Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

"Deilt um hvað skyldi kalla trúboð"

Það er vissulega deilt um það, hvað skuli kalla trúboð. Ég og fleiri köllum það trúboð þegar prestar heimsækja leikskóla mánaðarlega og segja frá Jesú og kenna börnum að syngja sálma og biðja bænir. Man eftir baksíðumynd aftan á Mogga fyrir fáeinum misserum þar sem 3-5 ára leikskólabörn sátu með spenntar greipar og lokuð augu og báðu ákaft. Í opinberum leikskóla. Það er líka trúboð þegar félagasamtök fá að koma í tíma og dreifa biblíum, eða þegar allir skólabekkir fara í jólamessu á skólatíma, nema foreldrar sæki sérstaklega um leyfi.

Samt hef ég ekki séð einn einasta prest viðurkenna að trúboð sé stundað í leik- og grunnskólum.

Bloggpresturinn Þórhallur Heimsson sagði meðal annars þetta um málið:

Þetta er nú orðið dulítið þreytandi þegar endurtaka þarf allt 100 sinnum.

Trúboð er ekki stundað í skólum Valgerður.

Enginn vill trúboð í skólum.

Ég spurði hann kurteislega hvort hann undanskyldi leikskóla, eða hvort formaður Reykjavíkurdeildar Félags leikskólakennara færi með staðlausa stafi þegar hún sagði í viðtali "þetta er náttúrulega trúboð. Það er ekki hægt að kalla þetta annað".Ég ítrekaði líka spurningu til Þórhalls sem hann hafði ekki gefið sér tíma til að svara, hvort honum finndist að ég mætti predika mínar skoðanir um trúmál í leikskóla barna hans.

En séra Þórhallur heimilaði ekki birtingu athugasemdarinnar. 

 

 


mbl.is Áfram samstarf kirkju og skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing

Ég á þó nokkra trúrækna vini og kunningja, fólk sem starfar í kirkjum, sem organistar, í kirkjukór, í sóknarnefndum og æskulýðsstarfi. Ég kynntist líka í námi mínu í Bandaríkjunum góðum vinum og vinnufélögum sem sóttu kirkju flesta sunnudaga. Ég ber virðingu fyrir trúarlegum gildum alls þessa góða fólks. Trúarleg viðhorf og gildi getur verið erfitt að skýra eða skilgreina, en þau geta skipt okkur miklu máli. Þau eru persónuleg, eitthvað sem við eigum ekkert að þurfa að flíka, frekar en við kjósum.

Þú verður að passa að stuða ekki fólk með þessu trúartali“, sagði trúnaðarvinur við mig. Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki gert það, með pistlum hér, eða kommentum og gagnrýni á Þjóðkirkju og þjóna hennar annars staðar. Það er mér ekkert gamanmál að opinbera mig með þessum hætti, mínar skoðanir og lífsviðhorf um viðkvæm mál. En í mínum huga snýst umræðan um virðingu. Ég fer einungis fram á að mínum grundvallarlífsviðhorfum sé sýnd sama virðing og ég sýni slíkum viðhorfum annarra. “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” sagði vitur og góður maður.

Meira HÉR


Á meirihlutinn alltaf að ráða?

Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa í Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum “norm” á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.

Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.

Meira HÉR


Týpisk hegðun stjórnmálamanns?

Á visir.is er haft eftir Sigmundi Davíð:
Vextir voru alltaf vandamálið. Nú höfum við ekki verið að greiða vextina í tvö ár og því sparað um 70 milljarða,

Nú er það svo að samkvæmt Icesave lánasamningnum, (bæði I og II) áttu vextir ekki að greiðast fyrr en eftir á. Og þó svo samningar hafi dragist á langinn er furðulegt að túlka það sem svo að gagnaðili sé þar með búinn að samþykkja að sleppa vöxtum síðustu tvö ár, hvað svo sem um semst á endanum.

Þetta veit auðvitað Sigmundur Davíð. Hann gjörþekkir málið, maðurinn er starfandi Alþingismaður. Spurning af hverju hann segir ósatt, til að slá ryki í augu almennings?

Ósköp finnst mér dapurlegt þegar stjórnmálamenn vísvitandi fara með rangt mál og ljúga að almenningi, til að upphefja sjálfa sig og ná lýðhylli.


Hannes toppar sjálfan sig!

Er hægt að rökstyðja að milljón króna styrkir fyrirtækja til einstakra frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins séu sjálfsagðir og eðlilegir, en að jafn háir styrkir til frambjóðenda Samfylkingarinnar séu siðferðislega óverjandi?

Jú! Ef maður heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann skrifar einn af sínum óborganlegu pistlum á Pressunni í dag, þar sem hann toppar sjálfan sig í súrrealískri sýn sinni á stjórnmál.

Meira HÉR.


Að starfa við að drepa manneskjur

Ég er enn hugsi yfir Wikileaks myndbandinu, þó þessi frétt sé nú vikugömul og að mestu dottin úr umræðunni. Rakst á fína grein í NY Times, þar sem rætt er við sálfræðinga, og reynt að skilja þann kaldranalega og að mati margra sjokkerandi talsmáta sem heyra mátti í samtölum þyrluáhafnarinnar. En eins og sálfræðingarnir benda á þá er þessi talsmáti ekki í sjálfu sér vísbending um óvenjulegan hrottaskap mannanna, heldur jafnvel hið gagnstæða, þeir eru mannlegir og í grunninn siðferðisverur eins og við, okkur er engan veginn eðlilegt að drepa aðrar manneskjur. Það er hins vegar eitt af hlutverkum hermanna. Það er auðveldara ef litið er á skotmörkin sem óvini, helvítis terrorista, en ekki manneskjur af holdi og blóði.

“Military training is fundamentally an exercise in overcoming a fear of killing another human”

 

Þess vegna er ég á móti stríði og hermennsku.

Meira hér...

 


"Stríð er stríð"

…. sagði pólitíkusinn í Kastljósi þegar hann var að útskýra af hverju hryllingurinn af Wikileaks mynbandinu hefði í rauninni því miður ekki komið honum á óvart. Hryllilegir aburðir gerist í stríði, vildi hann meina, það væri nánast óumflýjanlegt.

En bara mínútu áður hafði hann samt verið að réttlæta það að fara útí akkúrat þetta stríð! Til að “frelsa” íbúa Írak frá hræðilega einræðisherranum Saddam Hussein. Það hefði allt verið enn þá hræðilegra í Írak þá en nú. Þetta þóttist pólitíkusinn vita.

Meira hér...


'Nope for Pope' - konu í sæti páfa?

Í framhaldi af síðasta pistli er gaman að benda á beittan pistil Maureen Dowd í NY Times, sem varpar því upp hvort ekki sé komin tími á konu í Páfastól, það gæti mögulega bætt stöðu þessa fúna karlrembu-öfuguggaveldis:

If the church could throw open its stained glass windows and let in some air, invite women to be priests, nuns to be more emancipated and priests to marry, if it could banish criminal priests and end the sordid culture of men protecting men who attack children, it might survive. It could be an encouraging sign of humility and repentance, a surrender of arrogance, both moving and meaningful.
Cardinal Ratzinger devoted his Vatican career to rooting out any hint of what he considered deviance. The problem is, he was obsessed with enforcing doctrinal orthodoxy and somehow missed the graver danger to the most vulnerable members of the flock.
The sin-crazed “Rottweiler” was so consumed with sexual mores — issuing constant instructions on chastity, contraception, abortion — that he didn’t make time for curbing sexual abuse by priests who were supposed to pray with, not prey on, their young charges. 

Á að banna kaþólsku kirkjuna?

Páfinn á ekki sjö dagana sæla. Hann er borinn þungum sökum og virðist líklegt að hann sjálfur hafi tekið beinan þátt í þagga niður og breiða yfir alvarleg atvik af þeim langa lista af níðingsverkum sem virðist vella uppúr skúmaskotum kaþólsku kirkjunnar.

Það er mín skoðun að hér séu orsakatengsl við hið brengluðu viðhorf stofnunarinnar til kynlífs og mannfólksins sem kynvera. Hvers konar menn ákveða á unga aldri að læra til prests í kaþólsku kirkjunni og ætla sér ævilangt skírlífi? Getur verið að í þeim hópi séu hlutsfallslega margir sem eru haldnir ýmsum kynferðislegum komplexum og sálarflækjum?

[...]

Meira á síðunni www.bloggheimar.is/einarkarl.


Karlar þurfa ekki að ómaka sig?

Afar forvitnilegt viðtal er að finna í aukablaði um börn og uppeldi sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudag, undir fyrirsögninni Einhleypar konur í tæknisæðingu. Rætt er við Þórð Óskarsson, lækni hjá fyrirtækinu Art Medica sem býður upp á þessa þjónustu. Þetta er víst ný þjónusta, fyrst leyfð í fyrra, svo það er eðlilegt að fyrirtækið vilji auglýsa og upplýsa um þennan möguleika. Á heimasíðu þess stendur raunar að markmið fyrirtækisins sé að hjálpa pörum að eignast barn, en þetta er kannski fyrst og fremst aukabúgrein að aðstoða einhleypar konur.

Tæknisæðing er það þegar sprautað er sæði í leg konu, sem sé sæðing án samfara. Þetta er oft gert til að hjálpa pörum sem eiga í erfiðleikum með að geta barn en eru ekki ófrjó, til að auka líkur á getnaði. Gervifrjóvgun er flóknari aðgerð, en þá er egg tekið úr konu og frjóvgað i tilraunaglasi.

Þórður upplýsir að á annan tug einhleypra kvenna komi í svona meðferð í hverjum mánuði. sem sé á bilinu 140-200 konur á ári. Sæðið kemur utan úr Evrópu, hægt er að panta sæði úr "þekktum" gjafa, þannig að væntanlegt barn geti eftir 18 ára aldur fengið uppgefið nafn blóðföður síns. Þeir gjafar sem heimila slíkt eru þó færri en hinir sem kjósa fulla nafnleynd og þekkta sæðið er dýrara. Flest börn sem fæðast eftir gjafasæðingu fá því aldrei að vita um faðerni sitt, nema hvað ávallt fylgja sæðisskammti upplýsingar um háralit, augnlit, hæð, þyngd og starf. 

Mér finnst þetta ansi hreint merkileg þróun. Ég hygg að móðureðlið sé ansi ríkt í hverri konu og skil vel konur sem komnar eru vel yfir þrítugt að vilja ekki missa af þeim möguleika að eignast börn. Hitt er á að líta að það hefur aldrei beinlínis þótt eftirsóknarvert að vera einstætt foreldri. En sumar konur kjósa það greinlega, frekar en að verða ekki foreldri.

Þetta hlýtur samt að vekja alls konar spurningar og heimspekilegar vangaveltur. Ég lít sjálfur hikstalaust á mig sem feminista, en hlýt líka stundum að líta á samfélagið út frá sjónarhóli karls. Ég veit ekki, mér finnst á einhvern hátt svolítið skrýtin tilhugsun að það geti verið algjört einkamál konu að eignast og ala upp barn. Barn sem ekki á nema eitt foreldri (þó síðar geti komið til stjúp- eða fósturforeldri) - lagalega séð nánast eingetið.

Kannski er þetta bara óþarfa minnimáttarkennd. Flestar konur vilja vonandi áfram geta börn með okkur körlum, í eigin persónu, en ekki bara sem sýni í glasi. Því ekki gefst okkur strákunum kostur á að eignast börn nema við nælum okkur í konu fyrst.

 

ryan.jpg

Er þessi í bankanum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband