Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Það sem “ískalt hagsmunamat” þýðir í raun

Þegar menn segjast byggja ákvörðun um tiltekna niðurstöðu í lögfræðilegu ágreiningsmáli á ísköldu hagsmunamati þýðir það í raun alveg það sama og að segja að ákvörðunin sé byggð á faglegu lögfræðilegu mati, á kostum og göllum, áhættu og ávinningi, þeirra valkosta sem í boði eru.

Ef borðleggjandi væri að mál myndi vinnast væri ágreiningurinn borinn undir dómstól, myndi hvorki ískalt, hlandvolgt né funheitt hagsmunamat segja að frekar ætti að semja, heldur þvert á móti að fara ætti í mál. Þeir lögfræðingar sem mæla með fyrirliggjandi samningum um Icesave, og þeir eru nú allnokkrir, meðal annars Lee Buchheit og Lárus Blöndal, eru m.ö.o. að segja að okkar lagalegu rök séu ekki sérlega sterk og að gagnaðilinn hafi ýmislegt og jafnvel meira til síns máls en við.

Þetta þora stjórnmálamenn ekki að segja nægilega skýrt svo allir skilji. Bjarni Benediktsson komst þó nálægt því í umræðum á Alþingi við lokaatkvæðagreiðsluna um Icesave frumvarpið. Hafi hann þökk fyrir, betra væri ef hann hefði sagt það fyrr.

Sumum finnst að í stað þess að hlusta á færustu lögfræðinga, eigi að leggja þetta lögfræðilega hagsmunamat í hendur almennings. Það væri svona eins og að spyrja vinnufélagana og fjölskylduna hvort fara ætti í mál útaf flóknum ágreiningi, í stað þess að hlýða ráðum sérfræðinga. Það er að mínu mat óráð.


Ósamkvæmni NEI-sinna í Icesave máli

Af hverju heyri ég engan kyrja rulluna "Almenningur á ekki að borga skuldir einkabanka" í sambandi við innlán Íslendinga í hinum gjaldþrota gamla Landsbanka?

Þau innlán eru jú alveg jafnmiklar skuldir einkabanka.

Ég átti ekki krónu í Landsbankanum. Samt tryggir ríkið 100% innstæður annarra, með mínum skattgreiðslum.

Þetta minnast NEI-sinnar aldrei á.

Punkturinn minn er sá að að röksemdin um að Icesave "komi okkur ekki við" af því um sé að ræða einkafyrirtæki er ótæk, ein og sér. Banki sem varðveitir sparifé fjölda fólks og jafnvel aleigu er alls ekki sambærilegt fyrirtæki og tískubúð, heildsala eða hvert annað einkafyrirtæki.

Þess vegna er sorglegt að Ólafur Ragnar Grímsson kyrji þessar of-einfölduðu grunnhyggnu röksemdir úti í heimi, án þess að minnast einu orði á að málið á sér svo sannarlega fleiri hliðar. Slíkt leyfi ég mér að kalla lýðskrum. En hann þarf heldur ekkert að hugsa um þær hliðar, hann þarf ekki að bera ábyrgð á því að leysa málið


Verður OR gjaldþorta útaf Icesave?

Verður Orkuveita Reykjavíkur gjaldþrota, vegna þess að fyrirtækið geti ekki endurfjármagnað stór lán fyrir gjalddaga, vegna þess að Icesave verði enn ófrágengið næsta vor?

Það er spurning... 


Stökkbreytt lán? Stökkbreytt laun?

Fyrir nokkrum árum voru fáein fyrirtæki – útflutningsfyrirtæki – sem buðu starfsfólki sínu að þiggja hluta launa sinna í erlendum gjaldmiðli, t.d. Marel hf. Þannig gátu menn fengið t.d. 20 eða 40% launa sem fasta Evruupphæð. Þetta var talið upplagt til að núlla út áhættu af skuldsetningu í erlendri mynt. Hér er frétt um málið frá 2006. Og önnur nýrri frétt frá því í febrúar 2008 þar sem aftur er talað um að starfsmenn fyrirtækisins eigi þennan valkost, en þar sem bankar hafi ekki boðið upp á útborganir í Evrum hafi launin verið Evrutengd.

SPURNING: Vita einhverjir lesendur hvort boðið sé uppá svona hlutalaun enn í dag, miðuð við fasta upphæð í erlendum gjaldeyri?

Ætli þessi starfsmenn líti svo á þessi hluti launa sinna hafi stökkbreyst??

Líkingarmál um stökkbreytingar kemur úr líffræði. Ég held þó að líkingin sé ekki alls kostar rétt. Þessi lán hafa alls ekki stökkbreyst. Sé miðað við þann gjaldeyri/gjaldeyris-”körfur” sem lánin miðuðust við standa þau nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir. Það er bara þegar farið er að reikna lánin yfir í örmyntina íslenska krónu sem lánin “stökkbreytast”.

Það voru nefnilega alls ekki lánin sem stökkbreyttust, það var krónan sem stökbreyttist.

Önnur líking vísinda á betur við, það eru hnitakerfi stærðfræðinnar. Við lifum og hrærumst í einu hnitakerfi og eðlilega miðum við flesta hluti út frá því. Séð frá okkar ör-hnitakerfi hefur ýmislegt stökkbreyst, svo sem verðið á kaffibollla á Strøget í Kaupmannahöfn, svo ekki sé talað um miða á fótboltaleiki í Bretlandi, vinsælt tómstundagaman 2007. En kaffið í köben kostar álíka margar krónur nú og 2007, danskar krónur. Þær breyttust ekki neitt, í sínu hnitakerfi.


Hvað hefði FME gert?

... ef FME hefði brugðist við og skoðað þessa samninga?

Jú, þá hefði kannski FME gert þá athugasemd að þorri þessara lána til einstaklinga a.m.k .virtust vera íslensk lán, en með fasta viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla.

FME hefði svo átt að komast að þeirri niðurstöðu að það væri óheimillt. Bankarnir mættu auðvitað veita erlend lán, en ekki gengistryggð íslensk lán.

Þá hefðu bankarnir líklega tekið sig til og breytt orðalagi og formi lánanna, tekið fram lánsfjárhæð í erlendum gjaldeyri, jafnvel búið til gjaldeyrisreikning fyrir hvern lánþega og millifært lánið inn á slíkan reikning og millifært svo um hæl inn á íslenskan krónureikning lánþegans.

Þá hefðu þessi lán verið alveg lögleg en að öðru leyti virkað nákvæmlega eins! Engir Hæstaréttardómar hefðu fallið, og lánþegar sætu nú ekki fagnandi.

Svo lánþegar "erlendra" lána, sem voru bara íslensk gengistryggð lán, ættu að fagna framtaksleysi FME!


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myntkörfulán voru góð

Ég hef hugsað nokkuð fram og tilbaka um mál málanna, “erlend” lán, “myntkörfulán”. Niðurstaða mín er að svona lán séu í eðli sínu sniðug, þó svo þau hafi reynst flestum landsmönnum erfið og óheppileg á seinustu árum.

Það er synd að þessi lán skuli vera bönnuð. Þetta er í raun og veru stórsniðugt fyrirbæri, ef menn kunna að meta og gera ráð fyrir áhættu. Fyrir t.d. sjómenn, sem upp að vissu marki eru með gengistryggð laun, sem og launþega hér á landi sem þiggja laun t.d. frá erlendum fyrirtækjum sem miðast við fasta upphæð í erlendri mynt, þá væri þetta skynsamlegur kostur.

Ef mig vantaði lán í dag myndi ég helst af öllu vilja fá svona lán. Ef ég væri með svona lán á bakinu, sem ég ætti eftir að borga af í 35 ár, myndi ég líklega frekar vilja halda því óbreyttu, heldur en að þurfa að skuldbreyta því yfir í íslenskt verðtryggt lán næstu 35 árin.

Meira HÉR


Jónína Ben að verja Baugs-Glitnis-brask?!

Jónína Ben kemur flokkssystur sinni til varnar og segir í Pressunni:

Guðrún var frambærilegasti einstaklingurinn á listanum. Það er ekki synd að vera gift manni í viðskiptum. Það er ekki verið að ásaka þau um neitt ólöglegt. Ef fólkið í Framsókn getur ekki sett sig inn í þessi viðskipti sem Icebank bauð fjárfestum uppá, hvert er þá þessi þjóð komin 

 

Er fólkið í Framsókn svona vitlaust?  Var maður Guðrúnar bara að stunda sárasaklausar fjárfestingar? Hefð Guðrún kannski átt að sleppa því að "útskýra" þessi viðskipti og láta þau hljóma sakleysislega?  Er Jónína búin að setja sig inn í um hvað málið snýst, eða gerir hún eins og flestir, að skrifa fyrst og hugsa svo

 

Þegar eitthvað virðist voða flókið…

Margt lærðist af hruninu. Eitt er það að þegar maður sá fréttir af einhverjum ógurlega fínum og flóknum fjármálagjörningum og skildi ekki neitt í neinu, þá var það líkast til ekki af því hann var vitlaus, heldur af því flækjurnar voru einmitt til þess gerðar að fela hvað lá að baki – oftar en ekki froðu.

Út um allan heim voru snillingar að búa til nýjar “fjármálaafurðir” og “fjármálaverkfræði” var voða smart fag.  En afurðirnar voru oftar en ekkiumbúðir utan um loft. Fjármálaverkfræðin skildi ekki eftir sig mannvirki einsg “alvöru” verkfræði, heldur mest bara ekki neitt, nema sviðna jörð í bankahverfum um allan heim.

Mér var hugsað til þessa við lestur á frétt um frambjóðanda sem dró sig í hlé eftir hvatningu frá samflokksmönnum, vegna viðskipta fyrirtækis maka síns, sem minnst er á skýrslu RNA. Í fréttinni er viðskiptunum lýst svohljóðandi, að mér skilst upp úr yfirlýsingu frambjóðandans:

Umrætt fyrirtæki heitir Miðbæjareignir og átti í viðskiptum við Icebank. Guðrún segir að stjórnendur þess hafi haft fulla trú á íslenska bankakerfinu í árslok 2007 og tekið tilboði Icebank um að vera aðili að endurhverfum viðskiptum. Miðbæjareignir hafi tapað 160 milljónum króna, sem félagið lagði inn að handveði hjá Icebank sem skuldatryggingu vegna 8 milljarða króna láns frá Icebank til Glitnis. Á þeim tíma hafi skuldatrygging í slíkum viðskiptum verið 2%, enda Glitnir með mjög hátt lánshæfismat hjá matsfyrirtækjum.

Við fyrstu sýn virðist þetta voða flókið eitthvað, fullt af fannsí orðum, “endurhverf viðskipti”, “handveð”, skuldatrygging”. Ekki fyrir venjulegt fólk að skilja.

Ekki skil ég þetta til hlýtar. Er hægt að útskýra þetta á mannamáli?  Eða er þetta einmitt dæmi um flækjufroðu, fjármálagjörningar sem voru alls ekki eðlilegir, en er lýst með háfleygum tækniorðum einmitt til þess að enginn skilji?

Nema hvað, þetta virðist beintengt fléttum bankanna sem notuðu Icebank sem hækju til að tæma Seðlabankann.

Einn býsna stór banki lánar sem sagt öðrum enn stærri banka 8 milljarða. Þar sem “skuldatryggingaálag” var 2% (skv. fréttinni) þurfti að leggja fram 2% af þeirri upphæð sem veð.  Til þess er fengið fyrirtækið Miðbæjareignir ehf. Og getið nú hvað, þegar það er gúgglað kemur í ljós að það var til húsa að Túngötu 6! Í gini sjálfs Baugsormsins sem var með halann hringaðan um Glitni, bankann sem fékk í hendur 8 milljarðana sem litla skúffufyrirtækið “tryggði” (með eigið fé uppá 105 milljónir).  (Ég hef Túngötu 6 með rauðum lit til að sýna að ALLT sem tengist þeirri mafíumiðstöð er totryggilegt, alveg eins og öll viðskipti sem tengjast meðlimum Fáfnis!) 

 

Meira HÉR;

 


Fjölmiðlafulltrúar geta verið gagnlegir

Ef Magnús Árni Skúlason væri með sinn eigin prívat fjölmiðlafulltrúa eins og sumir helstu ríkisbubbar landsins myndi hann ekki hafa eftir sér sama dag og þessi frétt er birt að hann íhugi meiðyrðamál gegn Morgunblaðinu vegna þessarar fréttar! Það bætir ekki stöðu hans, þvert á móti.

Maður getur svo sem velt fyrir sér hvort þessi frétt verðskuldi stríðsfyrirsögn þvert yfir forsíðu. Eins og tekið er fram í netfréttinni hefur Magnús ekki gert neitt ólöglegt eða hvatt til neins ólöglegs. Kannski á mörkum þess að vera siðlegt, að liðka fyrir og hvetja til viðskipta sem grafa undan markmiðum þeirrar stofnunar sem hann gegnir trúnaðarstörfum fyrir, og skapa vinnu og arð fyrir vini sína. En hann virðist alls ekki vera að misnota sér trúnaðarupplýsingar og ég býst ekki við að bankaráðið komi neitt að því að ákveða hvaða fyrirtæki fái "aflandskrónukvóta".

Held að réttast sé að hann segi af sér sem bankaráðsmaður, til að komast útúr þessum augljósa hagsmunaárekstri. (Ef maðurinn er fulltrúi Framsóknarflokks er kannski ekki von að hann skilji hugtakið, þeir virðast líta á slíka árekstra sem eftirsóknarverð hagsmunatengsl!) 

Held nú að aðalmálið sé að þessi fjárans höft verði að leggja af sem fyrst. Það einfaldlega gengur ekki upp að hafa tvöfalt gengi á krónunni. Að stjórnvöld úthluti svo einstökum fyrirtækjum kvóta til að kaupa krónur á undirverði, miðað við önnur fyrirtæki, sér hver maður að býður upp á fyrirgreiðslupólitík af verstu sort.  Ég man síðast eftir svona tvöföldu gengi í heimsókn til Austur-Þýskalands 1988.


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðvikni Bjarni

DV greinir frá því að öðlingurinn Bjarni Ármannsson hafi heldur betur verið óheppinn í viðskiptum við gamla bankann sinn. Afskrifa þurfi rúmlega 800 milljónir króna vegna láns til eignarhaldsfélags Bjarna, sem keypti hlut í fasteignafélagi bankans - af bankanum - rétt fyrir áramót 2007-08.

ba_jpg_280x800_q95Bjarni var svo hundheppinn að vera rekinn úr stóli bankastjóra áður en fór að halla ískyggilega undan fæti, lán í óláni fyrir hann heldur betur! Bjarni sigldi til Noregs með allt sitt gull - 7 milljarða ISK að sögn DV - þar sem hann hefur eflaust skipt milljörðunum í klingjandi norskar krónur og geymt í öruggum banka.

Morgunblaðið hefur að ég best veit ekki séð ástæðu til að segja sérstaklega frá þessu, í fréttinni í DV segir Bjarni fjárfestinguna vera "sorgarsögu" og bætir því við að það væri óábyrgt af honum að greiða skuldina við Glitni til baka með sínu eigin fé!

Hann er jú ekki lagalega persónulega ábyrgur.

Svo þannig lagað er þetta engin sorgarsaga fyrir Bjarna, hann tók sáralitla áhættu og veltir tapinu af fjárfestingu sinni yfir á þá sem voru nógu vitlausir til að lána bankanum.

Kíkjum aðeins betur á fréttina:

Bjarni segir að lánið hafi verið tekið hjá Glitni í lok árs 2007 til að fjármagna kaup Imagine [eignarhaldsfélag í 100% eigu Bjarna] á 12 prósenta hlut í Glitni Property Holding, fasteignafélagi sem skráð var í Noregi, fyrir 970 milljónir króna

- „Illu heilli tók Imagine lán hjá Glitni um áramótin 2007-2008 til að kaupa 12 prósenta hlut í Glitni Property Holding. Lánið var í norskum krónum og voru bréfin keypt af bankanum. Um þetta leyti var markaðurinn að byrja að hrynja hjá félaginu. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta bara illa og tekjurnar hrundu,“ segir Bjarni en Glitnir Property Holding var að tæplega 50 prósent leyti í eigu Glitnis eftir að Bjarni keypti í félaginu.

 

Bjarni hefur sjálfsagt verið síhikstandi í allan dag því fúkyrði og hneykslunarorð hafa flogið um netið. Skiljanlega. En missum ekki sjónar á því sem fréttin í raun og veru lýsir. Aðalatriðið er ekki það að Bjarni skuli sleppa með skrekkinn og fá afskrifað lán.

Fréttin lýsir dæmigerðum loftbóluviðskiptum í aðdraganda hrunsins; höfum í huga að Glitnir var pottþétt kominn í vandræði í lok árs 2007, hlutabréfaverð var búið að lækka nokkuð hressilega um haustið, en bankar og víkingar þoldu það illa, því allt var jú svo gírað.

Hvað er þá til ráða? Jú, grípa má til þess ráðs að selja áhættufjárfestingar - svo sem fasteignafélög - þegar nánast allir fasteignamarkaðir heims voru í þann mund að frjósa! Er einhver nógu vitlaus til að kaup aslíkt? Jú, ef hann fær lán fyrir því án nokkurrar áhættu. Með þessum gjörningi var hægt að koma fallandi bréfum úr viðkvæmu eignasafni bankans, en fá í staðinn skuld Bjarna við bankann sem á pappírnum leit miklu betri út, a.m.k. þar til einhver færi að spá í hvort traust veð væri fyrir skuldinni!

M.ö.o. Bjarni tók yfir fallandi bréf og bankinn fékk 800 milljóna skuld upp í lánasafnið sitt! Hvort Bjarni myndi greiða tilbaka lánið skipti í sjálfu sér ekki máli, þetta var 2007-kúlulán, þau greiðast ekki tilbaka fyrr en löngu seinna og bara ef kúlufjárfestingin skili arði.

Bjarni var að gera bankanum greiða. Verðið skipti hann litlu máli en þeim mun meira máli fyrir bankann, sem enn var skráður fyrir tæpum helming í fasteignafélaginu. Þeim mun meira sem Bjarni "greiddi" þeim mun meira virði var hlutur bankans og stærri skuldin í lánasafni bankans. Fyrir utan svo þóknun bankans fyrir svona lánaviðskipti, hvað skyldi vera, 1 eða 2% umsýslugjald, 16 milljónir?

Allir bankarnir voru á fullu í einmitt svona brelluviðskiptum, til að reyna að blása út eignasaöfn og búa til sýndargróða.  Með þessum hætti tókst þeim líka að blekkja fólk og sýna flottan árangur nánast allt fram að hruni.

Við skulum vona að rannsóknarnefndin, sérstakur saksóknari og FME rannsaki svona gjörninga í kjölinn. Ekki veit ég hvort akkúrat þessi umræddu viðskipti falli innan eða utan laga. Fyrir leikmann lítur út eins og verið sé að villa um fyrir markaðnum og bæta bókhald bankans með brellum.

Sjáum hvað rannsókn leiðir í ljós. Kannski Bjarni hafi rétt fyrir sér, að þetta endi sem raunveruleg sorgarsaga fyrir hann.

 


Sala til MAGMA vegna flopp laga?

Af hverju er verið að selja erlendu fyrirtæki hlut í jarðorkufyrirtæki? Jú, eins og margoft hefur verið sagt frá var Samkeppnisstofnun búin að kveða upp úr um að það væri brot á Samkeppnislögum að OR ætti svo stóran hlut í HS Orku.

Auðvitað vakna fullt af spurningum. Af hverju keypti OR þennan hlut sem hún má ekki eiga? Hvenær fóru þessi kaup fram? Við hverja er OR í samkeppni?

En umfram allt vaknar spurningin, af hverju er orkusala viðfangsefni Samkeppnisstofnunar? Er vit í því?

Þetta á sér skýringu í í lagabreytingum frá árinu 2003, en þá voru samþykkt ný raforkulög. Markmið þeirra var að "stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu". Í því skyni áttu lögin að:

     1. Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.
   2. Stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.
   3. Tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.
   4. Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.

 

Þeir sem uxu úr grasi fyrir 2003 héldu kannski að raforkukerfið hefði verið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir árið 2003. Alla vega er ekki auðséð hvort raforkukerfið hafi orðir meira þjóðhagslega hagkvæmt síðan lögin tóku gildi.

Á heimasíðu Orkustofnunar má lesa um þessi markmið laganna:

Rafveiturnar hafa til þessa annast framleiðslu, sölu og dreifingu rafmagns til notenda. Frá byrjun ársins 2005 hafa stærstu notendur getað valið sér raforkusala en frá ársbyrjun 2006 gildir þetta valfrelsi um alla raforkunotendur.

Samkeppni á raforkumarkaðinum nær einungis til framleiðslu og sölu rafmagns en dreifing þess verður áfram sérleyfisstarfsemi en undir eftirliti Orkustofnunar. Þannig sér dreifiveita hvers svæðis um dreifingu raforku til notenda, en kostnaður við dreifinguna getur verið breytilegur eftir landsvæðum eins og verið hefur.

 

Skemmst er frá því að segja að hvað vaðar almenna raforkuneytendur hefur þetta verið algjört flopp, en einungis einhver örfá prósent hafa skipt um "raforkusala". (Hægt er gera verðkönnun á síðu Orkustofnunar og gat ég t.d. séð að ég gæti raunar sparað ríflega þrjúhundruð krónur á ári með því að kaupa rafmagnið mitt frá Orkubúi Vestfjarða. En rafeindirnar eru víst þær sömu.) 

Lögin eru ekta dæmi um ritsnilld samviskusamra embættismanna, þar má t.d. lesa:

Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.
Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
   1. Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
   2. Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs kerfisins. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til.

 

 Ekki er sem sagt gert ráð fyrir meira frelsi en svo á þessum samkeppnismarkaði að mikið reglugerðarfargan þarf til að segja fyrir um leyfileg "tekjumörk", sem þarf svo að passa að farið sé eftir með eftirlitsstofnunum.

 Í athugasemdum með frumvarpinu að þessum lögum má lesa:

Frumvarp þetta byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur þróunin almennt grundvallast á tilskipun 96/92/EB um innri markað raforku. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 168/1999 frá 26. nóvember 1999 um breytingu á viðauka IV við EES-samninginn varð tilskipunin hluti af EES-samningnum. Ísland átti að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenska löggjöf fyrir 1. júlí 2002.

En athugasemdirnar eru mjög ítarlegar og hef ég ekki getað gefið mér tíma til að fara gaumgæfilega í það plagg.

Hins vegar má ljóst vera þegar farið er yfir umræður á Alþingi um málið að þessi lög voru og eru óttalegur bastarður og í grunninn byggð á tilskipun Evrópusambandsins sem í upphafi var ljóst að ætti engan veginn við hér á landi. Var m.a. Einar Oddur Kristjánsson heitinn alfarið á móti þessari kerfisbreytingu, sem hann taldi ekki vera til neins gagns nema síður væri.

Hafa þessi lög verið til gagns?

Það væri gott að vita. Klárlega er það í huga flestra ferlegt að við nánast neyðumst nú til að selja úr landi hluta af orkuauðlindum vegna einhverra samkeppnisflækja, af völdum laga sem ekki er hægt að sjá að hafi neinu skilað.


mbl.is Samþykktu kauptilboð Magma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband