Færsluflokkur: Fjármál

Meðalfjölskylda greiðir 150 þúsund á ári til RÚV!

Meðalfjölskylda sem er aðeins stærri en meðalstærð, með tvo foreldra og sex útivinnandi unglinga í heimili á aldrinum 16-30 ára greiðir sem nemur 150.400 kr á ári í nefskatt til RÚV. Ef þessir átta útivinnandi einstaklingar meðalfjölskyldunnar eru ekki á meðallaunum heldur eru á lágmarkslaunum þá jafngildir þetta nær heilum nettó mánaðarlaunum eins úr fjölskyldunni.

Þetta er rosalega mikið! segir þingmaðurinn Brynjar Níelsson, sem er sko enginn meðalmaður, þegar kemur að tölfræði.

  Spock_2267

 


57% hærri greiðslubyrði - samt ódýrara

Ríkisstjórnin núverandi hefur á stefnuskrá sinni að "afnema" verðtryggingu, og vill að sem flestir lántakendur húsnæðislána geti breytt verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð.

Nú hafa óverðtryggð lán staðið húsnæðiskaupendum til boða síðustu misseri og eru víst töluvert vinsælli hjá bönkum en verðtryggð lán.

Ég prófaði að reikna út hvernig lán myndu koma út hjá mínum viðskiptabanka, Íslandsbanka, 20 milljón króna lán, verðtryggt annars vegar og óverðtryggt hins vegar. 

 

Óverðtryggt lán

Sé lánið tekið sem jafngreiðslulán er mánaðarleg endurgreiðsla 134.487 kr

7.70% vextir eru fastir til þriggja ára, en eftir það breytilegir. Þeir eru í boði fyrir 70% af fasteignamati, vilji kaupandi hærra lánshlutfall eru vextir hærri (8.6%) fyrir umfram lánið. Það eru líka í boði lán með breytilegum vöxtum strax frá upphafi, sem nú eru 6.75%, þá er mánaðarleg greiðslubyrði 120.606 kr.

 

Verðtryggt lán

Verðtryggt lán ber 3.95% nafnvexti, sem bankinn má endurskoða að 5 árum liðnum og þá eru þeir breytilegir. Mánaðarleg endurgreiðsla byrjar í 83.724 kr. Meðalgreiðsla fyrstu 12 mán. miðað við 4.6% verðbólgu er 85.327 kr.

Greiðslubyrði óverðtryggðu lánanna fyrsta árið er því 57.6% eða 41.3% hærri, eftir því hvort valið er lánið með föstum vöxtum til þriggja ára eða með breytilegum vöxtum strax frá upphafi.

 

Hvort er ódýrara?

Síðustu 18 mánuði hefur verðbólga að meðaltali verið 4.6%, það þýðir að heildarvextir á verðtryggðu láni eru í raun 8.6%. Það eru umtalsvert hærri vextir en á óverðtryggðu lánunum. Óverðtryggðu lánin eru því ódýrari. Munurinn í dag á þessum lánum að ofan er 0.9% eða 1,85%. Sá vaxtamunur jafngildir á 20 milljón króna láni ca. 180.000 kr eða 370.000 kr á ári, eftir því hvort tekið er lánið með 7.70% eða 6.75% vöxtum. (Munurinn er í raun aðeins meiri, því verðbæturnar (sem ég vil kalla hluta heildarvaxta) bætast við höfuðstól í hverjum mánuði, og því bætast að auki við vaxtavextir.) 

Þannig er verðtryggða lánið dýrara sem nemur 15-35.000 kr á mánuði, þó svo greiðslubyrðin á mánuði sé 35-50.000 kr lægri!

 

Af hverju er greiðslubyrði svona miklu lægri á verðtryggða láninu?

Af því í raun ertu að taka lán með (í dag) 8.60% vöxtum, en þú borgar bara tæplega helming vaxtanna jafnóðum, hinn rúmlegi helmingurinn bætist við höfuðstólinn - þú ert að taka viðbótarlán í hverjum mánuði fyrir helming heildar vaxtagreiðslunnar!

 

Eru óverðtryggð lán "varasöm"?

Þau eru varasöm ef þú ræður illa við að greiðslubyrðin gæti hækkað t.d. um 20-40%, ef almennt vaxtastig hefur hækkað eða ef verðbólga er veruleg þegar bankinn endurskoðar vexti. Þá gæti 120 þúsund króna afborgunin skyndilega hækkað í 150.000 kr á mánuði.

En ef þú ræður við hærri greiðslubyrði OG hefur auk þess svigrúm til að ráða við umtalsverða hækkun á greiðslubyrði þá eru óverðtryggðu lánin ótvírætt hagstæðari í dag. 

 

Verða óverðtryggðu lánin alltaf hagstæðari?

Það er ómögulegt að segja. Ef verðbólga skyldi detta niður í t.d. 2-2.5% þá eru heildarvextir verðtryggða lánsins komnir niður í 6-6.5%.  En ef verðbólga helst stöðug í slíkum tölum er líklegt að óverðtryggðu vextirnir myndu smám saman lækka líka. (Og það er undantekning í sögu lýðveldisins að verðbólga sé svo lág.)

 

Eru einhverjir kostir við verðtryggð lán?

Já vissulega. Lánin hafa tvo kosti. Í fyrsta lagi er greiðslubyrði lægri en fyrir óvertryggðu lánin, og munar þar umtalsverðu. Ef þú vilt fá sem mest að láni með sem lægsta greiðslubyrði er verðtryggt lán betri kostur. (En það þýðir að þú ert að bæta við lánið í hverjum mánuði, þú færð í raun samtals mun meira lánað, í lengri tíma og borgar þar af leiðandi hærri upphæð í vexti, fyrir utan það að vextirnir sjálfir eru hærri.)

Verðtryggða lánið hefur í öðru lagi þann kost að greiðslubyrði sveiflast mun minna en hún gæti gert í tilviki óverðtryggðs láns. Ef það kemur langvarandi aukin verðbólga með t.d. 5-7% verðbólgu hækkar greiðslubyrðin lítið (þó svo vissulega hækkar höfuðstóllinn). En bankinn gæti tekið uppá því að hækka vexti á óverðtryggða láninu þínu úr t.d. 6.75% í 9.5%. Það þýðir að greiðslubyrðin gæti skyndilega hækkað um 40-50%, segjum úr 120.000 kr á mánuði í 170.000 kr á mánuði.

 

Verðtryggð lán hafa vissulega kosti, en þeir eru dýru verði keyptir. 


Hvað gera þeir sem FREKAR vilja verðtryggt en óverðtryggt??

... eins og þingmaðurinn Karl Garðarsson, og eflaust fleiri, sem vilja frekar lægri greiðslubyrði sem fylgja verðtryggðum lánum, þó svo heildarkostnaður við þau lán sé hærri (fyrst og fremst vegna þess að hver króna er lánuð til lengri tíma, og þess vegna bætast við meiri vextir)

 

Hér er endurbirt grein frá því fyrir kosningar:

Framsóknarmaður vildi frekar verðtryggt lán!

Karl Garðarsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann kvartar undan því að verðbætur hafi bæst við verðtryggða lánið hans síðustu mánaðarmót. Af því tilefni skrifaði ég komment við grein hans:

Já en Karl, þér stóð til boða óverðtryggt lán! Þú sagðir sjálfur frá því í grein 15. febrúar sl. En þú vildir það ekki, því það var “of dýrt”. Þú vildir ekki borga alla vextina jafnóðum, heldur KAUST SJÁLFUR að taka verðtryggt lán, en þannig borgarðu í raun bara hluta vaxtanna núna (sjálfa nafnvextina) en geymir hluta vaxtanna (verðbæturnar) til síðari tíma. Þannig virka verðtryggð lán og hafa alltaf gert. Þú hlýtur að vita það?

Vissulega eru breytingarnar á höfuðstólnum sveiflukenndar, en það gerir lítið til, því afborgunin er nánast sú sama milli mánaða. Þennan síðasta mánuð hækkaði vissulega vísitalan þó nokkuð, en miklu minna tvo mánuðina á undan, Hvað hækkaði lánið þitt mikið fyrir 2 mánuðum, eða 3 mánuðum síðan? Fyrir nokkrum mánuðum lækkaði raunar vísitalan, og þá lækkaði lánið þitt! En þú skrifaðir ekki blaðagrein um það.

Ég hreinlega botna ekkert í því hvað þið Framsóknarmenn viljið. Viltu “banna” verðtryggð lán? (Það er samt ekki í stefnu xB, er það?) En verða þá ekki allir að taka óverðtryggð lán, sem þú sjálfur vildir EKKI taka!

Þú hefðir líka getað tekið lægra lán, og keypt aðeins ódýrara húsnæði. En það hefði verið mjög óíslenskt. Mjög ó-framsóknarlegt.

Þessa grein skrifaði ég í febrúar handa þér og öðrum Framsóknarmönnum, sem hafa ekkert lært:

Fjármálaráð til Framsóknarmanns

 


mbl.is Varar við afnámi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sluppum með skrekkinn

Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave málinu kom mörgum Íslendingum þægilega á óvart. Fyrirfram þorðu fáir að spá fyrir um útkomuna. Voru sumir farnir að undirbúa sig undir það að málið myndi tapast, eins og Forseti Íslands. Hann talaði um það í útlöndum að þetta væri ekki bindandi dómstóll og að dómurinn yrði bara ráðgefandi álit. Þetta hafa þó fræðimenn staðfest að var misskilningur Forseta eða vísvitandi rangfærslur.

Ég hef skrifað ófáa pistla um Icesave síðustu 3-4 ár. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa frekar hallast að því að um þetta mál ætti að semja. Eðlilega velti ég því fyrir mér hvort ég hafi haft rangt fyrir mér. En ég lít ekki þannig á. Þegar reynt er að meta líkur á ýmsum lögfræðilegum matskenndum atriðum skiptir ekki bara máli hvort sagt er 'Já, ég held að þetta muni gerast' eða 'Nei, ég tel þetta ólíklegt', heldur skiptir yfirleitt ekki minna máli hvernig svona mat er rökstutt. Lögfræðiálit sem segir bara eða Nei er lítils virði.

Þegar ég lít tilbaka og rifja upp mín skrif um Icesave er ég prýðilega sáttur við þann rökstuðning. En það var eitt það sem helst  skorti í Icesave umræðunni, að fólk gerði sér grein fyrir því að gagnaðilar málsins höfðu ýmis rök sín megin. (Af ýmsum ástæðum gerðu íslensk stjórnvöld lítið af því að skýra slík rök og yfirhöfuð rökstyðja samningsleiðina, við áttum bara að treysta því að þau væru að velja skástu leiðina. Og það er varasamt, að treysta sjórnvöldum í blindni.)

Ég vil sérstaklega rifja upp síðasta pistil minn um Icesave (að ég held), frá 10. mars 2012. Þar reyni ég að útskýra að það hafi vissulega falist ákveðin mismunun í meðhöndlun innlánsreikninga við fall gamla Landsbankans - sumir voru fluttir yfir í nýja Landsbankann (með eignum á móti þessum skuldum bankans) en aðrir voru skildir eftir í gamla bankanum. Það er óumdeilt að það er ekki eins meðhöndlun, og kom sér verulega illa fyrir Icesave sparifjáreigendur, eða þar til stjórnvöld Bretlands og Hollands tilkynntu að þau myndu greiða út fulla tryggingu (bæði þá sem TIF átti að dekka og „Top-up“ tryggingu sem þarlendir sjóðir dekkuðu).

Eins og ég útskýri í pistlinum ársgamla má vissulega segja að þessi mismunun hafi verið óhjákvæmileg. Spurningin sem eftir stóð var hvort íslensk stjórnvöld myndu ekki þurfa að bæta hana upp að einhverju leyti. Segir EFTA-dómurinn að þetta hafi verið í lagi? Nei. Það er tekið fram í dómnum að akkúrat þessari spurningu sé ekki svarað, því sóknaraðili gerði ekki kröfu um að fá úr þessu skorið. Þetta segir í dómnum:

221 The applicant has limited the scope of its application by stating that “the present case does not concern whether Iceland was in breach of the prohibition of discrimination for not moving over the entirety of deposits of foreign Icesave depositors into ‘new Landsbanki’, as it did for domestic Landsbanki depositors.

The breach is constituted by the failure of the Icelandic Government to ensure that Icesave depositors in the Netherlands and the United Kingdom receive payment of the minimum amount of compensation provided for in the Directive ...”

Af einhverjum ástæðum sem við í sjálfu sér getum bara giskað á en vitum ekki kaus ESA að kæra ekki Ísland fyrir brot á EES samningnum vegna þessarar ástæðu, að Icesave innistæður voru ekki fluttar yfir í nýja bankann með sama hætti og innlendar innistæður.

Dómurinn minnist svo raunar aðeins frekar á þetta og gefur í skyn að þótt kæran um mismunun hefði verið orðuð öðruvísi þyrfti að taka tillit til að EES-aðildaríki hafi ríkulegt svigrúm til ákvarðana í tilviki kerfislægs áfalls og ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

227 For the sake of completeness, the Court adds that even if the third plea had been formulated differently, one would have to bear in mind that the EEA States enjoy a wide margin of discretion in making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis provided that certain circumstances are duly proven. This would have to be taken into consideration as a possible ground for justification.

Kannski vildi ESA einfaldlega ekki leggja út í vafasama óvissuferð sem myndi óneitanlega snúast mjög sértækt um efnahagsaðstæður í bankahruninu og strax eftir hrunið og hvort íslensk stjórnvöld hefðu mátt grípa til neyðarráðstafana og hvort slíkar ráðstafanir gengu of langt.

 

Núna eftirá getum við vissulega sagt að það kom sér vel fyrir okkur að ESA fór ekki þessa leið. Því við vitum ekki hver útkoman hefði verið úr slíkri krufningu fyrir EFTA-dómstólnum. (Nema Framsóknarmenn og Moggabloggarar.) Það má draga ýmsan lærdóm af þessu máli. Um það verður kannski fjallað síðar.


Fréttnæmt!

að næðstæðsti leiðtogi Bandaríkja Norður-Ameríku þurfi að taka fram í heimsókn til þeirra helsta lánaþrottins að þeir munu greiða upp lán sín!
mbl.is Biden: Bandaríkin lenda aldrei í greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEI þýðir að Ísland verður fátækara

Hvað þýðir það ef NEI verður ofan á?

Ísland verður fátækara. Og leiðinlegra. Og einangraðra.

Við munum eyða dýrmætri orku í þetta mál næstu árin, orku sem gæti nýst í uppbyggingu og framfarir.

Það verður líklegra en ella, að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur tapist í hendur erlendra lánadrottna.

Ef NEI verður ofan á, þýðir það að meirihluti landsmanna hefur ekki skilið hvernig Nýi Landsbankinn var búinn til úr þeim gamla, hvernig innistæður Íslendinga voru teknar út úr þrotabúinu (ekki úr ríkissjóði!) þrotabúi sem sumir vilja svo láta Bretum og Hollendingum eftir, þegar við erum búin að taka það sem okkur hentar.

Nei þýðir stöðnun.

Nei þýðir að hér ríkir stjórnlagakreppa, Ísland er land sem ekki er hægt að semja við, því enginn veit hver ræður. Ekki er hægt að treysta loforðum og samþykktum lýðræðislega kjörins meirihluta Alþingis.

Nei þýðir afturför.

Ég segi - fyrir framtíðina. Fyrir Ísland. Fyrir samvinnu þjóða.


Icesave - Þess vegna á að semja

Nokkur hundruð manns hafa lesið seinasta pistil minn og enn hefur enginn bent á nein rangindi eða misskilning. Ég hef tekið nokkurn þátt í umræðum á netinu og komið þessum sjónarmiðum og staðreyndum á framfæri annars staðar og fengið yfir þvílíka skæðadrífu af skömmum að ég hef sjálfur aldrei upplifað neitt þvílíkt. Bloggsamfélagið íslenska, a.m.k. afkiminn á blog.is, er ekkert að fara að taka uppá siðuðum umræðum þar sem hlustað er á mótrök og þau vegin og metin og svarað með rökum. Bjóst Forseti Íslands við því?

Ég er harðlega gagnrýndur fyrir að sýna engan skilning á neyðarétti þjóðarinnar. Ég skal fúslega útskýra af hverju ég tel ítrustu kröfur "Nei-sinna" ekki standast, og af hverju ég tel einsýnt að "dómstólaleið" sé röng leið.

Meira HÉR


mbl.is Áhættan af dómsmáli meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágvær mótmæli ungliða

Fáeinir mótmæla nú birtingu álagnarskrárinnar. Það er af sem áður var, þegar stuttbuxnaungliðar fjölmenntu á skattstofu og reyndu að hindra aðgang fólks að skránum sem nú liggja frammi næstu tvær vikur. Hugtakið "launaleynd" heyrðist vart fyrr en svona áttatíu-og-eitthvað, hluti af frjálshyggjubólunni sem þá reið yfir. Launaleynd gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum kunnir, launatöflur og kjarasamninga má núorðið finna á netinu. Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir ári, rétt að rifja hann upp, í ljósi frétta af furðulega háum launum yfirmanna sumra íslenskra fyrirtækja, meðal annars fyrirtækja sem hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir:

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.

Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: "Hættum að snuðra í einkamálum annarra". Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó "ekki nema" 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.

Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að "þetta komi okkur ekkert við".

Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborg, ósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.

Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.

Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekkihundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.

Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja?


Stökkbreytt lán? Stökkbreytt laun?

Fyrir nokkrum árum voru fáein fyrirtæki – útflutningsfyrirtæki – sem buðu starfsfólki sínu að þiggja hluta launa sinna í erlendum gjaldmiðli, t.d. Marel hf. Þannig gátu menn fengið t.d. 20 eða 40% launa sem fasta Evruupphæð. Þetta var talið upplagt til að núlla út áhættu af skuldsetningu í erlendri mynt. Hér er frétt um málið frá 2006. Og önnur nýrri frétt frá því í febrúar 2008 þar sem aftur er talað um að starfsmenn fyrirtækisins eigi þennan valkost, en þar sem bankar hafi ekki boðið upp á útborganir í Evrum hafi launin verið Evrutengd.

SPURNING: Vita einhverjir lesendur hvort boðið sé uppá svona hlutalaun enn í dag, miðuð við fasta upphæð í erlendum gjaldeyri?

Ætli þessi starfsmenn líti svo á þessi hluti launa sinna hafi stökkbreyst??

Líkingarmál um stökkbreytingar kemur úr líffræði. Ég held þó að líkingin sé ekki alls kostar rétt. Þessi lán hafa alls ekki stökkbreyst. Sé miðað við þann gjaldeyri/gjaldeyris-”körfur” sem lánin miðuðust við standa þau nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir. Það er bara þegar farið er að reikna lánin yfir í örmyntina íslenska krónu sem lánin “stökkbreytast”.

Það voru nefnilega alls ekki lánin sem stökkbreyttust, það var krónan sem stökbreyttist.

Önnur líking vísinda á betur við, það eru hnitakerfi stærðfræðinnar. Við lifum og hrærumst í einu hnitakerfi og eðlilega miðum við flesta hluti út frá því. Séð frá okkar ör-hnitakerfi hefur ýmislegt stökkbreyst, svo sem verðið á kaffibollla á Strøget í Kaupmannahöfn, svo ekki sé talað um miða á fótboltaleiki í Bretlandi, vinsælt tómstundagaman 2007. En kaffið í köben kostar álíka margar krónur nú og 2007, danskar krónur. Þær breyttust ekki neitt, í sínu hnitakerfi.


Hvað hefði FME gert?

... ef FME hefði brugðist við og skoðað þessa samninga?

Jú, þá hefði kannski FME gert þá athugasemd að þorri þessara lána til einstaklinga a.m.k .virtust vera íslensk lán, en með fasta viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla.

FME hefði svo átt að komast að þeirri niðurstöðu að það væri óheimillt. Bankarnir mættu auðvitað veita erlend lán, en ekki gengistryggð íslensk lán.

Þá hefðu bankarnir líklega tekið sig til og breytt orðalagi og formi lánanna, tekið fram lánsfjárhæð í erlendum gjaldeyri, jafnvel búið til gjaldeyrisreikning fyrir hvern lánþega og millifært lánið inn á slíkan reikning og millifært svo um hæl inn á íslenskan krónureikning lánþegans.

Þá hefðu þessi lán verið alveg lögleg en að öðru leyti virkað nákvæmlega eins! Engir Hæstaréttardómar hefðu fallið, og lánþegar sætu nú ekki fagnandi.

Svo lánþegar "erlendra" lána, sem voru bara íslensk gengistryggð lán, ættu að fagna framtaksleysi FME!


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband