Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Jón ver dóna

Í vikunni fjallaði Kastljós á RÚV um hatursfull og orðljót ummæli á netmiðlum. Tekin voru viðtöl við þrjá einstaklinga sem lent hafa í að fá yfir sig skæðadrífu af slíku og svo var hringt í tvo einstaklinga sem skrifað höfðu svona netdónakomment. Annar einstaklingurinn vildi alls ekki gangast við ummælunum, hinn gerði það en hún gat ekki svarað því hvort hún myndi vera tilbúin að segja orð sín augliti til auglitis við þann sem hún skrifaði um.

Sú sem mestu haturs- og ónotakommentin mátti þola af viðmælendum Kastljóss er Sema Erla Serdar, sem tekur virkan þátt í stjórnmálum og samfélagsumræðu og hefur m.a. skrifað og tjáð sig um fjölmenningu og fordóma. 

Velflestum sjónvarpsáhorfendum hefur vafalaust blöskrað dónaskapurinn, heiftin og illskan sem mátti sjá í kommentum sem rúlluðu yfir skjáinn. En ekki bloggaranum og lögmanninum Jón Magnússyni. Hann tekur upp hanskann fyrir netdónana og kallar ummæli þeirra meint hatursummæli. Fullyrðir svo að ógeðskomment séu bara viðbrögð þeirra „sem verði fyrir barðinu á hatursummælum Semu“. Jón tiltekur samt ekki eitt einasta dæmi sem stenst skoðun um eitthvað sem gæti mögulega kallast hatursummæli frá Semu Erlu. 

Ég sendi inn komment við pistil Jóns en hann er gunga og birtir ekki komment sem varpa skugga á hans auma málstað. Svona var komment mitt, þið getið dæmt um það hvort það sé ókurteist eða ómálefnalegt:

 

Þannig að þegar bandarískir hvalverndurnarsinnar hvetja neytendur vestra til að sniðganga íslenskar afurðir þá eru þeir í „hatursherferð“ gegn Íslendingum svipaðri og herferð nasista gegn gyðingum?  Eða þegar Vesturlönd, mörg hver, settu viðskiptabann á Apartheid-stjórn Suður-Afríku fyrir 30 árum þá var það líka hatursherferð í anda nasista? Það er jú það sem þú ert að segja, að sniðganga og viðskiptaþvinganir af slíkum toga séu „hatursheferðir“ í anda nasista. 

Þetta er hroðalegt bull í þér Jón.

Og ENGIN af þeim ummælum sem Kastljós birti sem beindust gegn Semu Erlu voru eitthvað sambærileg því sem þú vísar til af ummælum hennar. Sem  ÞÚ hikar ekki við að kalla hatursummæli.

Með von um að þessi athugasemd fái að birtast.

 

Mogginn sá svo ástæðu til að vekja sérstaka athygli á rasistasleikjuboðskap Jóns 'Ísland fyrir Íslendinga' Magnússonar á forsíðu mbl.is.

Af hverju er Jón svona viljugur að gerast talsmaður netdóna og rasista?  Kannski vonast hann eftir endurkomu í pólitík undir fána nýstofnaðs flokks, Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem virðist vera svar Íslands við vaxandi stuðningi við sambærilega flokka í Evrópu sem gera út á útlendingaótta og múslimaafóbíu. 

 

Capture-mbl

 

 


Engin 110 ára regla um Icesave skjöl

Frekar er nú klaufaleg tilraun Framsóknarflokksins til að tala um eitthvað annað en aflandsfélög og hagsmunaárekstur forsætisráðherra. Það gildir engin sérstök 110 ára regla um þau trúnaðarskjöl sem þingmenn hafa haft aðgang að og varða endurreisn bankanna. 

Svokölluð 110 ára regla var í upplýsingalögum, nánar tiltekið grein sem varðaði lög um Þjóðskjalasafn, en þau lög voru afnumin 2014 og í þeirra stað komu lög um  opinber skjalasöfn nr. 77/2014, samþykkt af núverandi meirihluta, m.a. Vigdísi Hauksdóttur.

Þar stendur í 29. gr.:

„Þegar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.“

Þarna hefur verið bætt inn klausu um „almannahagsmuni“. Hún er skýrð svo í skýringum með frumvarpi:

„Skjal sem varðar almannahagsmuni og getur talist vert að synja um aðgang að getur t.d. verið teikningar af húsum sem varða öryggi ríkisins (fangelsi, öryggisgeymslur o.s.frv.).“

Sem sagt, það er EKKERT sem gefur tilefni til að ætla að þessi skjöl sem Framsóknarlfokkurinn reynir nú að þyrla upp miklu moldviðri útaf verði leynileg í 110 ár. Og raunar virðast allir sammála um að aflétta leynd af sem flestum af þessum skjölum, svo fremi ekki sé verið að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs.


mbl.is „Bara yfirgengileg þvæla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgef Moggabloggið

Moggabloggið er því miður orðinn hræðilega leiðinlegur og dapur vettvangur. Ég ætla því að hvíla þessa síðu og taka mér hlé frá bloggskrifum. Kannski finn ég mér síðar annan vettvang ef áhuginn vaknar á ný. Ég vil aðeins útskýra af hverju ég er búinn að gefast upp á akkúrat þessum vettvangi.

 1) Mjög einhliða skoðanir

Alltof margir af þeim sem hér eru eftir eru forpokaðir íhaldspúkar. Mikill meirihluti sem hér skrifar styður ríkisstjórnarflokkana, eru harðir andstæðingar ESB og með svona leiðinda þjóðrembutuð og útlendingaótta og fordóma. Flestir sem hér skrifa og kommentera virðast miðaldra eða eldri og áberandi skortur er á konum. Þær eru varla nema 5-10% hér á blogginu

2)  Alltof mikill rasismi

Alltof margir eru hér að básúna ljótum og leiðinlegum rasistaskoðunum, og of fáir virðast kippa sér upp við það. Þessu tengt er furðulega hátt hlutfall heitra stuðningsmanna Ísraels í stríði því sem nú stendur yfir og þar sem Ísraelsmenn hafa murrkað lífið úr vel yfir þúsund óbreyttum borgurum og þar af yfir 200 börnum. Margir Moggabloggara telja þetta sjálfsagða "sjálfsvörn". Ég nenni ekki að rífast lengur við ykkur, þið gerið mig dapran og ég vil ekki eyða orku í ykkar ljótu og neikvæðu skrif. (Reynar voru þó nokkrir bloggarar sem yfirgáfu þessa skútu í rasismabylgjunni sem reið hér yfir í moskuumræðunni í borgarstjórnarkosningunum.)

 3) Fátíðar gefandi umræður

Kommentasvæðin eru ekki notuð til rökræðna og heilbrigðra skoðanaskipta, heldur sitja sömu mennirnir og rausa og rausa, margir "peista" inn sömu langlokunum aftur og aftur við marga pistla, leiðinlegur tröllaskapur er áberandi og virðist vera að þeir helstu sem kommentera er fólk sem enginn myndi nenna að tala við augliti til auglitis.

4) Fáir lesendur

Moggabloggið er minna lesið nú en áður, a.m.k. eru miklu færri sem lesa  það sem ég skrifa hér en var fyrir 5-6 árum síðan. Raunar hampar forsíða moggabloggsins miklu frekar ropgösprurum og rasistum en þessu kvabbi mínu.

 

Auðvitað eru undantekningar frá þessu. Einstaka menn er hægt að lesa til gamans og fróðleiks, Ómar Ragnarsson og Jens Guð koma upp í hugann. En hinir eru of margir, sem taka bara frá manni tíma við lesturinn, maður æsir sig upp, rífst kannski aðeins og skammast, en það er vita tilgangslaust því þverhausarnir sem hér skrifa skipta aldrei um skoðun.

Eigið góða helgi. Verið þið sæl! 

fjall3

Ljós í myrkri 


Ber EKKI tilbaka óeðlilegan þrýsting og afskipti ráðherra

Lögreglustjórinn ber ekki tilbaka meginefni fréttar DV, að ráðherrann var með mjög óeðlileg afskipti af rannsókn málsins og beitti lögreglustjórann þrýstingi, í rannsókn hans á lekanum úr ráðuneytinu. Hvort þetta hafi flýtt fyrir uppsögn lögreglstjórans eða ekki skiptir ekki höfuðmáli. Ráðherrann var að pönkast á sínum undirmanni þegar sá var að rannsaka hugsanleg lögbrot hennar.

 Það er algjörlega óverjandi og óásættanlegt. 

 


mbl.is Blæs á fréttaflutning DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrakkt blað og íslenskur hægripopúlismi

Það eru ekki allir rússneskir fjölmiðlar sem taka þátt í áróðursfarsa Pútinveldisins. Blaðið Novaya Gazeta birti á forsíðu sinni í dag stóra ljósmynd af líkfylgd nokkurra hollensku fórnarlamba árásarinnar á farþegaflugvél Malaysian Airlines yfir Úkraínu, undir fyrirsögninni, Fyrirgefið okkur, Holland. Á hollensku.

NovayaGazeta 

Ritstjórn blaðsins horfist í augu við þann raunveruleika að rússnesk stjórnvöld bera verulega ábyrgð á þessu ódæði, og það sem meira er um vert ÞORA að segja frá því. Ritstjórarnir fá vafalítið að finna fyrir því, því Rússland er ekki frjálst ríki og fjölmiðlum er síður en svo óhætt að tjá skoðanir og segja fréttir sem er stjórnvöldum ekki að skapi. Yfir stærsta fjölmiðlabatteríi ríkisins hefur Pútín sett orðljótan og fordómafullan pópúlista, hálfgerður trúður ef ekki væri fyrir hatursfull ummæli hans t.d. í garð homma, og eru fjölmiðlar nú uppfullir af snarklikkuðum samsæriskenningum og öfgabulli. Um áróðurskenndan og ólíkindalegan fréttaflutning af árásinni flugvélina ritaði Egill Helgason í pistli fyrr í vikunni.

Ansi sérstakt í þessu ljósi að lesa nýlegan pistil eftir Jón Magnússon þar sem hann tekur upp hanskann fyrir Pútín. Jón er einn sá íslenski stjórnmálamaður sem einna lengst hefur gengið í daðri við hægripopúlisma, andúð gegn innflytjendum og þjóðrembu. En að hann styðji fasisma Pútíns kemur mér samt á óvart.

Jón-"Ísland fyrir Íslendinga"-Magnússon, þú ert gjörsamlega úti á túni, eins og svo oft í þínum málflutningi.

 


Til hvers er biskupinn að vísa??

„Átök um trúarbrögð eru í fréttum og allskyns bókstafstrú og trúarofstæki sækja á að maður tali nú ekki um ofstækisfullt guðleysi. ...þegar leitast er við að þvinga hið trúarlega undir yfirborðið og þagga niður, eins og mjög er iðkað á Vesturlöndum, líka hér á Íslandi, þá fer ýmiskonar ofstæki að bæra á sér á ólíklegustu stöðum undir lítt geðþekkum formerkjum,“

 Hvað nákvæmlega er biskupinn að meina??

Ég kannast við fréttir héðan og þaðan utan úr heimi um blóðug átök milli ólíkra trúarhópa, um ofstækisfulla múslima sem hótuðu skopmyndateiknurum og um klikkaða fúndamentalista í Flórida sem brenndu Kóraninn. En ég bara man ekki eftir neinum fréttum um „ofstækisfullt guðleysi“.

Og hvað á Karl við, þegar hann talar um að verið sé að „þvinga hið trúarlega undir yfirborðið“ á Vesturlöndum? Er einhvers staðar á Vesturlöndum ekki fullt trúfrelsi?? Má fólk ekki byggja og sækja kirkjur, moskur og önnur bænahús eins og það lystir?

Ég skil ekkert hvað Karl er að fara. Getur einhver útskýrt það??

== o == o == o == 

unholy_trinity3

Myndin fengin að láni héðan

 

 


mbl.is Guðleysið líka ofstækisfullt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið hljóp 1. apríl

Þessi frétt tók heila fjóra dálka í Fréttablaðinu í gær, 2. apríl:

Screen shot 2014-04-03 at 11.13.13 PM 

Eitthvað fannst mér þetta skrýtin frétt, svo ég prófaði að gúggla og finna eitthvað meira um þetta í dönskum miðlum. Og fréttina fann ég, í 'Kristeligt Dagblad'. Nema hvað, fréttin sem hafði birst deginum áður, 1. apríl, hafði verið merkt þann 2. apríl sem "Aprilsnar" - aprílgabb. Svo það lítur út fyrir að Fréttablaðið hafið hlaupið 1. apríl, og látið gabbast. Ætti að kenna blaðamönnum að tvítékka vafasamar fréttir sem þeir finna á netinu.

Hér fyrir neðan er texti fréttarinnar, sem líka má enn lesa í þessum skrifuðum orðum á vef visir.is án þess að blaðið hafi birt leiðréttingu. Menn geta svo haft skiptar skoðanir á þessum "húmor", að búa til gabbfrétt um heimtufrekju austur-Evrópubúa sem lifa sníkjulífi á heiðvirðum Dönum og þjóðkirkju þeirra, allt í boði Evrópusambandsins. Þetta er kannski einhver útgáfa af kristilegum húmor í boði Kristilega dagblaðsins danska.

 

Danskir prestar í vinnuferðir til A-Evrópu
 Evrópusambandsborgarar eiga rétt á þjónustu dönsku þjóðkirkjunnar í heimalandi sínu hafi þeir starfað í Danmörku í einn mánuð eða lengur.

Evrópusambandsborgarar eiga rétt á þjónustu dönsku þjóðkirkjunnar í heimalandi sínu hafi þeir starfað í Danmörku í einn mánuð eða lengur. Danskir prestar eru þess vegna á faraldsfæti, að því er segir á fréttavef Kristilega dagblaðsins í Danmörku.

Þar kemur fram að það séu einkum Austur-Evrópubúar sem biðja um þessa þjónustu en hana fá þeir sér að kostnaðarlausu. Þjónustan felur í sér skírn, hjónavígslu og útför í heimalandinu. 

Haft er eftir formanni danska kirkjuráðsins, Anders Gadegaard, að prestum sem reglulega pakka niður í ferðatösku og halda til Austur-Evrópu fjölgi stöðugt. Hann bendir þó á að mikill hluti "nýja evrópska safnaðarins" tali ekki ensku þannig að innan tíðar verði nauðsynlegt að ráða farandpresta með sérþekkingu á slavneskum málum. 

Morten Messerschmidt, fulltrúi Danska þjóðarflokksins á Evrópuþinginu, segir þessa þróun hroðalega. Enn einu sinni komi í ljós slæmar afleiðingar stækkunar Evrópusambandsins til austurs og regluverks sambandsins.Hann segir það ekki eðlilegt að Danir hafi yfirvald yfir kirkjum sínum. Hann tekur það fram að Evrópusambandið sé orðið alltof valdamikið og hvetur Dani til þess að krefjast þess að fá erlenda presta til Danmerkur. 

 


Bréf til kjósenda

Forsætisráðherra: Þetta bréf [sent ungum kjósendum fyrir kosningar 2009 undirritað af SDG] ... sett fram af hópi sem hefur síðan yfirgefið flokkinn og var ekki afstaða mín ...

Spyrill: Þú skrifaðir undir þetta bréf til kjósenda. Skrifaðir þú ekki bréfið sjálfur?

Forsætisráðherra: Nei. Ég skrifaði ekki þetta bréf.

Spyrill: Þannig að þetta var aldrei þín afstaða?

Forsætisráðherra:  Þetta hefur aldrei verið mín afstaða.

 

Capture2 


Sigmundur og yfirfrakkarnir

Eins og fleiri var ég gáttaður á sjónvarpsviðtalinu í morgun við forsætisráðherra. Margir hafa greint það á ýmsa vegu og skipst á skoðunum. Býsna gott yfirlit t.d. hér hjá Ragnari Þór Péturssyni. Eins og Ragnar Þór bendir á var áberandi hvað Sigmundur gat flækt sig í útúrdúra, í stað þess að svara spurningum, sem vissulega voru sumar ákveðnar og jafnvel ögrandi.

Tökum eitt dæmi. Fyrstu tvær mínúturnar fara í hófstillar og rólegar umræður um það hvort til standi að fjölga Seðlabankastjórum í þrjá, Sigmundur svara þessu ekki beint, en segir að það sé verið að vinna að endurskoðun laga um Seðlabankann og vega og meta m.a. kosti og galla það hafa einn eða þrjá bankastjóra. Svo heldur viðtalið áfram, þar sem Gísli þjarmar aðeins að Sigmundi til að reyna að fá skýrt svar við upphafsspurningunni (ca. á 1:45)

GMB: Ok. Þannig að þú sem sagt, þú neitar því ekki að þessi frétt, að, hún birtist á Eyjunni, sem stundum, eða sem sumir sjá sem svona ákveðna málpípu Framsóknarflokksins

SDG: Er þér alvara? (hlátur)

GMB: Sumir sjá það þannig, að fyrst að það birtist þar frétt að það verði þrír bankastjórar, og þá einhverjir tveir sem að þið handveljið, sem yfirfrakka á Má Guðmundsson, að, ég heyri á þér að þú ert ekki að neita þeim fréttaflutningi?

Þetta má segja að sé ansi gildishlaðin fullyrðing sem felist í spurningunni hjá Gísla. Sigmundur er búinn að ræða almennt að það séu bæði kostir og gallar við að hafa einn eða þrjá bankastjóra og það þurfi að vega og meta. Hér hefði maður búist við að Sigmundur myndi svara þessu býsna ákveðið og neita þessu, að ef á annað borð verði ráðnir tveir Seðlabankastjórar til viðbótar þá verði þeir ekki pólitískt "handvaldir".

(Tja, nema það raunverulega standi til! En jafnvel þá hefði maður búist við að Sigmundur myndi segja að þeir yrðu ráðnir algjörlega á faglegum forsendum.)

Hverju svaraði Sigmundur þessari beinskeyttu spurningu?

SDG: Nei. Talandi um fréttaflutning, ...

Stöldrum aðeins við. Þýddi svarið sem sé 'Nei, ég neita þessu ekki' ?! 

Það er eins og Sigmundur vilji forðast þetta, og fer að rausa eitthvað um Eyjuna og fréttaflutning og orðalag  í spurningu Gísla (Sumir segja) sem í sjálfu sér engu máli skipti. Svona hélt svarið áfram: 

SDGNei. Talandi um fréttaflutning, ...þá eru fréttir, jafnvel hér, farnar að byrja á á 'Sumir segja'. Þetta var alveg bannað í gamla daga, að byrja fréttir á 'sumir segja'. Og nú segir þú mér að einhver vefmiðill sé …

Og allt í einu eru spyrillinn og forsætisráðherrann að rökræða það hvort Framsóknarmaður stýri Eyjunni og hvort og hvernig fjölmiðlar lýsi skoðunum, hvað Gísla finnist um Fréttablaðið o.fl. Og aldrei fær Gísli svar við spurningunni.

Eftir sitja áhorfendur með þá tilfinningu að búið sé að ákveða að ráða tvo Seðlabankastjóra, þeir verði pólitískt "handvaldir", líkt og var fyrir ekkert svo mörgum árum, þegar menn eins og Geir Hallgrímsson, Tómas Árnason, Steingrímur Hermannsson, Finnur Ingólfsson, að ótöldum Davíð Oddssyni, voru Seðlabankastjórar. 

Sjáum til hvort það gerist. 

 

stjorar

Hverjir verða næstu Seðlabankastjórar? 


Forsætisráðherra fer með rangt mál

Forsætisráðherra segir að þeir sem hafa löng verðtryggð húsnæðislán fái þess kost að breyta þeim í óverðtryggð án þess að greiðslubyrði aukist til mikilla muna.

 Þetta kom fram í fréttum RÚV í vikunni. Ráðherrann sagði að það kæmi fram í skýrslu sérfræðinefndarinnar um afnám verðtryggingar hvernig þetta gæti gerst.

Þetta er ekki rétt hjá Sigmundi Davíð. Ég er búinn að lesa skýrsluna og spyrja fleiri. Það kemur ekki fram í skýrslunni hvernig eigi að vera hægt að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð þannig að greiðslubyrði aukist ekki "til muna".

Af hverju segir Forsætisráðherra þetta?   

Enda er erfitt að sjá hvernig þetta væri hægt. Helsti kostur verðtryggðra lána (því lánin hafa ekki bara ókosti) er sá að með þeim er greiðslubyrði þessara frekar dýru hávaxta lána lágmörkuð. 

Að ætla að taka kosti þessara lána en skilja ókostina eftir er pínu eins og að vilja halda kökunni og éta hana líka. Stundum verðum við að velja og hafna á milli ólíkra valkosta. Velja hvort við viljum eiga bíl eða vera bíllaus, eiga börn eða vera barnlaus, búa í borg eða sveit. Allir hafa svona valkostir kosti og galla. Við getum sjaldnast valið bara kostina og afneitað ókostum.   

Forsætisráðherra verður að koma með fæturna niður á jörðina. Það þýðir ekki að byggja pólitík og málflutning á draumórum og óraunhæfum væntingum, jafnvel þó svo Framsóknarflokkurinn hafi verið kosinn til valda út á einmitt slíka pólitík.

simmi 

Forsætisráðherra hættir til að spinna sig frá raunveruleikanum 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband