Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ósamkvæmni NEI-sinna í Icesave máli

Af hverju heyri ég engan kyrja rulluna "Almenningur á ekki að borga skuldir einkabanka" í sambandi við innlán Íslendinga í hinum gjaldþrota gamla Landsbanka?

Þau innlán eru jú alveg jafnmiklar skuldir einkabanka.

Ég átti ekki krónu í Landsbankanum. Samt tryggir ríkið 100% innstæður annarra, með mínum skattgreiðslum.

Þetta minnast NEI-sinnar aldrei á.

Punkturinn minn er sá að að röksemdin um að Icesave "komi okkur ekki við" af því um sé að ræða einkafyrirtæki er ótæk, ein og sér. Banki sem varðveitir sparifé fjölda fólks og jafnvel aleigu er alls ekki sambærilegt fyrirtæki og tískubúð, heildsala eða hvert annað einkafyrirtæki.

Þess vegna er sorglegt að Ólafur Ragnar Grímsson kyrji þessar of-einfölduðu grunnhyggnu röksemdir úti í heimi, án þess að minnast einu orði á að málið á sér svo sannarlega fleiri hliðar. Slíkt leyfi ég mér að kalla lýðskrum. En hann þarf heldur ekkert að hugsa um þær hliðar, hann þarf ekki að bera ábyrgð á því að leysa málið


Brýtur Ólafur stjórnarskrá?

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og skýrri stjórnskipun felur Forseti Íslands ráðherrum vald sitt. Forsetinn er þjóðhöfðingi með afar takmarkað pólitískt vald.

Milliríkjasamningar og pólitískar deilur eru klárlega á forræði ríkisstjórnar og ráðherra. Nú fer Ólafur út um víðan völl með pólitískar yfirlýsingar um mál sem er viðkvæmt og erfitt og samningar standa yfir um.

Eru yfirlýsingar Forseta í samræmi við stefnu ríkisstjórnar landsins? Hefur hann borið ummæli sín undir þann ráðherra sem ber ábyrgð á samningum um Icesave?

Er Ólafur að tala í umboði íslenskra stjórnvalda? Eða er hann talsmaður "þjóðarinnar" en án nokkurs sambands við þau stjórnvöld sem stjórna landinu eða umboðs frá þeim?

Hvað finndist okkur ef Karl Bretaprins eða Beatrix Hollandsdrottning væri að tjá sig um þessa deilu við Íslendinga, eða önnur viðkvæm milliríkjapólitísk mál í sínum löndum, án nokkurs samráðs við ríkisstjórnir sinna landa?


mbl.is Ósanngjarnar kröfur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blekkjandi orðalag á eyðublaði Þjóðskrár

Á eyðublaði til að breyta trúfélagsskráningu stendur þetta:

 

Hvert renna sóknargjöld?

Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Þessi fjárhæð - sóknargjald - reiknast fyrir hvern þann sem orðinn er 16 ára 31. desember árið áður en gjaldár hefst.

Gjaldið miðast við skráningu í þjóðskrá 1. desember árið áður en gjaldár hefst og skiptist þannig:

1. Gjald einstaklings, sem skráður er í þjóðkirkjuna, rennur til þess safnaðar sem hann tilheyrir.

2. Gjald einstaklings, sem tilheyrir skráðu trúfélagi, rennur til hlutaðeigandi trúfélags.

3. Gjald einstaklings, sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, hefur verið afnumið.

 

Nú spyr ég lesendur: Hvað haldið þið að orðalag í 3. lið þýði? 

Lesið þetta hægt og rólega yfir, ég bíð með að skrifa á meðan.

...

Búin að lesa aftur?

Lítum fyrst á fyrstu tvo liðina: Þar er talað mjög skýrt um að gjald einstaklings, renni til trúfélags hans. Sem sagt, yfirvaldið, sem býr til þennan texta, lítur svo á að þetta sé tiltekið gjald - hluti af tekjuskatti - eyrnamerkt trúfélagi sérhvers einstaklings.

Svo kemur að þriðja liðnum, þar sem sagt er að þetta eyrnamerkta trúfélagsgjald hvers einstaklings hefur verið "afnumið" fyrir þá einstaklinga sem ekki eru í neinu trúfélagi. "Meikar sens", eins og sagt er, til hvers að rukka einstaklinga um félagsgjald í trúfélag, sem ekki eru í neinu trúfélagi?

En viti menn, haldi nú einhver að þetta þýði að viðkomandi einstaklingar þurfi ekki að greiða þetta gjald, er það regin-misskilningur!

Takið eftir, enginn er rukkaður um þetta gjald, þetta er jú bara "hlutdeild" í tekjuskatti. Og raunar grunar mig sterklega að trúfélög fái þetta gjald greitt úr ríkissjóði fyrir sérhvern skráðan félaga, óháð því hvort hann eða hún raunverulega greiði nokkurn tekjuskatt.

Þegar sagt er að gjald trúfélagslausra hefur verið "afnumið", er átt við að búið er að afnema það fyrirkomulag að greiða sóknargjald trúfélagslausra til Háskóla Íslands, eins og var til miðs árs 2009. Og hvað verður þá um það? Jú, það situr eftir í Ríkissjóði.

Sem sagt, ríkið innheimtir félagsgjald, eyrnamerkt trúfélögum, en heldur því eftir, fyrir þá sem ekki eru skráðir í neitt trúfélag.

Af hverju þora yfirvöld ekki að segja þetta á eyðublaði Þjóðskrár?


Hvað eiga kirkjan, KR, Oddfellow og Flugfreyjufélagið sameiginlegt?

Í sjálfu sér ekki neitt. En frá mínum sjónarhóli séð eiga öll þessi félög þó það sameiginlegt að ég er ekki félagi í þeim. Það þýðir ekki að ég sé neitt á móti þeim, síður en svo, ég bara á ekki samleið með þeim af ýmsum ástæðum og þarf auðvitað ekkert að afsaka það, frekar en að ég þurfi að skýra af hverju ég er ekki í ballett eða frímerkjaklúbbi. Ég held meira að segja að þetta séu allt góð og gegn félög sem vinna gott starf. En sem sagt, ég er ekki félagi í þeim og borga þ.a.l. ekki til þeirra félagsgjöld. Nema til kirkjunnar. Ríkið innheimtir af mér safnaðargjald þó svo ég sé ekki í neinum kirkjusöfnuði. Dálítið spes. Safnaðargjaldið mitt rennur beint í ríkissjóð, sem m.a. borgar laun biskups. Ég hefði frekar kosið að þetta félagsgjald gengi til félags sem ég sjálfur kýs að vera félagi í, svo sem til kórsins míns, RKÍ, Amnesty, Ferðafélagsins, eða annars félags, af þeim sem ég er félagi í og greiði gjöld til. En svona er þetta.

Má ekki fara að breyta þessu?


Verður OR gjaldþorta útaf Icesave?

Verður Orkuveita Reykjavíkur gjaldþrota, vegna þess að fyrirtækið geti ekki endurfjármagnað stór lán fyrir gjalddaga, vegna þess að Icesave verði enn ófrágengið næsta vor?

Það er spurning... 


Ameríka eða Sádí-Arabía?

Frétt þessi er vissulega skrifuð til að vera í aðra röndina skondin en er enn eitt dæmið um að Bandaríkin eru að mörgu leyti miðaldaríki.
mbl.is Send í fangelsi fyrir lágan buxnastreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágvær mótmæli ungliða

Fáeinir mótmæla nú birtingu álagnarskrárinnar. Það er af sem áður var, þegar stuttbuxnaungliðar fjölmenntu á skattstofu og reyndu að hindra aðgang fólks að skránum sem nú liggja frammi næstu tvær vikur. Hugtakið "launaleynd" heyrðist vart fyrr en svona áttatíu-og-eitthvað, hluti af frjálshyggjubólunni sem þá reið yfir. Launaleynd gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum kunnir, launatöflur og kjarasamninga má núorðið finna á netinu. Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir ári, rétt að rifja hann upp, í ljósi frétta af furðulega háum launum yfirmanna sumra íslenskra fyrirtækja, meðal annars fyrirtækja sem hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir:

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.

Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: "Hættum að snuðra í einkamálum annarra". Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó "ekki nema" 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.

Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að "þetta komi okkur ekkert við".

Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborg, ósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.

Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.

Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekkihundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.

Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja?


Yfirlýsing vegna fjölmiðlaumræðu

Vegna skipunar minnar sem Umboðsmaður heiðvirðra bloggara er rétt að taka fram eftirfarandi, í kjölfar fjölmiðlaumræðu:

Fyrirtækið ”Ég vil líka græða! ehf.” sem var í 75% eigu fyrirtækis míns “Áhættulaus fjárfesting ehf.” og 25% í eigu fyrirtækisins ”Með buxurnar á hælunum ehf.” sem var framselt til ungs háskólanema vegna veðmáls, var í lok árs 2008 selt til fyrirtækisins “Pabbi gerði bara eins og allir aðrir ehf.” sem var í eigu barna minna en hefur síðan verið afskráð.

500 milljón króna skuld fyrrnefnds fyrirtækis vegna ógreidds kúluláns sem notað var til hlutabréfakaupa með veði í engu nema bréfunum sjálfum er því mér algjörlega óviðkomandi.

Virðingarfyllst...


Stökkbreytt lán? Stökkbreytt laun?

Fyrir nokkrum árum voru fáein fyrirtæki – útflutningsfyrirtæki – sem buðu starfsfólki sínu að þiggja hluta launa sinna í erlendum gjaldmiðli, t.d. Marel hf. Þannig gátu menn fengið t.d. 20 eða 40% launa sem fasta Evruupphæð. Þetta var talið upplagt til að núlla út áhættu af skuldsetningu í erlendri mynt. Hér er frétt um málið frá 2006. Og önnur nýrri frétt frá því í febrúar 2008 þar sem aftur er talað um að starfsmenn fyrirtækisins eigi þennan valkost, en þar sem bankar hafi ekki boðið upp á útborganir í Evrum hafi launin verið Evrutengd.

SPURNING: Vita einhverjir lesendur hvort boðið sé uppá svona hlutalaun enn í dag, miðuð við fasta upphæð í erlendum gjaldeyri?

Ætli þessi starfsmenn líti svo á þessi hluti launa sinna hafi stökkbreyst??

Líkingarmál um stökkbreytingar kemur úr líffræði. Ég held þó að líkingin sé ekki alls kostar rétt. Þessi lán hafa alls ekki stökkbreyst. Sé miðað við þann gjaldeyri/gjaldeyris-”körfur” sem lánin miðuðust við standa þau nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir. Það er bara þegar farið er að reikna lánin yfir í örmyntina íslenska krónu sem lánin “stökkbreytast”.

Það voru nefnilega alls ekki lánin sem stökkbreyttust, það var krónan sem stökbreyttist.

Önnur líking vísinda á betur við, það eru hnitakerfi stærðfræðinnar. Við lifum og hrærumst í einu hnitakerfi og eðlilega miðum við flesta hluti út frá því. Séð frá okkar ör-hnitakerfi hefur ýmislegt stökkbreyst, svo sem verðið á kaffibollla á Strøget í Kaupmannahöfn, svo ekki sé talað um miða á fótboltaleiki í Bretlandi, vinsælt tómstundagaman 2007. En kaffið í köben kostar álíka margar krónur nú og 2007, danskar krónur. Þær breyttust ekki neitt, í sínu hnitakerfi.


Hvað hefði FME gert?

... ef FME hefði brugðist við og skoðað þessa samninga?

Jú, þá hefði kannski FME gert þá athugasemd að þorri þessara lána til einstaklinga a.m.k .virtust vera íslensk lán, en með fasta viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla.

FME hefði svo átt að komast að þeirri niðurstöðu að það væri óheimillt. Bankarnir mættu auðvitað veita erlend lán, en ekki gengistryggð íslensk lán.

Þá hefðu bankarnir líklega tekið sig til og breytt orðalagi og formi lánanna, tekið fram lánsfjárhæð í erlendum gjaldeyri, jafnvel búið til gjaldeyrisreikning fyrir hvern lánþega og millifært lánið inn á slíkan reikning og millifært svo um hæl inn á íslenskan krónureikning lánþegans.

Þá hefðu þessi lán verið alveg lögleg en að öðru leyti virkað nákvæmlega eins! Engir Hæstaréttardómar hefðu fallið, og lánþegar sætu nú ekki fagnandi.

Svo lánþegar "erlendra" lána, sem voru bara íslensk gengistryggð lán, ættu að fagna framtaksleysi FME!


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband