Mestu mistök stjórnarinnar í IceSave málinu?

Það er hálfdapurlegt fylgjast með orðræðunni sem hæst lætur, hér í netmiðlum og víðar í samfélaginu í hinu ömurlega IceSave máli. Það dapurlega er þó ekki ömurleiki málsins, heldur það hversu fullir heift margir landsmenn eru hvor útí aðra. Þá á ég sérstaklega við þá heift sem margir sýna núverandi stjórnvöldum.Þessa stuttu athugasemd má finna við nýlega bloggfærslu Stefáns Friðriks Stefánssonar:

Þessir aumingjar sem stjórna landinu eru vísvitandileyna okkur plöggum sem sýna og sanna að Davíð hefur rétt fyrir sér! (Eins og raunar alltaf!)Þau vilja frekar að við greiðum fleiri hundruð milljarða heldur en að við gerum það ekki, í tvennum tilgangi:
 
- til að sanna hvað Sjálfstæðisflokkurinn fór ömurlega með landið og draga úr fylgi xD,
- til að neyða okkur inn í ESB.
 
Ljótt er það!
 

Ég skrifaði sjálfur þessa athugasemd. Hún er sett fram í háði. En ég veit ekki hvort bloggarinn Stefán Friðrik og lesendur hans hafi áttað sig á því, svo það tilkynnist hér með.

Er það virkilega svo, að margir landsmen telji að stjórnmálaleiðtogar okkar séu vísvitandi að leggja á okkur gífurlegan skuldaklafa og halda aftur upplýsingum sem bæta myndi stöðu Íslands? Það er dapurlegt.

Ég held að mestu mistök stjórnvalda í þessu máli séu að leysa þetta ekki þvert á flokkslínur.

Ég ætla sjálfur hins vegar alls ekki að dæma Svavar Gestsson, og finnst margir henda fram í fljótfærni órökstuddum palladómum. Er 65 ára gamall fyrrum flokksleiðtogi og ráðherra sem stóð í eldlínu stjórnmála ekki með reynslu til að tala máli Íslands? Er ekki ljóst að Bretar og Hollendingar líta á þetta meira sem pólitískt og siðferðislegt mál, frekar en lögfræðilegt, og er því ekki upplagt að senda pólitískan erindreka með sannfæringarkraft?

Hins vegar átti að senda einhver með Svavari sem hinn helmingur þjóðarinnar gæti treyst, sá helmingur sem fyrirfram myndi alltaf vantreysta Svavari.  Og hugsanlega hefði þjóðstjórn þurft til að ljúka þessu máli, því lausnin verður aldrei "ásættanleg".

Það er nefnilega alltof freistandi fyrir stjórnarandstöðu að leyfa stjórnarmeirihlutanum að bera alfarið ábyrg á lyktum málsins og reyna að slá sig til riddara með stórkallalegum yfirlýsingum um hörmungarhliðar málsins. Málir er til þess fallið.  


Í þriðja sinn...

kemur Davíð Oddsson sem hin mikla véfrétt með þrumuyfirlýsingar, og rökstyður mál sitt með þeim rökum helstum að til séu gögn sem hann viti um, en almenningur geti ekki fengið að sjá, eða þau séu bundin trúnaði, eða einhver vilji fela þau, en þau sanni hann hafi rétt fyrir sér og allir hinir hafi rangt fyrir sér.

Davíð talar

Væntanlega er samsæriskenningin sú að Geir Haarde, Árni Matthiesen, Ingibjörg Sólrún, Steingrímur Jóhann, Jóhanna Sigurðardóttir, Gylfi Magnússon og fleiri og fleiri og fleiri leyni þessum gögnum vísvitandi vegna þess að þetta vonda  fólk vilji frekar að við greiðum nokkur hundruð milljarða heldur en að við gerum það ekki. Að þau vilji veg Íslands sem verstan til að geta áfram kennt honum og Sjálfstæðisflokknum um allt saman og til að neyða okkur inn í Evrópusambandið sem verði að koma og bjarga okkur.

Veit ekki með með ykkur, ég nenni ekki að hlusta - enn einu sinni.


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppfinningamaðurinn Michael Jackson

Listamaðurinn og skemmtikrafturinn Michael Jackson lést langt fyrir aldur fram í liðinni viku. Aðrir munu rifja upp hans merka tónlistarferil og á köflum ansi dapurlega líf. Ljóst er að Michael var hæfileikaríkur og lagði sig fram í starfi sínu og var geysimikill fagmaður.

Fáir vita að Michael Jackson er skráður uppfinningamaður á bandarísku einkaleyfi. Einkaleyfið er númer 5,255,452 og var útgefið 1993 og verndar uppfinningu sem Jackson er einn þriggja uppfinningamanna að, nánar tiltekið sérstaka skó sem hægt er að krækja í gólf til að halla sér framfyrir sig.  Á netinu er vísað til einkaleyfisins af einkaleyfanördum sem "Moonwalking" einkaleyfi Michael Jacksons. En eins og aðdáendur poppstjörnunnar sálugu vita er tungldansinn allt annar hlutur og þarf enga slíka töfraskó í slíkt. Uppfinningin var hins vegar örugglega notuð í myndbandinu við lagið "Smooth Criminal".

 

Einkaleyfið er ekki lengur í gildi enda ólíklegt að þessir skór hafi verið fjöldaframleiddir. Eins og sést á neðangreindum myndum úr einkaleyfinu er uppfinningin sára einföld, rauf í hæl skónna getur krækst í nagla eða tappa í gólfi, sem þarf að vera búið að koma fyrir á sviðinu þar sem nota á skónna.

Einkaleyfið má skoða í heild sinni á aðgengilegum einkaleyfavef Goggle.

Einkaleyfi Michael Jackson

jackson2.jpg

jackson1.jpg

jackson3.jpg

 


Bankar reknir með 8 milljarða tapi á mánuði?!

Ansi ítarlegt og gott viðtal birtist við bankaráðgjafann sænska Mats Josefsson í Fréttablaðinu fyrir helgi, nánar tiltekið fimmtudaginn síðasta 25. júní, eftir Jón Aðalstein Bergsveinsson. Þetta er fróðleg lesning og Mats er ekkert feiminn að gagnrýna bæði núverandi og fyrrverandi stjórnvöld fyrir seinagang. Þarna segir m.a.:

Frá upphafi hefur legið fyrir að unnið verði eftir hugmynd um að sett verði á fót eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem veiti bönkunum ráðgjöf vegna mikilvægra fyrirtækja sem eiga í miklum rekstrarerfiðleikum. Þá hafi verið stefnt að því að eignarhaldsfélag verði sett á laggirnar sem haldi utan um hlut ríkisins í bönkunum. [...]

Mats reiknar með að félagið geti litið dagsins ljós á næstu vikum: "Ég skil ekki hvers vegna þetta hefur tekið svona langan tíma. [...] Síðastliðnar tvær til þrjár vikur hafa verið stigin jákvæð skref. Þetta eru stór og mikilvæg skref í rétta átt."

"Í mínum augum er það samt ráðgáta hvers vegna fjármálaráðuneytið vann ekki hraðar í málinu."

Ofangreint er svo sem ekki nýtt. Fjöldamörg stór fyrirtæki eru komin í fangið á bönkum eða bíða svara frá bönkunum um örlög sín, og alls óvíst hvaða stefnu bankarnir skulu fylgja.

En það var þó þetta sem mér fannst mest sláandi:

Mats Josefsson segir varasamt að reka bankana í núverandi mynd. Misvægi á eignastöðu þeirra gömlu og nýju sem myndaðist við uppskiptingu þeirra valdi því að þeir séu reknir með miklu tapi í hverjum mánuði. Spurður hvort tap þeirra þriggja liggi nálægt átta milljörðum króna á mánuði segir hann það ekki fjarri lagi.

"Þetta verður að stöðva. Það er ekki flókið enda verður annað hvort að auka tekjur eða draga úr útgjöldum. Það var nauðsynlegt að gera þetta þegar ríkið tók bankana yfir en var ekki gert," og bætir við að enn sé ekki búið að ákveða í þaula hvernig bankakerfi muni verða hér í framtíðinni.

Ég tek heils hugar undir orð Mats. 

Það kostar um 13-14 milljarða að klára tónlistarhúsið, en samkvæmt ofangreindu tapast sú upphæð í rekstri bankanna þriggja á 6 vikum. 8 milljarða tap  er um 25.000 krónur á hvern Íslending - á mánuði - kornabörn jafnt sem atvinnulausa. Á þetta að rúlla svona áfram út árið? Þetta er væntanlega aðallega munur á inn- og útvöxtum, sparifjáreigendur liggja með sitt fé í bönkunum (enginn á lengur hlutabréf!) og fengu himinháa innlánsvexti allt haustið og framan af árinu sem hafa þó snöggtum lækkað, en enginn þiggur ný útlán hjá bönkunum á enn hærri útlánsvöxtum.

Hvar lendir svo tapið? Þetta eru jú ríkisbankar!

peningar

Peningar okkar halda áfram að flögra í burtu.


Trúfélagalausir hætta að greiða sóknargjald til HÍ - núna beint í ríkissjóð

Ég hjó einmitt eftir þessu þegar tillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar fyrir helgi, að þeir sem standa utan trúfélaga eiga nú ekki lengur að greiða sóknargjöld til Háskóla Íslands. Loksins loksins hugsaði ég og eflaust fleiri. Mig minnir að einhverjir VG liðar höfðu haft orð á þessu fyrir kosningar svo kannski væri bara hér verið að efna kosningaloforð. Skildi þó ekki hvernig þetta ætti heima í pakkanum um ráðstafanir til að bæta stöðu ríkissjóðs. En það kemur nú fram í þessari frétt.

Þeir sem standa utan trúfélaga þurfa nú ekki lengur að greiða sóknargjald til Háskóla Íslands, sem hlýtur enda að teljast ansi furðuleg ráðstöfun. Þess í stað greiða þeir nú sóknargjaldið bara beint í ríkissjóð.

Sem sagt, tæp 80% þjóðarinnar greiða sóknargjöld til sinnar þjóðkirkjusóknar, margir greiða sóknargjöld til frjálsra trúfélaga, sem að flestu leyti starfa eins og hver önnur félagasamtök, nema hvert félag sameinast um trú á einhverju yfirnáttúrulegu fyrirbæri,og þriðji hópurinn, sem ekki er í neinum söfnuði, hefur svo greitt sóknargjöld til Háskólans (ekki val um HR eða Bifröst!)

Ég er sjálfur ekki í þjóðkirkjunni en starfa í frjálsum félagasamtökum, er virkur söngvari í kór og greiði að auki félagsgjöld m.a. til Rauða krossins og Íslandsdeild Amnesty. En ég get víst ekki látið mitt sóknargjald renna til þessara félagasamtaka. Kannski ætti kórinn segjast trúa á sönggyðjuna og skrá sig sem trúfélag?

Öðruvísi trúfélag - Star Trek kirkjan, í Lynchburg í Virgínu.


mbl.is Telur mannréttindi skert í nýjum lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smásaga um Iceslave fólkið

ICESAVE- Já eða Nei?

Ísfólkið

Einu sinni bjuggu á litilli eyju tuttugu fjölskyldur, í einu stóru raðhúsi. Ein fjölskyldan var mjög klár og góð með sig. Köllum hana Ísfólkið. Unglingarnir í Ísfólksfjölskyldunni voru baldnir og uppátektarsamir. Þeir brugguðu meðal annars landa í kjallaranum og seldu krökkunum í hinum fjölskyldunum. Voru svo sniðugir að þeir voru búnir að selja landabirgðir til næstu tveggja ára sem raunar átti eftir að framleiða. En þeir voru búnir að fá greitt fyrir með peningum sem hinir krakkarnir höfðu ýmist safnað saman eða stolið frá foreldrum sínum.

Svo sprakk landaverksmiðjan og hálft raðhúsið með. Ísfólksfjölskyldan þarf að hýrast í tjaldi og borga fyrir ný hús handa hinum tíu húsnæðislausu fjölskyldunum, áður en þau geta byggt þak yfir höfuðið á sjálfum sér. Svo þurfa þau að borga tilbaka pening fyrir peninginn sem hafði verið greiddur fyrir landann sem aldrei var búið að framleiða, þó svo hluti peninganna brann til kaldra kola og enn annar hluti fauk út í veður og vind. Það er þó vonast til að sá hluti skoli á land með tíð og tíma.

Ísfólkið sendi einn samningamann til fundar við hina eyjarskeggjana. Eftir nokkuð þras var fallist á að þau mættu greiða upp skuldina á sjö árum og þyrftu bara að borga helminginn í húsunum sem fuðruðu upp.

Ísfólkið er samt sem áður hundsúrt. Því finnst að það eigi ekki að bera ábyrgð á unglingunum, sem faktískt voru nýorðnir 18 ára og því sjálfráða, segja Ísfólksforeldrarnir. Yngri systkinin eru reiðust, þau vilja boða til fjölskyldufundar og greiða atkvæði um það hvort greiða skuli hina meintu skuld. Eða fara í mál við hina eyjaskeggjana, sem áttu fjandakornið að bera ábyrgð á sínum börnum sjálfir. En nágrannarnir taka það ekki í mál.

Það veit enginn hvað gerist ef þau nú segja NEI. Á að biðja um nýjan samning? Eða senda annan samningamann?

Eða bara einangra sig frá hinum og lifa bara í tjaldinu það sem eftir er? 


"Jákvæð mismunun" í Verzló

Í frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins í dag er haft eftir Þorkatli Diego, yfirkennara Verzlunarskóla Íslands, að til að fá betra kynjajafnvægi í nýnemahópinn í haust hafi piltar þurft lítillega lægri lágmarks meðaleinkun til að fá inngöngu í skólann heldur en stúlkur. Þetta er auðvitað nokkuð athyglisvert. Ekki er greint frá því hversu miklum munar á lágmarskeinkuninni milli pilta og stúlkna.

"Jákvæð mismunun" eða "kynjakvótar" af þessu tagi þekkist auðvitað víðar, til dæmis í nýlegum lögum sem kveða á um lágmark 40% hlutfall af hvoru kyni í öllum nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Margir þeir sem flokkast hægra megin í pólitík og aðhyllast frjálslynda einstaklingshyggju eru alfarið á móti slíkum leiðréttingum og jöfnunaraðgerðum. Slíkar skoðanir eiga ekki síst hljómgrunn meðal þeirra sem útskrifast úr Verzló. Þess vegna er fréttin frá Verzló nokkuð skondin.

Ætli svona kynjakvótar séu víðar notaðir í Menntaskólum? Þeir voru örugglega ekki til staðar fyrir 50 árum síðan, þegar karlmenn voru enn í meirihluta menntskælingja. 


Óhætt að kaupa miða með ÍE langt fram í tímann?

Vinur minn einn frá Svíþjóð kemur hingað um miðjan september. Eins og Svíum er lagið er hann mjög tímanlega að skipuleggja og ganga frá ferðinni, og veltir fyrir sér að koma með Iceland Express. Þeir bjóði ódýrustu miðana.

Hvað mynduð þið segja? Þorir maður að mæla með kaupum á miðum með ÍE þrjá mánuði fram í tímann?


mbl.is NTH á leiðinni í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús fer á uppboð

Ég hef einu sinni verið viðstaddur nauðungaruppboð. Þetta var snemma árs 2003, í fallegu húsi í Hafnarfirði. Eigendurnir höfðu reynt að selja húsið, en það gekk ekki út af ýmsum lagaflækjum og erfiðri skuldastöðu þeirra. Skömmu fyrir boðaðan tíma þyrptust innheimtulögfræðingar inn í stofu á skónum, heilsuðust og göntuðust, fyrir þeim var þetta allt ósköp hversdagslegt. Þeir voru flestir í svörtum leðurjökkum, eins konar einkennisklæðnaður innheimtulögfræðinga greinilega. Fulltrúi sýslumanns hlammaði sér niður í heimilissófann og opnaði gerðarbókina á stofuborðinu. Heimilisfaðirinn reyndi að bera sig mannalega og týndi til stóla til að fólk gæti sér tyllt sér. Í eldhúsinu sat húsmóðirin með tárvot augu, hún vann heima sem dagmóðir og sátu börnin sem hún gætti í kringum hana. Hún sá fram á að missa ekki bara heimili sitt heldur líka atvinnuaðstöðu. Uppboðið gekk hratt fyrir sig og húsið slegið hæstbjóðanda með hamarshöggi.

Hin hliðin:

En það eru tvær hliðar á flestum málum. Svo er einnig með þessa sögu. Húsráðendurnir höfðu búið í húsinu fína í rúm tvö og hálft ár. Þau höfðu í rauninni aldrei haft efni á að kaupa þetta hús, en fasteignasali gaf þeim gott verðmat á fyrri íbúð og á grundvelli þess sýndi greiðslumat að kaupin væru viðráðanleg. Fyrri íbúðin þeirra seldist svo á 5 milljónum lægra verði en matið sýndi. Fasteignasalinn sem mat íbúðina svo skakkt var sá sami og seldi þeim húsið, tilviljun.

Dæmið gekk aldrei upp, það vantaði jú alltaf fimm milljónir. Íbúarnir skulduðu seljandanum enn nokkrar milljónir, þau höfðu aldrei greitt fasteignagjöld og sama og ekkert borgað af neinu þeirra lána sem hvíldu á húsinu.  Maðurinn rak lítið fyrirtæki sem greinilega skilaði litlu, og fjármálin öll í ólestri svo vægt sé til orða tekið. Með öðrum orðum var óhjákvæmilegt að fólkið myndi fyrr eða síðar hrökklast úr húsinu. Annað hefði í rauninni verið óeðlilegt. Engu að síður var þetta auðvitað sorgarsaga og leiðindamál.

Nýrri saga um húsmissi

bilde?Site=XZ&Date=20090617&Category=FRETTIR01&ArtNo=96616515&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1Í vikunni vakti mikla athygli frétt af manni sem misst hafði hús sitt. Í kjölfarið gjöreyðilagði hann svo húsið, á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Bloggarar spöruðu ekki stóru orðin, þetta var táknrænt um ástandið í samfélaginu, maðurinn sannkölluð hetja, skyldi fá fálkaorðu sagði einhver. Maðurinn var að "tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum", sagði einn mest lesni bloggari landsins, sem undirritaður almennt hefur miklar mætur á.

Fáir töldu þörf á að vita nokkuð um forsögu þessa tiltekna máls áður en þeir tjáðu sig fjálglega. Þingmaðurinn Þór Saari mætti á staðinn (býr sjálfur á Álftanesi) og sótti brak úr húsinu til að færa forsætisráðherra að gjöf.

husbrot2

Hvað vitum við um forsögu málsins? Jú, maðurinn byggði sjálfur húsið, innflutt einingahús, árið 2003. Fréttir herma að maðurinn sé smiður og hafi sjálfur sett húsið saman. Það hefur þá kostað hann á þeim tíma vel innan við 20 milljónir, líklega 17-18. Fullbúin timbureinbýlishús kostuðu á þessum tíma á bilinu 20-24 milljónir. Þess má geta að árið 2003 voru engin myntkörfulán í boði.

Seinna var svo tekið 34 milljón króna erlent lán, m.ö.o. maðurinn notfærði sér, eins og raunar fleiri, að fasteignaverð hækkaði. Hann hefur endurfjármagnað lán á húsinu og veðsett upp í topp, langt umfram það sem hann upphaflega greiddi fyrir húsið. Til hvers þetta lán var vitum ekki, eða af hverju maðurinn veðsetti húsið svo hressilega. Húsið var raunar ekki skráð á hann, heldur fyrirtæki hans sem flutti inn einingahús, og sem hefur komið í ljós að tók við stórum greiðslum frá fólki fyrir hús sem svo aldrei komu til landsins.

Við vitum raunar fleira. Húsið var slegið á uppboði í nóvember 2008. Það vita allir þeir sem til þekkja að nauðungaruppboð er ekki haldið fyrr en venjulega rúmu ári eftir að lán eru komin í vanskil, það má því álykta að maðurinn hafi verið kominn í fjárhagsvandræði löngu áður en gengi féll sem hraðast um vorið 2008, líklega fyrir áramót '07-'08. En auðvitað snarversnaði staðan eftir því sem gengið varð óhagstæðara.

Í ljósi alls þessa tel ég óskaplega vanhugsað að lyfta manninum á stall og líta á sem hetju,og fordæma sjálfkrafa aðgerðir bankans. Eða eru nú allir sem misst hafa tök á fjármálum sínum á síðustu tveimur árum sjálfkrafa píslarvottar bankahrunsins?

Fullt af fólki á virkilega um sárt að binda vegna banka- og gengishrunsins. Ég held að þessi maður sé ekki góður fulltrúi fyrir það fólk.

 

Þess má geta í lokin að Frjálsi Fjárfestingabankinn, sem átti húsið sem var rústað, var dótturfélag SPRON sem FME tók yfir og lokaði. Frjálsi er því væntanlega beint eða óbeint undir forræði FME og eigur þess og skuldir í rauninni eigur ríkisins - okkar skattgreiðenda.


Hin hliðin - ef Allianz væri IceSave

Þó nokkur fjöldi Íslendinga safnar viðbótarlífeyrissparnaði hjá þýska tryggingarfyrirtækinu Allianz sem rekur útibú á Íslandi, Fyrirtækið býður einnig slysa- og líftryggingar handa Íslendingum.

Ímyndum okkur nú að Allianz færi á hausinn, hefði reynst hálfgerð svikamylla og farið glæfralega með það fé sem þeim er trúað fyrir. Ímyndum okkur að þýsk stjórnvöld myndu lofa öllum viðskiptavinum 100% ábyrgð á öllum lífeyrissparnaði, en þó, ekki alveg öllum viðskiptavinum, ekki þeim sem átt höfðu viðskipti við útibúið á Íslandi. Það fólk fengi engin svör mánuðum saman og þyrfti á endanum að leita á náðir stjórnvalda í sínu landi.

Ætli fólk, sem hefði látið fé sitt í hendur fyrirtækisins og treyst því að þar færi heiðvirt fyrirtæki, væri ekki býsna fúlt? Væri það sanngjarnt að þýskir viðskiptavinir fengju allt sitt bætt en íslenskir viðskiptavinir ekki? Alla vega myndi enginn nokkurn tímann treysta þýsku trygginga- eða fjármálafyrirtæki fyrir peningum í mjög langan tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband