjá Sameinuðu Þjóðunum horfi hýrum augum til hans sem fyrsta framkvæmdastjóra HIGPA, fyrirhugaðrar Jöklavarðveislustofnunar SÞ í Himalayafjöllum.
Hvort sem af því verður eða ekki verðum við fyrrr eða síðar að horfast í augu við að enginn leiðtogi ríkir til eilífðar og að við munum þurfa að finna verðugan arftaka.Við þurfum annan gáfaðan og framsýnan leiðtoga, stórhuga, djarfan, sem getur talið í okkur kjark. Fámenn þjóð eins og við megum ekki láta þjóðarhagsmuni villa okkur sýn. Dæmum ekki menn eftir þjóðerni! Það á að gilda sami réttur og sömu lög, að mínum dómi, af hálfu Íslands gagnvart allri heimsbyggðinni.
Við þurfum sterkan og einbeittan leiðtoga, sem getur og þorir að standa í hárinu gagnvart óvinveittum þjóðum Evrópu þegar Bandaríkin eru hvergi sjáanleg.Í þessu samhengi er mikilvægt að koma því á framfæri að engin ástæða sé til að óttast kínverska athafnamenn. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komist á framfæri svo menn fari ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi,
Huang Nubo fyrir Forseta!
Huang Nubo að lýsa aðdáun sinni á Íslandi
Ólafur Ragnar skipti um skoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2011 | 19:58
Ýkjufrétt af einstæðum atburði
Meira HÉR
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2010 | 18:51
Hvað ef dólgurinn Catalina hefði heitið Vitas Navrabutis ?
Skil ekki alveg hvað blaðamenn eru að hugsa sem birtu nú undanfarna daga klígjugjarnar sögur af hjartagæsku glæpakvendisins Catalinu Ncoco. Þessar fréttir DV og visir.is segja frá því hversu miklir vinir hennar vændiskaupendur voru, sem hún kallaði elskhuga í einhverri fréttinni. Einhver þeirra kom með unglingsson sinn með sér, svo sá gæti kynnst konum. Oj barasta.
Henni þykir vænt um sína viðskiptavini sem hún lítur á sem vini sína hún er í þessu til að gleðja
hafa blaðamennirnir og rithöfundarnir tveir eftir henni, sem skrifa jólaviðtalsbókina við konuna. Eru mennirnir með réttu ráði?? Hverja var hún að gleðja? Stelpurnar sem hún blekkti hingað, hótaði og seldi í vændi?
MEIRA HÉR
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)