Fáeinir mótmæla nú birtingu álagnarskrárinnar. Það er af sem áður var, þegar stuttbuxnaungliðar fjölmenntu á skattstofu og reyndu að hindra aðgang fólks að skránum sem nú liggja frammi næstu tvær vikur. Hugtakið "launaleynd" heyrðist vart fyrr en svona áttatíu-og-eitthvað, hluti af frjálshyggjubólunni sem þá reið yfir. Launaleynd gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum kunnir, launatöflur og kjarasamninga má núorðið finna á netinu. Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir ári, rétt að rifja hann upp, í ljósi frétta af furðulega háum launum yfirmanna sumra íslenskra fyrirtækja, meðal annars fyrirtækja sem hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir:
Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.
Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: "Hættum að snuðra í einkamálum annarra". Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó "ekki nema" 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.
Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.
Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að "þetta komi okkur ekkert við".
Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborg, ósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.
Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.
Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.
Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekkihundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.
Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.
Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja?