Færsluflokkur: Mannréttindi

Af hverju ekki?

Sat og fletti Viðskiptablaðinu. Leiðarahöfundur blaðsins telur að birting álagningarskrár sé með öllu óréttlætanleg og að henni skuli hætta strax. "Þetta ógeðfellda skipulag grefur líka undan sátt í samfélaginu", segir ritstjórinn. Nokkrum línum neðar segir hann þó að það sé sjálfsagt að birta upplýsingar um tekjur og eignir athafnamanna. En blaðið telur óþarft að birta þessar tölur fyrir "venjulegt fólk". Hver skuli flokka fólk í áhugavert "athafnafólk" og "venjulegt" fólk er ekki sagt.

Hvenær urðu tekjur og skattar svona mikið feimnismál?  Ég held að í gamla daga hafi þetta alls ekki verið svona. Enda má auðveldlega áætla a.m.k. gróflega tekjur hefðbundinna launastétta, t.d. bænda útfrá fjölda skepna sem þeir halda, sjómanna út frá aflatölum o.s.fr. 

Það má minna ritstjóra Viðskiptablaðsins á að venjulegt fólk hefur litlu að leyna þegar kemur að tekjum og sköttum. Venjulegt fólk (sem fæst les Viðskiptablaðið) fær laun samkvæmt kjarasamningum og þeim getur hver sem er flett upp á netinu. Hugtakið "launaleynd" (sem þekktist varla fyrr en fyrir ca. 25 árum) gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum aðgengilegir.

Ég skal fúslega gangast við því að ég hef flett aðeins í víðfrægu Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Mér finnst forvitnilegt að fylgjast með launaþróun vel launaðra og áhugavert að sjá t.d. hvað fyrirtæki sem ýmist urðu nýverið gjaldþrota, eru í umsjá banka, eða í einhverju undarlegu eignarhaldslimbói hafa efni á að greiða rausnarleg laun - olíufélög, fjölmiðlar, tryggingafélög, fjármálafyrirtæki, verslanakeðjur, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig gaman að sjá hvað hin ýmsu ohf. gera vel við yfirmenn.

Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir tveimur árum, endurbirti fyrir ári og rétt að gera enn aftur.

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: “Hættum að snuðra í einkamálum annarra“.

Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó “ekki nema” 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að “þetta komi okkur ekkert við“.Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborgósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekki hundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja? 

 


Þjóðkirkjan var ríkisvædd á 20. öld

Enn og aftur sprettur upp umræða um hvort aðskilja skuli ríki og kirkju, nú í tengslum við stjórnlagaráð. Og eins og vanalega svara margir kirkjunnar þjónar að slíkt sé í raun formsatriði, þar sem kirkjan sé þegar sjálfstæð stofnun, óháð ríkisvaldinu. Sumir þeirra virðast taka undir aðskilnað, eins og séra Örn Bárður Jónsson, stjórnlagaráðsfulltrúi. Hann segir að þar sem kirkjan sé ekki háð ríkisstyrkjum ætti hún að vera sjálfstæð og óháð ríkisvaldinu með öllu. Örn Bárður virðist styðja að taka megi út ákvæði í stjórnaskrá um Þjóðkirkjuna, þar sem hún þurfi ekki "stjórnarskrárvernd" (hvað sem það nú þýðir...)

Frétt visir.is frá 8.7. sl. hefur eftir Erni Bárði að ríki og kirkja hafi gert með sér samning árið 1997 sem í raun hafi aðskilið ríki og kirkju. „Sá samningur aðskildi í raun og veru ríki og kirkju. Hann er mjög áþekkur, er mér sagt, þeim samningi sem gerður var í Svíþjóð árið 2000 og Svíar kalla aðskilnað ríkis og kirkju,“

Hjalti Hugason prófessor skrifar grein 14.7. sl. þar sem hann tekur ekki undir að kirkjan sé þegar í raun aðskilin frá ríkinu. Hjalti segir þó að:

... frá 1998 má segja að þessar tvær stofnanir séu að fullu aðgreindar stofnunarlega séð. Þjóðkirkjan er nú skilgreind sem sjálfstætt trúfélag og persóna að lögum með sjálfstæða eignhelgi. Þá hefur fjárhagsleg aðgreining ríkis og kirkju einnig átt sér stað miðað við það sem var ungann úr 20. öldinni. Sú aðgreining varð með samningi um afsal fornra kirkjueigna í hendur ríkisvaldsins gegn því að það standi skil á launagreiðslum tiltekins fjölda kirkjulegra starfsmanna að teknu tilliti til fjölda þeirra sem í þjóðkirkjunni eru. Þetta þýðir ekki að aðskilnaður hafi orðið. Til þess að svo verði þarf ekki aðeins að fella niður 62. gr. stjórnarskrárinnar heldur og að nema úr gildi sérstök lög um þjóðkirkjuna og fella hugtakið þjóðkirkja almennt úr lögum.

 

Það er ósköp lítill blæbrigðamunur á skoðun Arnar Bárðar og Hjalta. Báðir telja þeir hálfgert formsatriði að aðskilja að fullu Þjóðkirkju frá ríki og minnast báðir á fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar, og samning kirkjunnar og ríkisins frá 1997 sem tryggði þetta sjálfstæði. Þennan samning segir Örn Bárður að „sé samningur tveggja lögaðila sem hvorugur geti sagt upp einhliða.“ Sem sagt, samkvæmt Erni Bárði getur ríkið ekki sagt þessum samningi upp, nema með samþykki kirkjunnar, hún hafi þannig tryggt sitt „fjárhagslega sjálfstæði“ um aldur og ævi!

Það er rétt að rýna betur í þennan merka samning. Hvert var andlag hans? Jú, eins og fram kemur að ofan voru kirkjujarðir færðar til eignar ríkisins, gegn því að ríkið skyldi standa straum af launakostnaði presta. Hversu mikil upphæð er það, sem ríkið greiðir samkvæmt þessum samningi á ári hverju? Samkvæmt fjárlögum eru það alls um 1.278 milljónir* (1,278 milljarður) sem renna úr ríkissjóði til Þjóðkirkjunnar (*sóknargjöld ekki meðtalin).

Kirkjujarðirnar sem runnu til ríkisins hljóta að vera mikils virði, til að standa undir árlegri arðgreiðslu upp á meira en milljarð. Hversu mikils voru þær metnar, árið 1997 þegar samningurinn var gerður?

Það var ekki skoðað.

Ótrúlegt? Svona var það nú samt. Þrír þingmenn, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Ögmundur Jónasson, lögðu fram breytingatillögu þess efnis að þingið skyldi binda þenna samning til 15 ára, meðal annars til að nota mætti þann tíma til að verðmeta þær eignir sem um var að ræða. En meirihluti þingmanna vildi ekki gera það.

Meira HÉR


Ég styð Krossinn!

Ég styð trúarsöfnuðinn Krossinn, sem til skamms tíma var leiddur af karismatíska trúarleiðtoganum Gunnari Þorsteinssyni. Krossinn aðhyllist ítarlega trúarjátningu, sóknarbörnin eiga samkvæmt henni á að trúa á endurkomu Krists, þúsund ára ríkið, og svo heppilega vill til fyrir fjárhag safnaðarins að það er partur af trúarjátningunni að trúa því að tíund sé "áætlun Guðs til að mæta efnislegum þörfum safnaðarins."

Ég styð fleiri sértrúarsöfnuði, svo sem söfnuðinn "Catch the Fire", skammstafað CTF. ...

 

Framhald HÉR.


Upplýst lýðræði?

Hvernig væri, í komandi þjóðaratkvæðagreiðslum um svona flókin mál, að á kjöseðlinum væri höfð með ein eða fleiri einfaldar spurningar, til að kanna hvort kjósandinn skilji málið sem um er kosið.

Ein spurning á kjörseðlinum í gær hefði geta verið:

Veist þú hvernig Íslendingar tryggðu íslenskar innstæður 100% þegar Landsbankinn féll?

a)  Þær voru tryggðar af því Geir Haarde sagði það.

b) Þær voru ekki tryggðar, það stendur ekki í Neyðarlögunum.

c) Þær voru tryggðar með skattpeningum úr ríkssjóði.

d) Þær voru tryggðar með því að færa peningalegar eignir út úr þrotabúi gamla Landsbankans yfir í nýja Landsbankann.

Aðeins þeir kjörseðlar sem gæfu rétt svar væru teknir gildir. Þá held ég að niðurstaðan hefði orðið önnur. Ég er þess fullviss að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu Nei í gær hafi ekki skilið ýmis grundvallaratriði málsins.

 

PS  Rétt svar er (d), innistæður Íslendinga voru tryggðar, með því að eignir voru teknar úr þrotabúinu til að dekka innistæðurnar. Sem þýðir að það er minna til skiptanna fyrir aðra kröfuhafa, svo sem Icesave innistæðueigendur. 

Óli og Dabbi

Til hamingju með sigurinn, Davíð Oddsson! 


mbl.is Afgerandi nei við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjafasæði og líffræðilegt faðerni

30. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 54/2008 sem heimiluðu að konur sem eru ekki í sambúð með karli, þ.e. annaðhvort einhleypar eða í sambúð með annarri konu, geta farið í tæknisæðingu eða tæknifrjóvgun, með gjafakynfrumum. Lögin voru breyting á eldri lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun.

Nýju lögin gera það að verkum að tæknifrjóvganir eru nú mun algengari en áður, þegar slík aðstoð var aðeins veitt hefðbundnum pörum, karli og konu, vegna líffræðilegra erfiðleika við að geta barn. Í viðtali frá 2009 kom fram að þá leitaði á annan tug einhleypra kvenna eftir tæknisæðingu í hverjum mánuði, eða 140-200 konur á ársgrundvelli.

Svo virðist vera sem einhleypar konur séu miklu fleiri í hópi þeirra sem nota þjónustuna, heldur en konur í lesbískum samböndum. Sem er athyglisvert. (Ég ræddi þetta stuttlega í pistli frá 2009.)

Þegar kona fer í tæknisæðingu með gjafasæði getur hún valið annað hvort sæði gefið með fullri nafnleynd, eða sæði frá gjafa sem hefur veitt heimild til að barn getið með sæðinu megi, eftir vissan aldur, fá upplýsingar um faðerni sitt. Það er víst meira framboð á nafnlausu sæði, menn virðast tilbúnari að "gefa af sér" með þessum hætti, ef engin hætta fylgir að barn komi og leiti manns eftir 18 ár.

Nú myndu örugglega flestir taka undir að jákvætt sé fyrir sérhvern einstakling að vita um uppruna sinn. Þekkt er að ættleidd börn vilji seinna á lífsleiðinni fá vitneskju um blóðforeldra sína, og erfðafræðilega forfeður. Myndu þá ekki flestir sæðisþegar velja þann kost að barnið eigi þann möguleika, eftir 18 ára aldur, að fá vitneskju um sæðisgjafann, líffræðilegan föður sinn?

Nú veit ég ekki hvernig skiptingin er hér á landi, en vegna þess að framboðið er meira af nafnlausa sæðinu er rekjanlega sæðið einfaldlega dýrara. Rekjanlegur skammtur kostar 50.000 kr en órekjanlegt 38.500 kr. Ofan á þetta bætist kostnaður við uppsetningu og frjósemislyf og hafa ber í huga að svona meðferð þarf oftar en ekki að endurtaka 2-4 sinnum, áður en getnaður tekst. Verðið fyrir líffræðilegt faðerni barns sem getið er með gjafasæði er þannig 12.500 kr,

MEIRA HÉR


Gleði og von í Egyptalandi

Það er ekki annað hægt en að hrífast með fagnaðarlátum og taumlausri gleði Egypta, sem braust út föstudagskvöld og stóð fram eftir nóttu, eftir að leiðtogi landsins hrökklaðist frá völdum, hrakinn frá með friðsamlegum mótmælum. Auðvitað er langur vegur til lýðræðis og langt í frá ljóst hvað gerist í landinu næstu daga, vikur og misseri. Lýðræði er er verkefni sem er aldrei lokið. Hvað svo sem gerist nú er tvennt sem stendur upp úr: Almenningur í Egyptalandi og nágrannalöndum hafa öðlast von, eftir áratuga ófrelsi og stöðnun. Í öðru lagi hafa vonandi augu margra Vesturlandabúa opnast fyrir því að fólk í þessum heimshluta hefur sömu væntingar og þrár og annars staðar, að lifa án ógnar og kúgunar og sjá samfélag sitt þróast og blómstra, hlakka til framtíðarinnar.

Meira HÉR


Hvenær var það ljóst?

Atriði sem snúa að leynd kosninga komust þó lítið í umræðuna

En hefðu þessi atriði ekki átt að komast í umræðuna strax að loknum kosningum?

Forvitnilegt væri að vita hversu margar fréttir Morgunblaðið skrifaði um þessa ágalla sem sneru að leynd kosninganna, fyrir miðvikudaginn 26. janúar. Hversu mörg lesendabréf bárust blaðinu um þetta?

Kusu ekki fjömargir blaðamenn Moggans í kosningunum? Og dyggir lesendur blaðsins?  Ef "kosningaleynd var ekki tryggð" í reynd, hefði það ekki átt að vekja grunsemdir kjósenda og kalla á fjölmargar athugasemdir og umkvartanir?



mbl.is Fyrirkomulagið var ekki lýðum ljóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Deilt um hvað skyldi kalla trúboð"

Það er vissulega deilt um það, hvað skuli kalla trúboð. Ég og fleiri köllum það trúboð þegar prestar heimsækja leikskóla mánaðarlega og segja frá Jesú og kenna börnum að syngja sálma og biðja bænir. Man eftir baksíðumynd aftan á Mogga fyrir fáeinum misserum þar sem 3-5 ára leikskólabörn sátu með spenntar greipar og lokuð augu og báðu ákaft. Í opinberum leikskóla. Það er líka trúboð þegar félagasamtök fá að koma í tíma og dreifa biblíum, eða þegar allir skólabekkir fara í jólamessu á skólatíma, nema foreldrar sæki sérstaklega um leyfi.

Samt hef ég ekki séð einn einasta prest viðurkenna að trúboð sé stundað í leik- og grunnskólum.

Bloggpresturinn Þórhallur Heimsson sagði meðal annars þetta um málið:

Þetta er nú orðið dulítið þreytandi þegar endurtaka þarf allt 100 sinnum.

Trúboð er ekki stundað í skólum Valgerður.

Enginn vill trúboð í skólum.

Ég spurði hann kurteislega hvort hann undanskyldi leikskóla, eða hvort formaður Reykjavíkurdeildar Félags leikskólakennara færi með staðlausa stafi þegar hún sagði í viðtali "þetta er náttúrulega trúboð. Það er ekki hægt að kalla þetta annað".Ég ítrekaði líka spurningu til Þórhalls sem hann hafði ekki gefið sér tíma til að svara, hvort honum finndist að ég mætti predika mínar skoðanir um trúmál í leikskóla barna hans.

En séra Þórhallur heimilaði ekki birtingu athugasemdarinnar. 

 

 


mbl.is Áfram samstarf kirkju og skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing

Ég á þó nokkra trúrækna vini og kunningja, fólk sem starfar í kirkjum, sem organistar, í kirkjukór, í sóknarnefndum og æskulýðsstarfi. Ég kynntist líka í námi mínu í Bandaríkjunum góðum vinum og vinnufélögum sem sóttu kirkju flesta sunnudaga. Ég ber virðingu fyrir trúarlegum gildum alls þessa góða fólks. Trúarleg viðhorf og gildi getur verið erfitt að skýra eða skilgreina, en þau geta skipt okkur miklu máli. Þau eru persónuleg, eitthvað sem við eigum ekkert að þurfa að flíka, frekar en við kjósum.

Þú verður að passa að stuða ekki fólk með þessu trúartali“, sagði trúnaðarvinur við mig. Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki gert það, með pistlum hér, eða kommentum og gagnrýni á Þjóðkirkju og þjóna hennar annars staðar. Það er mér ekkert gamanmál að opinbera mig með þessum hætti, mínar skoðanir og lífsviðhorf um viðkvæm mál. En í mínum huga snýst umræðan um virðingu. Ég fer einungis fram á að mínum grundvallarlífsviðhorfum sé sýnd sama virðing og ég sýni slíkum viðhorfum annarra. “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” sagði vitur og góður maður.

Meira HÉR


Á meirihlutinn alltaf að ráða?

Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa í Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum “norm” á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.

Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.

Meira HÉR


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband