'La Familia'

Rakst á pistil á pólitíska vefritinu amx.is, sem af einskærri hógværð titlar sig sem "fremsta fréttaskýringavef landsins". Pistillinn er bitur ásökun á Benedikt Jóhannesson fyrir að hafa spillt fyrir flokki sínum og náfrænda, Bjarna Benediktssyni, með Morgunsblaðsgrein sinni skömmu fyrir kosningar um bráða nauðsyn þess fyrir Ísland að ganga í ESB, og þátttöku í herferðinni sammala.is.

I pistlinum segir:

Margir sjálfstæðismenn eru reiðir og sárir út í félaga sína sem tóku þátt í auglýsingaherferð sammala.is, þar sem aðild að Evrópusambandinu var boðuð. Telja þeir að með þessu hafi verið unnið gegn hagsmunum Sjálfstæðisflokknum [sic] í aðdraganda kosninga.

Smáfuglarnir hvísla um að í þessu efni hafi hið fornkveðja sannast að frændur séu frændum verstir. Benedikt Jóhannesson, frændi Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, fór fremstur í flokki þeirra sem boðuðu aðild að Evrópusambandinu. Hann ritaði langa grein í Morgunblaðið nokkrum dögum fyrir kosningar og þar var því haldið fram að annað hrun blasi við landinu ef ekki verði gengið til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Síðan sat hann fyrir í auglýsingum sammala.is þar sem aðild var boðuð. Þeir smáfuglar sem stutt hafa Sjálfstæðisflokkinn, telja að með þessu hafi Benedikt komið í bakið á frænda sínum á viðkvæmum tíma. Hið sama á við um Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann flokksins, sem einnig tók þátt í auglýsingaherferð sammala.is.

Margir sjálfstæðismenn hugsa þeim Benedikt og Þorsteini þegjandi þörfina og þá ekki síst þeir sjálfstæðismenn sem hafa verið hallir undir aðild að Evrópusambandinu. Tala þeir um pólitísk skemmdarverk Benedikts og Þorsteins.

Hvað eru þessir smá-ránfuglar að hvísla? Benedikt var kominn á þá skoðun að það væri beinlínis stórhættulegt fyrir þjóðina að leita ekki til Evrópusambandsins um aðstoð og inngöngu. Flokkurinn hafði fjarlægst ESB á landsfundi og kokkað upp ótrúverðuga og að margra mati algjörlega óraunhæfa kosningabrelluhugmynd um einhliða upptöku Evru.

Átti hann að þegja þunnu hljóði, til að skaða ekki flokkinn?!

Ég tek ofan af fyrir Benedikt, fyrir að koma fram - einmitt í aðdraganda kosninga þegar orð hafa áhrif og menn hlusta - og segja sína skoðun umbúðalaust. Greinilegt er að þar fer maður sem hugsar sjálfstætt og tekur þjóðarhagsmuni framar flokkshagsmunum.

Ég trúi og treysti því - þar til annað sannast - að flokksformaðurinn nýji virði rétt frænda síns til sjálfstæðra skoðana, og að félagar í þessum gamla flokki láti af þeim ljóta sið að hugsa mönnum þegjandi þörfina sem ganga ekki í takt og svíkja "fjölskylduna". Formaðurinn er ekki Guðföðurinn og fjölskyldan er ekki framar öllu öðru - ekki lengur, vonandi.

Guðföðurinn

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband