Eins og fleiri var ég gáttaður á sjónvarpsviðtalinu í morgun við forsætisráðherra. Margir hafa greint það á ýmsa vegu og skipst á skoðunum. Býsna gott yfirlit t.d. hér hjá Ragnari Þór Péturssyni. Eins og Ragnar Þór bendir á var áberandi hvað Sigmundur gat flækt sig í útúrdúra, í stað þess að svara spurningum, sem vissulega voru sumar ákveðnar og jafnvel ögrandi.
Tökum eitt dæmi. Fyrstu tvær mínúturnar fara í hófstillar og rólegar umræður um það hvort til standi að fjölga Seðlabankastjórum í þrjá, Sigmundur svara þessu ekki beint, en segir að það sé verið að vinna að endurskoðun laga um Seðlabankann og vega og meta m.a. kosti og galla það hafa einn eða þrjá bankastjóra. Svo heldur viðtalið áfram, þar sem Gísli þjarmar aðeins að Sigmundi til að reyna að fá skýrt svar við upphafsspurningunni (ca. á 1:45)
GMB: Ok. Þannig að þú sem sagt, þú neitar því ekki að þessi frétt, að, hún birtist á Eyjunni, sem stundum, eða sem sumir sjá sem svona ákveðna málpípu Framsóknarflokksins
SDG: Er þér alvara? (hlátur)
GMB: Sumir sjá það þannig, að fyrst að það birtist þar frétt að það verði þrír bankastjórar, og þá einhverjir tveir sem að þið handveljið, sem yfirfrakka á Má Guðmundsson, að, ég heyri á þér að þú ert ekki að neita þeim fréttaflutningi?
Þetta má segja að sé ansi gildishlaðin fullyrðing sem felist í spurningunni hjá Gísla. Sigmundur er búinn að ræða almennt að það séu bæði kostir og gallar við að hafa einn eða þrjá bankastjóra og það þurfi að vega og meta. Hér hefði maður búist við að Sigmundur myndi svara þessu býsna ákveðið og neita þessu, að ef á annað borð verði ráðnir tveir Seðlabankastjórar til viðbótar þá verði þeir ekki pólitískt "handvaldir".
(Tja, nema það raunverulega standi til! En jafnvel þá hefði maður búist við að Sigmundur myndi segja að þeir yrðu ráðnir algjörlega á faglegum forsendum.)
Hverju svaraði Sigmundur þessari beinskeyttu spurningu?
SDG: Nei. Talandi um fréttaflutning, ...
Stöldrum aðeins við. Þýddi svarið sem sé 'Nei, ég neita þessu ekki' ?!
Það er eins og Sigmundur vilji forðast þetta, og fer að rausa eitthvað um Eyjuna og fréttaflutning og orðalag í spurningu Gísla (Sumir segja) sem í sjálfu sér engu máli skipti. Svona hélt svarið áfram:
SDG: Nei. Talandi um fréttaflutning, ...þá eru fréttir, jafnvel hér, farnar að byrja á á 'Sumir segja'. Þetta var alveg bannað í gamla daga, að byrja fréttir á 'sumir segja'. Og nú segir þú mér að einhver vefmiðill sé
Og allt í einu eru spyrillinn og forsætisráðherrann að rökræða það hvort Framsóknarmaður stýri Eyjunni og hvort og hvernig fjölmiðlar lýsi skoðunum, hvað Gísla finnist um Fréttablaðið o.fl. Og aldrei fær Gísli svar við spurningunni.
Eftir sitja áhorfendur með þá tilfinningu að búið sé að ákveða að ráða tvo Seðlabankastjóra, þeir verði pólitískt "handvaldir", líkt og var fyrir ekkert svo mörgum árum, þegar menn eins og Geir Hallgrímsson, Tómas Árnason, Steingrímur Hermannsson, Finnur Ingólfsson, að ótöldum Davíð Oddssyni, voru Seðlabankastjórar.
Sjáum til hvort það gerist.
Hverjir verða næstu Seðlabankastjórar?