16.2.2014 | 19:23
Sigmundur og yfirfrakkarnir
Eins og fleiri var ég gáttaður á sjónvarpsviðtalinu í morgun við forsætisráðherra. Margir hafa greint það á ýmsa vegu og skipst á skoðunum. Býsna gott yfirlit t.d. hér hjá Ragnari Þór Péturssyni. Eins og Ragnar Þór bendir á var áberandi hvað Sigmundur gat flækt sig í útúrdúra, í stað þess að svara spurningum, sem vissulega voru sumar ákveðnar og jafnvel ögrandi.
Tökum eitt dæmi. Fyrstu tvær mínúturnar fara í hófstillar og rólegar umræður um það hvort til standi að fjölga Seðlabankastjórum í þrjá, Sigmundur svara þessu ekki beint, en segir að það sé verið að vinna að endurskoðun laga um Seðlabankann og vega og meta m.a. kosti og galla það hafa einn eða þrjá bankastjóra. Svo heldur viðtalið áfram, þar sem Gísli þjarmar aðeins að Sigmundi til að reyna að fá skýrt svar við upphafsspurningunni (ca. á 1:45)
GMB: Ok. Þannig að þú sem sagt, þú neitar því ekki að þessi frétt, að, hún birtist á Eyjunni, sem stundum, eða sem sumir sjá sem svona ákveðna málpípu Framsóknarflokksins
SDG: Er þér alvara? (hlátur)
GMB: Sumir sjá það þannig, að fyrst að það birtist þar frétt að það verði þrír bankastjórar, og þá einhverjir tveir sem að þið handveljið, sem yfirfrakka á Má Guðmundsson, að, ég heyri á þér að þú ert ekki að neita þeim fréttaflutningi?
Þetta má segja að sé ansi gildishlaðin fullyrðing sem felist í spurningunni hjá Gísla. Sigmundur er búinn að ræða almennt að það séu bæði kostir og gallar við að hafa einn eða þrjá bankastjóra og það þurfi að vega og meta. Hér hefði maður búist við að Sigmundur myndi svara þessu býsna ákveðið og neita þessu, að ef á annað borð verði ráðnir tveir Seðlabankastjórar til viðbótar þá verði þeir ekki pólitískt "handvaldir".
(Tja, nema það raunverulega standi til! En jafnvel þá hefði maður búist við að Sigmundur myndi segja að þeir yrðu ráðnir algjörlega á faglegum forsendum.)
Hverju svaraði Sigmundur þessari beinskeyttu spurningu?
SDG: Nei. Talandi um fréttaflutning, ...
Stöldrum aðeins við. Þýddi svarið sem sé 'Nei, ég neita þessu ekki' ?!
Það er eins og Sigmundur vilji forðast þetta, og fer að rausa eitthvað um Eyjuna og fréttaflutning og orðalag í spurningu Gísla (Sumir segja) sem í sjálfu sér engu máli skipti. Svona hélt svarið áfram:
SDG: Nei. Talandi um fréttaflutning, ...þá eru fréttir, jafnvel hér, farnar að byrja á á 'Sumir segja'. Þetta var alveg bannað í gamla daga, að byrja fréttir á 'sumir segja'. Og nú segir þú mér að einhver vefmiðill sé
Og allt í einu eru spyrillinn og forsætisráðherrann að rökræða það hvort Framsóknarmaður stýri Eyjunni og hvort og hvernig fjölmiðlar lýsi skoðunum, hvað Gísla finnist um Fréttablaðið o.fl. Og aldrei fær Gísli svar við spurningunni.
Eftir sitja áhorfendur með þá tilfinningu að búið sé að ákveða að ráða tvo Seðlabankastjóra, þeir verði pólitískt "handvaldir", líkt og var fyrir ekkert svo mörgum árum, þegar menn eins og Geir Hallgrímsson, Tómas Árnason, Steingrímur Hermannsson, Finnur Ingólfsson, að ótöldum Davíð Oddssyni, voru Seðlabankastjórar.
Sjáum til hvort það gerist.
Hverjir verða næstu Seðlabankastjórar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.2.2014 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2014 | 00:16
Maríus og móðursýkin
Merkilegt að skoða ofsafengin viðbrögð úti í heimi við fréttum af því þegar gíraffinn Maríus var felldur í Kaupmannahöfn og gert að skrokknum fyrir framan áhugasama gesti. Dýragarðsyfirvöld hafa gefið mjög góð rök fyrir því af hverju dýrið var fellt, það var einfaldlega eðlilegt viðhald á stofninum, gíraffar eiga auðvelt með að fjölga sér, það er takmarkað pláss í garðinum og hindra verður of mikla skyldleikarækt.
Mörgum finnst viðbrögðin sýna firringu nútíma vesturlandabúa, sem halda að kjöt verði til út í búð og hafa sko ekki alist upp í sveit, þar sem heimalningnum var slátrað að hausti og kýrnar voru felldar áður en þær hættu að mjólka.
EN - - er þetta svona einfalt? Er reiði og hneykslun mjög margra bara móðursýki?
Búum til smá dæmi, segjum að ég ætti gullfallegan hund, tveggja ára Border collie, hana Trýnu.
Trýna
Svo þegar vinnufélagarnir spyrja mig einn mánudag um Trýnu, segi ég "Nei, við sko vorum að kaupa lúxusíbúð í Skuggahverfinu, það var ekki pláss fyrir hana svo ég fór með hana út í garð og skaut hana."
Svolítið kaldranalegt eða hvað?
Ég held að mörgum (í útlöndum) finnist að Maríusarmálið hafi verið í áttina að einhverju svona. Maríus hafi verið meira eins og gæludýr, svo hafi hann, enn ungur og fullfrískur, verið skotinn í hausinn og brytjaður sundur fyrir framan forvitin skólabörn. Svona eins og ef ég hefði brytjað niður Trýnu og gefið krummunum sem halda til hér úti við leikskólann.
Ég er ekki að reyna að ganga fram af fólki. Ég er bara að reyna að sýna að við öll, amerísk borgarbörn og veraldarvanir Íslendingar sem voru í sveit sem krakkar, flokkum dýr, og gefum þeim mismikinn rétt til að lifa og til að njóta sín. Sú flokkun er sjaldnast fullkomlega skynsöm eða lógísk. Við myndum til að mynda ekki samþykkja að hundar (hér á landi) þyrftu að búa við sömu aðstæður og svín þurfa að þola. Samt eru svín ekkert vitlausari eða minni tilfinningaverur en hundar.
Auðvitað er afstaða okkar lituð af okkar reynslu og af tilfinningum. Sumir Íslendingar hneykslast yfir því að starfsfólk Húsdýragarðsins borði sem veislumat kjöt af dýrum sem fella þarf í garðinum. Aðrir hneykslar á því að hinir hneykslast og að þetta skyldi yfirhöfuð teljast frétt. Fannst blaðamanninum að það væri óeðlilegt að starfsfólk Húsdýragarðsins væri sjálft að njóta kjötsins af dýrum sem það hafði fóðrað, umgengist og þekkt?
Sjálfsagt er það svo að einmitt fólk sem mest umgengst dýr, bændur, dýraræktendur, starfsfólk í dýragörðum verður að temja sér jarðbundna afstöðu til dýranna.
Það sem ég vildi segja er að við ættum kannski ekki að hneykslast svo voðalega á fólkinu sem hneykslaðist á sýningarslátruninni á Maríusi. Okkar húsbóndavald yfir öðrum skepnum jarðar er alltaf heimspekilega pínu vandmeðfarið, og aldrei hægt að útiloka tilfinningalega afstöðu, og ekkert endilega eðlilegt að gera þá kröfu.
Það er hvorki rétt eða rangt að finnast það óviðeigandi (eða viðeigandi) að gera að fræðslu- og fjölmiðlasýningu uppskurð og vinnslu á skrokki gíraffans Maríusar. Sumum einfaldlega finnst það óviðeigandi, líkt og verið væri að gera fjölmiðlasýningu á kjötvinnslu á hundinum Trýnu. Nú eða Maríusi frænda.
Maríus hugsi. Úr sýningunni 'Bodies' (mjög svo umdeildri).
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2014 | 09:29
Gagnslaus samanburður
Þessari mynd hef ég séð marga dreifa á Facebook, en hún á sýna hversu mikið dýrari verðtryggð húsnæðislán eru á Íslandi, heldur en óverðtryggð lán í Noregi. Svipaðar tölur hafa áður sést.
(smellið á mynd til að stækka)
Það eru ýmsir gallar við myndina og í mínum huga óljóst hvort hún í raun og veru segir eitthvað af viti. Væntanlega á myndin að segja okkur að Íslendingur greiði margfalt meira af sínu húsnæðisláni en Norðmaður, 466 milljónir króna, á meðan Norðmaðurinn greiði einungis 51 milljón íslenskar krónur af jafnháu láni. Sá samanburður stenst ekki.
Í fyrsta lagi: Í Noregi eru ekki veitt lán í íslenskum krónum. Svo það er einfaldlega rangt að Norðmaður sem tekur lán með þeim kjörum sem notuð eru til útreiknings í myndinni myndi greiða, t.d. eftir 5 ár 140.000 íslenskar krónur. Hann myndi greiða tilbaka upphæð í norskum krónum.
Hversu há er sú upphæð í íslenskum krónum? Við vitum það ekki, því við vitum ekki hvaða gengi verður eftir fimm ár. En ef við reiknum með að verðbólga á Íslandi sé 8%* eins og gert er í útreikningum myndarinnar (og að verðbólga í Noregi sé um 2%), þá myndi íslenska krónan veikjast gagnvart þeirri norsku um ca. 27% á næstu fimm árum. Þá væri Norðmaðurinn að greiða eftir fimm ár upphæð sem samsvarar ekki 140.000 ISK eftir fimm ár, heldur upphæð sem væri nær 180.000 ISK. Eftir 10 ár myndi Norðmaðurinn greiða upphæð í norskum krónum sem myndi samsvara ca. 250.000 íslenskum krónum, en ekki 138.000 kr eins og myndin segir, og svo koll af kolli.
Með sama hætti má reikna út að eftir 40 ár væri Norðmaðurinn að greiða a.m.k. 12-falt hærri upphæðir í íslenskum krónum heldur en fram kemur á myndinni miðað við framreiknað íslenskt gengi, samkvæmt forsendum myndarinnar sjálfrar.
Vissulega greiðir Norðmaðurinn lægri upphæðir, en það er fyrst og fremst vegna þess að hann greiður lægri raunvexti af sínu láni.
*(Rétt að taka fram líka að það er rangt eins og sagt er á myndinni að meðalverðbólga á Íslandi sl. 10 ár hafi verið 8%, rétt tala er nær 6%.)
Ég vil taka fram að ég er alls enginn talsmaður verðtryggðra lán og mæli ekki með þeim við nokkurn mann.
Einn helsti galli við vertryggð lán er að þau eru mjög flókin. Svona samanburður eins og sést á myndinni skýrir hins vegar ekki neitt og er í raun bara villandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.3.2014 kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2014 | 17:45
Mega aðrir skipta sér af OKKAR málum?
Enn á ný eru Bandaríkjamenn að gera veður út af hvalveiðum Íslendinga og hóta okkur ýmsu, ef við höldum þeim til streitu. og enn á ný heyrast sumir kvarta undan því að þeir séu að skipta sér af hvernig við nýtum okkar auðlindin.
mér finnst þetta bara prinsippmál að vera ekki að láta aðrar þjóðir segja okkur fyrir verkum, sama hvað það er
las ég í kommenti á Facebook.
Eru þetta góð rök? Er það gott og sjálfsagt "prinsippmál" að aðrir skulu ekki skipta sér af okkar málum? Hvaða mál eru OKKAR mál?
Var Kárahnúkavirkjun og Hálslón bara "okkar" mál? Hvað ef við byggjum háhitavirkjun í Landmannalaugum? Virkjum Dettifoss? Útrýmum haferninum eins og við útrýmdum geirfuglinum?
Þessi má eru ekki alfarið okkar mál. Ekki frekar en að það sé einka-innanríkismál Brasilíumanna hvort þeir höggvi niður allan Amasónfrumskóginn, eða einkamál suður-Afríkumanna hvort þeir heimili veiðar á svörtum nashyrningum.
Akkúrat núna vilja margir að íslenskir ráðamenn komi skilaboðum áleiðis til Rússlands vegna lagasetningar um "áróður" um samkynhneigð. Mörgum Rússum finnst þetta örugglega vera hin mesta afskiptasemi af þeirra innanríkismálum.
Það er ekkert prinsipp að ekki megi skipta sér af einhverju sem gerist í öðru ríki. Landamæri afmarka ekki hverju við megum skipta okkur af. Mannréttindi, sjálfbær nýting náttúru, virðing fyrir lífi, bæði mönnum og skepnum eru málefni sem eru ekki afmörkuð af landamærum.
Landamæri eru ekki til í alvörunni.
1.2.2014 | 11:03
Ísland styður Pútín og Rússa
Mörg lönd kjósa að senda Rússum skilaboð með því að senda ekki æðstu þjóðhöfðingja á Vetrarólympíuleikana í Sochi sem haldnir eru í þessum mánuði. Þetta er vegna þess hvernig þróun í ýmsum mannréttindamálum virðist beinlínis fara afturábak í Rússlandi um þessar mundir.
Ísland tekur skref í hina áttina og sendir Rússum og ekki síst Forsetanum skýr skilaboð um stuðning.
Mér sýnist á gúggli og leit á ágætri heimasíðu Forsetaembættisins að núverandi Forseti Íslands hafi aldrei áður sótt vetrarólympíuleika, ekki 1998, 2002, 2006 eða 2010.
En núna árið 2014 ætlar Forsetinn að heiðra gestgjafana í Sochi með nærveru sinni og forsetafrúarinnar. Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands munu einnig sækja leikana fyrir Íslands hönd.
Þetta mun vonandi hafa jákvæð áhrif á samband okkar við Rússland, en Forseti Íslands hefur oft lýst því í ræðu og riti að Rússland og Kína séu mikilvægar vinaþjóðir Íslands, nú og í framtíðinni. Forsetinn hefur mótandi áhrif á utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar og er fulltrúi okkar víða á erlendri grund.
Herra Pútín - Ísland styður þig, við erum bandamenn Rússlands!
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.1.2014 | 09:09
2.898 kr fyrir eitt dýr
Ég las hjá Dr. Gunna að eitt stykki lífrænt ræktaður kjúklingur innfluttur frá Danmörku kosti í Fjarðarkaup 2.898 kr.
Er það svo voðalega mikið? Kjúklingurinn vegur ca. 1.2 kg. Þetta er ekki tiltakanlega dýrara en annað kjöt. (Mér persónulega stendur á sama hvort kjúklingurinn uppfylli alla staðla til að teljast "lífrænn", ég vil fyrst og fremst að dýrið búi við viðunandi aðstæður, eins og t.d. kýr og sauðfé.
Af hverju finnst okkur að kjúklingakjöt eigi að vera ódýrt?
Gerum okkur grein fyrir að kjúklingur er ódýr eingöngu vegna þess að búið er að hámarka hagkvæmni í ræktun kjúklinga, sem gerir aðstæður dýranna og meðhöndlun alla ömurlega. Þeir lifa mjög þröngt alla ævi, gangandi um í eigin skít, þeir eru ofaldir og eiginlega vanskapaðir fullvaxnir, farið er með þá eins og dauða hluti meðan þeir eru enn á lífi, þegar þeir eru færðir til slátrunar er þeim bókstaflega hrúgað í kassa, menn grípa þá hvernig sem er, í vængi, fætur, í akkorði.
Þannig er hægt að framleiða kjúkling ódýrt.
Meðan við lokum augum fyrir þessu og höldum áfram að kaupa "venjulegan" kjúkling erum við að styðja svona verksmiðjuframleiðslu á dýrum.
Berum virðingu fyrir dýrum, líka hænsfuglum.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2014 | 23:29
Vextir - fræðsla fyrir Framsókn 2
Vextir (áður fyrr renta) er það gjald sem greitt er fyrir lán á fjármagni, m.ö.o. leiga sem greidd er fyrir fjármagn
(héðan)
Orðið vextir er fleirtala af vöxtur, það að eitthvað vex, stækkar.
Verðbætur eru ein tegund vaxta. Þegar verðbólga er 4.2% eins og núna, og verðtryggt lán t.d. frá ÍLS ber 4.2% vexti ofan á verðbætur, þá eru heildarvextir 8.4%. Þetta er sú tala sem þarf að hafa í huga ef bera á saman við óverðtryggð lán, sem bera bara nafnvexti, enga "verðbóta"-vexti.
Þessi tala, 8.4% vextir, er mjög há. Auðvitað þarf að taka tillit til verðbólgu, en raunvextirnir, vextirnir að frádreginni verðbólgu (þ.e. uppgefnu "nafn"-vextirnir á verðtryggða láninu) uppá 4.2% eru líka mjög háir, tvö- til þrefalt hærri en raunvextir í löndum í kringum okkur um þessar mundir.
Minn viðskiptabanki býður í dag óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum uppá 6.75% eða 7.40% þeir eru fastir til næstu þriggja ára.
Eins og staðan er akkúrat í dag eru því óverðtryggðu lánin umtalsvert ódýrari, eða sem nemur annað hvort 1%, eða 1.65%. Á 20 milljón króna láni jafngildir sá mismunur 200.000 kr. eða 330.000 kr., á einu ári.
Nefnd forsætisráðherra um "afnám" verðtryggingar ræðir í skýrslu sinni að breyta mætti vaxtabótum, til að búa til frekari "hvata" fyrir fólk til að taka óvertryggð lán, á þá leið að greiða bara vaxtabætur fyrir þá vexti sem kallast nafnvextir, en ekki á þá vexti sem kallast verðbætur.
Sá sem tekur óvertryggt lán og greiðir 6.75% vexti myndi þannig eiga rétt á hærri vaxtabótum en sá sem tekur verðtryggt lán með 8.4% heildarvöxtum.
Mikið rosalega er það eitthvað Framsóknarleg hugmynd.
Svona rit þyrfti að vera til á íslensku, fyrir Framsóknarmenn sem og aðra.
Viðskipti og fjármál | Breytt 28.1.2014 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2014 | 19:33
Forsætisráðherra fer með rangt mál
Forsætisráðherra segir að þeir sem hafa löng verðtryggð húsnæðislán fái þess kost að breyta þeim í óverðtryggð án þess að greiðslubyrði aukist til mikilla muna.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í vikunni. Ráðherrann sagði að það kæmi fram í skýrslu sérfræðinefndarinnar um afnám verðtryggingar hvernig þetta gæti gerst.
Þetta er ekki rétt hjá Sigmundi Davíð. Ég er búinn að lesa skýrsluna og spyrja fleiri. Það kemur ekki fram í skýrslunni hvernig eigi að vera hægt að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð þannig að greiðslubyrði aukist ekki "til muna".
Af hverju segir Forsætisráðherra þetta?
Enda er erfitt að sjá hvernig þetta væri hægt. Helsti kostur verðtryggðra lána (því lánin hafa ekki bara ókosti) er sá að með þeim er greiðslubyrði þessara frekar dýru hávaxta lána lágmörkuð.
Að ætla að taka kosti þessara lána en skilja ókostina eftir er pínu eins og að vilja halda kökunni og éta hana líka. Stundum verðum við að velja og hafna á milli ólíkra valkosta. Velja hvort við viljum eiga bíl eða vera bíllaus, eiga börn eða vera barnlaus, búa í borg eða sveit. Allir hafa svona valkostir kosti og galla. Við getum sjaldnast valið bara kostina og afneitað ókostum.
Forsætisráðherra verður að koma með fæturna niður á jörðina. Það þýðir ekki að byggja pólitík og málflutning á draumórum og óraunhæfum væntingum, jafnvel þó svo Framsóknarflokkurinn hafi verið kosinn til valda út á einmitt slíka pólitík.
Forsætisráðherra hættir til að spinna sig frá raunveruleikanum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2014 | 08:40
Um vexti - fræðsla fyrir Framsókn 1
Eru 40 ára verðtryggð lán óhagstæðari en 25 ára verðtryggð lán?
Nei, ef lánin bera sömu vexti er annað ekki óhagstæðara en hitt.
Búum til einfalt dæmi. Ef þú færð 1 milljón að láni í eitt ár með einn gjalddaga, á 5% vöxtum, greiðir þú eina milljón og fimmtíu þúsund tilbaka ári seinna. Heildarkostnaður lánsins er 50.000 kr.
Ef þú færð eina milljón að láni í 10 ár, með tíu jöfnum afborgunum þar sem allir vextir borgast jafnóðum, 5% af höfuðstól hverju sinni, eru vaxtagreiðslur í heildina 275.000 kr.
Er síðara lánið óhagstæðara en hið fyrra?
Nei. Lánin eru nákvæmlega jafn hagstæð. Í síðara tilvikinu ert þú að fá MEIRA að láni. Þú færð eina milljón lánaða í eitt ár, en að því ári liðnu færðu 900.000 kr. lánaðar í annað ár, svo færðu 800.000 kr. lánaðar þriðja árið og svo koll af kolli.
Þú borgar sama verð, en þú ert ekki að fá sömu vöru, þú ert að fá meira lánað, þú færð hverja krónu lánaða að meðaltali í fimm sinnum lengri tíma. Fyrir hverja lánaða krónu er greitt jafn mikið í vexti, á hverju ári.
Með sama hætti er 40 ára lán húsnæðislán, hvort sem það er verðtryggt eða ekki, ekki óhagstæðara en 25 ára lán á sömu vaxtakjörum. Þetta ættu meira að segja Framsóknarmenn að skilja.
19.1.2014 | 23:51
spurningar til séra Arnar Bárðar
Jesús ögraði samtíð sinni og kom stöðugt á óvart. Hann er merkasta persóna mannkynssögunnar og sú eina sem vert er að hafa að altækri fyrirmynd.
Nú er í tísku að sparka í þessa fyrirmynd. Þeim fjölgar sem sækja í eftirlíkingar af kirkjulegum athöfnum í nafni trúleysis eða heiðindóms. Þeim fjölgar sem vanvirða heitin sem unnin voru við skírnina þegar lífsvegurinn var markaður. Ísland veður [sic] ekki betra samfélag á heiðnum, guðlausum grunni. Tilraun um slíkt þjóðskipulag var reynd í tvígang á liðinni öld í Evrópu og líka í Asíu en með skelfilegum árangri.
Þessi orð sagði séra Örn Bárður Jónsson, prestur í Neskirkju, í predikun í morgun 19. janúar. Orð hans vekja upp ýmsar spurningar.
Hvaða athafnir er Örn Bárður að tala um sem "eftirlíkingar" kirkjulegra athafna? Er hann að tala um borgaralegar fermingar á vegum félagsins Siðmennt? Borgaralegar hjónavígslur? Nafngjafarveislur?
Hefur Örn Bárður verður viðstaddur borgaralega fermingu? Veit hann um hvað hann er að tala??
Borgarleg ferming líkist frekar hátíðlegri útskriftarathöfn eftir námskeið, en þeirri trúarjátningu sem ferming Þjóðkirkjunnar er.
Telur Örn Bárður að þeir unglingar sem vilja ekki, eða eru ekki reiðubúin, að fermast kirkjulega séu að svíkja heit? Unnu börnin sjálf skírnarheit þegar þau voru ómálga ausin vatni? Er þessi skoðun sérans hans prívatskoðun, eða er þetta svona samkvæmt guðfræði Þjóðkirkjunnar?
Við skulum ekki fara út í nasisma-tenginguna.
Það er leitt að sjá Örn Bárð vera með svona skæting í aðrar lífsskoðanir en þá sem hann predikar.
Séra Örn Bárður Jónsson. Ríkiskirkjuprestinn skortir umburðarlyndi fyrir öðrum lífsskoðunum.
Trúmál og siðferði | Breytt 20.1.2014 kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)