Orsök og afleiðing - prófessor á villigötum

Prófessor nokkur í mínum gamla háskóla heldur því fram að ein af orsökum bankahrunsins hafi verið "fautaskapur Breta".  Nú er að vísu liðnir 10 mánuðir síðan þetta gerðist, en man ég ekki rétt að tveir af þremur bönkum hafi hrunið áður en Bretar sýndu sinn "fautaskap"?

(Þessi sami prófessor heldur því líka fram að íslenska ríkið eigi ekki að borga krónu til breskra Icesave sparifjáreigenda. En það var einmitt ótti við akkúrat það sem var kveikjan að aðgerðum Breta.) 

Einhverjir halda kannski enn í þá trú að Bretar hafi fellt Kaupþing, ég hygg nú að þeirra aðgerðir hafi varla nema flýtt því um einhverja daga. Halda einhverjir enn - eftir að hafa séð gögnin úr lánabók Kaupþings - að bankinn hefði getað lifað af, ef ekki hefðu komið til aðgerðir Breta? Hvað ætli hefði tekið marga daga áður en allir Edge reikningar hefðu tæmst, ef bankinn hafði ekki fallið í sömu viku og Landsbankinn?

Þessi sami prófessor mun víst kenna í kúrsi í haust um bankakreppuna. Vonandi verður hann þá búinn að kynna sér af hverju bankahrunið varð.

En ég verð að segja eins og er, ég fer hjá mér, fyrir hönd míns kæra og góða háskóla.


Lýður um blogglýð

Lýður Guðmundsson er ósáttur við íslenska fjölmiðla og ekki síst bloggheima sem hann tilgreindi sérstaklega í ræðu á aðalfundi Exista. Hann sagði orðrétt í Kastljósi að "þjóðfélagið stjórnast af miklu leyti af því sem ekki er flutt undir nafni", m.ö.o. nafnlausum bloggurum og þeim sem tjá sig á netmiðlum. Lýð var tíðrætt um nornaveiðar.

Það er rétt hjá Lýð að það er mjög mikið af upphrópunum og orðljótum athugasemdum á netinu. Ég les t.d. sjaldan athugasemdir við fréttir á Eyjunni þar sem vitrænar ábendingar og viðbótarupplýsingar við fréttirnar týnast í upphrópununum og orðljótum vaðli.

Ég bendi Lýð á að nota Blogggáttina www.blogg.gattin.com, þar getur maður auðveldlega valið  bloggara til að fylgjast með og búið til sinn eigin lista með uppáhaldsbloggurum og losnað við "blogglýðinn"! Vissulega finnast skemmtilegir og vitrænir bloggarar, þó þeir týnist svolítið innan um aragrúa hömlulausra rausara.

En ég held nú að það sé mjög orðum aukið hjá Lýð að samfélagið stjórnist af nafnleysingjum. Hitt er að mörgu leyti rétt að íslenskir fjölmiðlar eru veikburða og ná alls ekki alltaf að kryfja flókin mál af fagþekkingu. Þetta var þó enn meira vandamál á árunum 2004-2008, þegar bólan blés út sem hraðast og fjölmiðlar sváfu á verðinum. Ekki bætti úr skák að auðmenn áttu flesta fjölmiðla. Bakkabræður voru þar ekki undanskildir, en Exista átti Viðskiptablaðið, sem steyptist lóðrétt á hausinn eftir bankahrun, enda held ég það hafi nú aldrei verið rekið með hagnaði frekar en önnur dagblöð. Og við getum svo velt fyrir okkur af hverju auðmenn höfðu samt svona mikinn áhuga á að kaupa upp fjölmiðla!

Lýður má heldur ekki gleyma því að erlendir fjölmiðlar hafa líka fjallað um Exista og Kaupþing. Ekki stjórnast þeir af íslenskum bloggurum.  Fjölmargir virtir fjölmiðlar ráku upp stór augu þegar þeir rýndu í lánabók Kaupþings sem lekið var á netið. Ég skrifaði um það færslu og þar geta lesendur rifjað upp hvað Svenska Dagbladet hafði um útlán Kaupþings að segja undir fyrirsögninni "Afhjúpaðir af skjölunum", í stuttu máli að þar var um að ræða ósjálfbæra lánahringekju þar sem Exista bræðurnir tveir voru í miðju vefsins og fengu óheyrileg lán, ekki bara til kaupa á fyrirtækjum heldur líka í rándýrar lúxusíbúðir úti í heimi.

Í Kastljósi dagsins kom svo annar virtur útlendingur og talaði um hversu óheilbrigt íslenska bankakerfið var. Ómar Ragnarsson gerir þessu góð skil á sinni síðu.

Ég dæmi ekki Lýð fyrir glæpi, en ég fullyrði að hann átti stóran þátt í að byggja upp mjög sjúkt bankakerfi og hagkerfi og hrun þess hefur valdi íslensku þjóðinni gífurlegum vandamálum sem ekki sér fyrir endann á. (Og sem viðskiptavinur bæði Símans og VÍS hef ég takmarkaðan áhuga á að standa undir þeim mikla arði sem til þarf, til að Exista planið gangi upp.)

Hrun Kaupþings var ekki vegna alþjóða fjármálakreppunnar - Kaupþing var þáttur og birtingarmynd alþjóða fjármálakreppunnar, sem var vegna glórulausra útlána og ofveðsetningar.

 


Mín Reykjavík

Eins og vanalega náði ég ekki að sjá nema lítinn hluta alls þess sem ég hafði krossað við og prentað út á lista mínum yfir atburði Menningarnætur. Skemmti mér þó prýðilega og sá og upplifði heilmargt. Einhvern veginn fannst mér borgin öll í góðu skapi.

Dagurinn byrjaði á því að við kona mín röltum í regnstökkum út að Kirkjusandi til að hvetja áfram hlaupara og klappa fyrir þeim. Ég hef tekið þátt sjálfur nokkrum sinnum og veit hvað það er gaman og gefur mikið að fá hvatningarorð áhorfenda og það stóð heima, þau sem við kölluðum eftir og klöppuðum fyrir brostu út að eyrum og veifuðu tilbaka. Ég mæli eindregið með þessu fyrir þá sem ekki vilja eða geta hlaupið með sjálfir! Við misstum af þeim fljótustu en fylgdumst með töluvert hálfmaraþonhlaupurum á meðaltempói. Viðskiptaráðherrann Gylfi Magnússon var einn þeirra sem fór framhjá, ég þekki hann ekki persónulega en var feykilega ánægður með að fá hann í ríkisstjórn í janúar og hvatti opinberlega til þess hér á þessari síðu og Facebook vefnum að hann yrði áfram í stjórn eftir kosningar.

Um hádegisbilið var farið á kóræfingu en kórinn minn Söngsveitin Fílharmónía steig fyrstur á svið við gafl Söngskólans og ræsti mikla söngskemmtun sem þar var haldin nú í þriðja sinn á Menningarnótt, með fjölda kóra og milli atriða stjórnaði Garðar Cortes fjöldasöng áheyrenda.

Við röltum svo yfir í Utanríkisráðuneyti þar sem ég heilsaði upp á góða vinkonu og fyrrum skólasystur sem var að segja frá og kynna störf ráðuneytisins á sviði kynningarmála og fjölmiðlatengsla. Fyrr en varði vorum við svo komin inn á skrifstofu ráðherra þar sem Össur sjálfur tók á móti okkur. Ég var óviðbúinn þessu skyndilega "ráðherraviðtali" og sagði mest lítið, fannst  ég ætti að segja eitthvað mjög merkilegt um öll þau stóru og miklu mál sem ráðherrann þarf að glíma við og ég rausa stundum um hér fyrst þetta tækifæri gafst. Hann lék þó á alls oddi, gaf okkur konfekt, sýndi gestum forláta útskorna taflmenn og leyfðu yngismeyjum tveimur að prufa ráðherrastólinn.

Við þræddum svo Grettisgötuna, þar sem gömul og falleg hús voru kynnt og komum upp á Skólavörðustíg. Þar fórum við á fallega málverkasýningu hjá vinkonu og fyrrum kórfélaga Margréti Brynjólfsdóttur en skömmu seinna hófust þar ljúfir og skemmtilegir tónleikar söngkonu, píanista og sellista. Þetta voru þau Sólveig Unnur, Hilmar Örn og Victoria og fór þetta fram í penni stofu í heimahúsi og bauð húsfreyjan gestum og gangandi kaffi og hafði fyrr um daginn borið fram stafla af vöfflum.

Tónleikar á Skólavörðustíg 25 á Menningarnótt

Tónleikar á Skólavörðustíg og myndlistarsýning Margrétar.

Úti fyrir á Skólavörðustígnum var margt um manninn, fjölmargir sem ég þekkti, gamlir skólafélagar og nágrannar, fólk sem ég unnið fyrir í starfi mínu og fólk tengt mér ýmsum fjölskyldu- og vinaböndum. Niðri á Laugaveg rakst ég fyrir einskæra tilviljun á góðan vin sem er búsettur í útlöndum og gátum við sest og spjallað í portinu við Lækjarbrekku.

Eftir stutt hlé þar sem farið var heim og snætt og bætt á nokkrum lögum af hlýjum fötum var haldið aftur út. Við fórum í Dómkirkjuna og hlýddum á hreint út sagt frábæra tónleika fjögurra ungra og hæfileikra söngvara og píanista, sungu óperuaríur og söngleikjaperlur af mikilli list og með heilmiklum leikrænum tilþrifum! (Takk fyrir mig, Hallveig, Gissur Páll, Sólveig, Jón Svavar og Hrönn!) 

Við héldum út í myrkrið og á Ingólfstorg og hlýddum á Hjaltalín og Hjálma. Torgið fullt af fólki og skemmtileg og glaðvær stemmning. Um meter aftan við mig stóð formaður fjárlaganefndar og naut tónlistarinnar sem barst frá sviðinu. Sá þar lögreglustjórann Stefán Eiríksson á vaktinni með tveimur lögregluþjónum. Stefáni kynntist ég í menntaskóla þegar leiðir okkar lágu saman í málfundafélaginu. Hann var einn af skærum stjörnum sigursæls ræðuliðs MH en ég hélt mig meira bakvið tjöldin í stjórn málfundafélagsins. Mér finnst virkilega flott af Stefáni að taka virkan þátt í störfum lögregluliðsins og ganga vaktir úti á götu meðal fólksins. Hann fær prik fyrir það!

Flugeldasýningin setti lokapunktinn á skemmtilegan og vel heppnaðan dag. Flott að vanda, gaman að heyra þúsundir fólks á öllum aldri breytast í hrifnæm börn og stara hugfangin á litadýrð þessarar ævagömlu efnafræði og segja Váááá í kór! Um 100.000 manns voru víst í bænum um þetta leyti eða tæplega þriðjungur allra landsmanna. Má geta þess, fyrir þá sem sjá á eftir peningum sem fara í flugelda sem fuðra upp, að sú fína skemmtun kostaði nú ekki nema 25 krónur á hvern haus sem á horfði.

Þetta var góður dagur. Ég var stoltur af borginni minni og glaður að sjá hversu margir eru tilbúnir að leggja á sig svo aðrir geta notið. Á svona degi hittast ráðherrar, þingmenn, skólakrakkar og popparar og heilsast og skemmta sér saman og ýta til hliðar áhyggjum og erli dagsins. Þrátt fyrir það hvað við erum ófullkomin, óþolinmóð og amatörar í svo mörgu og að hér er allt í skralli og er þetta mitt galna samfélag. Hér vil ég búa áfram, en ekki stinga af til Noregs eða annað útí heim og fara á nýjan byrjunarreit, fjarri vinum, kunnuglegum andlitum og götum. Ég vona innilega að sem fæstum finnist þau tilneydd að hverfa á brott.

Ég vil leyfa mér að vona að með svona jákvæðu hugarfari og samstöðu á öllum dögum, eins og við sýndum á laugardag, hljótum við að komast í gegnum hremmingarnar framundan.


Meðvituð stefna Kaupþings að leika á kerfið?

Horfði á Kaupþingsmyndbandið umtalaða. Get svo sem fáu bætt við það sem aðrir hafa sagt, auðvitað var þetta fyrst og fremst hugsað sem svona "pepp", svipað og þegar fyrirtæki drífa starfsmenn í flúðasiglingar til að efla liðsandann. (Auðvitað hafa flúðasiglingar ekki þótt nógu "kúl" fyrir stjórnendateymið í Kaupþing, vafalaust hafa þau farið í fallhlífastökk í Nepal í staðinn, eða eitthvað álíka. Myndbandið umrædda var víst frumsýnt á starfsmannafundi í Nice á frönsku rívíerunni.)

En eins og Berlingske bendir á er þetta vissulega "tragikomiskt" á að horfa núna eftir á, yfir rjúkandi rústum bankans.

Eina setningu hnaut ég sérstaklega um í sjálfbyrgingslegum texta myndbandsins:

We think we can continue to grow the same way we always have by outwitting bureaucracy

Sem sagt, það að "leika á kerfið" - FME, Seðlabanka og aðra eftirlitsaðila - var meðvituð stefna bankans, 'part of the game'.

Akkúrat þegar þessi texti er lesinn birtist myndskeið úr kvikmyndinni Matrix, þar sem vondi kallinn 'Agent Smith' margfaldast með ógnarhraða. Smith margfaldaðist náttúrulega ekki í alvörunni í myndinni, myndin fjallaði um sýndarveruleika. Eins og sá heimur sem Kaupþing lifði í. Skondin tenging.

Og bankastjórinn fyrrverandi telur sig alls ekki skulda þjóðinni neina afsökunarbeiðni. Sjáum nú til hvað hann segir að ári liðnu eða svo þegar frekari rannsóknir á hruninu liggja fyrir...

Agent Smith

Svona margfaldaðist Kaupþing, að eigin sögn.


mbl.is Gamalt Kaupþingsmyndskeið vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigandi RÚV kvartar undan bjórauglýsingum

Ekkert Grolsch léttöl fæst út í búð og hefur ekki fengist lengi. Þetta er staðfest í frétt í Fréttablaðinu í morgun og á visir.is. Eins og ég skrifaði um í nýlegri færslu er þetta öl auglýst grimmt í þætti á Rás 2 Ríkisútvarpsins, Litlu hafmeyjunni, sem sérstaklega virðist ætlað að höfða til ungs fólks.

Framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, sem flytur inn ölið og áfengan bjór undir sama nafni og í nákvæmlega eins umbúðum, segir í fréttinni í morgun að léttölið eigi að vera til í búðunum en "það gæti verið uppselt", bætir svo við "Grolsch-léttöl hefur ekki verið til í mjög langan tíma [!] og síðan bjuggum við til léttöl og eigum von á meiru".

Þetta gæti ekki verið skýrara... eða þannig. Hvenær var Grolsch léttöl síðast til? Er það hvergi til í heiminum nema á Íslandi, þar sem Ölgerðarmenn bjuggu til nokkrar flöskur?

Það er svo sem ekki nema von að framkvæmdastjóranum verði orða vant, ölgerðarmenn og heildsalar hafa stundað þennan leik árum saman án þess að mikið sé fett útí það fingur, að auglýsa bjór og klína svo léttölsstimpli á auglýsinguna, þó svo allir átti sig á hvaða hugrenningar auglýsingarnar eigi að vekja.

Látum vera að Ölgerðin reyni öll trix í bókinni til að selja vöru sína sem mest. En að RÚV skuli gagnrýnislaust taka þátt í slíkum leik er dapurt.

RÚV hefur undanfarið hamrað á því í auglýsingum að við öll 330.000 Íslendingar séum eigendur Ríkisútvarpsins. Ég undirritaður eigandi RÚV vill mótmæla því að bjór sé auglýstur í útvarpinu og sérstaklega finnst mér miður að það sé gert í útvarpsþáttum fyrir unglinga.

Ég á jafn mikið í RÚV og þú, Audi-Palli!


Frétt af þyrlu-Manga og spekileki frá fjölmiðlum

Forsíðufrétt DV um meintar fyrirhugaðar afskriftir skulda Magnúsar Kristinssonar og tengdra félaga hans vakti að vonum mikil viðbrögð, ekki síst í netmiðlum og bloggheimum.

Fjölmiðlafulltrúi skilanefndar Landsbankans Páll Benediktsson bar hins vegar samdægurs þessa frétt tilbaka. DV menn voru þó kokhraustir, lýstu því á vef sínum að það sé Páll sem sé í vanda og vilja þakka sér það, ef skuldirnar verði svo þrátt fyrir allt ekki felldar niður.

Spurningin stendur þó eftir hvort fréttin var yfir höfuð á rökum reist. Látum liggja á milli hluta ónákvæma framsetningu blaðsins þegar þeir oðrétt tala um 50 milljarða skuldir Magnúsar og eiga við skuldir ýmissa félaga sem hann átti að meira eða minna leyti. Skuldir félaganna eru ekki sami hlutir og skuldir hans sjálfs. Ef svo væri gætum við auðvitað heimtað að Björgólfur Thor greiddi sjálfur IceSave skuldir Landsbankans sáluga. (Sem hann mætti þó sjá sóma sinn í að gera, að svo miklu leyti sem hann á einhverja alvöru peninga!)

Óneitanlega kemur upp í hugann fréttin á Stöð 2 frá því fyrir nokkrum vikum um meintar risa-millifærslur nafngreindra auðmanna frá Straumi til aflandsreikninga í kringum bankahrunið. Þeir báru af sér allar sakir og fréttin gufaði svo upp, reyndist byggð á munnlegum heimildum eins manns sem hafði engin gögn undir höndum. Mætti kalla kjaftasögufrétt.

Það er ekki gott ef fréttamenn þessara miðla kunna ekki undirstöðuatriði í fréttamennsku og þekkja ekki muninn á fréttum og gróusögum.

Kannski hafa of margir reyndir fréttamenn eins og áðurnefndur Páll Benediktsson spekilekið frá fréttastofunum. Páll var um árabil sjónvarpsfréttamaður, ritstýrði meðal annars skemmtilegum frétttaaukaþáttum, Í brennidepli. Í þeirri röð voru tveir áhugaverðir þættir um útrásina, eins og hún birtist 2004. (Ég minntist á þá í færslu frá apríl sl.)

Nokkru síðar fór þó Páll að vinna fyrir mafíuna útrásarfyrirtækið Landic Properties. Lái honum hver sem vill. Menn ráða því hvar þeir vinna, það er ekki þegnskylda að vinna ævina á enda á fjölmiðlum og launin hjá fréttastofu sjónvarps voru eflaust snöggtum lægri en laun spunameistara útrásardela. Eftir eitt og hálft ár hjá Landic fór svo Páll til skilanefndar Landsbankans snemma í vor.

Fleiri góðir fréttamenn urðu talsmenn útrásardólga, til að mynda Kristján Kristjánsson fyrrum Kastljósstjórnandi sem fór til FL Group. 'Þar fór góður biti í hundskjaft' myndu sumir segja. Kristján hefur skiljanlega fært sig um set aftur og starfar nú sem fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherra, hvorki meira né minna. Svo ekki missa menn alfarið æruna eftir tímabundin störf sem málpípur óheilbrigðra útrásarfyrirtækja.

Fréttamenn hafa svo sem flutt sig í fjölmiðlafulltrúastörf á öðrum vettvangi en í útrásargeiranum, má nefna að fyrrum fréttamenn starfa eða hafa starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu, Flugmálastjórn, Vegagerðinni svo nokkur dæmi séu nefnd. (Hef reyndar aldrei skilið af hverju Flugmálastjórn og Vegagerðin þurfa fjölmiðlafulltrúa í fullu starfi?! Þarf fréttafulltrúa í fullu starfi til að tilkynna hvar sé verið að leggja bundið slitlag á vegum úti?!)

Fjölmiðlar geta þó huggað sig við að varla spekileka fleiri góðir fréttamenn í þessa áttina, þ.e. í útrásarfyrirtækin, í kjölfar þess að sú bóla sprakk.


Stærðfræði handa bloggurum (og þingmönnum) úr máladeild - "Ragnars-Halls-ákvæðin"

Það er að mínu mati gott mál að Alþingi hlustaði vel á röksemdir Ragnars Hall og fleiri lögfræðinga og að fyrirvarar fjárlaganefndar taka á þeim atriðum.

Sumir líta svo að Ragnar Hall sé að krefjast einhvers konar "ofurforgangs" íslenska tryggingasjóðsins, sbr. blogg Marðar Árnasonar fyrir skemmstu, þar sem segir:

Ragnars-Halls-ákvæðin kynnu hinsvegar að standa í Bretum og Hollendingum, vegna þess að þar er farið útfyrir samningsrammann, sýnist leikmanni að minnsta kosti, og verulegt fé undir. Þetta kynni að setja samningana í uppnám, og þarna reynir sannarlega á yfirlýstan góðan vilja viðsemjenda okkar og á þær óskir bandamanna að loka Icesave-dæminu. Þingið tekur verulega áhættu með þessu ákvæði. Á hinn bóginn virðast Bretar og Hollendingar ekki eiga mikið á hættu, því ofurforgangurinn sem um ræðir er hvergi í lögum, íslenskum eða evrópskum, heldur aðeins til í praxís sumra þrotabústjóra hér gagnvart aðallega einum aðila, Ábyrgðarsjóði launa.

 

Ég tel einsýnt að Mörður hefur ekki lesið röksemdir Ragnars, eða þá ekki skilið þær. (Hrokafull fyrirsögn mín er fyrst og fremst skot á hann og aðra sem mynda sér skoðun á þessu án þess að reyna að skilja það, biðst afsökunar ef ég móðga aðra máladeildarstúdenta :-)

Ragnar var alls ekki að krefjast þess að íslenski tryggingasjóðurinn fengi einhvern ofurforgang, heldur var Ragnar að benda á að með tryggingum Breta og Hollendinga umfram lágmarkstrygginguna uppá 20.000 Evrur fellur meira á íslenska ríkið en því ber að greiða.

Ragnar skýrði þetta ágætlega með dæmum, en helstu grein hans má finna hér og ég hef skrifað um þetta áður. Ég skal reyna að skýra þetta aftur, svo jafnvel Mörður Árnason skilji:

Segjum nú að breskur sparifjáreigandi hafi átt 50.000 evrur á IceSave reikningi. EF íslenski tryggingasjóðurinn hefði haft nægt fé til að greiða þeim manni strax að minnsta kosti 20.000 evrur þyrfti íslenska ríkið ekkert að hugsa frekar um málið.

Nú var svo ekki, segjum til einföldunar að í sjóðnum hafi verið 0 evrur til handa manninum.  Þurfti því sjóðurinn að fá lán hjá ríkinu til að standa við lágmarksskuldbindingu (sem ríkið aftur fékk lánað hjá breska ríkinu).  Sem sagt, sjóðurinn fær lánaðar 20.000 evrur frá íslenska ríkissjóðnum og fellur sú upphæð á íslenska ríkið, sem á samsvarandi kröfu í þrotabú Landsbankans.

Breska ríkið ákvað hins vegar einhliða að veita manninum umframtryggingu, upp að 50.000 Evrum. Breska ríkið lætur því manninum í té 30.000 evrur ofan á þær 20.000 sem hann fyrst fær. Reikningseigandinn er því búinn að fá alla sína peninga tilbaka.

Segjum nú að helmingur - 50% - náist úr þrotabúi bankans upp í kröfur. Þannig eiga kröfuhafar almennt rétt á að fá helming upp í sínar kröfur. Hver innistæðueigandi ætti því að fá helming af sinni innistæðu tilbaka en að lágmarki 20.000 evrur samkvæmt evróputilskipuninni. Hvernig á að skipta þeim 25.000 evrum sem koma uppí þessa innistæðu?

Íslenska ríkið á 20.000 EUR kröfu, hið breska 30.000 EUR kröfu. (Ef ekki hefði komið til umframábyrgð breska ríkisins væri sú krafa innstæðueigandans, heildarkröfur eru þær sömu.)

Ef hægt hefði verið að fá þessa peninga strax út úr þrotabúinu hefði maðurinn sjálfur fengið þá, og íslenska ríkið væri stikkfrí, því hann hefði fengið meira en 20.000 evrur. Breska ríkið hefði svo greitt honum 25.000 evrur til að hann fengi samtals 50.000 evrur greiddar. með öðrum orðum: 0 evru kostnaður á íslenska innstæðusjóðinn/ríkið en 25.000 evru kostnaður á breska ríkið.

En samkvæmt IceSave samningnum eru allar kröfur jafnréttháar, svo upphæðinni verður skipt á milli kröfuhafa í hlutföllunum 2:3; íslenska ríkið fær tilbaka 2/5 af 25.000 EUR upphæðinni eða 10.000, breska ríkið fær 3/5 eða 15.000.

Það sem Ragnar bendir á að með því að gera kröfur íslenska innstæðusjóðsins og breska ríkisins jafn-réttháar þá saxast á þá upphæð sem ella kæmi tilbaka til íslenska ríkisins vegna þess að breska ríkið gaf umframábyrgðina. Sem sagt, íslenska ríkið (við íslenskir skattgreiðendur) þarf að greiða meira vegna einhliða ákvörðunar breska ríkisins um hækka lágmarksendurgreiðslu til innstæðueigenda umfram lágmarkið sem Evróputilskipunin kveður á um.

Er það sanngjarnt og eðlilegt? 

Ef breska umframtryggingin kæmi ekki til ætti innstæðueigandinn sjálfur 30.000 kröfu í þrotabúið. Ef sú krafa er jafnrétthá kröfu íslenska tryggingasjóðsins fær innstæðueigandinn 15.000 evrur tilbaka til viðbótar við upphaflega 20.000 greiðslu. Þá væri hann samtals búinn að fá 35.000 evrur í sinn vasa, 10.000 evrum meira en ef hægt hefði verið að gera upp þrotabúið strax.

Á lágmarksgreiðsla úr tryggingasjóðnum að vera greiðsla uppí þann hluta sem innstæðueigandi fær úr þrotabúi bankans eða á greiðslan að koma sem viðbót? Um það snýst sú óvissa sem Ragnar bendir á.

Þetta er það mikilvægt mál að úr því hlýtur að þurfa að fá skorið.


Hvar fæst Grolsch léttöl??

Grolsch léttölHlustaði á skemmtilegan þátt á Rás 2 Ríkisútvarpsins í hringferð minni um landinu, Litlu hafmeyjuna. Endurtekið var kynnt að þátturinn er í boði Grolsch léttöls. Það er þakkarvert, annars væri væntanlega bara þögn í útvarpinu ef ekki kæmi til gæska ölsalans.

Í þakklætisskyni langaði mig að kaupa þetta góða léttöl sem býður upp á útvarpsþáttinn, en ég hef hvergi komið auga á það í búðum. Vita einhverjir blogglesendur hvar kaupa má Grolsch léttöl?  (Samkvæmt heildsala er það flutt inn.)

Kannski kaupi ég bara áfengan Grolsch bjór í staðinn, þó svo það hafi ábyggilega ekki verið meiningin með kostun þáttanna í ríkisfjölmiðlinum, enda með öllu óheimilt að auglýsa áfengi í útvarpi. 

Ekki færi ríkisfjölmiðillinn að fara í kringum þau lög, allra síst í þætti sem virðist beint til unglinga??


Magma Energy Ltd.

... hljómar svona eins og frontur fyrir vonda kallinn í James Bond mynd, lítt þekkt fyrirtæki sem kaupir upp auðlindir smáríkis og breytir svo með leynibruggi neðanjarðastraumum heita vatnsins svo allt vatn renni inn á svæði fyrirtækisins og okrar svo á íbúum sem fatta ekkert hvað hefur gerst. Myndin gæti heitið "Under High Pressure" eða eitthvað álíka.

Dominic Greene

Segi bara svona...

Þetta er örugglega bara heiðvirt venjulegt fyrirtæki sem sér góðan fjárfestingarkost og vill bara græða pening. Orkuauðlindir eiga bara eftir að verða verðmætari. Í raunveruleikanum er heldur ekki til neinn James Bond sem flettir ofan af svona ráðabruggi.


Bjarni Ben og Villta vestrið

Fréttablaðið birtir í morgun ummæli Bjarna Benediktssonar um birtingu upplýsinganna úr lánabók Kaupþings undir fyrirsögninni "Við viljum ekki villta vestrið".

Í fljótu bragði gætu lesendur haldið að fyrirsögnin vísaði til hneykslan Bjarna á því sem fram kemur í upplýsingunum, ofurlán til eigenda bankans, en fjöldi virtra erlendra fjölmiðla hefur fjallað um málið (sjá t.d. þessa fétt RÚV) og eru samdóma í mati sínu á upplýsingunum og hvað þær segja um gamla Kaupþing. (Sigurður Einarsson reynir vissulega í grein í dag að skýra að ekkert óeðlilegt komi fram í þessum upplýsingunum, en ég tek meira mark á Financial Times, Berlingske, Svenska Dagbladet, Dagens Nyheter o.fl. o.fl)

Bankar Íslands fyrir hrun voru sannkallað Villta vestur, þar sem glaðbeittir fjármálakúrekar gerðu það sem þeim sýndist.

En Bjarni var alls ekki að gagnrýna það. Hann virðist samkvæmt frétt Fréttablaðsins hafa miklu meiri áhyggjur af birtingu upplýsinganna og segir að það "getur aldrei verið ásættanlegt að menn brjóti lög" og honum finnist "óskiljanlegt með öllu að menn séu að bera i bætifláka fyrir það þegar slíkt gerist".

Með öðrum orðum er greinilegt að Bjarni telur að ekkert af þessum upplýsingum eða öðrum sem lekið hefur verið úr bönkunum hafi átt að koma fyrir sjónir almennings.

Það er nefnilega það.

Óttast Bjarni fleiri leka úr öðrum bönkum?

Bankamenn

Villta vestrið - íslenskir bankakúrekar


mbl.is Stórskuldug aflandsfélög í eigu hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband