Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

SDG: "Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu"

Þetta sagði í frétt í maí 2013, skömmu eftir að núverandi ríkisstjórn kynnti stjórnarsáttmála sinn, undir fyrirsögninni Þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram.

 

„Aðildarviðræðum verður ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um Evrópusambandsmálin á blaðamannafundi um stjórnarsáttmálann sem nú fer fram á Laugarvatni.

„Í millitíðinni verður gerð úttekt á stöðu viðræðnanna sem verður kynnt í þinginu sem mun svo taka ákvörðun um framhaldið.“

Spurður hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um málið muni yfir höfuð fara fram segir Sigmundur svo vera.

Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu en við ákvörðun tímasetningar á henni verður að meta aðstæður,“ segir Sigmundur. „Það hefur mikil þróun átt sér stað á undanförnum árum og sambandið hefur gjörbreyst.“

 

sigmundur2 


Mega aðrir skipta sér af OKKAR málum?

Enn á ný eru Bandaríkjamenn að gera veður út af hvalveiðum Íslendinga og hóta okkur ýmsu, ef við höldum þeim til streitu. og enn á ný heyrast sumir kvarta undan því að þeir séu að skipta sér af hvernig við nýtum okkar auðlindin.

mér finnst þetta bara prinsippmál að vera ekki að láta aðrar þjóðir segja okkur fyrir verkum, sama hvað það er

las ég í kommenti á Facebook. 

Eru þetta góð rök? Er það gott og sjálfsagt "prinsippmál" að aðrir skulu ekki skipta sér af okkar málum? Hvaða mál eru OKKAR mál?

Var Kárahnúkavirkjun og Hálslón bara "okkar" mál? Hvað ef við byggjum háhitavirkjun í Landmannalaugum? Virkjum Dettifoss? Útrýmum haferninum eins og við útrýmdum geirfuglinum?

Þessi má eru ekki alfarið okkar mál. Ekki frekar en að það sé einka-innanríkismál Brasilíumanna hvort þeir höggvi niður allan Amasónfrumskóginn, eða einkamál suður-Afríkumanna hvort þeir heimili veiðar á svörtum nashyrningum.

Akkúrat núna vilja margir að íslenskir ráðamenn komi skilaboðum áleiðis til Rússlands vegna lagasetningar um "áróður" um samkynhneigð.  Mörgum Rússum finnst þetta örugglega vera hin mesta afskiptasemi af þeirra innanríkismálum.

Það er ekkert prinsipp að ekki megi skipta sér af einhverju sem gerist í öðru ríki. Landamæri afmarka ekki hverju við megum skipta okkur af. Mannréttindi, sjálfbær nýting náttúru, virðing fyrir lífi, bæði mönnum og skepnum eru málefni sem eru ekki afmörkuð af landamærum.

Landamæri eru ekki til í alvörunni.

rhino 


Ísland styður Pútín og Rússa

Mörg lönd kjósa að senda Rússum skilaboð með því að senda ekki æðstu þjóðhöfðingja á Vetrarólympíuleikana í Sochi sem haldnir eru í þessum mánuði. Þetta er vegna þess hvernig þróun í ýmsum mannréttindamálum virðist beinlínis fara afturábak í Rússlandi um þessar mundir.

Ísland  tekur skref í hina áttina og sendir Rússum og ekki síst Forsetanum skýr skilaboð um stuðning. 

Mér sýnist á gúggli og leit á ágætri heimasíðu Forsetaembættisins að núverandi Forseti Íslands hafi aldrei áður sótt vetrarólympíuleika, ekki 1998, 2002, 2006 eða 2010.

En núna árið 2014 ætlar Forsetinn að heiðra gestgjafana í Sochi með nærveru sinni og forsetafrúarinnar. Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands munu einnig sækja leikana fyrir Íslands hönd.

Þetta mun vonandi hafa jákvæð áhrif á samband okkar við Rússland, en Forseti Íslands hefur oft lýst því í ræðu og riti að Rússland og Kína séu mikilvægar vinaþjóðir Íslands, nú og í framtíðinni. Forsetinn hefur mótandi áhrif á utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar og er fulltrúi okkar víða á erlendri grund. 

 

Herra Pútín - Ísland styður þig, við erum bandamenn Rússlands!

 op1

op2

 
op3 
 
op4

 


Nýársávarp Forseta 2014 - rýni

Eins og ég sagði frá í seinasta pistli hlýddi ég eins og fleiri á Forsetann.  Nú hef ég lesið ávarpið yfir í rólegheitum og langar að fara yfir það og kryfja nokkur atriði.

1. Heimkoma handritanna var ávöxtur "órofa samstöðu þjóðarinnar" 

Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp. 

Hátíðarhöldin í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar áréttuðu að heimkoma handritanna var ávöxtur af órofa samstöðu þjóðarinnar, krafti sem gaf kjörnum fulltrúum og fræðasveit styrk til að sannfæra Dani 

Nú er ég aðeins of ungur til að muna atburðarás handritamálsins svokallaða þar sem hápunkturinn var koma helstu höfuðhandrita okkar árið 1971. En er ekki ofsögum sagt að þetta mál hafi verið knúið áfram með samstöðu þjóðarinnar? Vissulega var þetta óumdeilt mál hér á landi, en ég hef nú frekar haldið að þetta hafi verið unnið og leyst af stjórnmálamönnum og duglegum diplómötum og að almenningur hafi ekki skipt sér mikið af þeim málarekstri. Þeir sem eldri eru geta staðfest hvort þetta sé rétt. Hér er yfirlitsgrein frá 1994.

2. Hornsteinar sjálfstæðisbaráttunnar byggðust á samstöðu þjóðarinnar

Stjórnarskráin, heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun – allir byggðust þessir hornsteinar á samstöðu þjóðarinnar; sigrarnir unnust þegar hún réði för. Sundruð sveit náði aldrei neinum áföngum að sjálfstæði. 

Ég hef aðeins skoðað þetta í seinasta pistli. Þetta er orðum aukið og að hluta alrangt. Flókin og erfið mál verða sjaldnast leyst í einhverri allsherjar samstöðu. Vissulega getur ákveðin samstaða verið gagnleg, en hún er alls ekki forsenda framfara, hvorki í sjálfstæðisbaráttu né öðrum lýðræðisumbótum. Gagnrýnin umræða, skoðanaskipti og líflegur "debatt" er hornsteinn lýðræðis, ekki samstaða.

3. Þjóðarsáttarsamningarnir

Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar. 

"Þjóðarsátt" var fyrst og fremst snjöll nafngift á tímamótasamningum samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnarinnar. Samningar þessir voru vissulega ávöxtur sáttar milli þessara aðila. Nafngiftin var svo snjallt "PR", í þeirri viðleitni að sannfæra þjóðina um gagn og nauðsyn þessa samninga. 

4. Icesave - "eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur"

Við munum líka hvernig eindreginn vilji þorra þjóðar færði okkur sigur í harðri deilu um Icesave; málstaður okkar reyndist að lokum hafa lögin með sér. 

Ólafur Ragnar, sem virkur þátttakandandi í Icesave-slagnum, er ekki heppilegastur sem hlutlaus söguskýrandi þessa máls. Vissulega má segja að Ísland hafi, með forseta í fararbroddi, náð að virkja almenning á sérstakan og nokkuð sögulegan hátt í þessari refskák við Breta og Hollendinga, en öllum er í fersku minni að sérstaklega á seinni stigum var langt í frá einhver "þjóðarsátt" um þetta mál. Margir töldu - og telja jafnvel enn - að sú leið sem farin var í lokakafla sögunnar, að fara með málið fyrir dóm, hafi verið mjög áhættusöm. Og það var svo sannarlega ekki þjóðarvilji eða "samstaða" sem réð hagstæðri útkomu dómstólsins. Sú útkoma koma raunar mjög mörgum lögspekingum á óvart, jafnvel hörðum Icesave-"Nei"-sinnum.

5. Samstaða Alþingis

Þótt málvenjan skipti Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu, er hollt að minnast þess að reisn þingsins var ætíð mest þegar flokkarnir báru gæfu til að standa saman; þingheimur vex af því að slíðra sverðin. 

Forsetinn nefnir sem eitt dæmi um slíka "reisn" afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingum í lok síðustu aldar. Nú má vera að þetta dæmi sé ágætt sem slíkt. Hitt er þó líka algengt að ýmis mál renna í gegn umræðulaust í fullri "samstöðu" og síðar koma í ljós ýmsir gallar og vankantar sem hefði betur mátt ræða í undirbúningi. Þegar mikil samstaða ríkir um mál á Alþingi hef ég oftar en ekki áhyggjur af því að verið er að samþykkja eitthvað "gott", sem allir eiga að vera sammála um, en mætti samt skoða og ræða.

6. "Sáttmáli kynslóðanna"

Í glímunni við skuldavanda heimilanna er sáttmáli kynslóðanna forsenda víðtækrar lausnar.

Hvaðan kemur þetta hugtak, "sáttmáli kynslóðanna"? Jú, þetta er hugtak sem fyrst heyrðist í kynningu nefndar ríkisstjórnarinnar 30. nóvember á "skuldaleiðréttingar"-pakkanum margfræga: "Aðgerðin sögð sáttmáli kynslóða"

En af hverju skyldi þessi pakki kallaður þessu nafni? Ætli ástæðan sé ekki svipuð og með áðurnefnda "Þjóðarsáttar"-samninga, þetta er "PR", búið til nafn til að sannfæra okkur um ágæti og nauðsyn aðgerðanna. Hugsunin að baki, þ.e. tilvísun í "kynslóðir" er væntanlega sú að sumir fá auðvitað minna en aðrir í þessari risamillifærslu, elsta kynslóðin sem á skuldlaust húsnæði fær ekkert, yngsta kynslóðin sem ekki hefur keypt húsnæði fær heldur ekki neitt. Hugtakið "sáttmáli kynslóðanna" á kannski að að sætta þessar kynslóðir við stóru millifærsluna.

Það er óneitanlega sérstakt að Forsetinn taki með þessum hætti beinan þátt í kynningar- og PR-starfi ríkisstjórnarinnar í máli sem enn er ekki búið að kynna og ræða á Alþingi. En þetta kemur kannski ekki á óvart. Núverandi forseti er ekki ópólitískur og er bandamaður sitjandi ríkisstjórnar, a.m.k. nú um sinn.

7. Ísland í "lykilstöðu" á Norðurslóðum

Norðurslóðir sem áður voru taldar endimörk hins byggilega heims eru í vaxandi mæli hringiða nýrrar heimsmyndar, breyting sem Norðurskautsráðið staðfesti í maí með sögulegri samþykkt. [...] Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; ...

Ég verð að segja eins og er, ég skil ekki þetta norðurslóðatal Forsetans. Ég sótti Atlasinn minn og fletti upp kortum af Norðurpólnum til að að reyna að skilja hvernig Ísland eigi að verða miðpunktur Norðurslóða í bjartri framtíð bráðnandi jökla, einskonar Klondyke nýja Norðursins, ef marka má orð Forsetans!

Ég heyri lítið minnst Norðurslóðaráð (Arctic Council) nema helst í ræðum Forseta Íslands. (Vissuð þið að Ísland var í forsæti ráðsins árin 2002-2004? Nei, ekki Forseti Íslands heldur ríkisstjórn landsins, þ.e. utanríkisráðherra eða fulltrúi hans.) Á heimasíðu ráðsins er megináhersla lög á ýmis umhverfismál og hagsmuni frumbyggja Norðurslóða. Íslendingar eru ekki taldir með sem "frumbyggjar"* heldur er átt við Inúita, Sama og þjóðflokka norður-Síberíu og Kamchatka. Íslendingar hafa hingað til haft lítil samskipti við Ínúita og frekar litið niður á. Það er jákvætt ef Forsetinn nái að bæta samskipti Íslands við granna okkar í Grænlandi, en ég hefði frekar vilja heyra Forsetann tala um umhverfi Norðurslóða og ógnir og áskoranir sem íbúar hins raunverulega Norðurs þurfa að mæta í stað glaðhlakkalegrar umræðu um "tækifæri" sem felast í hlýnun jarðar og bráðnun jökla.

*(Við teljumst ekki frumbyggjar hins eiginlega norðurheimskautasvæðis, það sem á útlensku nefnist "the Arctic", sjá t.d. færslu hér um 'Arctic Council'.) 

8. Gömul og góð tengsl Rússa við Ísland 

Vilji Rússa til að efla gömul og góð tengsl við Ísland með auknum áherslum á Norðurslóðir birtist svo glöggt í viðræðum við Vladimir Putin í september, vilji sem forseti Rússlands hefur reyndar lýst áður einkar skýrt. 

Hér verða sagnfræðingar að aðstoða mig. Hvað í ósköpunum er Forsetinn að tala um? Vöruskipti Íslands og Sovétríkjanna?

Ég vil gjarnan sjá góð tengsl Íslands við sem flestar þjóðir, þar á meðal Rússa, frekar þó við aðra Rússa en akkúrat leiðtoga þeirra Pútín, fyrrum foringja leyniþjónustu alræðisríkisins gamla, sem ræktar jöfnum höndum fordóma gegn samkynhneigðum og styrk tengsl við óligarka Rússa sem tóku yfir helstu auðlindir Sovétsins og eru nú meðal ríkustu manna heims.  

9. Vorum "heft í fjötra kalda stríðsins", nú í lykilstöðu

Ísland sem var um aldir einangrað og á fyrstu áratugum lýðveldis heft í fjötra kalda stríðsins, er nú eftirsóttur bandamaður við þróun samstarfs um nýja Norðrið; er í lykilstöðu á vettvangi margra stofnana og tengslaneta, norrænna og evrópskra, og einnig þeirra sem teygja sig alla leið til Asíu og yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna og Kanada. 

Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður, "heft í fjötra kalda stríðsins". Að hvaða leyti hefti kalda stríðið Íslendinga?  Ég hélt reyndar að við hefðum haft allnokkurn hag af strategískri legu Íslands í kalda stríðinu, alla vega sköpuðust störf og viðskipti fyrir fjölda fólks, hvort sem það hafði alfarið góð áhrif á þjóðarsálina.

Hvað varðar meinta lykilstöðu Íslands þá er ég langt í frá sannfærður um að stórþjóðir í kringum okkur sjái okkur sem "lykilríki" ef og þegar reynir á hagsmuni þeirra á Norðurslóðum. Kannski skortir mig hæfileika Ólafs frænda míns til að sjá sjálfan mig og þjóð mína sem nafla alheimsins.

Þessi pistill gæti orðið enn lengri, ræða mætti hvernig Forsetinn dregur inn Nelson Mandela til að styrkja enn frekar áramótaboðskap sinn um samstöðu. Mandela var mikils háttar maður, og honum tókst vissulega að halda margbreytilegri þjóð sinni saman á miklum umbreytingartímum. Ýmsir myndu kalla það kraftaverk að Mandela skyldi takast að leiða valdaskipti í Suður-Afríku án blóðsúthellinga og borgarastríðs, þó ýmsir meina að sú samstaða hafi verið á kostnað misskiptingar, sem alltof lítið var gert til að laga, enda fékk ríki minnihluti landsins að halda eigum sínum og yfirráðum yfir auðlindum svo til óskertum.

Það sem Mandela hins vegar tókst var að vera óskoraður leiðtogi allra landsmanna sinna, líka fyrrum andstæðinga sinna. Mandela rétti sáttahönd til hvíta minnihlutans og naut virðingar og vinsælda allra. Ólafur Ragnar á nokkuð langt í land með að verða óumdeilur Forseti allra Íslendinga. Boðskapur hans um samstöðu (um pólitísk stefnumál hans og ríkisstjórnarinnar sem hann veitir brautargengi?) breytir því ekki. 

leidtogar 

Leiðtogar Íslands 


Sluppum með skrekkinn

Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave málinu kom mörgum Íslendingum þægilega á óvart. Fyrirfram þorðu fáir að spá fyrir um útkomuna. Voru sumir farnir að undirbúa sig undir það að málið myndi tapast, eins og Forseti Íslands. Hann talaði um það í útlöndum að þetta væri ekki bindandi dómstóll og að dómurinn yrði bara ráðgefandi álit. Þetta hafa þó fræðimenn staðfest að var misskilningur Forseta eða vísvitandi rangfærslur.

Ég hef skrifað ófáa pistla um Icesave síðustu 3-4 ár. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa frekar hallast að því að um þetta mál ætti að semja. Eðlilega velti ég því fyrir mér hvort ég hafi haft rangt fyrir mér. En ég lít ekki þannig á. Þegar reynt er að meta líkur á ýmsum lögfræðilegum matskenndum atriðum skiptir ekki bara máli hvort sagt er 'Já, ég held að þetta muni gerast' eða 'Nei, ég tel þetta ólíklegt', heldur skiptir yfirleitt ekki minna máli hvernig svona mat er rökstutt. Lögfræðiálit sem segir bara eða Nei er lítils virði.

Þegar ég lít tilbaka og rifja upp mín skrif um Icesave er ég prýðilega sáttur við þann rökstuðning. En það var eitt það sem helst  skorti í Icesave umræðunni, að fólk gerði sér grein fyrir því að gagnaðilar málsins höfðu ýmis rök sín megin. (Af ýmsum ástæðum gerðu íslensk stjórnvöld lítið af því að skýra slík rök og yfirhöfuð rökstyðja samningsleiðina, við áttum bara að treysta því að þau væru að velja skástu leiðina. Og það er varasamt, að treysta sjórnvöldum í blindni.)

Ég vil sérstaklega rifja upp síðasta pistil minn um Icesave (að ég held), frá 10. mars 2012. Þar reyni ég að útskýra að það hafi vissulega falist ákveðin mismunun í meðhöndlun innlánsreikninga við fall gamla Landsbankans - sumir voru fluttir yfir í nýja Landsbankann (með eignum á móti þessum skuldum bankans) en aðrir voru skildir eftir í gamla bankanum. Það er óumdeilt að það er ekki eins meðhöndlun, og kom sér verulega illa fyrir Icesave sparifjáreigendur, eða þar til stjórnvöld Bretlands og Hollands tilkynntu að þau myndu greiða út fulla tryggingu (bæði þá sem TIF átti að dekka og „Top-up“ tryggingu sem þarlendir sjóðir dekkuðu).

Eins og ég útskýri í pistlinum ársgamla má vissulega segja að þessi mismunun hafi verið óhjákvæmileg. Spurningin sem eftir stóð var hvort íslensk stjórnvöld myndu ekki þurfa að bæta hana upp að einhverju leyti. Segir EFTA-dómurinn að þetta hafi verið í lagi? Nei. Það er tekið fram í dómnum að akkúrat þessari spurningu sé ekki svarað, því sóknaraðili gerði ekki kröfu um að fá úr þessu skorið. Þetta segir í dómnum:

221 The applicant has limited the scope of its application by stating that “the present case does not concern whether Iceland was in breach of the prohibition of discrimination for not moving over the entirety of deposits of foreign Icesave depositors into ‘new Landsbanki’, as it did for domestic Landsbanki depositors.

The breach is constituted by the failure of the Icelandic Government to ensure that Icesave depositors in the Netherlands and the United Kingdom receive payment of the minimum amount of compensation provided for in the Directive ...”

Af einhverjum ástæðum sem við í sjálfu sér getum bara giskað á en vitum ekki kaus ESA að kæra ekki Ísland fyrir brot á EES samningnum vegna þessarar ástæðu, að Icesave innistæður voru ekki fluttar yfir í nýja bankann með sama hætti og innlendar innistæður.

Dómurinn minnist svo raunar aðeins frekar á þetta og gefur í skyn að þótt kæran um mismunun hefði verið orðuð öðruvísi þyrfti að taka tillit til að EES-aðildaríki hafi ríkulegt svigrúm til ákvarðana í tilviki kerfislægs áfalls og ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

227 For the sake of completeness, the Court adds that even if the third plea had been formulated differently, one would have to bear in mind that the EEA States enjoy a wide margin of discretion in making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis provided that certain circumstances are duly proven. This would have to be taken into consideration as a possible ground for justification.

Kannski vildi ESA einfaldlega ekki leggja út í vafasama óvissuferð sem myndi óneitanlega snúast mjög sértækt um efnahagsaðstæður í bankahruninu og strax eftir hrunið og hvort íslensk stjórnvöld hefðu mátt grípa til neyðarráðstafana og hvort slíkar ráðstafanir gengu of langt.

 

Núna eftirá getum við vissulega sagt að það kom sér vel fyrir okkur að ESA fór ekki þessa leið. Því við vitum ekki hver útkoman hefði verið úr slíkri krufningu fyrir EFTA-dómstólnum. (Nema Framsóknarmenn og Moggabloggarar.) Það má draga ýmsan lærdóm af þessu máli. Um það verður kannski fjallað síðar.


Utanríkisstefna forseta?

Samkvæmt Stjórnarskrá Íslands fer ríkisstjórn með æðsta framkvæmdavald í landinu. Ríkisstjórnin er samkvæmt þingræðishefð íslenskrar stjórnskipunar studd meirihluta Alþingis, löggjafarþings Íslendinga. Alþingi markar utanríkistefnu þjóðarinnar, sem ríkisstjórn vinnur eftir.

Bara eitt lítið dæmi er t.d. þegar Alþingi samþykkti með miklum meirihluta að viðurkenna Palestínsku sjálfstjórnarsvæðin sem sjálfstætt ríki. Slíkt hefði aldrei utanríkisráðherra getað gert á eigin spýtur. Hvað þá Forseti. Það er Alþingis að samþykkja alþjóðasamninga og taka afstöðu í stórmálum. Annað dæmi er að það eru flestir sammála um að það hafi verið vítaverð mistök Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að samþykkja að setja Ísland á lista "viljugra þjóða" sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak. Slíka alvarlega ákvörðun og yfirlýsingu um stuðning við árásarstríð (sem ekki naut stuðnings Sameinuðu Þjóðanna) gegn sjálfstæðu ríki hefði tvímælalaust átt að bera undir Alþingi.

Þriðja dæmið sem við getum nefnt snýr að beiðni Kínverja um að fá áheyrnarfulltrúa í Norðurheimskautssráðið. Það eru fulltrúar ríkisstjórna þeirra ríkja sem í ráðinu sitja sem því ráða hvort Kínverjar fái þar áheyrn, þó svo einstaka þjóðhöfðingjar geti vissulega talað fyrir auknum samskiptum við ríkið stóra í austri. (Kína er raunar mjög langt frá Norðurheimsskautinu og þverneitar að ræða við eitt helst ríkið í Norðurheimskautsráðinu, Noreg, vegna þess að Norðmenn, ekki samt norska ríkisstjórnin, veittu kínverskum baráttumanni fyrir mannréttindum friðarverðlaun Nóbels.). 

Það dettur því fáum í hug að það sé hlutverk forseta Íslands að ákveða utanríkistefnu Íslands, eða pólitíska stefnu að öðru leyti. Enda myndu þá frambjóðendur til forseta væntanlega kynna pólitíska stefnuskrá sína, ef svo væri. Það er skýrt í stjórnarskrá að forseti "lætur ráðherra framkvæma vald sitt" (13. gr.), þar með talið vald í utanríkismálum. Forsetinn er "ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum" (11. gr.), "Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum." (14. gr.)

Þetta er allt frekar skýrt. Þess vegna vekur það athygli að einn núverandi forsetaframbjóðenda skuli tala um þetta með mjög sérstökum hætti og á skjön við alla aðra frambjóðendur og alla lagaspekinga landsins. Sá frambjóðandi segir að  forsetinn ekki bara geti markað sér sjálfstæða utanríkisstefnu, alveg óháð stefnu ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, heldur að það sé "hættuleg kenning" að telja að forsetinn skuli fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda!

Það vekur furðu að sá frambjóðandi sem svo talar sé núverandi forseti og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði. Er ekki eðlileg krafa kjósenda að frambjóðandinn upplýsi um utanríkisstefnu sína, fyrst hann telur sig algjörlega óbundinn af þeirri stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn markar? Hvaða stefnu ætlar Ólafur Ragnar Grímsson að fylgja næstu 4, 8 eða 12 ár, ef hann verður kjörinn forseti áfram?

Þetta sagði Ólafur Ragnar 13. maí sl.:

Það alvarlegasta er, að þessi fullyrðing hennar [Þóru Arnórsdóttur] um að forsetinn hafi, það sé skylda hans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar, maður heyrir þetta svona hjá ýmsum ráðherrum og fulltrúum ríkistjórnar á hverjum tíma, er alröng og af mörgum ástæðum. [...]Það hefur verið óskaforseti kannski sérhverrar ríkisstjórnar og óskaforseti núverandi forsætisráðherra, það væri forseti sem teldi það skyldu sína að fylgja bara línunni úr stjórnarráðinu. En þetta er bara stórhættuleg kenning. En hún er líka kolröng. [...] Það er auðvitað alvarlegt ef sá sem er að bjóða sig fram til þess að gegna forsetaembættinu lýsi því skýrt yfir í viðtali að hún telji það skyldu forsetans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnar. Og af hverju er þetta rangt. Þetta er í fyrsta lagi rangt stjórnskipulega séð vegna þess að það er ekkert í stjórnarskránni eða lögum sem segir að forseti eigi að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum enda hafa þær tekið miklum breytingum.

Ég komst ekki í að pikka inn meira. Þið getið hlustað á þetta hér, í upptöku af þættinum Sprengisandi frá 13.5., ca. 85. mínútu.

Ég skil ekki hvað forseta gangi til að tala svona. Ég held raunar að þarna tali hann þvert gegn betri vitund. Af því að hann heldur að þetta gangi vel í kjósendur, að stilla sér upp sem sjálfstæðu stjórnmálalegu valdi, gegn sitjandi óvinsællri ríkisstjórn og meirihluta Alþingis. Hann ætti að vita betur.

Þrátt fyrir ásýnd Alþingis þessi misseri þá tel ég það hættulegt, að frambjóðandi til forsetaembættis telji sig geta valsað um heiminn sem talsmaður okkar, án þess að fylgja stefnu löggjafarþings Íslands. Við lögum ekki Alþingi með því að kjósa forseta sem telur sig óháðan Alþingi og ríkisstjórn og heldur að það sé á valdsviði sínu, forsetaembættisins, að marka pólitíska stefnu Íslands.


Furðuleg hneykslun

Já en Steingrímur samþykkt ekki neyðarlögin!!!

... segja nú íhaldsmenn í hneykslunartón, af því fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon skyldi lýsa því að hann væri feginn að neyðarlögin héldu, og að ríkissjóður fengi ekki á sig þrettánhundruð milljarða kröfu, eða hvað það var sem hefði gerst ef dómur Hæstaréttur hafði farið á annan veg.

Ekki-leiðtogi stjórnarandstöðunnar sagði í yfirlýsingu:

Einnig er rétt að minna á að núverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sér ekki fært að styðja þau, né aðrir þingmenn vinstri grænna.

 

og blogggjammarar syngja með í kór.

Það má ALDREI gleymast að Vinstri-Grænir studdu EKKI neyðarlögin!!!!!!!

 

segir Halldór Halldórsson og fær tíu læk fyrir.

Gott að halda því til haga að vinstri grænir studdu ekki neyðarlögin. Er ekki rétt að setja ný neyðarlög og banna vinstri græna ?

 

segir Þórarinn Friðriksson brosmildur á svip.og einn helsti hugsuður Íslands, fyrrverandi farandverkamaðurinn og alþýðuhetjan, núverandi stórtæki laxveiðigúrú og lúxusjeppakall, Bubbi Morthens, segir:

Vinstri Grænir studdu ekki neyðarlögin veit fólk það ekki?

 

Þess vegna skulum við aðeins rifja upp söguna, fyrir þá sem eru með valvíst (selektíft) minni:Klukkan 16 mánudaginn 6. október 2008 hélt Geir Hilmar Haarde "Guð blessi Ísland"-ávarpið og sagði fólki að haldast í hendur en útskýrði að öðru leyti ekki neitt hvað stæði til. Samtímis voru starfsmenn Alþingis í óða önn að ljúka yfirlestri og útprentun á Neyðarlagafrumvarpinu. Þingmenn fengu frumvarpið í hendur rétt fyrir klukkan fimm. Þingfundur hófst klukkan 16:54. Forystumenn stjórnarandstöðu höfðu fengið að vita af málinu fyrr þennan dag og í framsöguræðu sinni sagði Geir Hilmar:

Ég hef kynnt þetta mál fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar og þakka þeim fyrir gott samstarf. Ég vænti þess að mál þetta geti orðið að lögum síðar á þessum degi.

 

Lokaatkvæðagreiðsla eftir þriðju umræðu um þetta risavaxna mál og flókna frumvarp fór fram klukkan 23:18 þetta sama kvöld.

Frumvarpið var viðamikið og gaf stjórnvöldum margháttaðar heimildir til að bregðast við yfirvofandi neyðarástandi. Mogginn reynir i stuttu máli að gera grein fyrir innihaldi laganna, nú þremur árum síðar og ég hvet lesendur til að renna yfir fréttaskýringuna og sjá hvort þeir átti sig glögglega á lögunum, og svari því hver fyrir sig hvernig þeim hefði liðið sem þingmönnum að fá svona frumvarp fyrirvarlaust í hendur klukkan fimm með þeim orðum að frumvarpið yrði að verða að lögum samdægurs.

Og svo voga hægrimenn sér að berja sér á brjóst og ásaka stjórnarandstöðuþingmenn þess tíma fyrir að hafa setið hjá við afgreiðslu neyðarlagafrumvarpsins, þingmenn sem þó voru fullkomlega samvinnuþýðir og hleyptu málinu í gegn á stysta mögulega tíma ÁN NOKKURRAR EFNISLEGRAR SKOÐUNAR EÐA UMRÆÐU.

Skammastu þín Bjarni Benediktsson.


mbl.is Hvað felst í neyðarlögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsti Forseti

Forseti lýðveldisins er um þessar mundir feykivinsæll. En það kemur að því að hann vilji sinna öðrum verkefnum, við getum ekki ætlast til að hann eyði ævihaustinu öllu í fórnfúst og erilsamt starf þjóðarleiðtoga. Heimildir mínar herma að háttsettir menn hjá Sameinuðu Þjóðunum horfi hýrum augum til hans sem fyrsta framkvæmdastjóra HIGPA, fyrirhugaðrar Jöklavarðveislustofnunar SÞ í Himalayafjöllum.

Hvort sem af því verður eða ekki verðum við fyrrr eða síðar að horfast í augu við að  enginn leiðtogi ríkir til eilífðar og að við munum þurfa að finna verðugan arftaka.Við þurfum annan gáfaðan og framsýnan leiðtoga, stórhuga, djarfan, sem getur talið í okkur kjark. Fámenn þjóð eins og við megum ekki láta þjóðarhagsmuni villa okkur sýn. Dæmum ekki menn eftir þjóðerni! Það á að gilda sami réttur og sömu lög, að mínum dómi, af hálfu Íslands gagnvart allri heimsbyggðinni.

Við þurfum sterkan og einbeittan leiðtoga, sem getur og þorir að standa í hárinu gagnvart óvinveittum þjóðum Evrópu þegar Bandaríkin eru hvergi sjáanleg.Í þessu samhengi er mikilvægt að koma því  á framfæri að engin ástæða sé til að óttast kínverska athafnamenn. Það er nauðsynlegt að þessi þáttur komist á framfæri svo menn fari ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi,“ 

Huang Nubo fyrir Forseta!

  

Huang Nubo að lýsa aðdáun sinni á Íslandi


mbl.is Ólafur Ragnar skipti um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttnæmt!

að næðstæðsti leiðtogi Bandaríkja Norður-Ameríku þurfi að taka fram í heimsókn til þeirra helsta lánaþrottins að þeir munu greiða upp lán sín!
mbl.is Biden: Bandaríkin lenda aldrei í greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur er nú pínu popúlisti

... því ég tel víst að Ögmundur skilji alveg hvað stjórnlagaráð er að fara.

Ögmundur bendir á að samkvæmt tillögum ráðsins megi ekki greiða atkvæði um málefni sem tengjast skattamálefnum eða þjóðréttarskuldbindingum. „Hvers vegna ekki?Var rangt að greiða atkvæði um Icesave?“

- það var að mörgu leytirangt. Í huga mjög margra snerist Icesave þjóðaratkvæðagreiðslan um það hvort Íslendingar ættu "að borga" eða alls ekki.

En í raun og veru snerist hún um hvort leysa skyldi málið með þeim samningi sem lá fyrir eða láta gagnaðila í þessari deilu um það að knýja á um aðra úrlausn - og hafa málið óleyst í nokkur ár. Við Íslendingar ákveðum ekki EINHLIÐA hvernig túlka skuli EES-samninginn og Evróputilskipanir sem í gildi eru hér á landi.

Það er auðveldara fyrir okkur að umgangast aðrar þjóðir ef þær geta almennttreyst því að okkar kjörnu fulltrúar hafi umboð til að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar og leysa úr allrahanda úrlausnarefnum sem tengjast þegar gerðum samningum.

Annað dæmi:

Ef Íslendingar og Norðmenn standa í harðvítugri deilu um makrílkvóta vegna þess að menn greinir á um hvernig túlka beri samninga þjóðanna á milli, er varla gæfulegt að Íslendingar greiði um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig túlka eigi samninginn á milli ríkjanna og hversu stóran kvóta Íslandi skuli fá úr sameiginlegum stofni.

Skilur Ögmundur það?


mbl.is Þjóðin hefði ekki fengið að kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband