Færsluflokkur: Trúmál
4.1.2014 | 19:53
Brynjar Níelsson ruglar
Brynjar Níelsson Alþingismaður og hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að verja kristni gegn meintum árásum og ágangi trúlausra. Brynjari ferst þetta ekki vel úr hendi.
Brynjar nálgast málið eins og verjandi í dómstól. Hann tekur alfarið stöðu með sjónarmiðum öðru megin í rökræðum kirkjusinna og veraldlega þenkjandi fólks og neitar að horfa hlutlægt á málið. Það finnst mér slæmt fyrir þingmann, enda efast ég um að allir kjósendur hans taki undir íhaldssöm og illa rökstudd sjónarmið hans.
Kryfjum seinasta útspil Brynjars sem má lesa hér: Svar Til Sigurðar Hólm.
Í hvert sinn sem ég tjái mig um kristna trú og kristindóm rjúka æðstuprestar Vantrúar og Siðmenntar til og senda mér bréf.
Ætli það sé ekki af því að í hvert sem Brynjar tjáir sig um kristna trú ræðst á aðrar lífsskoðanir og fer með rangfærslur og bull.
Það virðast margir halda að í trúfrelsi felist að stjórnvöld verði að gæta jafnræðis milli trúarbragða ...
Já það halda það margir! Stjórnvöld í trúfrjálsu ríki eiga ekki að hampa einni trú umfram aðra eða einhver einn Guð sé sannur og réttur, eða einhver ein tiltekin trú á æðri máttarvöld.
... og því megi ekki fræða nemendur um kristin fræði umfram önnur trúarfræði eða lífsskoðanir.
eeehh ... Nei. Ég þekki engan sem er á móti því að fræða börn um trúarbrögð og "kristin fræði", ekki heldur kannast ég við að neinn hafi viljað sérstakan kvóta á fræðslu um kristindóm, að hún megi alls ekki vera meiri en um einhver önnur trúarbrögð. En margir telja að gera verði greinarmun á fræðslu og trúboði.
Það er því ekkert að því að skólabörn séu frædd um kristni og kristindóm í kirkjum og skólum. Í mínum huga er það beinlínis skylda ...
Af hverju vill Brynjar að börn séu frædd um kristni í kirkjum? Er það ekki pínu eins og að fræða börn um stjórnmál á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll?
Hvað skyldi Sigurðar kalla kennslu um helstu stjórnmálastefnur og lífskoðanir? Trúboð eða innrætingu?
Því verður Sigurður að svara, en það hlýtur að fara eftir því hver fræðir, hvort sá hafi hlutlausa afstöðu til kennsluefnisins. Hvað myndi Brynjar kalla kennslu um samkennd og mannkærleik í sósíaldemókratískri hugmyndafæði, kennda af Össuri Skarphéðinssyni á skrifstofu Samfylkingarinnar?
Hér á landi er ríkisvaldið ekki að skipta sér af trúarskoðunum fólks.
JÚ! A.m.k. einn þingmaður, Brynjar Níelsson, vill að öll börn fái sérstaka fræðslu um tiltekna trúarskoðun í kirkjum landsins!
Ríkisvaldið bannar ekki skoðanir og boðar ekki skoðanir öðruvísi en fram kemur í lögum.
Brynjari finnst í lagi að boða tiltekna skoðun, ef lögin segja það. Verðum við nú ekki að geta rökstutt að eitthvað sé í eðli sínu rétt, sanngjarnt og skynsamt, án þess bara að segja "lögin segja það". Hljómar pínu eins og "pabbi segir það".
Ég hef aldrei sagt að forsenda fyrir æðruleysi, kærleika og fyrirgefningu sé kristin trú
En þú hefur sagt að ef kristin trú hverfur sé hætt við að þessi gildi glatist. Ertu þá ekki að segja að þessi siðferðisgildi séu háð kristinni trú?
Sorrý, Brynjar. Ef þú værir að verja mig í Hæstarétti vona ég að þú rökstyðji mál þitt betur en þetta.
Trúmál | Breytt 5.1.2014 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2014 | 22:06
Þingmaður berst gegn veraldlegu samfélagi
Í Tyrklandi er íslam ríkjandi trú. Ríkisvaldið á þó að heita veraldlegt, en það var tyrkneski leiðtoginn mikli, Mústafa Kemal Atatürk sem barðist fyrir því að af-trúvæða samfélagið í Tyrklandi, nútímavæða landið og gera ríkisvaldið alfarið veraldlegt.
Um þetta hafa þó aldrei allir verið á eitt sáttir og hefur nú hið síðari ár Tyrkland sveiflast aðeins í hina áttina undir stjórn leiðtoga sem er hallari undir trú og trúarlegt kennivald en fyrirrennarar hans.
Það er forvitnilegt fyrir okkur sem höfum áhuga á því að ræða að hversu miklu leyti samfélagið eigi að byggja á trú, trúarlegum gildum og trúarlegu kennivaldi, að heyra umræðu um sama mál í öðru samfélagi.
Þessari bloggsíðu hefur borist þýðing á forvitnilegu erindi sem íhaldssamur þingmaður flutti í mosku í úthverfi Ankara á Nýársdag. Hann heldur því fram að siferðisviðmið muni breytast ef trúin missir vægi og að slík óheillaþróun stuðli að upplausn.
Gefum Bairam Haahr Níl Zahin orðið:
Það gerist ekkert að sjálfu sér í mannlegu samfélagi. Það er eitthvað sem mótar menningu, listsköpun, vísindin og lögin. Í okkar samfélagi er það ekki síst trú á Guð og múslimska arfleifð. Það er að mínu áliti mikil gæfa að múslimsk trú hefur verið ráðandi þáttur í lífi okkar.
Með aukinni upplýsingatækni má segja að hver og einn einstaklingur sé orðinn fjölmiðill. Það er auðvelt að skjóta úr launsátri og rægja aðra með nútímatækni. Trúin, moskan og múslimsk gildi eru ekki undanskilin rægingarherferð af þessu tagi. Í raun hafa margir beitt sér af alefli með þessi vopn í hendi gegn múslimskri trú og moskunni. Þeir halda því fram að trúin sé blekking og hindurvitni og í raun ekkert annað en leifar af frumstæðri hugsun sem þekkingin afhjúpi.
Þetta er ekkert nýtt og hægt er að nefna marga heimspekinga og hugsuði, eins og þeir kölluðu sig, sem síðustu 200 árin eða svo hafa spáð því, að dagar múslimskrar trúar væru taldir. Þessar framtíðarspár reyndust ekki réttar. Það er nefnilega svo, eins og Síg Ürb Orhan Ei Narzin múlla, sagði í útvarpserindi fyrir rúmlega 30 árum, að þeir menn, sem af miklum móði veitast að því, sem þeir telja blekkingar, eru sjálfir hrapallega blekktir.
Því er enn haldið fram að þekking og vísindi fari ekki saman við trú og íslam. Þetta séu andstæður og trúin sé því ekkert annað en hindurvitni og hleypidómar sem samræmist ekki heilbrigðri skynsemi. Vísindin og þekkingin hafi sannað að sköpunarsagan í upphafsriti Kóransins sé markleysa.
Það er fráleitt að reyna að gera sköpunarsöguna að markleysu, og þar með Kóraninn allan, með því að leggja á hana raunvísindalegan mælikvarða.
Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að múslimsk trú og múslimsk gildi verði ekki áfram ráðandi þáttur í lífi okkar? Hefur eitthvað breyst og þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur? Já, það hefur ýmislegt breyst og við þurfum að hafa áhyggjur.
Þótt frá upplýsingaröld hafi verið til menn sem hafa talið trú blekkingu, sem vísindin og þekkingin myndu eyða, eru það nýmæli, a.m.k. hér á landi, að stofnuð hafi verið félög, beinlínis í þeim tilgangi að berjast gegn Íslam. Með nýrri upplýsingatækni er auðveldara að láta til sín taka og hafa meðlimir í þessum félögum látið einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn múslimskri trú, moskunni og múslimskum gildum. En það sorglega er, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af, að málflutningur þessi hefur fengið að hluta til undirtektir hjá stjórnvöldum.
Í grunnskólalögum segir meðal annars að starfshættir grunnskóla skuli mótast af múslímskri arfleifð tyrkneskrar menningar. Í aðalnámskrá er lögð sérstök áhersla á menningarlæsi. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli og markmið í námskrá hefur verið þrengt verulega að kennslu í múslímskum fræðum í skólum og moskunni alfarið úthýst úr skólum landsins.
Trú er ekki bara trúin á Guð, skapara himins og jarðar. Hún er ekki síst menning, siðferðisviðmið og samfélagsmótandi gildi og hefðir. Múslimsk trú og múslimsk gildi hafa gert okkur að þeirri þjóð, sem við erum, og mótað samfélag okkar, sem við erum stolt af.
Þegar stjórnvöld leitast við að aftrúvæða þjóðina er stuðlað að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Það gerist ekki á einni nóttu en þegar heilu kynslóðirnar fá takmarkaða fræðslu í íslam og finna jafnvel helst fyrir neikvæðni í garð íslamstrúar mun það ekki eingöngu hafa áhrif á menningu og takmarka menningarlæsi, heldur munu siðferðisviðmið breytast og múslimsk gildi þynnast út. Æðruleysið, kærleikurinn og fyrirgefningin eru okkur nefnilega ekki í öllum tilvikum í blóð borin.
Múslimskt fólk getur ekki horft sljóum augum á þessa hættulegu þróun í samfélaginu. Það þarf að spyrna við fótum og taka slaginn með æðruleysið og kærleikann að vopni. Það er eins í þessu og öllu öðru, við tryggjum ekki eftirá. Ég efast ekki um að allt það ágæta fólk, sem lætur sig íslam og moskuna varða, og allir þeir foreldrar og uppalendur, sem vilja ala börn sín upp í múslimskri trú og gildum, vilja leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri óheillaþróun sem ég lýsti hér áðan.
Lengri útgáfu af erindinu má finna HÉR
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
29.11.2013 | 14:33
Blóðugar rifnar Biblíur
Róttækir múslimar á Íslandi mótmæltu kirkjubyggingum á Íslandi með því að dreifa blóðugum kindahausum á kirkjulóð og blóðugum sundurrifnum biblíum.
Nei.
Þetta hefur ekki komið fram í fréttum. Það hefur enginn ásakað múslima um þetta, eða neitt annað heldur. Ég man ekki eftir einni einustu frétt um að múslimar hér á landi hafi neitt abbast uppá önnur trúarbrögð eða aðra Íslendinga yfirleitt.
Hins vegar hafa innfæddir fordómafullir íslenskir aumingjar sýnt fádæma dónaskap og lítisvirðingu gagnvart íslenskum múslimum. Hafi þeir skömm fyrir, Óskar Bjarnason og vitorðsmenn hans.
Trúmál | Breytt 30.11.2013 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2013 | 11:17
Sjálfstætt félag??
Þjóðkirkjan heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjálfstætt félag.
Það er er erfitt að lesa út úr þessari frétt að verið sé að fjalla um sjálfstætt félag.
Hvaða annað "sjálfstæða" félag er með svona ítarlegar reglur um alls konar atriði í starfi og rekstri félagasins þar sem reglurnar eru ákvarðaðar af Alþingi með sérstökum landslögum?
Ekki setur Alþingi sérstök lög um hvernig Knattspyrnufélagið Þóttur kýs sér formann og hvað formaðurinn má sitja lengi? En reyndar er formannsembætti í Þrótti ekki sérstakt ríkisembætti.
Kirkjuþing fái aukin völd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2013 | 11:09
"Læknavísindakirkjan" og sóknargjöld
Nokkur umræða hefur skapast um þá hugmynd frá formanni Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, að stofna sérstakt trúfélag, "Læknavísindakirkjuna" í þeim tilgangi að fá sóknargjöld frá ríkinu og láta þau svo renna til Landspítalans.
Fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi við hugmyndina og lýst sig reiðubúna til að ganga í félagið. Undirliggjandi er sú hugsun að ríkið láti of mikið fé til Þjóðkirkjunnar, m.a. sóknargjöld, sem eru 8.700 kr á mann á ári. (Sóknargjöld eru ekki innheimt sérstaklega af neinum manni, heldur "innifalin" í tekjuskatti. Ríkið greiðir sóknargjald fyrir sóknarbörn 16 ára og eldri, en innheimtir það ekki frá viðkomandi. Nánar útskýrt t.d. hér.)
En ef fólki finnst að of mikið fé renni frá ríkinu til Þjóðkirkjunnar í formi sóknargjalda þá er óþarft að stofna nýtt félag. Nóg er að þú sér ekki skráður hjá Þjóðskrá hjá viðurkenndu trúfélagi* þar með rennur ekki sóknargjald fyrir þig úr ríkissjóði.
Ef fækkar í Þjóðkirkjunni þá fækkar líka prestum á launaskrá hjá ríkinu**, um 1 prest fyrir hverja 4.000 (minnir mig) manns sem fækkar. (Með sama hætti myndi fjölga stöðugildum presta ef fjölgar í Þjóðkirkjunni.)
*(Eitt svokallað lífsskoðunarfélag, Siðmennt, er líka viðurkennt með sama hætti og skráð trúfélög, og rennur sóknargjald frá ríkissjóði til Siðmenntar fyrir hvern félagsmann sem skráður er í félagið samkvæmt Þjóðskrá. Þess ber að geta að félagið býður líka fólki að vera skráðir félagar bara hjá félaginu sjálfu en ekki í Þjóðskrá. Þeir félagar greiða beint og milliliðalaust félagsgjald til félagsins, sem fær ekki sóknargjald frá ríkinu fyrir viðkomandi.)
**(Allir prestar Þjóðkirkjunnar og starfsfólk Biskupsstofu eru ríkisstarfsmenn og þiggja laun frá ríkinu.)
Myndin tengist efni pistilsins ekki beint. Þetta er mynd af Strak Trek söfnuðinum í Lynchburg, Virginu.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2013 | 22:08
Gefum Franklin Graham sjálfdautt kjöt
Trúboðinn og boðberi Guðs orðs Franklin Graham mætti í Kastljós í kvöld. Elskulegur og kurteis svaraði hann spurningum Þóru Arnórsdóttur, sem helst vildi bara ræða við hann um homma og lesbíur.
Graham útskýrði að hann væri ekkert að lýsa sínum persónulegu prívatskoðunum, heldur bara vilja Guðs og Hans orðum. Biblían hefði að geyma orð Guðs, og hún væri óskeikul.
Í þessum efnum fylgir Franklin Graham játningum íslensku Þjóðkirkjunnar, sem segja m.a.
Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs
Já þær eru margar reglurnar sem Guð leggur okkur með orðum sínum. Meðal annars þetta:
5. Mós 14.3-21:
Hrein fæða og óhrein3Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. 4Þetta eru dýrin sem þið megið eta: naut, sauðfé, geitur, 5hirtir, skógargeitur, dádýr, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6Þið megið eta öll dýr sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra. 7En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir. Þau skulu vera ykkur óhrein, 8einnig villisvínið því að það hefur klaufir en jórtrar ekki. Það skal vera ykkur óhreint. Þið megið hvorki leggja ykkur kjöt þessara dýra til munns né snerta hræ þeirra.
9Af lagardýrum megið þið neyta alls sem hefur ugga og hreistur. 10En þið megið ekki eta neitt sem hvorki hefur ugga né hreistur. Það skal vera ykkur óhreint.
11Alla hreina fugla megið þið eta. 12En þetta eru fuglarnir sem þið megið ekki eta: örninn, gammurinn, skegggammurinn, 13gleðan, ýmsar fálkategundir,14hrafnakynið, 15strúturinn, uglan, mávurinn, haukakynið, 16hornuglan, náttuglan, snæuglan, 17pelíkaninn, hrægammurinn, súlan, 18storkurinn, lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
19Öll vængjuð skordýr skulu vera ykkur óhrein, þau má ekki eta. 20En alla hreina fugla má eta.21Þið megið ekki eta neitt sjálfdautt. Þú mátt gefa það aðkomumanni í borgum þínum að eta eða þú getur selt það aðkomumanni. En þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður.
Ber virðingu fyrir samkynhneigðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 28.9.2013 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
16.8.2013 | 10:23
Brynjar Níelsson fer með rangt mál
Þingmaðurinn Brynjar Níelsson skrifar pistil á bloggi sínu um ríkisrekstur og almannaþjónustu, sem kemur inn á Þjóðkirkjuna og tengsl hennar við ríkið: Formaður Vantrúar og frjálshyggjan.
Margt er að athuga við grein Brynjars. Ég vil sérstaklega staldra við þessi orð Brynjars:
Til að koma í veg fyrir allan misskilning innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trúfélög.
Þetta er rangt.
Það vita þeir sem kynnt hafa sér málið. Ég skrifaði grein um þetta sem birtist fyrir rúmri viku í Fréttablaðinu og visir.is: Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld.
Það kemur ekki á óvart að Brynjar haldi þessu fram, líkast til gegn betri vitund. Það hafa fleiri gert á undan honum og margir munu halda því áfram.
Upplýstur þingmaður á að vita hvernig þessum málum er háttað.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2013 | 18:28
Þjóðkirkjan, sértrúarsöfnuðir og bókstafstrú
Þjóðkirkjan hefur heldur betur lent í mótvindi vegna þess að hún (ýmsir söfnuðir hennar og prestar) er í samkrulli með öðrum trúfélögum að halda trúarhátíð í næsta mánuði þar sem aðalgestur er bókstafstrúaður bandarískur predikari sem hefur talað oft og mikið gegn mannréttindum samkynhneigðra.
Ameríkaninn, og margir íslenskir sértrúarsöfnuðir, byggja afstöðu sína til samkynhneigðar og margvíslegra annarra mála á tvöþúsund ára gömlum fornritum frá botni Miðjarðarhafs.
Sértrúarsöfnuðirnir trúa því að fornritin, Biblían, sé heilagur óskeikull sannleikur, orð Guðs almáttugs, tjáð í gegnum þá sem rituðu biblíuna.
Biblían í heild sinni er hins vegar kolómögulegur leiðarvísir fyrir líf okkar og lélegur kompás fyrir margvísleg siðferðisleg mál. Það er hægt að finna í Biblíunni alls konar vitleysu, strangar reglur um hitt og þetta, og boðorð um að dauðarefsingar skuli fylgja ýmsum yfirsjónum sem okkur þykja ekki tiltökumál í dag. Enda þurfa prestar Þjóðkirkjunnar fimm ára háskólanám til að geta skilið og túlkað Biblíuna fyrir okkur óbreytta.
En Þjóðkirkjan getur ekki komið hreint fram og sagt, "Þetta er vitleysa! Það Á EKKI að taka Biblíuna bókstaflega! Það er vitlaust, það er órökrétt, og það getur verið beinlínis hættulegt."
Því samkvæmt kenningum þeim sem Þjóðkirkjan aðhyllist og játningum hennar er Biblían annað og meira en fornrit, hún er "heilagt orð", orð Guðs.
Þess vegna er Þjóðkirkjan í eilífum vanda þegar kemur að sértrúarsöfnuðum, því hún á í basli með að lýsa því yfir skýrt og skorinort að bókstafstrúaðir sértrúarsöfnuðir séu á villigötum.
Ég skil satt að segja ekki HVAÐ það er sem Þjóðkirkjan sér jákvætt við þetta samstarf við sértrúarsöfnuði. Aðhyllist Þjóðkirkjan sömu grunngildi til mannlegs samfélags og þessir söfnuðir?
Ekki hefur Þjóðkirkjan mér vitanlega tekið þátt í íslensku trúboðs-sjónvarpsstöðinni Ómega. Á þeirri stöð eru oft og iðulega sýndir svona bandarískir sjónvarpspredikarar, eins og Franklin Graham. Svona predikanir ganga út á einskonar múgsefjun, að ná fólki helst í einhverskonar trans. Er það andlega heilbrigt og hollt?
Þetta sagði einn gestur á fyrri svona hátíð á Íslandi:
... við hjónin fórum á þessa hátíð Vonar fyrir ca. 20 árum síðan þegar við vorum í Kristkirkjunni. Það sem var mjög áberandi var þessi múgsefjun sem minnti einna helst á rokktónleika og peningaplokkið í kjölfarið. Eftir á að hyggja held ég að svona samkomur séu vel útfærð viðskiptahugmynd.
(komment við þennan pistil)
Til hvers er leikurinn gerður? Hvert er Þjóðkirkjan að fara með þessu?
Kannski er tími kominn til að Þjókirkjan endurskoði kenningar sínar, ef hún vill kalla sig ÞJÓÐ-kirkju. Kannski ætti hún að gerast almenn andleg heilsubótarstofnun þar sem hægt að sækja frið og ró og næra sálina, en sleppa því að boða einhverja tiltekna trú á heimsendaspá, syndafórn og guðleg fornrit.
Hinn valkosturinn er að Þjóðkirkjan gerist sjálfstætt trúfélag, eins og hún segist vera en er ekki, og að ríkisrekstri Þjóðkirkjunnar verði hætt.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.8.2013 | 21:50
Var Jesús örvhentur?
Borgarstjóri ónefndrar borgar kastaði fram þeirri spurningu hvort Jesús Kristur hefði mögulega verið örvhentur. Og viti menn, hópur fólks brást hinn versti við, ásakaði borgarstjórann fyrir að niðurlægja kristindóm og kirkjuna, sögðu jafnvel að orð hans væru guðlast og brot á stjórnarskrá!
Eða hvað?
Hvað er svona hræðilegt við að vera örvhentur?
Ef einhverjum finnst það svona hræðilegt að velta því upp hvort Jesús hafi verið örvhentur, segir það ekki bara meira um viðkomandi, að hann eða hún sé með óheilbrigð og fordómafull viðhorf?
Hvaða spurningar finnst þér niðurlægjandi og niðrandi?
- Var Jesús rauðhærður?
- Var Jesús lesblindur?
- Var Jesús blökkumaður?
- Var Jesús arabi?
- Var Jesús vöðvastæltur snöggklipptur Litái með tattú?
- Var Jesús vinstrisinni?
- Bjó Jesús í Asparfelli?
- Var Jesús ESB-andstæðingur?
- Var Jesús hommi?
Trúmál | Breytt 9.8.2013 kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2012 | 23:39
Sjálfstætt trúfélag eða ríkisstofnun? - Eða hvoru tveggja?
Þjóðkirkjan skilgreinir sig með mismunandi hætti allt eftir tilefni og samhengi. Þegar gagnrýnt er að kirkjan njóti óeðlilegs stuðnings frá ríkinu og talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju leggja talsmenn kirkjunnar áherslu á að Þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag, nánast eins og hvert annað trúfélag, nema með sérstaka samninga við ríkið.
En þegar talið berst að því hvort ekki skuli klippa alveg á tengsl ríkis og kirkju og gagnrýnt að eitt trúfélag - í trúfrjálsi ríki - hafi sérstök tengsl við ríkið og njóti verndar og stuðnings ríkisvaldsins, þá er gert lítið úr trúfélagshlutverkinu og talað um kirkjuna sem einhverskonar þjónustustofnun. Hvað er Þjóðkirkjan, í eigin augum?
Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt.
(úr ályktun aukakirkjuþings í gær, 1. september. Í ályktuninni er hvorki minnst á að kirkjan sé sjálfstæð né trúfélag.)
Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag.
(Frá heimasíðu Þjóðkirkjunnar, undir fyrirsögninni 'Hvað er Þjóðkirkjan'?)
Þjóðkirkjan er stofnun sem hefur á að skipa vel menntuðu fagfólki um land allt, sem er til þjónustu reiðubúið hvenær sem er, fyrir allan landslýð hverrar trúar eða trúfélags sem hann telst til.
(Agnes Sigurðardóttir, í bréfi til kjörmanna fyrir biskupskosningar 2012)
Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu ... Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja ...
(úr pistli séra Gunnlaugs Stefánssonar á tru.is frá 19.10.2010)
Gengur þetta tvennt upp, annars vegar að vera trúfélag sem er grundvallað á mjög ákveðnum trúarkenningum, ritum og trúarjátningum, og að vera ríkisrekin þjónustustofnun sem býður öllum þjónustu, óháð trú og trúfélagsaðilld? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þessari þjónustu kirkjunnar, en minni á að fjölmargir vilja ekki þiggja slíka þjónustu trúfélags eða greiða fyrir hana með sköttum.
Þjóðkirkjan - sjálfstætt trúfélag, ríkisstofnun, eða hvoru tveggja?
Ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)