Óttuðust neytendur írskt smjör?

Nei.

Neytendur óttuðust alls ekki írska smjörið. Umræðan var ekki um það. Mér vitanlega er Guðni Ágústsson, sérlegur lobbýisti íslenskra mjólkurframleiðenda (MS og tengdra félaga) eini maðurinn sem hefur haldið því fram að írska smjörið væri öðruvísi og verra en íslenskt smjör.

Írskt smjör þykir einstök gæðavara og er selt m.a. til Bandaríkjanna, enda bíta írskar kýr gras á eyjunni grænu, á meðan kynsystur þeirra vestanhafs fá kornfóður. Í sumum amerískum uppskriftum er sérstaklega tekið fram að nota skal "Irish Butter"!(Sjá m.a. umræðu hér.)   

Íslenskum neytendum, og ekki síður fjölmiðlum, fannst forvitnilegt að MS ætlaði sér að lauma útlensku smjöri í sinn rjóma, þegar íslensk landbúnaðarpólitík hefur alla tíð gengið út á að ekki megi flytja inn mjólkurvörur svo sem smjör og mjólk, nema í algjörum undantekningum.

Það er sérstakt að það sé stundum í lagi að flytja inn útlenskt gæðasmjör, en að það sé í höndum MS að ákvarða það. 

KerryGold_Irish_Butter 



Hvað eru mörg laus stæði?

Egill Helgason bendir á í pistli um fyrirhugaða byggingu við Ásholt undarlega tilfinningasama ást bílastæðakórsins svokallaða á bílastæðum. Og viti menn nokkrir kórsöngvarar mæta til leiks og kommentera á pistilinn. Tala um að þarna sé skortur á stæðum og mikill aðsteðjandi vandi sem myndi fylgja fækkun bílastæða e leyft verður að byggja á reit sem nú er bílaplan.

Hér er mynd af umræddu svæði. Lóðin sem nú er bílastæði en til stendur að byggja á námsmannaíbúðir er vinstra megin aðeins fyrir neðan miðju (neðan við hvítu húsin merkt "A", sem mynda ferning í kringum lokaðan garð).

Hér er smá getraun fyrir lesendur. Hvað eru mörg auð bílastæði á myndinni? (Smellið á mynd til að stækka.)

bilastaedi 


Pása á 'Prime time'

Á heimilinu er oft hlustað yfir eldamennsku og kvöldmat á sex-fréttirnar í útvarpinu og Spegilinn sem kemur í kjölfarið, á Rás 1 eða 2. Nú er raunar búið að stytta tímann verulega, svo fréttir og Spegillinn taka samtals bara 30 mínútur.

Ég tók  eftir því í vikunni að þegar stillt var á Rás 2 að á milli 18:30 og 19 rúlluðu bara íslensk lög án kynningar, með þulurödd af upptöku inn á milli sem upplýsti á hvaða stöð væri hlustað.

Óneitanlega finnst manni það bera vott um mikið metnaðarleysi af þeim sem þessu réðu að skera niður einn besta fréttaskýringaþátt fjölmiðla um helming. Hitt er líka mjög spes að á þessum tíma þegar ætla mætti að mjög margir séu með kveikt á útvarpinu, a.m.k. eru dýrustu auglýsingatímar útvarpsins sitt hvoru megin við sexfréttir, að vera ekki með neina alvöru dagskrá heldur bara lög til uppfyllingar, í hálftíma.

Þetta er eitt af mörgum merkjum þess að mikið skipulagsleysi og ringulreið virðist einkenna uppstokkun og endurskipulagningu útvarpsdagskrár.

Vonandi tekst að finna nýjan útvarpsstjóra sem getur leitt útvarpsrásirnar tvær úr þeim ógöngum sem nýhættur útvarpsstjóri kom þeim í. Og vonandi fær Spegillinn aftur ða njóta sín betur.

 


Brynjar Níelsson ruglar

Brynjar Níelsson Alþingismaður og hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að verja kristni gegn meintum árásum og ágangi trúlausra. Brynjari ferst þetta ekki vel úr hendi.

Brynjar nálgast málið eins og verjandi í dómstól. Hann tekur alfarið stöðu með sjónarmiðum öðru megin í rökræðum kirkjusinna og veraldlega þenkjandi fólks og neitar að horfa hlutlægt á málið. Það finnst mér slæmt fyrir þingmann, enda efast ég um að allir kjósendur hans taki undir íhaldssöm og illa rökstudd sjónarmið hans.

Kryfjum seinasta útspil Brynjars sem má lesa hér: Svar Til Sigurðar Hólm.

Í hvert sinn sem ég tjái mig um kristna trú og kristindóm rjúka æðstuprestar Vantrúar og Siðmenntar til og senda mér bréf. 

Ætli það sé ekki af því að í hvert sem Brynjar tjáir sig um kristna trú ræðst á aðrar lífsskoðanir og fer með rangfærslur og bull.

Það virðast margir halda að í trúfrelsi felist að stjórnvöld verði að gæta jafnræðis milli trúarbragða ...

Já það halda það margir! Stjórnvöld í trúfrjálsu ríki eiga ekki að hampa einni trú umfram aðra eða einhver einn Guð sé sannur og réttur, eða einhver ein tiltekin trú á æðri máttarvöld.

... og því megi ekki fræða nemendur um kristin fræði umfram önnur trúarfræði eða lífsskoðanir. 

eeehh ... Nei. Ég þekki engan sem er á móti því að fræða börn um trúarbrögð og "kristin fræði", ekki heldur kannast ég við að neinn hafi viljað sérstakan kvóta á fræðslu um kristindóm, að hún megi alls ekki vera meiri en um einhver önnur trúarbrögð. En margir telja að gera verði greinarmun á fræðslu og trúboði. 

Það er því ekkert að því að skólabörn séu frædd um kristni og kristindóm í kirkjum og skólum.  Í mínum huga er það beinlínis skylda ...

Af hverju vill Brynjar að börn séu frædd um kristni í kirkjum? Er það ekki pínu eins og að fræða börn um stjórnmál á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll?

Hvað skyldi Sigurðar kalla kennslu um helstu stjórnmálastefnur og lífskoðanir? Trúboð eða innrætingu?

Því verður Sigurður að svara, en það hlýtur að fara eftir því hver fræðir, hvort sá hafi hlutlausa afstöðu til kennsluefnisins. Hvað myndi Brynjar kalla kennslu um samkennd og mannkærleik í sósíaldemókratískri hugmyndafæði, kennda af Össuri Skarphéðinssyni á skrifstofu Samfylkingarinnar?

Hér á landi er ríkisvaldið ekki að skipta sér af trúarskoðunum fólks.

JÚ! A.m.k. einn þingmaður, Brynjar Níelsson, vill að öll börn fái sérstaka fræðslu um tiltekna trúarskoðun í kirkjum landsins!

Ríkisvaldið bannar ekki skoðanir og boðar ekki skoðanir öðruvísi en fram kemur í lögum.

Brynjari finnst í lagi að boða tiltekna skoðun, ef lögin segja það. Verðum við nú ekki að geta rökstutt að eitthvað sé í eðli sínu rétt, sanngjarnt og skynsamt, án þess bara að segja "lögin segja það". Hljómar pínu eins og "pabbi segir það"

Ég hef aldrei sagt að forsenda fyrir æðruleysi, kærleika og fyrirgefningu sé kristin trú

En þú hefur sagt að ef kristin trú hverfur sé hætt við að þessi gildi glatist. Ertu þá ekki að segja að þessi siðferðisgildi séu háð kristinni trú?

Sorrý, Brynjar. Ef þú værir að verja mig í Hæstarétti vona ég að þú rökstyðji mál þitt betur en þetta. 

 

 

 


Þingmaður berst gegn veraldlegu samfélagi

Í Tyrklandi er íslam ríkjandi trú. Ríkisvaldið á þó að heita veraldlegt, en það var tyrkneski leiðtoginn mikli, Mústafa Kemal Atatürk sem barðist fyrir því að af-trúvæða samfélagið í Tyrklandi, nútímavæða landið og gera ríkisvaldið alfarið veraldlegt. 

Um þetta hafa þó aldrei allir verið á eitt sáttir og hefur nú hið síðari ár Tyrkland sveiflast aðeins í hina áttina undir stjórn leiðtoga sem er hallari undir trú og trúarlegt kennivald en fyrirrennarar hans.

Það er forvitnilegt fyrir okkur sem höfum áhuga á því að ræða að hversu miklu leyti samfélagið eigi að byggja á trú, trúarlegum gildum og trúarlegu kennivaldi, að heyra umræðu um sama mál í öðru samfélagi.

Þessari bloggsíðu hefur borist þýðing á forvitnilegu erindi sem íhaldssamur þingmaður flutti í mosku í úthverfi Ankara á Nýársdag. Hann heldur því fram að siferðisviðmið muni breytast ef trúin missir vægi og að slík óheillaþróun stuðli að upplausn.

Gefum Bairam Haahr Níl Zahin orðið:

mullah 

Það gerist ekkert að sjálfu sér í mannlegu samfélagi. Það er eitthvað sem mótar menningu, listsköpun, vísindin og lögin. Í okkar samfélagi er það ekki síst trú á Guð og múslimska arfleifð. Það er að mínu áliti mikil gæfa að múslimsk trú hefur verið ráðandi þáttur í lífi okkar. 

Með aukinni upplýsingatækni má segja að hver og einn einstaklingur sé orðinn fjölmiðill. Það er auðvelt að skjóta úr launsátri og rægja aðra með nútímatækni. Trúin, moskan og múslimsk gildi eru ekki undanskilin rægingarherferð af þessu tagi. Í raun hafa margir beitt sér af alefli með þessi vopn í hendi gegn múslimskri trú og moskunni. Þeir halda því fram að trúin sé blekking og hindurvitni og í raun ekkert annað en leifar af frumstæðri hugsun sem þekkingin afhjúpi.

Þetta er ekkert nýtt og hægt er að nefna marga heimspekinga og hugsuði, eins og þeir kölluðu sig, sem síðustu 200 árin eða svo hafa spáð því, að dagar múslimskrar trúar væru taldir. Þessar framtíðarspár reyndust ekki réttar. Það er nefnilega svo, eins og Síg Ürb Orhan Ei Narzin múlla, sagði í útvarpserindi  fyrir rúmlega 30 árum, að þeir menn, sem af miklum móði veitast að því, sem þeir telja blekkingar, eru sjálfir hrapallega blekktir.

Því er enn haldið fram að þekking og vísindi fari ekki saman við trú og íslam. Þetta séu andstæður og trúin sé því ekkert annað en hindurvitni og hleypidómar sem samræmist ekki heilbrigðri skynsemi.  Vísindin og þekkingin hafi sannað að sköpunarsagan í upphafsriti Kóransins sé markleysa.

Það er fráleitt að reyna að gera sköpunarsöguna að markleysu, og þar með Kóraninn allan, með því að leggja á hana raunvísindalegan mælikvarða. 

Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að múslimsk trú og múslimsk gildi verði ekki áfram ráðandi þáttur í lífi okkar? Hefur eitthvað breyst og þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur? Já, það hefur ýmislegt breyst og við þurfum að hafa áhyggjur

Þótt frá upplýsingaröld hafi verið til menn sem hafa talið trú blekkingu, sem vísindin og þekkingin myndu eyða, eru það nýmæli, a.m.k. hér á landi, að stofnuð hafi verið félög, beinlínis í þeim tilgangi að berjast gegn Íslam. Með nýrri upplýsingatækni er auðveldara að láta til sín taka og hafa meðlimir í þessum félögum látið einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn múslimskri trú, moskunni og múslimskum gildum. En það sorglega er, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af, að málflutningur þessi hefur fengið að hluta til undirtektir hjá stjórnvöldum.

Í grunnskólalögum segir meðal annars að starfshættir grunnskóla skuli mótast af  múslímskri arfleifð tyrkneskrar menningar. Í aðalnámskrá er lögð sérstök áhersla á menningarlæsi. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli og markmið í námskrá hefur verið þrengt verulega að kennslu í múslímskum fræðum í skólum og moskunni alfarið úthýst úr skólum landsins.

Trú er ekki bara trúin á Guð, skapara himins og jarðar. Hún er ekki síst menning, siðferðisviðmið og samfélagsmótandi gildi og hefðir. Múslimsk trú og múslimsk gildi hafa gert okkur að þeirri þjóð, sem við erum, og mótað samfélag okkar, sem við erum stolt af.

Þegar stjórnvöld leitast við að aftrúvæða þjóðina er stuðlað að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Það gerist ekki á einni nóttu en þegar heilu kynslóðirnar fá takmarkaða fræðslu í íslam og finna jafnvel helst fyrir neikvæðni í garð íslamstrúar mun það ekki eingöngu hafa áhrif á menningu og takmarka menningarlæsi, heldur munu siðferðisviðmið breytast og múslimsk gildi þynnast út. Æðruleysið, kærleikurinn og fyrirgefningin eru okkur nefnilega ekki í öllum tilvikum í blóð borin.

Múslimskt fólk getur ekki horft sljóum augum á þessa hættulegu þróun í samfélaginu. Það þarf að spyrna við fótum og taka slaginn með æðruleysið og kærleikann að vopni. Það er eins í þessu og öllu öðru, við tryggjum ekki eftirá. Ég efast ekki um að allt það ágæta fólk, sem lætur sig íslam og moskuna varða, og allir þeir foreldrar og uppalendur, sem vilja ala börn sín upp í múslimskri trú og gildum, vilja leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri óheillaþróun sem ég lýsti hér áðan. 

 

Lengri útgáfu af erindinu má finna HÉR 


Nýársávarp Forseta 2014 - rýni

Eins og ég sagði frá í seinasta pistli hlýddi ég eins og fleiri á Forsetann.  Nú hef ég lesið ávarpið yfir í rólegheitum og langar að fara yfir það og kryfja nokkur atriði.

1. Heimkoma handritanna var ávöxtur "órofa samstöðu þjóðarinnar" 

Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp. 

Hátíðarhöldin í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar áréttuðu að heimkoma handritanna var ávöxtur af órofa samstöðu þjóðarinnar, krafti sem gaf kjörnum fulltrúum og fræðasveit styrk til að sannfæra Dani 

Nú er ég aðeins of ungur til að muna atburðarás handritamálsins svokallaða þar sem hápunkturinn var koma helstu höfuðhandrita okkar árið 1971. En er ekki ofsögum sagt að þetta mál hafi verið knúið áfram með samstöðu þjóðarinnar? Vissulega var þetta óumdeilt mál hér á landi, en ég hef nú frekar haldið að þetta hafi verið unnið og leyst af stjórnmálamönnum og duglegum diplómötum og að almenningur hafi ekki skipt sér mikið af þeim málarekstri. Þeir sem eldri eru geta staðfest hvort þetta sé rétt. Hér er yfirlitsgrein frá 1994.

2. Hornsteinar sjálfstæðisbaráttunnar byggðust á samstöðu þjóðarinnar

Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun – allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði. 

Ég hef aðeins skoðað þetta í seinasta pistli. Þetta er orðum aukið og að hluta alrangt. Flókin og erfið mál verða sjaldnast leyst í einhverri allsherjar samstöðu. Vissulega getur ákveðin samstaða verið gagnleg, en hún er alls ekki forsenda framfara, hvorki í sjálfstæðisbaráttu né öðrum lýðræðisumbótum. Gagnrýnin umræða, skoðanaskipti og líflegur "debatt" er hornsteinn lýðræðis, ekki samstaða.

3. Þjóðarsáttarsamningarnir

Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar. 

"Þjóðarsátt" var fyrst og fremst snjöll nafngift á tímamótasamningum samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnarinnar. Samningar þessir voru vissulega ávöxtur sáttar milli þessara aðila. Nafngiftin var svo snjallt "PR", í þeirri viðleitni að sannfæra þjóðina um gagn og nauðsyn þessa samninga. 

4. Icesave - "eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur"

Við munum líka hvernig eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur í harðri deilu um Icesave; málstaður okkar reyndist að lokum hafa lögin með sér. 

Ólafur Ragnar, sem virkur þátttakandandi í Icesave-slagnum, er ekki heppilegastur sem hlutlaus söguskýrandi þessa máls. Vissulega má segja að Ísland hafi, með forseta í fararbroddi, náð að virkja almenning á sérstakan og nokkuð sögulegan hátt í þessari refskák við Breta og Hollendinga, en öllum er í fersku minni að sérstaklega á seinni stigum var langt í frá einhver "þjóðarsátt" um þetta mál. Margir töldu - og telja jafnvel enn - að sú leið sem farin var í lokakafla sögunnar, að fara með málið fyrir dóm, hafi verið mjög áhættusöm. Og það var svo sannarlega ekki þjóðarvilji eða "samstaða" sem réð hagstæðri útkomu dómstólsins. Sú útkoma koma raunar mjög mörgum lögspekingum á óvart, jafnvel hörðum Icesave-"Nei"-sinnum.

5. Samstaða Alþingis

Þótt málvenjan skipti Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu, er hollt að minnast þess að reisn þingsins var ætíð mest þegar flokkarnir báru gæfu til að standa saman; þingheimur vex af því að slíðra sverðin. 

Forsetinn nefnir sem eitt dæmi um slíka "reisn" afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingum í lok síðustu aldar. Nú má vera að þetta dæmi sé ágætt sem slíkt. Hitt er þó líka algengt að ýmis mál renna í gegn umræðulaust í fullri "samstöðu" og síðar koma í ljós ýmsir gallar og vankantar sem hefði betur mátt ræða í undirbúningi. Þegar mikil samstaða ríkir um mál á Alþingi hef ég oftar en ekki áhyggjur af því að verið er að samþykkja eitthvað "gott", sem allir eiga að vera sammála um, en mætti samt skoða og ræða.

6. "Sáttmáli kynslóðanna"

Í glímunni við skuldavanda heimilanna er sáttmáli kynslóðanna forsenda víðtækrar lausnar.

Hvaðan kemur þetta hugtak, "sáttmáli kynslóðanna"? Jú, þetta er hugtak sem fyrst heyrðist í kynningu nefndar ríkisstjórnarinnar 30. nóvember á "skuldaleiðréttingar"-pakkanum margfræga: "Aðgerðin sögð sáttmáli kynslóða"

En af hverju skyldi þessi pakki kallaður þessu nafni? Ætli ástæðan sé ekki svipuð og með áðurnefnda "Þjóðarsáttar"-samninga, þetta er "PR", búið til nafn til að sannfæra okkur um ágæti og nauðsyn aðgerðanna. Hugsunin að baki, þ.e. tilvísun í "kynslóðir" er væntanlega sú að sumir fá auðvitað minna en aðrir í þessari risamillifærslu, elsta kynslóðin sem á skuldlaust húsnæði fær ekkert, yngsta kynslóðin sem ekki hefur keypt húsnæði fær heldur ekki neitt. Hugtakið "sáttmáli kynslóðanna" á kannski að að sætta þessar kynslóðir við stóru millifærsluna.

Það er óneitanlega sérstakt að Forsetinn taki með þessum hætti beinan þátt í kynningar- og PR-starfi ríkisstjórnarinnar í máli sem enn er ekki búið að kynna og ræða á Alþingi. En þetta kemur kannski ekki á óvart. Núverandi forseti er ekki ópólitískur og er bandamaður sitjandi ríkisstjórnar, a.m.k. nú um sinn.

7. Ísland í "lykilstöðu" á Norðurslóðum

Norðurslóðir sem áður voru taldar endimörk hins byggilega heims eru í vaxandi mæli hringiða nýrrar heimsmyndar, breyting sem Norðurskautsráðið staðfesti í maí með sögulegri samþykkt. [...] Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; ...

Ég verð að segja eins og er, ég skil ekki þetta norðurslóðatal Forsetans. Ég sótti Atlasinn minn og fletti upp kortum af Norðurpólnum til að að reyna að skilja hvernig Ísland eigi að verða miðpunktur Norðurslóða í bjartri framtíð bráðnandi jökla, einskonar Klondyke nýja Norðursins, ef marka má orð Forsetans!

Ég heyri lítið minnst Norðurslóðaráð (Arctic Council) nema helst í ræðum Forseta Íslands. (Vissuð þið að Ísland var í forsæti ráðsins árin 2002-2004? Nei, ekki Forseti Íslands heldur ríkisstjórn landsins, þ.e. utanríkisráðherra eða fulltrúi hans.) Á heimasíðu ráðsins er megináhersla lög á ýmis umhverfismál og hagsmuni frumbyggja Norðurslóða. Íslendingar eru ekki taldir með sem "frumbyggjar"* heldur er átt við Inúita, Sama og þjóðflokka norður-Síberíu og Kamchatka. Íslendingar hafa hingað til haft lítil samskipti við Ínúita og frekar litið niður á. Það er jákvætt ef Forsetinn nái að bæta samskipti Íslands við granna okkar í Grænlandi, en ég hefði frekar vilja heyra Forsetann tala um umhverfi Norðurslóða og ógnir og áskoranir sem íbúar hins raunverulega Norðurs þurfa að mæta í stað glaðhlakkalegrar umræðu um "tækifæri" sem felast í hlýnun jarðar og bráðnun jökla.

*(Við teljumst ekki frumbyggjar hins eiginlega norðurheimskautasvæðis, það sem á útlensku nefnist "the Arctic", sjá t.d. færslu hér um 'Arctic Council'.) 

8. Gömul og góð tengsl Rússa við Ísland 

Vilji Rússa til að efla gömul og góð tengsl við Ísland með auknum áherslum á Norðurslóðir birtist svo glöggt í viðræðum við Vladimir Putin í september, vilji sem forseti Rússlands hefur reyndar lýst áður einkar skýrt. 

Hér verða sagnfræðingar að aðstoða mig. Hvað í ósköpunum er Forsetinn að tala um? Vöruskipti Íslands og Sovétríkjanna?

Ég vil gjarnan sjá góð tengsl Íslands við sem flestar þjóðir, þar á meðal Rússa, frekar þó við aðra Rússa en akkúrat leiðtoga þeirra Pútín, fyrrum foringja leyniþjónustu alræðisríkisins gamla, sem ræktar jöfnum höndum fordóma gegn samkynhneigðum og styrk tengsl við óligarka Rússa sem tóku yfir helstu auðlindir Sovétsins og eru nú meðal ríkustu manna heims.  

9. Vorum "heft í fjötra kalda stríðsins", nú í lykilstöðu

Ísland sem var um aldir einangrað og á fyrstu áratugum lýðveldis heft í fjötra kalda stríðsins, er nú eftirsóttur bandamaður við þróun samstarfs um nýja Norðrið; er í lykilstöðu á vettvangi margra stofnana og tengslaneta, norrænna og evrópskra, og einnig þeirra sem teygja sig alla leið til Asíu og yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna og Kanada. 

Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður, "heft í fjötra kalda stríðsins". Að hvaða leyti hefti kalda stríðið Íslendinga?  Ég hélt reyndar að við hefðum haft allnokkurn hag af strategískri legu Íslands í kalda stríðinu, alla vega sköpuðust störf og viðskipti fyrir fjölda fólks, hvort sem það hafði alfarið góð áhrif á þjóðarsálina.

Hvað varðar meinta lykilstöðu Íslands þá er ég langt í frá sannfærður um að stórþjóðir í kringum okkur sjái okkur sem "lykilríki" ef og þegar reynir á hagsmuni þeirra á Norðurslóðum. Kannski skortir mig hæfileika Ólafs frænda míns til að sjá sjálfan mig og þjóð mína sem nafla alheimsins.

Þessi pistill gæti orðið enn lengri, ræða mætti hvernig Forsetinn dregur inn Nelson Mandela til að styrkja enn frekar áramótaboðskap sinn um samstöðu. Mandela var mikils háttar maður, og honum tókst vissulega að halda margbreytilegri þjóð sinni saman á miklum umbreytingartímum. Ýmsir myndu kalla það kraftaverk að Mandela skyldi takast að leiða valdaskipti í Suður-Afríku án blóðsúthellinga og borgarastríðs, þó ýmsir meina að sú samstaða hafi verið á kostnað misskiptingar, sem alltof lítið var gert til að laga, enda fékk ríki minnihluti landsins að halda eigum sínum og yfirráðum yfir auðlindum svo til óskertum.

Það sem Mandela hins vegar tókst var að vera óskoraður leiðtogi allra landsmanna sinna, líka fyrrum andstæðinga sinna. Mandela rétti sáttahönd til hvíta minnihlutans og naut virðingar og vinsælda allra. Ólafur Ragnar á nokkuð langt í land með að verða óumdeilur Forseti allra Íslendinga. Boðskapur hans um samstöðu (um pólitísk stefnumál hans og ríkisstjórnarinnar sem hann veitir brautargengi?) breytir því ekki. 

leidtogar 

Leiðtogar Íslands 


Stenst söguskoðun Forseta?

Ólafur Ragnar hélt athygli minni í ávarpi sínu, það er góður kostur ræðumanna. Eins og endranær vekur ræðan fleiri spurningar en hún svarar.

Ég velti til dæmis fyrir mér hvort söguskoðun Forseta fái staðist. Forseti segir svo í ávarpi sínu:

Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun – allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði. 

Var þetta svo?

Margir eru sögufróðari en ég og gætu hjálpað til að rifja upp. Var það ekki svo að hér logaði allt í illvígum deilum í upphafi 20. aldar, um heimastjórnarmálið svokallaða? Heimastjórnarmenn á móti Valtýingum. Ég held að almenn samstaða á þessum árum hafi alls ekki verið fyrir hendi, og æsingur, flokkadrættir og skotgrafaorðræða ekkert ósvipuð og 110 árum síðar.

Hvað með stjórnarskránna 1874? Um tilurð hennar má lesa í greinargóðri samantekt Eiríks Tómassonar og fleiri frá 2005. Þar má lesa:

Á Alþingi árin 1867, 1869 og 1871 hafði stjórnin lagt fram stjórnarskrárfrumvörp sem í mörgum atriðum líktust stjórnarskránni sem konungur síðan gaf 1874. Ýmislegt í athugasemdum og tillögum Alþingis virðist hafa haft áhrif á útfærslu stjórnarskrárinnar í endanlegri gerð. Hins vegar náðist ekki samkomulag á milli Alþingis og stjórnarinnar um stjórnarskrána sjálfa og var hún því á endanum gefin einhliða af konungi, af „frjálsu fullveldi“ hans, eins og það var orðað. Íslendingar voru ósáttir við þá aðferð sem viðhöfð var við að setja landinu stjórnarskrá. ...

Ekki heldur hér var um að ræða samstöðu.

Ég er ekki að segja að samstaða geti ekki verið til góðs. En algjör samstaða er engin forsenda framfara og erfið og flókin mál verða sjaldan leyst með einhverri kröfu um "samstöðu" heldur hafa slík mál oftar en ekki gagn af vandlegri og gagnrýnni yfirlegu og umfjöllun.

Fleira vakti athygli í ávarpi forseta, svo sem tal hans um norðurslóðir, sem ég einfaldlega skil ekki. Það er efni í annan pistil.

 Screen shot 2014-01-01 at 4.25.13 PM

Úr "Ingólfi", 1906

 


mbl.is Ólafur hvetur til samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hobbittinn, LOTR, stríðs-"glorification"?

Horfði á Hobbitann í gær og fór svona að velta fyrir mér, eru þessar Tolkien-myndir ekki voðalegar stríðsupphafningamyndir? Þær hverfast um bardaga og stríð, söguhetjur sýna hugrekki með því að handleika glansandi fögur sverð og ráðast að óvini með öskrum og látum undir hetjulegri tónlist, óvinurinn er ómennskur, alvondur og réttdræpur.

Ef ég væri að þjálfa upp hermenn fyrir stríð myndi ég sýna þeim LOTR myndirnar, segja þeim að óvinurinn væru Orcar og að við værum góðu gæjarnir. Því þannig er það alltaf í stríði.

lotr3-battle 


Sigmundur á að biðjast afsökunar

Mér finnst rétt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur orðum og gjörðum okkar unga forsætisráðherra. Margir höfðu nokkrar efasemdir um að hann hefði það sem þarf til að leiða ríkisstjórn landsins. Hann er ungur, með mjög litla reynslu úr stjórnmálum og ekki reynslu af stjórnarstörfum annars staðar frá. Reyndar hefur hann litla reynslu af atvinnulífi almennt. Hann starfaði nokkur misseri sem fréttamaður í hlutastarfi, kom svo í fjölmiðla nokkrum sinnum fyrir fáum árum og tjáði sig af áhuga og einhverri kunnáttu um skipulagsmál. Hann hefur setið lengi á skólabekk, lauk grunnnámi í viðskiptafræði á 10 árum, hefur svo lært áfram eitthvað í stjórnmálafræði og skipulagsfræðum, en ekki lokið gráðu eða ritgerð, að mér skilst. Þar með er hans ferilskrá upptalin, að viðbættu starfinu sem Alþingismaður og flokksformaður síðasta kjörtímabil.

Hvernig er svo reynsla þessa hálfa árs af Sigmundi Davíð í stól forsætisráðherra? 

Því miður held ég að Sigmundur sé ekki rétti maðurinn í þetta starf.

Ég efa það í sjálfu sér ekki að hann búi yfir ýmsum kostum og að hann vilji vel, sé greindur og geti verið skemmtilegur.

En hann er vondur forsætisráðherra. Eiginlega afleitur.

Vinnubrögð og samskipti í stjórnarmeirihlutanum og ríkisstjórn virðast ekki heilbrigð og skilvirk. Verkstjórnin virðist á köflum ekki vera til staðar. Samskipti við fjölmiðla og almenning eru óskýr, misvísandi og á köflum hrokafull. Sigmundur talar stundum eins og kjáni. 

Vissulega er Alþingi sérstakur vinnustaður. Það þarf styrk, traustan karakter og ákveðið innra jafnvægi til að láta ekki neikvæða umræðu, sífellda togstreitu og mikið álag draga sig niður á plan skætings og virðingarleysis. Alþingi getur haft slæm áhrif á a.m.k. suma sem þar sitja. Ég held að Sigmundur Davíð höndli þetta ekki vel.

Tökum tvö dæmi:

Í aðdraganda þess að ríkisstjórnin kynnti stóra "skuldaleiðréttingarpakkann" varaði forsætisráðherra við því að stjórnarandstaðan myndi ráðast á tillögurnar og myndu eiga eftir að ljúga í gagnrýni sinni á tillögurnar.

Forsætisráðherra landsins sakaði menn og konur fyrirfram um að ætla að ljúga.

Mér vitanlega gekk þessi hrakdómsspá alls ekki eftir. Margir hafa auðvitað rýnt í tillögurnar og gagnrýnt, ekki bara stjórnarandstæðingar heldur velflestir hagfræðingar sem á annað boð hafa tjáð sig um málið,  enda er um að ræða stórkostlega dýra efnahagsaðgerð svo það væri mjög óeðlilegt ef þessar tillögur væru ekki vandlega rýndar með gagnrýnu hugarfari. (Gagnrýni á "stóru skuldaleiðréttinguna# er svo efni í annan pistil. Ég tel þessar tillögur glórulausar.)

En sem sagt, forsætisráðherra réðst á stjórnarandstæðinga áður en tillögurnar voru kynntar og ásakaði þá um að ætla að ljúga.

Mér finnst þetta mjög merkilegt, þess vegna tvítek ég þetta og feitletra. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé nýjung í íslenskri stjórnmálasögu. En þetta er ekki bara óvenjulegt og sérstakt, þetta er einstaklega ódrengilegt og dónalegt. Þetta sýnir vænisýki og pólitískan vanþroska, að tala svona.

Minnst var á þetta í viðtali við forsætisráðherra í gær. Hverju skyldi hann svara, jú hann segir brosandi

.. ég talaði ekki um að ljúga. Ég talaði um að menn myndu segja ósatt ... 

og bætir svo við:

... ég tel að það hafi síðan komið á daginn 

 

Stöldrum við. Hér bætir Sigmundur við fyrri ásakanir sínar um að menn og konur myndu ætla að ljúga, nú beinlínis ásakar hann pólitíska andstæðinga sína um að hafa logið.

Nefnir hann DÆMI?

Nei.

Forsætisráðherra landsins ásakar stjórnarandstæðinga um að ljúga án þess að tilgreina hver laug eða hverju var logið. Slær því svo upp í kæruleysi að hann hafi ekki talað um lygar heldur um að "tala ósatt".

Mér blöskrar. Mér finnst ótækt að forsætisráðherra tala svona til annarra stjórnmálamanna. Það er alvarleg ásökun að saka menn um að ljúga.

 

En tölum áfram um lygar. Hitt dæmið sem ég vildi minnast á er þetta:

Fulltrúar ríkistjórnarflokkana sögðu skýrt og skilmerkilega frá því í fjölmiðlum að barnabætur yrðu lækkaðar í fjárlagafrumvarpinu. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu þetta en forsætisráðherrann sakaði menn um að vera að æsa sig út af einhverjum getgátum. ("áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar. [...] Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar"#)

Svo kom í ljós að skýrar og klárar tillögur höfðu vissulega verið samþykktar ríkisstjórn í þessa veru og hafa fjölmiðlar staðfest það. Baðst ráðherrann afsökunar? Nei. Hann hins vegar þverneitaði því að hafa talað um að stjórnarandstæðingarnir höfðu byggt á getgátum! ("Það að halda því fram að ég hafi sagt að skerðing barnabóta væri eingöngu getgátur er hins vegar alrangt."#)

Forsætisráðherrann fór í tvígang á svig við sannleikann í einu og sama máli í sömu vikunni, fyrst neitaði hann því að tilteknar skýrar tillögur lægju fyrir sem sannanlega lágu fyrir og sagði að gagnrýni á þær væri byggð á getgátum, svo neitaði hann því einum eða tveimur dögum seinna að hafa talað um getgátur í þessu samhengi.

Þessi tvö dæmi eru kannski ekki stórvægileg sem slík. En þau sýna að eitthvað mikið er að. Forsætisráðherrann verður að temja sér að tala við bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina af virðingu og hætta svona bulli og lágkúru.

Forsætisráðherrann á að sjálfsögðu að draga tilbaka órökstuddar ásakanir um lygar og biðjast afsökunar. 

En helst af öllu vona ég að hann finni sér annað starf á nýju ári, starf þar sem mannkostir hans og hæfileikar fái notið sín.

 

sdg

Ekki réttur maður á réttum stað. 


"Flokkur róttækrar rökhyggju"

"... ég talaði ekki um að ljúga. Ég talaði um að menn myndu segja ósatt ..."
 
"En þetta er líka flokkur róttækrar rökhyggju eins og ég kalla það."
 

Forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, í viðtali 21.12.2013.

 

Sigmundur Davíð hefur eflaust ýmsa mannkosti, en hann er hörmulegur forsætisráðherra. Ég vona að Ísland fái nýjan forsætisráðherra á komandi ári, sem er hæfur til þessa starfs, sem hægt er að treysta og bera virðingu fyrir. 

 sdg_og_org2


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband